Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
22.9.2009 | 11:34
Rétt hjá Þorsteini Má
Íslenskar útgerðir hafa verið reknar á erlendum lánum, áratugum saman, bæði hafa þær tekið erlend lán til kaupa og smíði fiskiskipa, sem og afurða- og rekstrarlán. Þetta er afar eðlilegt hjá fyrirtækjum, sem afla tekna sinna að stórum hluta í erlendum gjaldeyri.
Það verður að teljast til stórtíðinda, að sjávarútvegsráðherra skuli ekki vera kunnugt um þetta, hvað þá ef hann veit ekki, að erlendir aðilar mega ekki eiga íslenskar útgerðir. Lán til útgerða og eignarhlutur í útgerð eru alls óskildir hlutir.
Þetta eru svo einfaldar staðreyndir, að málið væri ekki fréttnæmt, nema fyrir þvaðrið og vitleysuna í Jóni Bjarnasyni.
Lágmarkskrafa er, að ráðherrar hafi lágmarksþekkinu á sínum málaflokki og hlaupi ekki með eintóma þvælu í fjölmiðla.
Segir um misskilning sé að ræða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.9.2009 | 08:26
Jóni Ásgeiri haldið til Haga
Það verður ekki á bankana logið í aðdraganda hrunsins í fyrrahaust. Alltaf er að koma betur og betur í ljós, hvers konar skollaleikur var leikinn milli banka- og útrásarmógúlanna. Nýjustu fréttir eru þær að við sölu Haga út úr Baugi, var andvirðinu, með smá hringekju, varið til að láta Baug kaupa hlutabréf í sjálfum sér til þess að losa Jón Ásgeir og frú við að tapa þeim í gjaldþroti Baugs.
Í fréttinni segir: "Kaupin á Högum voru fjármögnuð með láni frá Kaupþingi. Voru 15 milljarðar af söluverðinu síðan nýttir til þess að kaupa hlutabréf í Baugi Group af eigendum félagsins, þ.e. Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og tengdum aðilum eins og Gaumi, Gaumi Holding og félögum í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, sem greiddu síðan eigin skuldir við Kaupþing í staðinn." Hugmyndaflugið hefur verið frjótt hjá þessum görpum, enda allt gert til þess að bjarga þeirra eigin skinni, auðvitað á kostnað kröfuhafa.
Við þennan gjörning eignaðist Baugur 20% í sjálfum sér, sem er algerlega ólöglegt, en svoleiðis smámunir stóðu að sjálfsögðu ekki í vegi fyrir þessum tilfæringum. Allt til að reyna að bjarga andliti og einkabuddu Jóns Ásgeirs.
Ekki er að undra að eins klókur náungi og Jón Ásgeir, skuli skipaður í stjórnir fyrrum Baugsfyrirtækja í Bretlandi, sem nú eru í greiðslustöðvun og undir handarjaðri skilanefnda gömlu bankanna.
Jón Ásgeir er vonandi á góðum launum þar, svo hann geti "endurfjármagnað" heimilisbókhald sitt.
Söluverð til kaupa bréfa af eigendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2009 | 22:49
Betra en vænta mátti
Niðurstaða könnunar Capacent Gallup er betri en vænta hefði mátt, rétt tæpu eftir hrunið, sem varð meira hérlendis en víða erlendis, vegna bankahrunsins, sem önnur lönd urðu ekki fyrir. Mesta furða er að ekki þó meira en 18% aðspurðra skuli svara því til að endar nái ekki saman og annað sem athyglisvert er, er það að 45% svarenda skuli safna sparnaði.
Miðað við þessi svör, er ástandið hérlendis ekkert í líkingu við það, sem það er t.d. í Lettlandi, samkvæmt sjónvarpsfrétt um helgina, en þar er ástandið vægast sagt skelfilegt. Vonandi mun kreppan ekki leika íslendinga svo grátt, sem þar er orðið, m.a. búið að loka mörgum sjúkrahúsum og skólum og atvinnuleysistryggingasjóður þeirra að tæmast og munu atvinnulausir þar með hætta að fá bætur.
Niðurstaða í þá veru, að 75% séu hlynntir niðurfærslu lána er varla marktæk, því hver vill ekki losna við að greiða skuldirnar sínar og að 80% vilji afnema verðtryggingu er líka skiljanleg, þegar ekki er sagt hvaða vextir kæmu þá á lánin.
Samkvæmt þessari könnun er ástandið talsvert skárra, en umræðan hefur gefið til kynna undanfarið.
Því miður er hætta á að ástandið versni til muna, hætti ríkisstjórnin ekki að flækjast fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu, eða knýji fleiri í þrot með skattaæði.
Ná ekki endum saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2009 | 17:32
Sýnishorn af því sem koma skal
Þrír sakbornignar í rannsókn Sérstaks saksóknara á "kaupum" emírsbróðurins frá Katar á 5% hlut í Kaupþingi eru byrjaðir að tefja rannsóknina, með málsskotum og athugasemdum til undir- og hæstaréttar á ýmsum þáttum rannsóknarinnar.
Þetta er velþekkt úr Bausmálinu fyrsta, þar sem lögmenn ákærðu í því máli teygðu og toguðu allar ákærur fyrir dómstólum árum saman og þvældu málin svo, að hvorki sækjendur eða dómarar skildu lengur upp eða niður í málinu, enda endaði það með frávísunum á flestum ákæruliðum, en sakfellingu í minniháttar tilfellum.
Nú er sama sagan að endurtaka sig í þessu máli, sem er aðeins einn smáangi af öllum banka- og útrásarmálum, sem í rannsókn eru og munu örugglega leiða til sakfellinga og fangelsisdóma, þegar upp verður staðið.
Enginn þarf hinsvegar að láta sér detta í hug, að dómar muni falla á næstunni. Miðað við fyrri framgang verjenda þessara skúrka, munu rannsóknir og málarekstur taka mörg ár, en vonandi mun samúð almennings ekki snúast á sveif með sakborningunum, eins og gerðist í Baugsmálinu fyrsta.
Vonandi verður þó einhverjum málum stefnt fyrir dómstólana á næstu vikum. Ekki veitir af að fara að byrja og ekki má hætta á að einhver mál fyrnist.
Skýrslur vegna rannsóknar á Q Iceland Finance ekki afhentar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2009 | 15:17
Þrælapískurinn á lofti
Talsmaður hollensku þrælapískaranna segir að hann viti til þess að fjölmiðlar hafi talað um að ríkisábyrgðin vegna Icesave skulda Landsbankans, eigi að vara til 2024, en þrælahöfðingjarnir ætli ekki taka neitt mark á því. Þetta hefur ekki bara komið fram í fjölmiðlum, þetta eru lög frá Alþingi og þau lög taka ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar hafa samþykkt fyrirvarana sem Alþingi setti við þrælasamninginn.
Talsmaður þrælapískaranna er svo forstokkaður, að hann segir: "Hollensk stjórnvöld hafa ekki sett tímamörk fyrir svör íslenskra stjórnvalda en vænta þess að fá svör eins fljótt og auðið er."
Íslensk stjórnvöld skulda þessum þrælahöldurum engin svör. Alþingi er búið að senda þeim lokasvar í þessu máli. Sætti þeir sig ekki við þau svör, eiga þeir að segja það hreinskilningslega og þá fer málið sína leið og endar væntanlega fyrir íslenskum dómstólum.
Ríkisstjórn Íslands er orðin svo blóðrisa á bakinu, eftir þessa pískara, að ætli hún að láta þá berja sig með svipunum áfram, verður hún að girða niður um sig og bjóða einu húðina, sem ekki er ennþá flögnuð af henni.
Það verður hápunktur niðurlægingar hennar og ætti að senda Svavar Gestsson með beran bossann til húsbænda sinna til flengingar, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.
Hollendingar bjartsýnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2009 | 13:40
Ólafur Ragnar kennir öðrum þjóðum
Klappstýra útrásarvíkinganna, Ólafur Ragnar (á Bessastöðum, ekki sá á Fangavaktinni) er lagstur í víking vestur um haf, til að kenna öðrum þjóðum viðskiptafræði og fleiri námsgreinar, sem hann er sjálfskipaður sérfræðingur í.
Sérstaka athygli vekur þessi klausa úr fréttinni: "Einnig hefur Ólafur Ragnar þegið boð Louise Blouin stofnunarinnar um að flytja lokaræðuna á alþjóðlegu málþingi um lærdómana sem draga má af fjármálakreppunni og hvernig hægt er að byggja upp hagsæld að nýju á traustan og öruggan hátt."
Hérlendis hefur hvergi sést eða heyrst eitt einasta orð frá Ólafi Ragnari, um það hvaða lærdóma hann hefur dregið af fjármálakreppunni, né hvernig best sé að byggja upp aftur eða efla traust eftir kreppuna, hvað þá hvernig hann ætlar að endurvinna traust á sjálfum sér hjá meira en 1% þjóðarinnar.
Ólafur Ragnar mun væntanlega koma sér í fjölmiðla hérlendis með boðskapinn, þegar hann kemur úr vesturvíkingi.
Og ekki mun vanta orðskrúðið og mærðina.
Forsetahjónin í Bandaríkjaheimsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2009 | 10:46
Öðruvísi tekið á málum hjá Svíum
Öll lönd á vesturlöndum stríða nú við afleiðingar heimskreppunnar og í flestum löndum, öðrum en Íslandi, er lögð mest áhersla á, að efla atvinnulífið og minnka atvinnuleysi. Íslenska ríkisstjórnin sker niður allar verklegar framkvæmdir til þess að þurfa ekki að spara eins mikið í rekstrinum og gerir heldur ekkert til að koma á eðlilegu ástandi á almennum vinnumarkaði.
Vinstri stjórnin á Íslandi kann engin önnur úrræði, en að hækka alla skatta í drep og finna upp nýja tekjustofna fyrir ríkið, en kafar auðvitað dýpra og dýpra ofan í vasa almennings, sem varla gengur lengur með nokkurn vasa órifinn.
Í Svíþjóð er brugðist þveröfugt við ástandinu, eða eins og segir í lok fréttarinnar: "Fyrirhugað er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að verja 32 milljörðum sænskra króna, jafnvirði um 575 milljörðum íslenskra króna, á árinu 2010 í aðgerðir til að auka atvinnu og til að örva efnahagslífið. Þar í eru 10 milljarða sænskra króna lækkun á tekjusköttum, sem fjármálaráðherrann segir að eigi að stuðla að því að fólk vilji frekar vinna meira. Árið eftir er gert ráð fyrir 24 milljörðum sænskra króna til að skapa atvinnu og örva efnahagslífið."
Mikið væri nú gott, ef örlaði á þessari hugsun hjá hinni skattaóðu íslensku ríkisstjórn.
Fjárlagafrumvarp gegn atvinnuleysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.9.2009 | 09:47
Skattahækkanir koma ekki á óvart
Nú eru boðaðar miklar skattahækkanir á næsta ári, þegar hæfilegur tími er liðinn frá síðustu hækkunum, sem skiluðu ríkissjóði tuttugu milljörðum á þessu ári og tvöfaldri þeirri upphæð á næsta ári. Næsta ár verður enn bætt í og allir skattar, sem mögulegt verður að hækka verða stórhækkaðir.
Það undarlega er, að þessar skattahækkanir skuli koma nokkrum einasta manni á óvart, því alltaf hefur verið vitað, að vinstri stjórnir eru ekki bara skattaglaðar, heldur hreinlega skattaóðar.
Strax í vor, eða þann 21. apríl s.l. var þetta blogg skrifað og þar sett fram ákveðin spá, um þá skatta, sem vinstri stjórnin myndi hækka, kæmist hún til áframhaldandi valda eftir kosningar.
Allt sem þar var spáð, hefur þegar komið fram, eða er að koma í ljós þessa dagana. Meira að segja hefur Steingrímur J. upplýst, að nú sé verið að leita leiða til að finna nýja skattstofna. Í blogginu frá 21/04 var sagt: "Fyrir utan það sem hér hefur verið talið hafa vinstri flokkar endalaust hugmyndaflug við að finna nýja "skattstofna" og munu þeir leita logandi ljósi að nýjum sköttum til að leggja á "breiðu bökin" í nafni jöfnuðar og réttlætis."
Því miður ætlar þetta allt að ganga eftir og það fyrr en menn ætla.
Miklar skattahækkanir í farvatninu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2009 | 14:53
Árni Páll segir aðeins hálfa söguna - eins og vanalega
Árni Páll, félagsmálaráðherra, sem á það eina markmið í stjórnmálum, að koma Íslandi inn í ESB, með góðu eða illu, hefur á sínum ráðherraferli ekki komið með eina einustu tillögu, hvorki til úrbóta, eða annars, á vandamálum þjóðfélagsins, heldur hefur hann komið með alls kyns yfirlýsingar, sem hann hefur svo dregið til baka og verið að hörfa úr einu víginu í annað, undan kröfum skuldsettra heimila um einhverskonar aðgerðir til aðstoðar.
Nú kemur hann með þessa yfirlýsingu: "Það kemur ekki til greina að skerða atvinnuleysisbætur og álögur á atvinnurekendur verða ekki auknar, þar sem atvinnulífið ber það ekki sagði Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra í fréttum RÚV í dag en allt útlit er fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður tæmist um mitt næsta ár. Ríkissjóður verði að koma til móts við sjóðinn með framlögum og þá vonast Árni Páll til að hægt verði að draga úr atvinnuleysi á næsta ári."
Árni Páll ætti að vita, þar sem hann er ráðherra, að ríkissjóður er galtómur og væntanlega er Árni Páll, eins og aðrir ráðherrar, á fullri ferð að móta niðurskurðartillögur uppá tugi milljarða króna ásamt því að móta hækkanir á öllum sköttum sem fyrir eru og að finna upp alls kyns nýja skatta, til þess að klóra saman fjárlög fyrir næsta ár.
Það sem er rétt hjá Árna Páli er, að atvinnulífið ber ekki auknar álögur, en hvaðan ætlar Árni Páll að fá fjármagn í ríkissjóð til þess að standa undir framlögum í Atvinnuleysistryggingasjóð?
Auðvitað svarar hann því ekki, en peningar í ríkissjóð koma ekki frá neinum öðrum en skattgreiðendum. Hann er því að boða aukaskattahækkanir í þessum tilgangi á almenning í landinu.
Árni Páll er ekki betri sögumaður en svo, að hann segir fólki einungis hálfa söguna.
Ríkið komi til móts við sjóðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.9.2009 | 13:56
Baktjaldamakk Ögmundar
Allir hljóta að muna eftir látunum, þegar fyrrverandi heilbrigðisráðherra vildi loka skurðdeildum á St. Jósefsspítala og flytja starfsemina í Reykjanesbæ, en þar eru nýlegar, en ónýttar skurðstofur. St. Jósefsspítala átti síðan að nota sem öldrunardeild, en þær skortir tilfinnanlega nú um stundir.
Gífurleg mótmæli voru uppskrúfuð af þessu tilefni og manna harðast gekk fram í gagnrýninni þáverandi óbreyttur þingmaðu og formaður BSRB, en núverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson og sagði þetta kolranga stefnu og að í allar breytingar yrði að fara með samráði við starfsfólk. Eftir að hann settist í ráðherrastól, var hans fyrsta verk, að afturkalla þessar ráðstafanir forvera síns í starfi og boðaði nýja tíma í heilbrigðisþjónustunni.
Nú stendur Ögmundur blóðugur upp fyrir axlir í niðurskurði heilbrigðiskerfisins og kemur tvískinnungur hans best fram í lokaorðum fréttarinnar: "Síðast þegar leggja átti niður starfsemi St. Jósefsspítala lofaði heilbrigðisráðherra víðtæku samráði og óskertri þjónustu. Nú virðist hins vegar vera ætlunin að leggja starfsemina niður hægt og hljótt, segir Sigurjón Vilbergsson, sérfræðingur í lyflæknisfræði og meltingarsjúkdómum við St. Jósefsspítala."
Ráðherrarnir, sem boðuðu opna og gegnsæja stjórnsýslu, skilja þennan frasa alls ekki sjálfir, enda hefur aldrei viðgengist annað eins pukur í stjórnsýslunni og hefur verið á valdatíma þessarar ríkisstjórnar.
St. Jósefsspítala lokað hægt og hljótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)