Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Gnarrandi alkóhólismi

Okkar stórkostlegi, mikilhæfi, dáði og elskaði leiðtogi, Gnarr, hélt innblásna ræðu við umræður um fjárhagsáætlun borgarinnar, um afleiðingar dagdrykkju og áhrif hennar á fjölskyldu alkóhólista.  Ræðan, sem var mjög góð, enda flutt eftir fyrirframsömdu handriti góðra höfunda og vel æfð fyrir flutninginn í ræðustólnum, en tók þó ekki alls kostar rétt á umræðuefninu, þar sem sagt var að þjóðin hefði verið bláedrú og meðvirk með alkóhólista sem bruðlaði með fé sitt og annarra, þar til allt var komið í rúst og þá hafi hann farið í meðferð og skilið fjölskylduna (þjóðina) eftir með hrunið sem ofdrykkjan olli.

Það hefði verið miklu réttara að segja að stór hluti fjölskyldunnar (þjóðarinnar) hafi tekið fullan þátt í drykkjunni og því ætti þessi lýsing leiðtogans mikla við þjóðina sjálfa, en ekki eingöngu mestu drykkjuhrútana:  "Alkohólistinn er ennþá í meðferð. Við vitum ekki hvort hann verður breyttur maður þegar hann kemur tilbaka. Við vitum ekki hvort hann hefur látið af hrokanum. Kannski er honum ekki viðbjargandi. Við vitum það ekki. Við vonum það auðvitað."

Leiðtoginn stórkostlegi, mikilhæfi, dáði og elskaði, varpaði fram nokkrum spurningum í þessari annars ágætu ræðu og meðal annars þessum:  "Ætlum við að halda áfram að ásaka hvert annað hás og finna okkar einu huggun í að tala um HANN og hvað HANN sé mikið helvítis fífl? Ætlum við að halda áfram að vera sjúkir aðstandendur og fórnarlömb?"

Alkóhólisti verður aldrei fær um að takast á við vandamál sitt fyrr en hann viðurkennir vandann og í þessu tilfelli þarf fjölskyldan (þjóðin) að takast á við sinn eigin sjúkdóm og fyrsta skrefið er að viðurkenna að hún sé/hafi verið eyðslu- og lánasjúk og að á löngu árabili fyrir hrun hafi hún vanið sig á að kaupa allt sem hana langaði í og gat fengi lán til að kaupa, án þess að gera sér nokkrar grillur um hvernig ætti að vera mögulegt að endurgreiða öll lánin öðruvísi en að taka nýn og hærri lán.

Þegar sá hluti fjölskyldunnar (þjóðarinnar) sem sjálfur var í langtímaofdrykkju viðurkennir sjúkdóm sinn, þá fyrst verður hægt að taka á og lækna þessi verstu og langvinnustu veikindi, sem þjóðina hafa þjakað í marga áratugi.


mbl.is Líkti þjóðinni við fjölskyldu alkóhólista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarr boðar Sovét Reykjavík

Okkar stórkostlegi, mikilhæfi, dáði og elskaði leiðtogi Gnarr boðar nýja gjaldskrárstefnu í borginni sinni, þar sem hann ætlar að taka virkan þátt í því með stjórnendum ríkisins að gera alla þegna borgarinnar jafn fátæka.  

Þessa nýju stefnu kallar leiðtoginn mikli "lauatengistefnu", en hún feslt í því að þeir sem lág laun hafa greiði lítið sem ekkert fyrir þjónustu borgarinnar, en þeir sem hafa há laun borgi svo mikið fyrir sömu þjónustu, að þeirra ráðstöfunartekjur verði ekki meiri og reyndar helst minni en þeirra, sem lágu launin hafa.

"Launatengistefnan" hefur gefið svo góða raun hjá ríkinu, að hvergi í heiminum eru skráðar fleiri einstæðar mæður en á Íslandi, en það stafar auðvitað af því að hjón með börn fá miklu lægri barnabætur en einstæðir foreldrar og alls ekki borgar sig orðið að reyna að hækka ráðstöfunartekjur heimila, því þá eru vaxtabætur umsvifalaust lækkaðar.  Til að falla sem best inn í kerfið reynir fólk að vinna sem mest á svörtu og skilja á pappírunum og skrá heimilisföngin á sitt hvorum staðnum, enda eru allir á góðri leið með að verða jafn fátækir og um leið sérfræðingar í bótakerfinu.

Núna, þegar leiðtoginn stórkostlegi, mikilhæfi, dáði og elskaði, ætlar að endurbæta þetta kerfi ennþá meira en snillingum ríkisins hefur tekist, með því að tengja þjónustu borgarinnar við laun viðskiptavinanna, mun verða afar stutt í að engin millistétt verði eftir í landinu, aðeins samansafn af jafn fátækum einstæðingum af báðum kynjum og algerlega launalausum, fyrir utan bæturnar og það sem hægt verður að krafsa inn á svarta markaðinum.

Þegar svo verður komið mun leiðtoginn stórkostlegi, mikilhæfi, dáði og elskaði fullkomna drauminn um sovétið með því að koma á kerfinu góða:  Hver leggi það af mörkum til þjóðfélagsins sem hann getur og uppskeri eftir þörfum. 

Strax er hægt að byrja að syngja ljóðið góða:  "Sovét Ísland, draumalandið, hvenær kemur þú?" 


mbl.is Gjaldskrár tekjutengdar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingalög í stað Wikileaks

Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til endurnýjunar á upplýsingalögum opinberra fyrirtækja og stofnana, þannig að framvegis nái lögin yfir fyrirtæki sem eru a.m.k. eru að þrem fjórðu hlutum í eigu hins opinbera.  Mun upplýsingaskyldan því ná til fyrirtækja eins og opinberu orkufyrtirtækjanna, en af einhverjum ástæðum eiga lögin ekki að ná til allra fyrirtækja og stofnana.

Lögin eiga ekki að ná til Ríkisútvarpsins, skóla, bókasafna, skjalasafna, rannsóknastofnana og ekki heldurl menningarstofnana.  Einnig er tekið fram að breytingarnar á lögunum feli ekki í sér að allar upplýsingar verði sjálfkrafa aðgengilegar almenningi.  Áfram verður byggt á þeirri reglu að vegna samkeppnishagsmuna sé heimilt að undanþiggja ýmsar upplýsingar aðgangsrétti almennings.   Að langstærstum hluta verða takmarkanir á upplýsingarétti almennings óbreyttar frá gildandi lögum. 

Að mörgu leyti eru þetta jákvæðar breytingar sem boðaðar eru á upplýsingalögunum, en þó ganga þær allt of skammt og fjöldi stofnana og fyrirtækja verða áfram lokaðar hvað upplýsingagjöf varðar og er það algerlega óviðunandi.

Í lýðræðisríkjum á öll stjórnsýsla að vera eins opin og mögulegt er, nánast ekkert annað en öryggismál og annað slíkt ætti að vera sveipað einhverjum leyndarhjúp, en þó ekki svo miklum að mögulegt sé að vinna einhver myrkraverk í skjóli leyndarinnar.  Vegna slíkra mála ætti að setja á stofn sérstaka eftirlitsnefnd, sem hefði það hlutverk að sjá til þess að öll slík atriði séu innan laga og reglna.

Með opnari og bættri stjórnsýslu lýðræðisríkja og aflagningu óþarfa leyndar verður almenningur landanna vel upplýstur um gang mála, án þess að upplýsingaþjófar og samverkamenn þeirra, eins og Wikileaks, vaði uppi og brjótist inn í tölvukerfi fyrirtækja, stofnana og ríkja og steli jafnvel upplýsingum, sem viðkvæmar eru, t.d. vegna öryggissjónarmiða eða samkeppnismála.


mbl.is Upplýsingalög ná til ohf.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrar Bónusblekkingar

Endalaust er flett ofan af glæpastarfsemi í viðskiptum hér á landi og er nýjasta dæmið um svindl Haga á verðmerkingum kjötvara í verslunum Bónuss, Hagkaups og 10/11 í samstarfi við ýmsa kjötheildsala.  Þegar upp komst um svindlið og rannsókn Samkeppniseftirlitsins hófst á því "gáfu kjötsalarnir sig fram" við eftirlitið í þeim tilgangi að bjóðast til að leysa frá skjóðunni, gegn vægari viðurlögum en ella hefðu orðið.

Þrátt fyrir samninga um umtalsverða lækkun á sektum munu fyrirtækin samt greiða 405 milljónir króna í sektir vegna brota sinna, en þetta eru Hagar vegna Bónuss, Hagkaups og 10/11, Kjarnafæði, Kjötbankinn, Kjötafurða-stöðvar KS,  Norðlenska, Reykjagarður og Sláturfélag Suðurlands.  Kjötbankinn greiddi að vísu enga sekt og telst því ekki með í sektarupphæðinni, þar sem hann er orðinn gjaldþrota og ekki náðist niðurstaða um samninga sektar vegna Síldar og fisks og Matfugls, þannig að endanleg niðurstaða um heildarsektina er ekki ljós.

Þegar tvö síðast nefndu fyrirtækin hafa fengið á sig sína sekt, má reikna með að heildargreiðslur fyrirtækjanna vegna lögbrota sinna verðu um hálfur milljarður króna, sem þó er verulega miklu lægri upphæð en sektirnar hefðu orðið ef fyrirtækin hefðu ekki iðrast gjörða sinna í sparnaðarskyni.  Þetta sýnir einni hversu alvarlegum augum Samkeppniseftirlitið hefur litið  þessa glæpastarfsemi og þann skaða sem Hagar f.h. Bónuss, Hagkaupa og 10/11 hafa valdið neytendum í gegnum tíðina.

Vonandi verða þær aðgerðir sem gripið verður til í framhaldinu til þess að losa það kverkatak sem Bónusgengið hefur haldið birgjum landsins í undanfarin tuttugu ár og eðlilegt samkeppnisástand fari að ríkja á smásölumarkaðinum hérlendis. 

Sem betur fer hefur Bónusgengið misst eignarhaldið á verslunum sínum og það eitt og sér vekur vonir um heilbrigðari verslunarhætti eftirleiðis.


mbl.is 405 milljónir í sektir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrásarhugsun í menntaskólarekstri?

Óráðsía, rugl og jafnvel hreinir glæpir virðast hafa teygt sig inn í hing ýmsu skúmaskot þjóðfélagsins á árunum fyrir hrun og er nú komið í ljós að skólastarfið hefur ekki einu sinni sloppið við sukkið og svínaríið.  

Menntaskólinn Hraðbraut virðist hafa gefið upp allt of mikinn fjölda nemenda við skólann og samkvæmt þjónustusamningi við Menntamálaráðuneytið hafa fengið ofgreiddar tugi eða hudruð milljóna króna, sem síðan hafa verið notaðar til að greiða út í arð til eiganda skólans.  Furðulegt er að þessi háttsemi sýnist hafa viðgengist árum saman án þess að ráðuneytismönnum hafi nokkurn tíma dottið í hug að fá nemendafjöldann staðfestann eða að Ríkisendurskoðun skuli aldrei hafa yfirfarið samninginn við skólann og framkvæmd hans.

Menntamálanefnd Alþingis hefur nú loksins tekið málið til skoðunar og óskað eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmdinni og segir í fréttinni m.a:  "Meirihlutinn gagnrýnir að á sama tíma og virkt eftirlit er með því gagnvart opinberum skólum að ríkisframlög fylgi raunverulegum nemendafjölda hafi ráðuneytið vanrækt að fylgja eftir hliðstæðum ákvæðum þjónustusamnings um rekstur umrædds einkaskóla. Telur meiri hlutinn mikilvægt að fullt samræmi sé í eftirfylgni ráðuneytisins með ráðstöfun opinbers fjár í menntakerfinu, hvort sem um opinbera skóla eða einkaskóla er að ræða.    ..................

Meðferð þeirra á fjárframlögum úr ríkissjóði verður að teljast sérstaklega ámælisverð þegar höfð er hliðsjón af arðgreiðslum sem byggðust á vafasömum forsendum, lánveitingum til eigenda í andstöðu við ákvæði þjónustusamnings og ítrekuðum ofgreiðslum fjármuna sem ekki voru endurgreiddar í ríkissjóð."

Sé það rétt að um ofgreiðslur hafi verið að ræða til skólans á að sjálfsögðu að innheimta þær til baka og hafi verið greiddur út arður vegna hagnaðar sem myndaðist vegna falsaðra pappíra um fjölda nemenda skólans á að sjálfsögðu að kæra slíkt umsvifalaust til Ríkislögreglustjóra, sem þá myndi væntanlega setja sakamálarannsókn í gang á grundvelli slíkra upplýsinga.

Svind og þjófnað á ekki að líða neins staðar í kerfinu.  Hvorki bankakerfinu né menntakerfinu. 


mbl.is Vilja úttekt á einkareknum skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarmeirihlutinn er í þjóðarminnihluta

Vefsíða Financial Times, hins virta breska fjármálablaðs, birtir grein þar sem viðurkennt er að Íslendingar verði skattaþrælar Breta og Hollendinga næstu áratugina ef það ótrúlega myndi gerast að Íslendingar sjálfir samþykki að gangast undir slíka ánauð.  Auðvitað mun þjóðin aldrei samþykkja sjálfviljug að gangast þessum yfirgangsþjóðum á hönd sem skattanýlenda vegna fjárkúgunar, sem studd er og unnið öttullega að, af hendi útsendara kúgaranna hér á landi.

Í greininni kemur fram að ríkisábyrgð sé alls ekki á tryggingarsjóðum innistæðueigenda og niðurlag fréttar mbl.is um greinina er svohljóðandi:  "Þar segir jafnframt að niðurstaða Icesave-málsins sé dapurleg, því hún styðji við hugmyndir um ótakmarkaða ríkisábyrgð á rekstri banka: „Í þessu tilfelli er ekki hægt að færa lagaleg rök fyrir slíkri ábyrgð og alls ekki á forsendum sanngirni, því breska eða hollenska ríkið myndi aldrei ábyrgjast innlán í eigu erendra aðila sem jafngiltu nærri þriðjungi þjóðarframleiðslu, myndi einn af stærri bönkum þar í landi falla,“ segir leiðarahöfundur Financial Times."

Engin þjóð á vesturlöndum myndi láta kúga sig til að undirrita samþykki við öðrum eins fjárkúgunum og hér er verið að beina að Íslendingum og engin ríkisstjórn með sjálfsvirðingu myndi láta sér detta í hug að vinna þannig gegn hagsmunum sinnar eigin þjóðar og ættjarðar.

Því miður er þó ein ríkisstjórn á vesturlöndum sem gerir nú atlögu að þjóð sinni í þriðja sinn í þágu erlendra yfirgangsseggja.   Þjóðin hefur sýnt áður að hún lætur ekki bjóða sér slíkt og mun vafalaust gera það sama núna.


mbl.is Fangelsi skattgreiðenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð endurskoðenda er mikil

Endurskoðunarfyrirtækið PWC hefur sent frá sér athugasemd vegna opinberrar umföllunar um drög að skýrslum rannsóknarfyrirtækjanna Cofisys og Lynx Advokatfirma um að ársreikningar Landsbankans og Glitnis hafi nánast verið falsaðir og bankarnir hafi í raun verið orðnir gjaldþrota á árinu 2007 og verið haldið á floti með blekkingum og svikum eftir það og PWC hafi verið kunnugt um það og jafnvel tekið þátt í fölsunum ársreikninganna.

Ábyrgð endurskoðenda er mikil, því ef þeir "skrifa uppá" ársreikninga fyrirtækja með yfirlýsingu um að uppgjörið gefi rétta mynd af rekstri viðkomandi árs og efnahagsreikningurinn sýni rétta mynd af eigna- og skuldastöðu fyrirtækisins eða bankans, þá er því treyst úti í þjóðfélaginu og hjá viðskiptamönnum að óhætt sé að treysta þeim upplýsingum, sem fram koma í ársskýrslunni. 

Ef einbeittur ásetningur er til þess innan einhvers fyrirtækis að blekkja endurskoðendur, er það sjálfsagt hægt, en í eins stórum fyrirtækjum og bankarnir voru, hlýtur að hafa þurft svo gífurlegan fjölda starfsmanna til að sammælast um slíkt, að það hafi nánast verið útilokað að endurskoðendur sæju það ekki í skoðunum sínum á rekstrinum.  Annað getur verið uppi á teningnum við mat á eignum og gæðum útlána, en sjálfsagt hefur verið erfiðara fyrir endurskoðendurna að staðreyna þær upplýsingar, sem eigendur og stjórnendur bankanna hafa lagt fram þar að lútandi.

Verði niðurstaða rannsókna Sérstaks saksóknara og annarra rannsóknaraðila sú, að bankarnir hafi verið reknir með fölsunum og svikum árum saman er óhætt að fullyrða að PWC sé í vondum málum og traust á fyrirtækinu verði verulega laskað, svo vægt sé að orði komist.

Svo er eftir að svara því, hvernig hægt var að ræna bankana innanfrá, smátt og smátt, árum saman án þess að endurskoðendurnir yrðu nokkurs varir. 

 


mbl.is PwC: Ábyrgðin hjá stjórnendum bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattahækkanabrjálæðinu ætlar aldrei að linna

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur hækkað alla skatta sem fyrirfundust í kerfinu, þegar hún tók við völdum og fundnir hafa verið upp nýjir skattar af öllum tegundum, sem sýnir svart á hvítu að skattahækkanabrjálæði stjórnarinnar er algerlega ólæknandi.

Kristján Möller geystist fram á völlinn, þegar hann var samgönguráðherra og boðaði að færa ætti skattheimtu af bíleigendum úr bensínsköttum yfir í vegatolla, þannig að heildarskattheimtan yrði óbreytt, en einungis í breyttu formi og þannig myndu þeir borga mest sem notuðu vegina mest.  Reyndar kaupa þeir sem nota vegina mest miklu meira bensín en hinir, sem nota þá lítið, þannig að þessi röksemd ráðherrans fyrrverandi virtist nú ekki vera mjög djúphugsuð.

Kristján boðaði að vegtollarnir yrðu innheimtir í gegn um gerfitungl sem myndu fylgjast með ferðum hverrar einustu bifreiðar í landinu og færa skuld á eiganda hennar í hvert skipti sem bíllinn færi yfir tollalínu, en þær myndu verða með jöfnu millibili um allt vegakerfi landsins.

Eins og áður, þegar einhver skattaleiðarhugmynd kemur upp í kollinn á vinstri mönnum, líður ekki á löngu þar til hugmyndinni er hrundið í framkvæmd og nýjum og nýjum sköttum skellt á fólk, auðvitað án þess að lækka nokkurn annan skatt í staðinn.

Þetta sannast átakanlega núna, þegar Kristján, nú fyrrverandi ráðherra, en formaður samgöngunefndar boðar nýja vegtolla til að fjármagna vegaframkvæmdir, þó innifalið í bensínverðinu séu einmitt sérmerkt gjöld til slíkra framkvæmda og allir bifreiðaeigendur greiða nú þegar.

Þessari viðbót skattahækkanabrjálæðinganna verða bifreiðaeigendur að hrinda af höndum sér.  Láti þeir ekki heyra duglega í sér, mun þessum viðbótarsköttum verða dembt á þá og hvorki þeir, né nokkrir aðrir bifreiða- og bensínskattar munu lækka aftur. 


mbl.is Mótmælir vegtollum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi til glæpaverka eru ekki mannréttindi

Flest eða öll ríki veraldar halda ýmsum viðkvæmum upplýsingum leyndum, t.d. þeim sem varða þjóðaröryggi, glæparannsóknir, fjármál einstklinga og annað slíkt og er ekkert við það að athuga, þvert á móti.

Wikileaks, eða fólk á vegum þess fyrirtækis hefur stundað það að stela slíkum upplýsingum, jafnvel viðskvæmum hernaðarleyndarmálum, og birta opinberlega á vef sínum og hugsanlega valda þar með ýmsum einstaklingum skaða og lífshættu.

Forsvarsmenn Wikileaks eru nú að falast eftir opinberum stuðningi íslenskra yfirvalda við slíkan upplýsingaþjófnað frá öðrum löndum og hljóta allir að sjá hvílik firra það er að láta sér detta í hug að nokkur ríkisstjórn í heiminum myndi veita slíkan stuðning.  Líklega er sú ólánsstjórn sem við völd er á Íslandi þó sú eina líklega til slíkra heimskupara og því er auðvitað leitað til hennar með svo fráleita maálaleitan.

Innbrot í tölvukerfi og upplýsingaþjófnaður er ekkert minni glæpur en hver annar og þeim sem slíkt stunda ber að refsa fyrir slíka glæpastarfsemi.  

Það er skylda hverrar ríkisstjórnar að handtaka glæpamenn, en ekki styðja þá við glæpina. 

 


mbl.is Skorar á Össur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Standa verður sterkan vörð um lífeyrissjóðina

Undanfarna mánuði hefur verið hart sótt að launum elli- og örorkulífeyrisþega, bæði þeirra sem nú þegar njóta lífeyris og ekki síður þeirra sem njóta eiga réttinda sinna í sjóðunum í framtíðinni.  Þessi ásókn í elli- og örorkulaun lífeyrissjóðanna hefur aðallega verið af hendi þeirra sem yfirskuldsettu sig á árunum fyrir bankahrun og ráða ekki við að greiða af lánum sínum, en finnst sjálfsagt að hluti þeirra verði felldur niður á kostnað lífeyrisþeganna.

Þessari aðför skuldara að lífeyrissjóðunum verður að verjast af hörku og ekki síður ásókn ríkisins í sjóðina til að fjármagna ýmis verkefni sem ríkinu ber að annast en hefur ekki efni á um þessar mundir, en er ekki tilbúið að greiða eðlilega vexti af þeim lánum, sem ætlast er til að sjóðirnir leggi ríkinu til, svo ráðherrarnir geti sagst vera að gera eitthvað í atvinnumálunum.

Það er ekki hlutverk lífeyrissjóða að greiða niður skuldir lánasukkara og alls ekki að halda uppi atvinnubótavinnu á vegum ríkissjóðs.  Eina hlutverk lífeyrissjóðanna er að ávaxta iðgjöld sjóðfélaganna á hagkvæmasta hátt og greiða þeim eins háan lífeyri og mögulegt er, þegar sjóðfélaginn þarf á því að halda, annað hvort vegna örorku eða aldurs.

Hjarðhugsun, sem stjórnað er af lýðskrumurum, um að sjálfsagt sé að ganga í lífeyrissjóðina og ausa úr þeim í gæluverkefni, verða sjóðirnir að hrinda af höndum sér í eitt skipti fyrir öll og halda sig við það hlutverk, sem þeim er ætlað.


mbl.is Hart sótt að lífeyrissjóðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband