Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Undirferli Ögmundar og Jóns Bjarna gegn eigin ríkisstjórn

Mbl.is er að velta því fyrir sér með Einari Mar Þórðarsyni, stjórnmálafræðingi, hvort VG muni klofna í tvo flokka EF Steingrímur J. tæki upp á því að draga sig í hlé og hætta þátttöku í stjórnmálum.  Eins og við var að búast frá stjórnmálafræðingi voru svörin í ýmsar áttir og niðurstaðan engin, enda forðast slíkir að láta nokkuð frá sér fara, sem ekki væri auðvelt að snúa sér útúr síðar, þegar í ljós kemur að umsögnin var hvort sem er þannig að hún gaf vísbendingar í allar áttir.

Eina spurningin um klofning VG er hvenær flokkurinn klofnar formlega, en engin spurning er um að flokkur ER klofinn og skiptist í tvær algerlega andstæðar fylkingar, sem varla eru sammála um nokkurn skapaðan hlut og það eina sem heldur flokknum saman, er von beggja fylkinga til að ná undirtökunum og fullri stjórn á honum.  Þetta er einfaldlega valdabarátta tveggja fylkinga, sem eru svolítið mismunandi skattabrjálaðar, en að öðru leyti er ekki um mikinn stjórnmálalegan ágreining að ræða, heldur snýst þetta mestmegnis um persónulegt framapot.

Sexmenningarnir, Ögmundur, Atli, Ásmundur, Lilja, Jón og Guðfríður Lilja, funduðu sameiginlega og skipulögðu hjásetu Atla, Ásmundar og Lilju við afgreiðslu fjárlaganna og mun það aldrei hafa gerst fyrr að þingmenn stjórnarliðsins hafi ekki tekið þátt í slíkri atkvæðagreiðslu og ekkert annað en hrein undirferli og svik við samstarfsmenn, að ráðherrar skuli taka þátt í skipulagningu á slíku undirferli gegn eigin ríkisstjórn og fjármálaráðherra úr eigin flokki.

Það þarf ekkert að velta því fyrir sér að VG er flokkur sem er klofinn í herðar niður.  Spurningin er frekar um það, hvenær formlegt uppgjör muni eiga sér stað milli flokksbrotanna.


mbl.is VG gæti klofnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðgun eða ekki, þar liggur efinn

Í fréttinni á mb.l.is "Konurnar sem ásaka Assange" er sagt frá nokkuð skrýtnum ásökunum tveggja sænskra kvenna á hendur Julian Assange, stofnanda Wikileaks, um nauðganir hans gegn sér og segir í fréttinni  frá því sem fram kemur í sænskum blöðum vegna ákæranna og þar má sjá þetta m.a:  "Fröken A og Assange höfðu margoft kynmök í eins herbergis íbúð hennar í Stokkhólmi, samkvæmt sænskum götublöðum sem greindu frá smáatriðum sem voru yfirstrikuð í afritum af vitnisburði sem fröken A gaf lögreglunni.Fulltrúar sænska saksóknarans sögðu við yfirheyrslu breska dómstólsins að „ólögleg þvingun“ hafi farið fram 14. ágúst því þá hafi Assange haldið fröken A fastri á kynferðislegan hátt.Tilvik sem varð 18. ágúst er flokkað sem „kynferðisleg áreitni“ því þá hafði Assange kynmök við fröken A án þess að nota verju, þrátt fyrir „skýran vilja hennar“ um að verja væri notuð. Breski rétturinn fékk líka að heyra að Assange hafi „viljandi áreitt“ fröken A sama kvöld sem braut gegn henni kynferðislega.Þrátt fyrir þetta dvaldi Assange áfram í íbúð frökenar A til 20. ágúst og fylgdi henni í samkvæmi 15. ágúst."

Lýsingin á nauðgun hinnar konunnar er ekki eins skrautleg, enda um eitt tilvik að ræða, sem lýst er svona:  "Ásökunin um nauðgun er rakin til atviks sem varð síðar þetta kvöld í heimili frökenar W. Hún sagði breska réttinum að Assange hafi haft kynmök við hana þegar hún var sofandi og notaði hann ekki verju.Þau borðuðu saman morgunmat morguninn eftir og „í tilraun til að af-dramatísera það sem gerðist“ gerði hún „kaldhæðnar athugasemdir“. Hún fylgdi honum síðan á brautarstöðina og hann lofaði að hringja til hennar."

Í báðum tilvikum virðist vera um að ræða konur með að minnsta kosti meðalgreind og því vekur það nokkra furðu, að þær skuli ekki einu sinni sjálfar hafa uppgötvað að um nauðgun hafi verið að ræða, heldur hafi lögreglukona þurft að benda þeim á það og kæra þessar "nauðganir" til dómstóla fyrir þær, en samkvæmt fréttinni fóru þær til lögreglunnar vegna ótta við að hafa smitast af Alnæmi.  Í flestum tilfellum leitar þó fólk til heilbrigðisstofnana til að fá úrskurð um sjúkdómasmit, en í Svíþjóð virðist það vera hlutverk rannsóknarlögreglu sænska ríkisins að upplýsa um slíkt.

Ef hægt er að dæma karlmenn fyrir nauðgun á forsendum svipuðum þeim sem hér koma fram, geta konur hér eftir kært karlpeninginn vegna nauðgunuar fyrir hvað sem er og hægt er að tengja kynlífi, eða "kynferislegri áreitni", jafnvel bara óánægju með að ekki hafi allt farið fram eins og þær "hefðu viljað eða verið vanar".

Ef til vill kemur fljótlega fram kæra um nauðgun, vegna þess að karlmaður hafi átt kynmök við konu án þess að fullnægja henni og þar með hafi samfarirnar verið niðurlægjandi fyrir hana og eingöngu til þess fallnar að karlinn "næði sínu fram".

"Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?" spurði Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni.  Svipaðar spurningar gætu farið að vakna um fleiri mannanna gerðir. 


Ofmetin Lilja ofmetnast

Lilja Mósesdóttir hefur undanfarna mánuði stundað vinsældapólitík og þóst vilja og geta gert allt fyrir alla og verið óþreytandi við að prédika skilningsleysi flestra annarra stjórnmálamanna á kraftaverkalausnum sínum í efnahagsmálum, en þær ganga flestar út á að hækka skatta ennþá meira en þegar hefur verið gert, finna nýja skattstofna og breikka aðra.

Lilja hefur einnig tekið upp tillögu Sjálfstæðismanna um að skattleggja inngreiðslurnar í séreignarlífeyrissjóðina, en munurinn er þó sá að Sjálfstæðismenn ætluðu að lækka tekjuskatta einstaklinga í staðinn, en Lilja vill bæta þessari skattheimtu ofan á allt annað skattahækkunarbrjálæði og draga til baka nánast allan niðurskurð og sparnað í ríkiskerfinu, en hún telur að eyðsluaukning í ríkisrekstrinum sé upplögð leið til að efla hagvöxt og uppgang í þjóðfélaginu.

Þessar hagfræðikenningar Lilju hafa gengið ótrúlega vel ofan í nokkuð stóran hóp fólks, sem keppist við að dásama hana og segja hana vera sannan kraftaverkapólitíkus og að hún ætti með réttu að vera formaður VG og fái hún ekki þann tiltil eigi hún að ganga í Hreyfinguna, sem síðan eigi að koma sér í ríkisstjórn og gera Lilju að forsætisráðherra.

Af öllu þessu ofmati hefur Lilja ofmetnast og er farin að trúa því sjálf, að hún sé sá Messias sem þjóðin þurfi til að koma sér út úr kreppunni og inn í bjarta og glæsilega skattaparadís draumalandsins.

Lýðskrumarar og falsspámenn hafa ekki enst mjög vel í pólitík fram að þessu og ótrúlegt að mikil breyting verði þar á í náinni framtíð. 


mbl.is Segist styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein staðfesting á Icesavelyginni

Steingrímur J. og Jóhanna Sigurðardóttir hafa farið fremst í flokki þeirra ráðherra og annarra, sem statt og stöðugt hafa haldið því fram, að Ísland nánast legðist í eyði ef ekki verður gengið að fjárkúgun Breta, Hollendinga og ESB vegna Icesave og að ekkert erlent fjármálafyrirtæki myndi nokkurn tíma framar lána eina einustu krónu til íslenskra fyrirtækja og opinberra aðila.

Þessari dómsdagsspá og þvælu hefur marg oft verið mótmælt á þessu bloggi og því haldið fram, að sjái fjárfestar og fjármálastofnanir vænleg tækifæri hér á landi, sem sýnist vera arðvænleg, þá muni ekki standa á þeim með stofnfé og lánsfjármagn til slíkra framkvæmda hérlendis, alveg eins og í öðrum löndum.

Þessu til sönnunar hafa Marel, Össur og Landsvirkjun nýlega gengið frá stórum lánasamningum erlendis og í dag birtast þær frábæru fréttir að búið sé að skrifa undir samninga milli Mosfessbæjar og Prima Care ehf. vegna lóðar fyrir einkasjúkrahús, sem fyrirtækið mun reisa og reka þar í bæ.  Verulega munar um slíkt fyrirtæki, eða eins og kemur fram í fréttinni:  "Verkefnið mun skapa 600-1000 ný störf auk 250-300 starfa á byggingartíma og er talið að það muni kosta um 150 milljónir Bandaríkjadala, sem nemur um 17 milljörðum íslenskra króna."

Bak við uppbyggingu sjúkrahússins standa íslenskir, bandarískir og evrópskir aðilar og svissneskt fjármálafyrirtæki mun taka að sér að útvega fjármagnið til framkvæmdanna.  Nákvæmlega það sama mun gilda um hvert það arðvænlega verkefni, sem hér mun verða ráðist í og það eina sem tefur uppbyggingu gjaldeyrisskapandi framleiðslufyrirtækja er andstaða ríkisstjórnarinnar við erlenda fjárfestingu í landinu og er töfin á uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Suðurnesjum og gagnavera vítt og breitt um landið sönnun þeirrar niðurdrepsstefnu stjórnvalda.

Icesave III verður að hrinda af höndum þjóðarinnar með jafn afgerandi hætti og Icesave I og II og einbeita svo kröftunum að aukinni verðmætasköpun í landinu með áherslu á gjaldeyrisskapandi og -sparandi fyrirtæki.


mbl.is Samið um lóð fyrir einkasjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gjöf" sem þjóðin mun sameinast um að hafna

Gömul speki segir að æ sé gjöf til gjalda og sú "góða gjöf" sem Steingrímur J. er að vonast til að þing og þjóð færi honum og ríkisstjórninni vegna Icesave, mun verða þjóðinni dýrkeypt og það svo, að íslenskir skattgreiðendur munu þurfa að þræla fyrir erlenda húsbændur Steingríms næstu áratugina til að greiða fyrir "gjöfina góðu".

Hins vegar er allt önnur hlið á þessu máli heldur en kostnaðurinn við "gjöfina" en það er fordæmið sem svona "gjöf" skapar, en aðaltilgangur Evrópuhrottanna sem sent hafa þessa fjárkúgunarkröfu á íslenska skattgreiðendur er ekki fyrst og fremst fjárhagslegur, heldur er aðalatriðið að þvinga fram ríkisábyrgð á tryggingasjóði innistæðueigenda, þrátt fyrir að regluverk ESB geri ekki ráð fyrir slíku.

Mogginn birtir í dag stórfróðlegt og merkilegt viðtal við Martins Wolfs, aðstoðarritstjóra Financial Times, en hann er virtur um allan heim vegna umfjöllunar sinnar um fjármál þjóðríkja undanfarna áratugi, en viðtalið má sjá HÉRNA

Í viðtalinu kemur m.a. þetta fram:

"- "Þú minntist á að þetta skapi hættulegt fordæmi. Hvers vegna?"

Það gæti þýtt að í tilviki annarra svipaðra gjaldþrota í framtíðinni verði skattgreiðendur annarra fullvalda ríkja gerðir ábyrgir fyrir því að borga út sparifjáreigendur hjá stofnunum sem starfa erlendis, mögulega í mjög miklu mæli og það gæti átt við breska ríkið og önnur ríki.  Sú regla að ríkisstjórnir skuli ganga í ábyrgð fyrir skuldir fjármálastofnana sem starfa erlendis virðist mér ótrúlega hættuleg og óheppileg fyrir fjármálakerfið. Það er fordæmið sem ég hef áhyggjur af. Mín skoðun er þessi: Innistæðutryggingasjóði var komið á og hann ætti að vera nægilegur og með fullnægjandi fjármögnun. Ef hann bregst tapa sparifjáreigendur og þeir verða þá að sætta sig við það.""

Það er einmitt þetta atriði sem marg oft hefur verið bent á hérna á þessu bloggi.  Upphæðin sem verið er að reyna að pína íslenska skattgreiðendur skiptir ekki máli, heldur fordæmið sem er verið að gefa með þessari auðvirðilegu uppgjöf fyrir þessum Evrópuribböldum, sem hér ætla að vaða yfir smáþjóð til að setja fordæmi fyrir því að hægt verði að hneppa skattgreiðendur annarra landa í sambærilega þrælavist til greiðslu á glæparekstri bankastofnana álfunnar í framtíðinni.

Besta jólagjöfin, sem þjóðin og þingið getur gefið sjálfum sér, er að alger einhugur og samstaða verði um að hrinda þessari fjárkúgun með jafn eftirminnilegum hætti og gert var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars s.l.


mbl.is Góð gjöf að sameinast um málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsdæmi í þingsögunni

Bæði fróðustu og elstu menn muna ekki aðra eins niðurlægingu nokkurs fjármálaráðherra og ríkisstjórnar á Íslandi, eins og gerðist á Alþingi í morgun þegar þrír þingmenn flokks fjármálaráðherrans sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga, ásamt öðrum stjórnarandstæðingum á þingi.

Hefði ríkisstjórnin ekki verið svo "heppin" að Þráinn Bertelsson gekk til liðs við hana fyrir nokkrum mánuðum, þá hefði fjárlagafrumvarpið væntanlega verið afgreitt og samþykkt af minnihluta þingmanna, að því gefnu að allir hinir hefðu setið hjá, eins og raunin varð í dag.  Það er hins vegar lítið annað en sýndarmennska að sitja hjá við svona afgreiðslu, því annað hvort hljóta menn að vera með eða á móti málunum og eiga að taka afstöðu samkvæmt því. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, benti á þá athyglisverðu staðreynd að ekki er gert ráð fyrir einni krónu vegna Icesave í fjárlagafrumvarpinu, þó sami fjármálaráðherra hafi lagt fram frumvarp í gærkvöldi sem gerir ráð fyrir því að greiddir verði 26 milljarðar króna úr ríkisstjóði vegna þrælaskattsins til Breta og Hollendinga. 

Fjármálaráðherra hefur ekki gert grein fyrir þessum mismunandi lagafrumvörpum sínum á sama deginum, þ.e. öðru sem gerir ráð fyrir 26 milljarða þrælaskatti og svo hinu, sem gerir ekki ráð fyrir honum.

Vafalaust stafar þetta af því að Steingrímur J. veit innst inni að Icesave-fjárkúgunin á hendur íslenskum skattgreiðendum verður aldrei samþykkt. 


mbl.is Fjárlagafrumvarpið samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnubótavinna með svikum og bellibrögðum

Samgönguráðherra boðar vegaframkvæmdir fyrir sex milljarða króna á næstu fjórum árum, sem fjármagnaðar verða með veggjöldum og segir ráðherrann að vegtollarnir séu alger grunnforsenda þess að ráðist verði í framkvæmdirnar, án gjaldanna verði ekkert unnið í vegagerð í nágrenni Reykjavíkur.

Svo langt gengur þetta skattabrjálæði, að áætlað er að íbúar eins af hverfum Reykjavíkur verði skattlagðir um leið og þeir fara út úr hverfinu til að sækja skóla, vinnu eða þjónustu borgarinnar, en lítið er um þjónustuútibú borgarstofnana á Kjalarnesi og meira að segja þarf að sækja nánast alla verslun út fyrir hverfið og því mun þessi skattur verða nokkurs konar ábót á aðra matarskatta fyrir þá sem þarna búa.

Skattleggja á hvern einasta kílómetra á öllum vegum í nágrenni Reykjavíkur um sjö krónur á kílómetra með þeirri röksemd að ekki sé óeðlilegt að þeir sem noti vegina greiði sérstaklega fyrir þá notkun.  Það er í sjálfu sér ekki órökrétt, nema ef ekki væri fyrir þá staðreynd að bifreiðaeigendur leggja fé í vegaframkvæmdir í hvert einasta skipti sem þeir setja eldsneyti á bifreiðar sínar, kaupa dekk undir þær og greiða bifreiðagjöldin, því stór hluti þeirrar skattheimtu allrar á að ganga til nýbygginga vega og viðhalds þeirra.

Með því að "stela" þeim peningum  sem innheimtir eru til vegagerðar með venjulegri skattheimtu í þeim tilgangi og ætla síðan að leggja á nýja vegaskatta er vægast sagt ósvífin aðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar og er þó ekki úr háum söðli að detta í þeim efnum hjá þessari ömurlegu ríkisstjórn.

Ögmundur segir að ekkert verði af framkvæmdunum, nema með nýrri skattheimtu.  Landsmenn hljóta að afþakka þessa atvinnubótavinnu, sem fyrirhugað er að fjármagna með tvöfaldri skattheimtu.

Ráðherrum á ekki að líðast að þykjast vera að gera sérstakt átak í atvinnu- og vegamálum með svona svikum og bellibrögðum. 


mbl.is Veggjöld milli hverfa í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður unnið hratt og vel, enda Árni Páll víðsfjarri

Á blaðamannafundi í dag kynnti Árni Páll, efnahags- og viðskiptaráðherra, ásamt fulltrúum bankanna og Samtaka atvinnulífsins, samkomulag um skuldaafskriftir bankanna vegna lítilla og meðalstórra fyrirtækja og sagði m.a. að þetta væri brýnasta efnahagsverkefnið á næstu mánuðum. Munu þessar skuldaniðurfellingar ná til á milli 5.000 og 7.000 fyrirækja.

Einstaka sinnum ratast kjöftugum satt orð á munn og það henti Árna Pál þarna, en allar framkvæmdir og aðgerðir sem Árni hefur boðað fram að þessu, hafa átt að koma til framkvæmda "eftir helgi", þegar hugmyndirnar hefðu "verið útfærðar", en svo hefur hver vikan liðið af annarri án þess að útfærðu hugmyndirnar hafi tíma komið fram í dagsljósið. 

Að þessu sinni snýr framkvæmd aðgerðanna ekkert að Árna Páli, eða ríkisstjórninni yfirleitt, enda verður þeim ýtt úr vör fljótlega og stefnt að því að þeim verði lokið fyrir vorið.  Bráðnauðsynlegt er að flýta skuldaafskriftum fyrirtækjanna, smárra, meðalstórra og stórra, ef nokkur von á að vera til þess að innlend fyrirtæki fari að fjárfesta á ný og skapa verðmæti, þannig að mannaráðningar fari að komast í gang, en það er alger forsenda þess að efnahagslífið taki við sér og ráðstöfunartekjur almennings aukist.

Mikið er búið að ræða um nauðsyn þessara skuldaafskrifta á fyrirtækin, en um leið og skriður kemst á málið má búast við miklum bollaleggingum í fjölmiðlum og á netinu um framkvæmdina og söngurinn um að það sé glæpur að fella niður skuldir af fyrirtækjum þegar aldrei sé nóg gert af slíku fyrir almenning.

Nú þýðir ekkert að láta þann söng tefja lengur fyrir endurreisn fyrirtækjanna og þar með von almennings um bættan efnahag og möguleika til að standa við skuldbindingar sínar, ásamt því að framfleyta fjölskyldunum og gefa þeim möguleika á að veita sér einhvern óþarfa til viðbótar. 

 


mbl.is Brýnasta verkefnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröfuharðir þiggjendur

Mikil ásókn hefur verið í úthlutanir sjálfboðaliðasamtaka á mat og öðrum nauðsynjavörum til fólks sem ekki er í færum til að sjá sér farborða á annan hátt.  Sjálfboðaliðarnir leggja á sig ómælda vinnu og erfiði við hjálparstörf sín, en uppskera alls ekki í öllum tilfellum þakkir fyrir fórnirirnar sem þeir þurfa að færa í þágu hjálparsamtakanna.

Ekki alls fyrir löngu fékk Fjölskylduhjálpin mikla dembu yfir sig vegna þess að setja átti þá reglu að konur með börn fengju forgang í biðröðinni og síðar kom í ljós að dæmi væru um að konur fengju börn "lánuð" til að hafa með sér í röðina og reyna þannig að komast í forgang fram yfir aðra.

Í dag var óvenju mikil aðsókn að Fjölskylduhjálpinni, enda engin önnur samtök að gefa nauðsynjavörur og myndaðist því nokkuð löng biðröð "viðskiptavina" sem ekki höfðu allir vitað að í dag var einungis úthlutað til þeirra, sem skráð höfðu sig á lista fyrirfram og ekki er samkennd þiggjendanna meiri en svo, að nánast kom til átaka á staðnum og starfsmenn Fjölskylduhjálparinnar þurftu að sitja undir skömmum og svívirðingum vegna frekju og yfirgangs þeirra sem ekki höfðu skráð sig fyrirfram.

Útvarpið birti viðtal við konu, sem sagðist hafa verið búin að bíða lengi í röðinni, þegar hún hafi fengið nóg af svo slakri "þjónustu" og því hafi hún farið heim tómhent, enda "léti hún ekki bjóða sér svona lagað" eins og hún orðaði það svo snyrtilega.

Fólk sækir sér ekki aðstoð hjálparsamtaka að gamni sínu, en lágmark er að það kunni lágmarkskurteisi og sýni ekki fólki sem leggur á sig ómælt erfiði í sjálfboðavinnu yfirgang og frekju. 


mbl.is „Aðrir voru ævareiðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESA sammála snilldinni við Neyðarlögin

Eftirlitsstofnun EFTA hefur nú kveðið upp úrskurð vegna kæra frá nokkrum lánadrottnum gömlu bankanna, en þeir töldu sér mismunað með Neyðarlögunum, sem sett voru í miklum flýti við hrun bankanna í október 2008.  Með Neyðarlögunum voru bankainnistæður gerðar að forgangskröfum í þrotabú bankanna og urðu þar með grundvöllur að stofnun nýrra banka á rústum þeirra gömlu.

Með setningu Neyðarlaganna á ögurstundu og að það tókst að halda opnum öllum greiðslumiðlununarkerfum kortafyrirtækjanna og tölvuaðgangi almennings og fyrirtækja að bankareikningum sínum var nánast ótrúlegt kraftaverk og forðaði algerri stöðvun og upplausn þjóðfélagsins.

Fram til þessa hefur þetta afrek ekki fengið þá athygli og viðurkenningu sem það á svo sannarlega skilið, enda hefur ríkisstjórninni sem við tók í febrúar 2009 tekist svo hörmulega upp við endurreisn atvinnulífsins og þar með í glímunni við atvinnuleysið, að öll einbeitning þjóðarinnar hefur nánast farið í að lifa frá degi til dags og glíma við það skattahækkanabrjálæði sem á henni hefur dunið og ekki sér fyrir endan á ennþá.

Í stað þess að heiðra og virða þá sem heiður eiga skilinn vegna þeirra aðgerða sem gripið var til á þessum örlagaríka tíma, þá hafa þeir verið ofsóttir af pólitískum ofstopamönnum, sem meira að segja leggjast svo lágt, að reyna að sverta mannorð þeirra með ákærum fyrir dómstólum.

Sagan mun dæma þessa ofstopamenn og víst er að þeir geta ekki reiknað með að þá verði nokkur miskunn sýnd.


mbl.is Neyðarlögin ekki brot á EES-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband