Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Fín auglýsing fyrir landið

Mikið hefur verið skammast út í þá framsýnu ákvörðun Hönnu Birnu, borgarstjóra, og Katrínar, menntamálaráðherra, að lokið skuli við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið við höfnina og hafa menn talið því allt til foráttu, að ljúka húsinu í þeirri kreppu, sem nú ríkir í landinu.  Bygging hússins skapar mikla atvinnu og það er það, sem skiptir mestu máli núna, að skapa störf á öllum sviðum, en þar er ríkisstjórnin ekkert að gera, annað en að draga lappirnar, eins og forystumenn verkalýðsfélaga eru óþreyttir að benda á, þessa dagana.

Því er afar gleðilegt, að útlendir ferðaþjóðnustusérfræðingar skuli benda Íslendingum á möguleikana, sem munu felast í húsinu, þegar það verður fullbyggt, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Þeir Paul og Patrick telji nokkuð ljóst að nýja Ráðstefnu- og tónlistarhúsið verði táknmynd Reykjavíkurborgar, á svipaðan hátt og óperuhúsið í Sydney og Eiffelturninn í París. Þeir segja að með svo sterka táknmynd verði mun auðveldara að gera sig gildandi á ráðstefnumarkaðnum. En til að ná árangri þyrfti mikið markaðs- og sölustarf að fara fram. Þeir sögðu að reynslan erlendis frá væri sú að nýjar ráðstefnumiðstöðvar fengju mikla athygli og að viðskipti í kringum þær væru jafnan mjög mikil strax frá byrjun, segir frétt SAF."

Þetta glæsilega hús á eftir að verða stolt Íslendinga, þegar fram líða stundir, á svipaðan hátt og Perlan hefur verið og á eftir að draga miklar gjaldeyristekjur inn í landið um marga áratugi.

Íslendingar treysta engu, sem frá íslendingum kemur nú um stundir, en taka öllu, sem útlendingar segja, sem stóra sannleika. 

Því ættu þessir ferðasérfræðingar á ráðstefnu Samtaka ferðaþjónustunnar að opna einhver íslensk augu með þessu áliti sínu.


mbl.is Ísland í 50. sæti á fundamarkaðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýnt að fá niðurstöðu sem fyrst

Hjón í Kópavogi hafa kært Nýja og Gamla Kaupþing til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir stórfelld fjársvik gegn almenningi.  Ekki kemur alveg greinilega fram í fréttinni hvort bönkunum er einungis stefnt vegna markaðsmisnotkunar í gjaldeyrisviðskiptum, eða hvort einnig er kært vegna þess að gengistryggð lán séu hugsanlega ólögleg.

það væri afar brýnt, að fá úr því skorið sem allra fyrst, hvort þessi gengistryggðu lán séu í raun ólögleg, því ef svo væri, yrðu þau væntanlega færð yfir í verðtryggð lán í íslenskum krónum frá útgáfudegi og allar afborganir leiðréttar í samræmi við það.  Ef þetta yrði niðurstaðan myndu margir sleppa úr þeirri snöru, sem þeir hanga í vegna gengistryggðra húsnæðis- og bílalána.

Einnig væri öll umræða um skuldastöðu heimilanna miklu raunsærri og einfaldari, ef eingöngu yrði um verðtryggð lán að ræða og allir skuldarar sætu þá við sama borð, varðandi hugsanlegar björgunaraðgerðir og niðurfellingu skulda.

Það þarf að fá niðurstöðu í þessum gengistryggingarmálum frá dómstólunum hið allra, allra, fyrsta.


mbl.is Kaupþing kært fyrir stórfelld fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnisvarði vitleysunnar

Samfylkingin er alltaf söm við sig.  Nú þegar ótrúlegur fjöldi fólks, sem vissi varla hver Helgi Hóseasson var, hvað þá að þetta fólk hefði nokkurn tíma talað við manninn, eða tekið undir eina einustu af þeim kröfum, sem hann var vanur að skammstafa skemmtilega á kröfuspjöld sín, hefur skráð sig á Facebook síðu, með áskorun á einhvern að reisa styttu af furðufuglinum, þá hleypur Samfylkingin upp til handa og fóta, eða eins og segir í fréttinni: 

"Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði leggja til á fundi ráðsins í dag að borgarráð samþykki að skipulags- og byggingarsviði verði í samráði við menningar- og ferðamálaráð falið að gera tillögu að staðsetningu minnisvarða um Helga Hóseasson á horni Langholtsvegar og Holtavegar."

Hvernig Helgi Hóseasson kom inn á svið menningar- og ferðamálaráð er ekki útskýrt, enda ekki vitað til að rútum ferðamanna hafi verið ekið sérstaklega eftir Langholtsveginum til þess að ferðamennirnir gætu skoðað og rætt við Helga.

Tilvalið væri að reistur yrði minnisvarði um furðufígúrnar í Samfylkingunni einhversstaðar, helst sem fjærst mannabyggðum.


mbl.is Borgin geri tillögu um stað fyrir minnisvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðdeildarsamir útrásarmógúlar

Nú eru að berast fréttir af því að í raun og veru hafi allir helstu útrásarmógúlarnir verið afar sparsamir menn og farið með peninga sína af mikilli ráðdeild og útsjónarsemi.  Líklega væri réttara að kalla þá útsjónarmógúla, fremur en útrásarmógúla eða glæframenn eða glæpamenn, eins og stundum hefur verið gert, m.a. á þessu bloggi.

Þetta sést best á eftirfarandi klausu úr fréttinni:  "Beinar fjármunaeignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum jukust um 27,2 milljarða króna í fyrra og námu í árslok 72,5 milljörðum króna."  Það hljóta allir að sjá, að menn sem geta safnað 45,3 milljörðum króna inn á sparisjóðsbækur sínar á einu ári, þurfa að hafa allar klær úti við að spara og nurla og velta fyrir sér hverri krónu áður en eytt er í einhvern óþarfann.

Þó margir dáist að þessari sparsemi, er sem betur ekki öll sagan sögð, því ennfremur kemur fram:  "Vert er að taka fram að ekki er um að ræða tæmandi eignir Íslendinga sem eru skráðar á þessum stöðum, heldur einungis beina eign. Óbein eign í skattaskjólsfélögum var einnig mjög algeng á meðal íslenskra kaupsýslumanna í gegnum önnur aflandsfélög, sem voru helst skráð í Hollandi eða Lúxemborg."

 Auðvitað verður að fyrirgefa þessum mönnum, að á meðan þeir voru uppteknir við eigin sparnað og ráðdeildarsemi, hrundu öll þeirra fyrirtæki og bankar, sem leiddi til mestu kreppu sem yfir Ísland hefur gengið, en vegna dugnaðar þjóðarinnar, mun hún sennilega einhverntíma vinna sig út úr henni.

Á meðan þjóðin vinnur sig út úr kreppunni, er gott til þess að vita, að til eru menn á meðal hennar, sem höfðu vit á að leggja fyrir til mögru áranna.


mbl.is Eignir Íslendinga í skattaskjólum jukust um 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háskólanám í kreppu

Nú er kreppa, ekki eingöngu á Íslandi, heldur um allan hinn vestræna heim og hefur það leitt af sér atvinnuleysi, minnkun vinnu hjá flestum og tekjulækkun hjá öllum.  Þetta verður fólk að taka á sig og reyna að skrimta þangað til sér til sólar á ný í atvinnumálum.

Nokkuð stór hópur þolir hins vegar ekki orðin "sparnaður" "niðurskurður" og "samdráttur", og hafa opinberir starfsmenn verið mest áberandi í þeim flokki fram að þessu, en nú hefur þeim bæst öflugur liðsauki, sem eru háskólastúdentar.

Hvorugur hópurinn virðist tilbúinn að takast á við erfiða tíma, eins og launafólk á almennum vinnumarkaði hefur þurft að gera og þess í stað krefjast þeir að þeirra málum verði komið fyrir, eins og ekkert hafi í skorist í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Þjóðin mun öll þurfa að taka á sig miklar byrðar til þess að komast út úr kreppunni og eru opinberir starfsmenn og stúdentar þar ekki undanskildir.


mbl.is Háskólanám forréttindi ríkra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkkvíðin ríkisstjórn

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma fram í fjölmiðlum hver af öðrum og stynja yfir því, hvað þeir vinni mikið, verkin séu erfið og hvað þeir séu áhyggjufullir yfir öllu mögulegu, en vegna þessar þreytu, erfiðleika og áhyggja hafa þeir ekki kraft til að koma með lausnir á nokkru einasta máli.

Jóhanna, Steingrímur, Árni Páll og nú síðast Ögmundur hafa gert góða grein fyrir vanmætti sínum gagnvart þeim erfiðleikum, sem þjóðin stendur frammi fyrir og virðast fyrst nú vera að uppgötva að lífið sé ekki tómur leikur, eins og það var á meðan þau voru í stjórnarandstöðu.

Ögmundur, ráðherra og formaður BSRB í leyfi, segir umbjóðendum sínum í heilbrigðiskerfinu að allt sé þetta Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að kenna og vonandi losni hann við sjóðinn sem allra fyrst, svo hann losni við að spara í heilbrigðismálunum.

Til halds og trausts, hefur ríkisstjórnin kallað til vinstrisinnaðan Nóbelsverðlaunahafa, sem tekur undir með þeim að of mikill niðurskurður geti dýpkað kreppuna.  Í viðtali í þættinum Silfri Egils sagði hann hinsvegar að AGS hefði gert miklu betri og sanngjarnari samninga við Ísland, en flest eða öll önnur lönd, þar sem hann hefði komið við sögu.

Nú er svo komið að jafnvel margir af stuðningsmönnum ríkisstjórnarflokkanna eru orðnir dauðþreyttir á þessum þreyttu ráðherrum og eru orðnir tilbúnir að veita þeim hvíld frá störfum.

Öðrum verður nánast óglatt af að hlutsta á þetta verkkvíðna fólk. 


mbl.is Með verulegar áhyggjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan í föðurlandi ESB

Nú er það svart.  Eini bjargvættur Samfylkingarinnar í efnahagsmálum Íslendinga, þ.e. ESB horfir nú á eftir hverju landinu á eftir öðru sökkva í kreppu.  Allir hafa vitað af bágu efnahagsástandi í Eystrasaltsríkjunum, Rúmeníu, Búlgaríu, Grikklandi, Ítalíu, Spáni, Portúgal, Póllandi, Ungverjalandi, Austurríki og Írlandi, svo nokkur ESB ríki séu nefnd. 

Nú eru hinsvegar að berast nýjar fréttir frá föðurlandinu sjálfu, Þýskalandi, en það á nú við að etja mestu kreppu, sem þar hefur riðið yfir í 60 ár.  Útlit er fyrir að þýska hagkerfið dragist saman um allt að 6% á þessu ári, en til samanburðar má geta þess að í sjálfu landi hrunsins, Íslandi, er gert ráð fyrir 8-9% samdrætti.

Þegar þýskaland hóstar, veikjast öll lönd ESB, því föðurlandið er stærsta og öflugasta hagkerfi ESB og í raun það sem hefur dregið sambandsvagninn.

Það kemur æ betur í ljós, að björgunarkúturinn fyrir Ísland lekur, og líklega spurning hvort hann verður orðinn alveg vindlaus, þegar Samfylkingunni tekst að véla Ísland út í ESBlaugina.


mbl.is Gert ráð fyrir 5,5-6% samdrætti í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri útgjöld - minni árangur

Útgjöld á Íslandi til menntamála eru hlutfallslega þau mestu innan OECD ríkja, eða eins og fram kemur í fréttinni;  "Á Íslandi fóru 18,1% útgjalda hins opinbera til menntamála árið 2006 en að meðaltali vörðu OECD ríkin 13,3% útgjalda hins opinbera til menntamála."

Á sama tíma og Ísland ver svo stóru hlutfalli af ríkisútgjöldunum til menntamála, kemur landið illa út í öllum samanburði við önnur lönd, þegar árangur skólastarfsins er metinn.  Þessir gífurlegu fjármunir sem í menntamálin fara, umfram önnur OECD ríki, skila sér alls ekki í betri nemendum eða betri námsárangri, reyndar er staðreyndin þveröfug.

Ef hægt væri að ná meðaltalsárangri hinna OECD ríkjanna í menntun námsmanna með sama meðaltali opinberra útgjalda, væri hægt að spara nokkra milljarða á ári í kostnaðinum, án nokkurrar skerðingar í þjónustu.

Þetta hlýtur að verða eitt helsta athugunarefnir í þeim niðurskurði ríkisútgjalda (og skattahækkana) sem framundan er.


mbl.is Ísland ver hlutfallslega mestu til menntamála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanleg afstaða bankans

Fréttin af neitun Íslandsbanka um lánafyrirgreiðslu vegna náms tveggja barna móður kallar á samúð með konunni og fordæmingu á bankanum, þ.e.a.s. við lestur fyrirsagnar og upphafs fréttarinnar.

Þegar lengra líður á lesturinn kemur í ljós að konan er í vanskilum með önnur lán í bankanum og þá vaknar skilningur á afstöðu bankans, því að sjálfsögðu er ekki hægt að ætlast til þess að hann láni meira til fólks, sem ekki getur staðið í skilum með aðrar skuldir í bankanum.  Bankar eru ekki góðgerðarstofnanir og geta ekki lánað til aðila, sem vitað er fyrirfram, að geti ekki greitt lánið til baka.

Í þessu tilfelli, sem fréttin fjallar um, væri það hlutverk félagslegra yfirvalda að koma til aðstoðar og veita konunni fjárhagsaðstoð til þess að hún geti stundað nám sitt, en á móti má kannski segja, að þá yrði erfitt að draga mörkin um hver ætti að fá slíka fjárhagsaðstoð og hver ekki.

Það er hægt að finna ótal dæmi, áþekk þessu, til að fjalla um í fjölmiðlun, ef ætlunin er að vekja samúð með viðkomandi og óvild gagnvart bönkunum.

Bankarnir eru ekki undirrót alls ills í þjóðfélaginu, a.m.k. ekki lengur.


mbl.is Móðir hrökklast frá námi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan að komast í tísku

Undanfarin ár hefur það verið lenska hér á landi, að tala niður krónuna og lýsa hana óalandi og óferjandi og auðvitað hefur tekist að grafa undan öllu trausti á gjaldmiðlinum með þessu tali og enginn, hvorki íslendingar eða útlendingar, hafa lengur nokkra trú á íslensku efnahagslífi yfirleitt.

Hér á þessu bloggi hefur verið reynt að halda uppi vörn fyrir krónuna, með litlum undirtektum, og því er það fagnaðarefni, að upp á síðkastið eru sífellt fleiri hagfræðingar, innlendir og erlendir, farnir að synda á móti niðurrifsstraumnum og þakka krónunni það sem henni ber að þakka.

Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og peningastefnunefndarmaður, flutti erindi á fundi um Ísland og AGS og í fréttinni af fundinum segir:  "Gylfi sagði að vegna íslensku krónunnar sé samfélagið hér á landi að breytast mikið um þessar mundi. Íslenskar vörur séu aftur orðnar samkeppnishæfar, ferðamenn eyði meiri hér á landi en áður. Þetta hvoru tveggja stuðli að breytingum í samfélaginu og muni verða liður í lausn á efnahagserfiðleikunum."

Þetta er sama krónan og hefur verið notuð hérlendis allan þann tíma, sem tók að byggja upp eitt ríkasta þjóðfélag veraldar, sem að vísu var rústað á nokkrum árum af glæpamönnum, en það var ekki gjaldmiðlinum að kenna.


mbl.is Krónan hefur sína kosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband