Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Gnarrinn kjörinn fígúra ársins á Stöð 2

Árið ætlar greinilega að enda á sama ótrúlega fíflaganginum og hefur einkennt mest allan framgang mála nánast allt frá hruni, og í samræmi við það hefur Stöð 2 séð ástæðu til að hæðast að þeim kosningum sem fram hafa farið undanfarið á ýmsum fjölmiðlum um "mann ársins".

Í háðungarskyni við Reykvíkinga útnefndi fréttastofa Stöðvar 2 Jón Gnarr sem fígúru ársins og getur þetta val engan veginn túlkast sem háð og spott um Reykvíkinga sem sitja uppi með trúð á borgarstjórastóli, en skrifstofustjóra borgarinnar sem sinni öllum verkefnum sem borgarstjóri á að gegna.

Það verður að viðurkennast að svo óbúinn er maður svona prakkaraskap af einni af stærri fréttastöðvum landsins, að tunga vefst gjörsamlega um höfuð, þegar reyna á að tjá sig um málið og setur algerlega úr skorðum allar fyrirætlanir um að blogga um merkilega hluti, sem þó gerðust einn og einn á árinu sem er að líða.

Vegna þess óstuðs sem þetta setur mann í, verður einfaldlega þagað fram á næst ár.

Óska öllum lesendum þessarar bloggsíðu, vinum, vandamönnum og öllum öðrum farsæls nýs árs með von um að það færi þjóðinni betri tíð með blóm í haga. Til að svo megi verða, þarf einungis nýja stjórn og nýja atvinnupólitík.
Kærar þakkir fyrir samskiptin á árinu 2010.


Becham í krossmálaferlum vegna vændis

Knattspyrnukappinn David Beckham er enn á ný kominn í vandræði vegna ásakana um að hafa haldið framhjá henni Victoríu kryddpíu, sem hann hefur verið kvæntur til margra ára.  Í þetta sinn er það vændiskona frá Bosníu sem básúnar það út í fjölmiðlum að Beckham hafi borgað sér tíu þúsund dollara fyrir þjónustu sína á glæsihótelum víða um veröld.

Becham ætlar ekki að láta bjóða sér upp á svona trakteringar og krefst 25 milljóna dollara skaðabóta vegna þeirrar sálarangistar sem hann og Victoría hafa orðið fyrir við lestur þessara slúðurfrétta, enda erfitt fyrir viðkvæmar sálir að höndla slíkar ásakanir, enda ef sannar reyndust afar niðurlægjandi fyrir Victoríu, enda yrðu þær ályktanir þá dregnar að hún væri ekki nógu góð við manninn sinn í svefnherberginu.

Það sem er einna athyglisverðast við fréttina er þó lokasetning hennar sem segir svona frá viðbrögðum vændiskonunnar:  "Hún mun hyggja á gagnsókn í málinu og segir málið hafa valdið sér likamlegum og tilfinningalegum skaða."

Við meðferð málsins hlýtur að koma fram í hvaða líkamshlutum aumingja konan fann mest til við framkvæmd vændissölunnar.


mbl.is Beckham í málaferlum við vændiskonu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnan er að auka smygl og svarta vinnu

Ríkisstjórnin hefur hækkað alla skatta, sem hægt er að hækka og fundið upp fjöldann allan af nýjum ofursköttum og er með þessu skattabrjálæði sínu að drepa algerlega niður alla getu fyrirtækja til fjárfestinga og atvinnusköpunar og skattpíning einstaklinga er að valda algeru skipbroti í fjármálum heimilanna, sem ekki máttu við svona ríkisaðgerðum ofan á allt annað.

Skattpíning og jaðaráhrif skatta einstaklinganna mun ýta æ fleirum út í svarta vinnu, sem síaukið framboð verður af, einmitt vegna skattaæðis stjórnarinnar. Ofurhækkun skatta á tóbak og áfengi mun að sjálfsögðu stórauka smygl á slíkum vörum, en ekki hefur borið mikið á fregnum af slíku smygli undanfarin ár, en með þessari staðföstu stefnu Steingríms J. varðandi ofursköttun allra hluta, er hann og stjórnin að kynda undir aukningu glæpa í þjóðfélaginu og finnst flestum nóg um þá nú þegar.

Sala á tóbaki og áfengi mun minnka mikið í kjölfar skattabrjálæðisins og smygl aukast gífurlega. Líklega mun einnig styttast í að reynt verði að smygla olíu- og bensínvörum, eins og skattageggjunin er orðin á slíkum nauðsynjavörum, ásamt öllu öðru sem að bifreiðarekstri snýr.

Svo hikar Steingrímur J. ekki við að "stela" stórum hluta bifreiðaskattanna sem eiga að fara til vegagerðar, til annarra þarfa ríkissjóðs. Þá er gripið til þess að skattleggja notkun veganna aftur, án nokkurrar tryggingar fyrir því að það fé, sem þannig innheimtist, renni ekki beint í hítina hjá Steingrími J.

Vonandi springur þessi arma ríkisstjórn fljótlega eftir áramótin, þannig að hæfara fólk komist að völdum til að bjarga þjóðinni frá þessari "fyrstu tæru vinstri stjórn".


mbl.is Fíkniefni og tóbak fundust í flutningaskipi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin upphefð af kosningu á Útvarpi Sögu

Það var fjallað um það á þessu bloggi fyrir nokkrum dögum að Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG og athyglissjúklingur, gerði allt hvað hún gæti til að ná sér í útnefningu sem "maður ársins" á einhverjum fjölmiðlinum, sem einmitt hafa verið undanfarna daga að skoða slíkar tilnefningar.

Nú hefur Lilju orðið að ósk sinni, en lítill sómi er þó að þeirri útnefningu sem henni hefur tekist að gráta sér til, en það er að hafa verið kosin "maður ársins" á ómerkilegustu útvarpsstöð norðan Alpafjalla, þ.e. Útvarpi Sögu, en þar ausa helst hinir ýmsu kverúlantar hugarsóðaskap sínum yfir hlustendur, undir forystu einhverra mestu skítadreifara þjóðarinnar, þeirra Péturs Gunnlaugssonar og Eiríks Stefánssonar.

Þrátt fyrir að nokkrir þáttastjórnendur starfi við stöðina sem hlustandi er á og eins suma pistlahöfundanna, þá verður aldrei hægt að taka þessa útvarpsstöð alvarlega á meðan menn eins og Pétur og Eiríkur ausa svívirðingum og lygum um menn og málefni úr andlegum hlandskálum sínum yfir þá hlustendur sem láta viðbjóðinn yfir sig ganga án þess að skrúfa niður í tækinu, eða skipta um stöð.

Þó engar líkur séu á því, eftir væl og skjæl Lilju í fjölmiðlum og í netheimum undanfarið, ætti hún að afþakka þessa "upphefð" frá Útvarpi Sögu, enda kosningin algerlega ómarktæk, þar sem sama fólkið gat hringt inn dag eftir dag og tilnefnt allt upp í þrár manneskjur í hverju símtali. Slíkar "kosningar" eru auðvitað algerlega ómarktækar og engum til sóma, hvorki þeim sem að þeim standa, né þeim sem flest "atkvæði" fær.

Verði Lilja kjörin "maður ársins" á einhverjum marktækari fjölmiðli en Útvarpi Sögu, þá er kominn tími til að hafa alvarlegar áhyggjur af andlegu ástandi þjóðarinnar um þessar mundir.


mbl.is Lilja maður ársins á Útvarpi Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarrið að renna af Reykvíkingum

Reykvíkingar, margir hverjir, voru (g)narraðir til að kjósa Besta flokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum, með loforðum um breytingar í stjórn borgarinnar í þá veru að útsvar yrði lækkað, þjónustugjöld yrðu ekki hækkuð og rólega yrði farið í að hækka gjaldskrár OR.  Ofan á allt saman átti að gera lífið í Reykjavík svo skemmtilegt, að íbúarnir yrðu síhlæjandi og svo góðir vinir að þeir gætu ekki slitið sig úr faðmi hvers annars.

Öll kosningabarátta Besta flokksins var rekinn með bröndurum og kæruleysislegum yfirlýsingum um að öll loforð yrðu svikin eftir kosningar og meira að segja loforðið um að svíkja öll loforð og þótti allt of stórum hluta kjósenda þessi aðferð í kosningabaráttu svo fyndin, að þeir hlógu alla leið á kjörstað og langleiðina heim aftur.

Eftir heimkomuna og við nánari yfirferð brandaranna og frammistöðu Besta flokksins í borgarstjórn og þá alveg sérstaklega meðhöndlun Jóns Gnarr á borgarstjóraembættinu, en hann kom nánast öllum störfum embættisins yfir á skrifstofustjóra borgarinnar, en stundar sín daglegu trúðslæti á þeim launum og hlunnindum, sem ætluð eru til greiðslu fyrir borgarstjóravinnuna.

Nú eru byrjaðar að renna tvær grímur á þá kjósendur sem slysuðust til að kjósa trúðaflokkinn í vor og skoðanakannanir byrjaðar að sýna fylgishrun hans, aðeins rúmu hálfu ári eftir kosningarnar.  Eins og allt sæmilega þenkjandi fóllk bjóslt við, mun Besti flokkurinn fljótlega heyra sögunni til, eins og önnur grínframboð sem komið hafa fram áður.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur sækir í sig veðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siglfirðingar byrja ungir og hætta seint

Það verður ekki af Siglfirðingum skafið að þeir byrja ungir að láta að sér kveða og hætta því svo ekkert aftur fyrr en í fulla hnefana.

Þegar afar á níræðisaldri fara í bíltúr með níu ára barnabarn þykir þeim ekkert sjálfsagðara en að skiptast á að keyra bílinn.  Í því tilfelli sem fréttin fjallar um, þá keyrði afinn frá Siglufirði til Ólafsfjarðar og barnabarnið til baka, eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Ferðininni var heitið í gegnum hin nýju Héðinsfjarðargöng og afinn hefur auðvitað vitað sem var, að nánast væri útilokað að þeir félagar myndu mæta nokkrum bíl á ferð sinni, því á leið um Héðinsfjarðargöng er eftir þessu að dæma ekki líklegra að mæta bíl, en á hverjum öðrum sveitavegi þar sem aðrir stelast til að leyfa próflausum börnum að taka í bíla sína.

Auðvitað er alger vitleysa að vera að láta börn keyra bíla, en það er þó sök sér þar sem engin hætta er á að lenda í árekstrum við aðra bíla eða keyra niður aðra vegfarendur.


mbl.is Níu ára ökumaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG klofnar - aðeins tímaspursmál hvenær

Lilja Mósesdóttir gerir nú lokatilraun til að beygja meirihluta þingflokks VG undir sjónarmið sín og "villikattanna" í flokknum og skapa sér stöðu fyrir það uppgjör í VG sem óhjákvæmilega hlýtur að verða þann 8. janúar n.k., þegar flokksráðsfundur verður haldinn.

Ágreiningurinn innan VG er orðinn svo djúpstæður og persónulegur að útilokað er orðið að jafna hann og því mun flokkurinn klofna, nú er aðeins orðið spurning um hvenær það verður, ekki hvort það verður.

"Villikettirnir" munu annaðhvort stofna nýjan flokk og halda áfram þátttöku í ríkisstjórn og þá mun stjórnin sitja og standa eftir þeirra kröfum, enda munu þeir þá hafa líf stjórnarinnar í hendi sér. Ef Jóhönnu og Steingrími J. þykir það ekki fýsilegur kostur og stjórnin segir þar með af sér og boðar til kosninga, er eins víst að "villikettirnir" gangi í eina sæng með Hreyfingunni, enda mikill samhljómur þar á milli.

Það eina sem er alveg orðið víst í þessu efni er að VG mun ekki hanga saman sem einn flokkur mikið lengur.


mbl.is Lilja íhugar úrsögn úr þingflokki VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjir glæpaflokkar í framboð?

Nýjir stjórnmálaflokkar eru nú farnir að líta dagsins ljós og gera má ráð fyrir að eftir því sem líður á veturinn og næsta ár muni fleiri og fleiri flokkar fæðast, enda segir hjarðmenning dagsins að stjórnmálaflokkur ætti helst ekki að vera skipaður nema einum manni og þannig væri hægt að kjósa alla stjórnmálaflokka landsins í beinni persónukosningu.

Fram til þessa hafa kjósendur stutt þá stjórnmálaflokka sem unnið hafa að þeim skoðunum sem best hafa fallið viðkomandi kjósanda í geð og þeir sem heitar lífshugsjónir hafa haft, hafa gerst félagar í þeim stjórnmálasamtökum sem boða þær lífsskoðanir sem viðkomandi er tilbúinn að berjast fyrir og leggja sitt af mörkum til að afla fleiri fylgjenda meðal þjóðarinnar.

Nú boðar hjarðhugsunin að allir stjórnmálaflokkar séu glæpaflokkar og allir sem þá styðji séu samsekir um glæpaverkin og þeir allra forstokkuðustu séu sendir á þing til að valda þjóðinni öllu því tjóni, sem þeir mögulega geti unnið með dyggri aðstoð þeirra illgjörnu hálfvita, sem studdu þá í þingkosningum.

Það stórmerkilega við kerfið, eins og það hefur verið fram að þessu, er að það er þjóðin sjálf sem velur allt þetta fólk á Alþingi, með a.m.k. tveim kosningaumferðum. Fyrst eru frambjóðendur valdir á lista í prófkjörum eða forvölum og síðan eru listarnir boðnir fram í kosningum, þar sem yfirleitt mæta tæp 90% kjósenda og velja á milli þeirra lista, sem þessir frambjóðendur skipa.

Miðað við umræðurnar núna um stjórnmálaflokkana, þingmennina og stuðningsmenn þeirra, er alveg með ólíkindum hvernig svona skynsöm þjóð eins og Íslendingar segjast vera, skuli ná svo mikilli samstöðu um að kjósa sinn alversta glæpalýð til að stjórna sér og landinu, kosningar eftir kosningar.


mbl.is Segir viðbrögð góð við nýjum flokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyngri refsingar fyrir rof á heimilisfriði

Glæpalýður borgarinnar lætur sig engu skipta hvort almenningur heldur upp á jólin eða aðarar hátíðar, en notar hátíðarnar ekkert síður en aðra daga til að brjótast inn á heimili fólks og stela þar öllu steini léttara og valda bæði miklum eigna- og tilfinningaspjöllum.

Út yfir allan þjófabálk tekur þó, þegar þessir glæpahundar þykjast vera að refsa fólki og leggja á það "sektir", sem síðan eru innheimtar með innrásum á heimili og vopnavaldi beitt og nú á aðfangadag skotvopnum. Með þessari vopnuðu ásás á eitt heimili voru jólin í raun eyðilögð fyrir fjölda fólks, sem býr í nágrenni heimilisins sem fyrir skotárásinni varð, enda olli þetta glæpaverk ótta í huga fólks í stórum hluta hverfisins.

Glæpagengin vakta heimilin og fylgjsast með því hvort þau verði mannlaus vegna fjölskylduboða um hátíðarnar og nota þá tækifærið til að brjótast inn og róta í öllum persónulegum munum fólks, ásamt því að stela öllu verðmætu og oft verðlitlum hlutum, sem þó eru fólkinu afar kærir vegna persónulegra minninga sem þeim tengjast.

Fólk, sem fyrir þessum innrásum á heimili sín verður, lýsir því oft að hlutirnir sem hverfa séu ekki það versta við innbrotin, þó verðmætir séu, heldur sé það sú vanhelgun á helgi heimilisins og gramsið í persónulegum minnigum þess, sem sé óbærilegast, fyrir utan óöryggið af því að búa áfram á heimilinu.

Þungar refsingar ættu að vera við innbrotum á heimili og árásum á friðhelgi þeirra og miklu harðari en við innbrotum í fyrirtæki, því þó slík innbrot séu nógu slæm, þá er ofbeldið gegn sálarlífi fólks með innbrotum á helgasta vé fjölskyldunnar ekkert annað en andleg nauðgun heimilismanna, fyrir utan eignatjónið.

Það þarf að setja mikla hörku í baráttuna gegn þessum glæpalýð, sem stöðugt færist í átt til grófari afbrota gegn saklausum borgurum.


mbl.is Árásarmennirnir yfirheyrðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

JÓLAKVEÐJA

Ég óska innilega öllum lesendum þessarar bloggsíðu, vinum og vandamönnum, sem og landsmönnum öðrum, gleðilegra jóla og nýrra vona um batnandi tíð fyrir land og þjóð með hækkandi sól.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband