Kröfuharðir þiggjendur

Mikil ásókn hefur verið í úthlutanir sjálfboðaliðasamtaka á mat og öðrum nauðsynjavörum til fólks sem ekki er í færum til að sjá sér farborða á annan hátt.  Sjálfboðaliðarnir leggja á sig ómælda vinnu og erfiði við hjálparstörf sín, en uppskera alls ekki í öllum tilfellum þakkir fyrir fórnirirnar sem þeir þurfa að færa í þágu hjálparsamtakanna.

Ekki alls fyrir löngu fékk Fjölskylduhjálpin mikla dembu yfir sig vegna þess að setja átti þá reglu að konur með börn fengju forgang í biðröðinni og síðar kom í ljós að dæmi væru um að konur fengju börn "lánuð" til að hafa með sér í röðina og reyna þannig að komast í forgang fram yfir aðra.

Í dag var óvenju mikil aðsókn að Fjölskylduhjálpinni, enda engin önnur samtök að gefa nauðsynjavörur og myndaðist því nokkuð löng biðröð "viðskiptavina" sem ekki höfðu allir vitað að í dag var einungis úthlutað til þeirra, sem skráð höfðu sig á lista fyrirfram og ekki er samkennd þiggjendanna meiri en svo, að nánast kom til átaka á staðnum og starfsmenn Fjölskylduhjálparinnar þurftu að sitja undir skömmum og svívirðingum vegna frekju og yfirgangs þeirra sem ekki höfðu skráð sig fyrirfram.

Útvarpið birti viðtal við konu, sem sagðist hafa verið búin að bíða lengi í röðinni, þegar hún hafi fengið nóg af svo slakri "þjónustu" og því hafi hún farið heim tómhent, enda "léti hún ekki bjóða sér svona lagað" eins og hún orðaði það svo snyrtilega.

Fólk sækir sér ekki aðstoð hjálparsamtaka að gamni sínu, en lágmark er að það kunni lágmarkskurteisi og sýni ekki fólki sem leggur á sig ómælt erfiði í sjálfboðavinnu yfirgang og frekju. 


mbl.is „Aðrir voru ævareiðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Eins og það er sorglegt, í fyrsta lagi að þurfa yfirleitt að úthluta brýnustu nauðsynjum til fjölskyldna og að þurfa hins vegar að þiggja slíka hjálp, er það ekki síður raunalegt að svona ástand skuli skapast hjá þeim sem koma til að fá hjálpina. Það er alveg hægt að setja sig í spor þessa fólks og ég skil vel örvæntinguna sem ríkir, en eins og þú segir, Axel, ætti ástandið frekar að sameina fólkið en sundra því. Ég sendi öllum, skráðum og óskráðum, reiðum og glöðum, baráttukveðjur.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 15.12.2010 kl. 19:46

2 identicon

Tek undir með þér Axel, ég heyrði viðtalið við konuna sem sagði um biðröðina eftir gjafa-mat að hún "léti ekki bjóða sér svona" og fór bara heim. Því miður er til fólk, allt of margt fólk, sem lifir í neyð og vanda en mann er nú farið að gruna að allt of stór hluti þeirra sem sækir gjafir og mat til Fjölskylduhjálpar og Mæðrastyrksnefndar sé fólk sem finnst bara sjálfsagt að aðrir leggi því til þó ekki sé neyð til staðar. Þetta er afleitt því það er vissulega til fólk í neyð og það fær minna fyrir vikið og samúðin hverfur hjá fjöldanum ef kerfið er misnotað.

Heiða (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 20:29

3 identicon

Sammála! það eiga margir erfitt og sjálfsagt er að hjálpa þeim, en fólks sem gefst upp á að bíða í röðinni held ég að sé ekki í mikilli neyð, ef þú hefur ekkert til að kaupa mat fyrir handa fjölskyldu þinni þá bíðuru í röð sama hvað það tekur langan tíma! Það er kannski erfitt að komast að því hver þarf virkilega á hjálp að halda og hverjir ekki en mér finnst að það verði eitthvað að skoða hverjir eru að fá mat!

Una (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 21:05

4 identicon

Þarft innlegg, best að nefna hlutina sinum réttu nöfnum...Það er athyglisvert að útlendingarnir eru oft nefndir en mann grunar að einhverjir hafi fundið sér matarholu til að fóðra eigin ræfildóm. Það verður að taka á þessu, við eigum ekki að láta hjálðarsamtök byggja undir aumingjaskap, bankarnir eru sérhæfðir í því.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 21:55

5 identicon

Flestir sem leita eftir mataraðstoð gera það af sárri neyð og mér finnst orðið áberandi svona neikvæðar fréttir af svörtu sauðunum sem þrífast allstaðar......

Fjölmiðlar ættu að sýna ábyrgð þegar þeir velja hvernig þeir fjalla um þetta viðkvæma málefni !

Á meðan líður það fólk sem sárlega þarf á aðstoð að halda og reynir að kyngja stolti sýnu og mæta !

Það liggur nú undir grun um að vera betla að óþörfu og velunnarar hjálparsamtaka hugsa sig um tvisvar.....

Lísa (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband