Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
14.1.2010 | 11:23
Týnda smáaurabuddan
Samson, eignarhaldsfélag Björgólfsfeðga, millifærði rúmlega tvo milljarða króna, til að minnsta kosti sex félaga í eigu þeirra félaga á Tortóla, Kýpur og Lúxemburg, en feðgarnir hafa ekki minnsta grun um, til hvers þessar millifærslur voru gerðar, né til hvers peningarnir voru notaðir og hvað þá, hvar þeir eru núna.
Skýringin, sem gefin er, er sú, að eini maðurinn sem gæti hugsanlega vitað þetta, hafi fengið heilablóðfall og því látið af störfum hjá félaginu og þar með hafi öll vitneskja um aurana horfið um leið, enda "...sá góði maður var þeirrar gerðar að hafa allt á hreinu en var lítið fyrir að deila því með öðrum.
Menn eiga sem sagt að trúa því, að aðeins einn maður innan köngulóarvefs feðganna, hafi verið eitthvað að leika sér með þetta fé, millifært það í skattaskjól vítt og breitt um heiminn, án nokkurs samráðs við eigendurna og með veikindum hans, hafi peningarnir einfaldlega týnst.
Bókhald hefði átt að færa vegna þessa alls, sem auðvelt ætti að vera að rekja, ef allt væri með felldu. Annars verður að leggja einhverja milljarðatugi til að koma starfsmanninum til heilsu á ný.
Ef til vill hafa feðgarnir litið á þetta sömu augum og almennur borgari, sem týnir smáaurabuddunni sinni.
![]() |
Óvíst hvert milljarða lán fóru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.1.2010 | 10:28
Evrulönd - víti til að varast
Matsfyrirtækið Moody's telur að Grikkland og Portúgal standi frammi fyrir hægum dauðdaga vegna mikils halla á ríkisfjármálunum og að þau gætu lent í því að þurfa að hækka skatta, sem aftur myndi að lokum ganga endanlega af efnahagslífinu dauðu.
Margt af því, sem fram kemur í umsögn Moody's um þessi lönd, er hægt að heimfæra beint á Ísland, t.d. þetta: "Segir að samkeppnisstaðan sé líkleg til að leiða til æ versnandi efnahagsástands og minnkandi skatttekna, ef ekki verður gripið í taumana sem fyrst. Afleiðing af því yrði svo sú að sífellt stærri hluti þjóðarframleiðslu ríkjanna færi beint í vasa erlendra lánardrottna, einkum ef erlendir fjárfestar fara að krefjast hærri vaxta á ríkisskuldabréf Grikklands og Portúgals. Ríkisstjórnirnar myndu þurfa að bregðast við þessu með aukinni skattheimtu, sem aftur gæti kæft fjárfestingu og hagvöxt og ýtt undir fólksflótta.
Yfir lengri tíma myndi þessi þróun valda hægum dauðdaga hagkerfanna tveggja."
Íslendingar eru þegar komnir í þessa stöðu og ríkisstjórnin hefur auðvitað brugðist við því, þvert á viðvaranir Moody's, með algeru skattahækkanabrjálæði, sem mun að sjálfsögðu valda hægum dauða hagkerfisins.
Um hallann á ríkisrekstri Grikklans og opinberar skuldir, segir þetta: "Halli á ríkissjóðnum nam 12,7 prósentum af vergri landsframleiðslu í fyrra og opinberar skuldir eru tæplega 115 prósent af VLF. Reglur evrusvæðisins segja hins vegar að aðildarríki eigi að halda fjárlagahalla innan þriggja prósenta af VLF og opinberum skuldum innan sextíu prósenta af VLF."
Þessar tölur eru sláandi líkar þeim íslensku, en við þetta bætast skuldir einkageirans, en um þær er ekkert sagt, varðandi Grikkland, en vitað er að þær íslensku eru gríðarlegar. Munurinn er einnig sá, að Íslendingar hafa þó traustann útflutning, sem stendur vel, vegna sérstaks íslensks gjaldmiðils, en Grikkir og Portúgalar eru í hengingaról Evrunnar.
Það, sem er sýnu alvarlegast hérlendis, er skattahækkanabrjálæðið og getuleysis við að koma atvinnuvegunum í gang aftur og minnka þannig atvinnuleysið.
![]() |
Standa frammi fyrir hægum dauðdaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2010 | 08:29
Útrásarmógúlar verði ekki eigendur aftur
Augljóst er að Bónusfeðgar hafa enga möguleika á, að koma með tugi milljarða króna nýtt hlutafé inn í 1988 ehf., til þess að halda eign sinni áfram á Högum hf. Þeir feðgar hafa aldrei lagt eigið fé inn í nokkurt félag, því allt sem þeir hafa "keypt" hefur verið fjármagnað með lánum frá bönkum, sem síðan fóru á hausinn vegna þessara og annarra viðlíka lánveitinga.
Eftir "kaup" á fyrirtækjum, var það ófrávíkjanleg regla útrásarmógúlanna, að hirða út úr félögunum nánast allt eigið fé, í formi arðs, skuldsetja fyrirtækin upp í rjáfur til þess að greiða arðinn og síðan veit enginn, nema Tortóla sjálfur, hvert peningarnir fóru.
Því væri það nánast glæpur, að setja fyrirtækin aftur í hendur sömu manna, með tugmilljarða króna afskriftum, án þess að fullnægjandi skýring væri komin fram, um afdrif þeirra arðgreiðslna, sem þessir menn hafa greitt sjálfum sér, á undanförnum árum.
Vonandi skýrast þessi mál í rannsóknum Sérstaks saksóknara og fyrr en þeim rannsóknum,, hugsanlegum ákærum og dómum verður lokið, má ekki undir neinum kringumstæðum semja við gömlu "eigendurna" um afskriftir skulda og endurnýjaða "eign" á fyrirtækjunum.
Bónusfeðgar, eins og aðrir útrásartaparar, verða að bíða niðurstaðna réttarrannsókna, áður en þeir verða virtir viðlits í bönkum landsins, eða í þjóðfélaginu yfirleitt.
![]() |
Arion banki segir líklega nei |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.1.2010 | 16:15
Nefndir á nefndir ofan vegna Rannsóknarnefndar
Nú fer að styttast í að Rannsóknarnefnd Alþingis opinberi skýrslu sína um aðdraganda hrunsins og hver gerði hvað hvenær og hvað hver hefði átt að gera, þegar hann gerði annaðhvort ekkert, eða eitthvað annað.
Þetta verður mikill lestur, enda hefur Alþingi nú þegar skipað sérstaka þingnefnd, til þess að lesa skýrsluna og fara yfir það, hvað þingmenn og ráðherrar gerðu, eða létu ógert, ásamt því að móta tillögur um hvort til einhverra ráðstafana þarf að grípa vegna þess, eða hvort ekki á að gera neitt og verði það niðurstaðan, verður allt vitlaust í þjóðfélaginu.
Nú hefur Jóhanna, forsætisráðherralíki, skipað nefnd hálærðra lögspekinga, til að lesa skýrsluna til þess að athuga hvort ráðuneytin gerðu tóma vitleysu í aðdraganda hrunsins, eða hvort þau gerðu alls ekki neitt, sem er líklegra, því varla hafa þau gert mikið af viti. Komist nefndin að því, að allt hafi verið með felldu í ráðuneytunum, verður auðvitað allt vitlaust í þjóðfélaginu.
Hvað svo sem stendur í þessari viðamiklu skýrslu, er alveg víst, að finni menn ekki "sína" niðurstöðu um allt stjórnkerfið, ráðherra, þingmenn, seðlabankann, fjármálaeftirlitið, bankana, útrásarvíkingana o.fl., þá verður allt vitlaust í þjóðfélaginu.
Niðurstaðan er því sú, að það sem örugglega kemur út úr birtingu skýrslunnar, verða fjörugar deilur í margar vikur, eða mánuði, um það sem stendur í skýrslunni og það sem ekki stendur í henni.
![]() |
Nefnd skipuð vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.1.2010 | 10:35
Ástandið versnar stöðugt
Atvinnuleysið eykst enn hér á landi og ekkert bólar á ráðstöfunum af hálfu hins opinbera til þess að reyna að koma atvinnulífinu á lappirnar aftur. Þvert á móti hafa stjórnvöld barist af hörku gegn allri þeirri atvinnuuppbyggingu, sem í farvatninu hefur verið, svo sem í raforkuuppbyggingu, stóriðju og gagnaverum.
Nú eru um 12.000 manns atvinnulausir og áætlað að þeim fari fjölgandi eftir því sem líður á árið. Alvarlegast er að 16,1% ungs fólks á aldrinum 16-24 ára er atvinnulaust og er þessu fólki hættast að festast í langtímaatvinnuleysi og jafnvel komast aldrei út á vinnumarkaðinn.
Sá sem elst upp í þeim veruleika að fá enga vinnu á unga aldri, á það á hættu, að ná aldrei neinum tengslum við atvinnulífið og lenda í því auma hlutskipti, að vera á bótum allt lífið. Erlendis eru að vaxa úr grasi önnur og þriðja kynslóð atvinnuleysingja, með öllum þeim félagslegu vandamálum, sem því fylgja, að ekki sé talað um jarðveg öfga- og hryðjuverka, sem þessar aðstæður skapa.
Ríkisstjórnin, sem öll hefur verið lömuð vegna Icesave, verður nú að skipta liði og hluti hennar, sérstaklega þeir ráðherrar, sem með atvinnumál fara, verða að fara að snúa sér að því að leysa úr þeim málum, sem gætu orðið til þess að fækka á atvinnuleysisskránni.
Ekki er nóg að setja alla þá sem atvinnulausir eru á einhver námskeið, svo góð sem þau eru.
Það þarf að skapa atvinnulífinu grundvöll til að starfa á, en ekki drepa allt niður með skattahækkunarbrjálæði.
![]() |
12 þúsund án atvinnu undir lok árs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2010 | 08:35
Skelfilegt ástand á Haiti
Fréttirnar sem berast af jarðskjálftanum á Haiti og afleiðingum hans, eru skelfilegar. Haiti er bláfátækt og vanþróað land, þar sem kjör og aðbúnaður almennings er ömurlegur alla jafna og hús illa byggð á okkar mælikvarða og því verða afleiðingarnar enn hörmulegri en ella.
Á eyjunni eru ekki til nein tæki eða búnaður til að fást við náttúruhamfarir af þessum toga og því verður að treysta á utanaðkomandi aðstoð á öllum sviðum, bæði með björgunarlið og tæki. Aðstæður eru allar hinar erfiðustu, þar sem svo virðist af fréttum að allar helstu byggingar séu hrundar, hvort heldur sem er stjórnsýsluhúsnæði, skólar eða sjúkrahús.
Íslendingar eru að undirbúa sína sérhæfðu rústabjörgunarsveit til ferðar og mun hún halda af stað í dag og þó í litlu sé, í hinu stóra samhengi, þá er gott til þess að vita, að hægt sé að senda slíka sveit af stað, með litlum fyrirvara.
Erfiðleikarnir sem hrjá íslenskt samfélag um þessar mundir, verða sem hjóm eitt, þegar slíkar fréttir berast utan úr heimi og þrátt fyrir erfitt ástand, verða Íslendingar að leggja sitt af mörkum, til aðstoðar við svona hryllilegar aðstæður.
Hugurinn er hjá Haitibúum núna.
![]() |
Gríðarlegt manntjón á Haítí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.1.2010 | 22:06
Kosningin snýst ekki um ríkisstjórnina
Ráðherrar og þingmenn stjórnarinnar hafa haldið því fram, að þjóðaratkvæðagreiðslan um breytingalögin um ríkisábyrgðina á skuldum Landsbankans, ráði því hvort ríkisstjórnin eða forsetinn verði að segja af sér.
Þetta er áróður, sem stjórnarliðar munu herða að mun, eftir því sem nær dregur kosningum, en kjósendur verða að vera samtaka um að láta ekki villa sér sýn og taka eingöngu ákvörðun með framtíðarhagsmunum þjóðarinnar og fella þar með lögin.
Bjarni Beneditksson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir vegna þess hvernig stjórnarliðar ætla að stilla málinu upp, að kosningin muni í víðu samhengi snúast um líf stjórnarinnar, því geti hún ekki leyst málið, verði hún að fara frá. Annar möguleiki er, að allir Íslendingar, stjórn og stjórnarandstaða, standi saman í að fella lögin úr gildi og sameinast að því loknu fyrir réttlátri niðurstöðu málsins.
Í fyrstu grein fylgiskjals, sem samninganefndin um Icesave fékk í vegarnesti, stendur þetta:
1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
Samninganefndin átti sem sagt að ganga út frá tilskipun 94/19/EBE og íslenskum lögum, sem eru í samræmi við hana, en þar er tekið skýrt fram að ekki megi vera ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðum innistæðueigenda. Sá skilningur hefur nú síðast verið staðfestur af Liepitz, Evrópuþingmanni og sérfræðingi um tilskipanir ESB um lánastofnanir.
Nýtt samningsmarkmið hlýtur að byggjast á þessum lagalega rétti og þar með eiga Íslendingar ekki að taka á sig eina einustu krónu, vegna þessa máls.
Fyrsta skrefið er stórt NEI í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
![]() |
Bjarni: Snýst um líf ríkisstjórnarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2010 | 19:21
Mikil eftirvæntin eftir skýrslunni
Mikil eftirvænting hefur byggst upp vegna væntanlegrar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og margir reikna með, að þar verði að finna hina einu sönnu og endanlegu skýringu á öllu, sem miður fór í aðdraganda hrunsins.
Jafnvel virðist fólk halda, að þar verði að finna upplýsigar um hver sé sekur og um hvað, árin fyrir hrun og hverjir fari beint í tugthúsið í framhaldi af útkomu skýrslunnar. Þó skýrslan verði allt mikil að vöxtum, er hlutverk nefndarinnar ekki að finna og dæma sökudólgana, heldur eins og Páll Hreinsson, formaður nefndarinnar, segir: "Verkefni rannsóknarnefndarinnar er fyrst og fremst að útskýra stóru heildarmyndina um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna."
Skýrslan verður örugglega full af fróðleik um þann skollaleik, sem leikinn var í bönkunum og útrásarfyrirtækjunum, sérstaklega á árunum 2005 - 2008, en jafnvíst er, að margir munu verða óánægðir og vilja sjá í skýrslunni eitthvað allt annað, en þar mun standa.
Mesta hættan er sú, að umræða um þjóðaratkvæðagreiðsluna muni drukkna í hamaganginum, sem verður við útkomu skýrslunnar.
Hugsanleg væri best að fresta útkomu hennar fram yfir kosninguna.
![]() |
Vona að skýrslan verði tilbúin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.1.2010 | 17:25
Hvað segir Jóhanna?
Þær fregnir berast úr hollenska fjármálaráðuneytinu, að engar viðræður séu í gangi við íslensk stjórnvöld um Icesaveskuldir Landsbankans, en Hollendingar bíði og sjái til, hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan muni fara.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherralíki, og önnur ráðherralíki hafa legið í símanum undanfarna daga og rætt við ráðherra í nágrannalöndunum, t.d. segist Össur, grínari, hafa talað við alla utanríkisráðherra, sem nennt hafa að svara í símann og nú mun Jóhanna vera búin að spjalla við alla forsætisráðherra norðurlandanna, auk Bretlands og Hollands.
Eins og mbl.is orðar erindið: "Jóhanna óskaði eftir skilningi landanna á því aukna svigrúmi sem Ísland þyrfti til að tryggja farsælar lyktir Icesave-málsins."
Hvað skyldi það vera nákvæmlega, sem Jóhanna kallar farsælar lyktir Icesave-málsins?
Eru það farsælar lyktir fyrir Íslendinga, eða Breta og Hollendinga?
Hingað til hefur hún talað máli þrælapískaranna við íslenskan almenning, þannig að afar ólíklegt er að hún tali máli íslenskra skattgreiðenda, þegar hún skiptir yfir í erlent tungumál.
Það væri afar fróðlegt, ef einhverjum fjölmiðlamanni dytti í hug, að spyrja um hvað sé rætt í þessum símatímum.
Afgerandi samstaða þjóðarinnar gegn lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslunni, eru skilaboð, sem óþarfi verður að þýða yfir á erlend tungumál.
Risastórt NEI í atkvæðagreiðslunni eru auðskilin skilaboð.
![]() |
Engar viðræður um nýtt Icesave-samkomulag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2010 | 15:34
Nýbygging fornminja
Það er áleitin spurning, hvenær réttlætanlegt er að eyða tugum, eða hundruðum, milljóna til endurbyggingar á gömlum húsum, sem byggð voru t.d. í miðborg Reykjavíkur, af litlum efnum fyrir jafnvel ekki meira en hundrað árum.
Réttlætingin felst oftast í því, að götumyndin verði að haldast, en ef hús, sem eitt sinn er búið að byggja á ákveðnum stað, má ekki hreyfa, eða rífa, um aldur og ævi, þá er eins gott að framsýnir menn og konur teikni og skipuleggi hús og umhverfi, þannig að þau þjóni einhverju hlutverki, nánast til eilifðar.
Álitamál er, hvort a.m.k. sum þeirra húsa, sem endurbyggð hafa verið, eða eiga að endurbyggjast, séu virkilega þess virði, að varðveitast, enda verða þetta ekki "gömul" hús, þegar búið verður að endurbyggja þau frá grunni.
Ekki síst á þetta við um hús, sem brenna til grunna, eins og húsin á gatnamótum Austurstrætis og Lækjargötu. Þar skáru þessi gömlu hús í augu á milli þeirra stórhýsa sem búið var að byggja allt í kring og greinilegt af eldra skipulagi, að reiknað hafði verið með að þessi hús hyrfu úr þessu samhengi.
Verða þau hús, sem þarna verða reist í staðinn nokkuð annað en ný timburhús, byggð eftir gamalli fyrirmynd, sem þjónaði sínum tíma, en eiga ekkert erindi í nútímanum?
![]() |
Saga í hverju horni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)