Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Stórir glæpir og smáir

Ömurlegt er að fylgjast með umræðunni um að þetta eða hitt glæpaverkið sé réttlætanlegt, af því að það sé framkvæmt sem hluti af mótmælum gegn einhverju.  Fjallað er um hústökufólk, Saving Iceland og annan skríl, sem nánast saklausa mótmælendur, í stað þess að fjalla um þetta lið á þann eina veg, sem réttlætanlegur er, þ.e. að það sé að framkvæma óafsakanleg glæpaverk.

Á blogginu og víðar er þetta lið varið með kjafti og klóm, mótmælt er að smákrimmar, sem stela tuttugu milljónum, séu teknir, vegna þess að ekki sé búið að fangelsa einhverja aðra, sem framið hafa meinta stórglæpi, sem þó eru í rannsókn, en ekki sannaðir ennþá.  Það er vitni um mikla og aukna firringu og upplausn í þjóðfélaginu, þegar farið er að réttlæta "smáglæpi" allskonar og enginn sér neitt athugavert við, að bankaupplýsingum sé lekið á netið, þrátt fyrir að slíkt hafi og muni stórskaða orðspor Íslands um allan heim og mátti það orðspor ekki við miklu fyrir.

Almenningur mótmælir niðurskurði fjárframlaga til lögreglunnar á sama tíma og hann tekur þátt í að réttlæta ýmsa glæpastarfsemi.  Til réttlætingar er alltaf bent á að enginn banka- eða útrásarmógúll hafi verið dæmdur ennþá, en þeirra verk eru erfið og flókin í rannsóknum og því ekki í raun hægt að búast við því, að ákært verði í þeim alverg á næstunni.

Eitt glæpaverk er ekki hægt að réttlæta með því að eitthvert annað slíkt, jafnvel stærra, hafi verið framið áður.


mbl.is Málningu slett á hús Hjörleifs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraði snigilsins

Opinberar stofnanir vinna að málum á hraða snigilsins og á það ekki síður við dómskerfið, en aðrar opinberar stofnanir.  Embætti Sérstaks saksóknara tók til starfa þann 1. febrúar s.l. og þurfti síðan að bíða í nokkrar vikur eftir að fyrstu mál til rannsóknar kæmu frá Fjármálaeftirlitinu.  Þá kom í ljós, að breyta þurfti lögum, vegna þess að Fjármálaeftirlitið taldi sig ekki hafa heimild til að afhenda saksóknaranum ýmsar upplýsingar, vegna bankaleyndar.

Úr því var bætt, en þá kom í ljós, að saksóknarann skorti bæði meira fé og fleiri starfsmenn og er loksins núna verið að auglýsa eftir fleiri saksóknurum til starfa við embættið.  Þannig má segja, að það hafi tekið rúma tíu mánuði, að móta og hefja raunverulega starfsemi embættis hins sérstaka saksóknara.

Því hefur alltaf verið haldið fram á þessu bloggi, að ákærur yrðu ekki gefnar út, fyrr en að nokkrum árum liðnum, vegna stærstu málanna, sem tengjast banka- og útrásarmógúlunum.  Baugsmálið fyrsta ætti að sýna vel fram á, hve erfitt er að ná sakfellingu fyrir dómi, jafnvel í málum, sem talin eru borðleggjandi, þegar sakborningar hafa allar helstu lögfræði- og endurskoðendaskrifstofur landsins í sínu liði og peningar til að skapa sakborningum samúð, eru ómældir.

Réttarkerfi annarra landa er lítið hraðvirkara, en það íslenska, þannig að ekki er að búast við neinum alvöru ákærum í þessum málum á næstunni, enda hvílir Baugsmálið fyrsta eins og mara á réttarkerfinu.

Nú verður hins vegar tæplega hægt að kaupa almenningsálitið, sama hve miklum peningum yrði varið til þess.


mbl.is Samskiptin að skýrast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaumur ekki gefinn

Það er vert að gefa því gaum, að verslanir sem Gaumur (áður Baugur) rekur og taka, í flestum tilfellum, inn vörur sínar í gegnum sama vörulager eru með svo mikinn verðmismun, að með ólíkindum er.  Reyndar er skiljanlegt að 10-11 sé dýrust, enda opin allan sólarhringinn og með takmarkað vöruúrval, en að Hagkaup skuli oftast vera með hæsta verðið og Bónus það lægsta, er athyglisverðara.  Hagkaup er farið að hafa tvær stórar verslanir opnar allan sólarhringinn, þ.e. í Skeifunni og í Garðabæ og nú er sá aukakostnaður greinilega kominn inn í vöruverðið.  Óskiljanlegt er reyndar, hvernig hægt er að halda öllum þessum verslunum opnum daga og nætur, árið um kring, því varla geta nátthrafnarnir verslað svo mikið, að allar þessar verslanir standi undir viðbótaropnuninni.

Eins og venjulega er Bónus örlítið lægri í verðkönnuninni en Krónan, enda er nánast fastur starfsmaður frá Bónusi við verðkannanir í Krónunni, a.m.k. versluninni á Bíldshöfðanum.  Síðan er verðinu í Bónusi stillt af, einni krónu lægra en í Krónunni, eða í sumum tilfellum nokkrum krónum neðar og þannig er alltaf hægt að koma best út úr svona könnunum.

Þessi verðlagningartækni gengur algerlega upp, því almenningur trúir því ennþá, að Bónus sé alltaf lægstur, vegna snilldar í innkaupum og verðlagningu.  Staðreyndin er auðvitað sú, að Bónus gefur engum neitt og Hagkaup náttúrlega ennþá síður.

Á meðan þessu er ekki gefinn gaumur, malar Gaumur gull.


mbl.is Mikill verðmunur á grænmeti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svavar skildi þetta ekki heldur.

Árni Þór Árnason, þingmaður VG, hefur stundað hausatalningar í þinginu undanfarnar vikur og komist að því að ekki er meirihlutastuðningur við ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Landsbankans og því er málinu ekki hleypt út úr nefnd og til afgreiðslu á þinginu.  Jóhanna og Steingrímur J. ætla að gangast undir þennan nauðasamning, hvað sem tautar og raular og leita nú allra leiða, til að búa málið í einhverskonar felubúning, til þess að snúa þeim fjórum VG þingmönnum, sem láta illa að stjórn.

Það blóðuga við þetta allt saman er, að fólk er látið halda, að þetta sé samningur um skuld íslensku þjóðarinnar við Breta og Hollendinga, þegar þetta er samningur milli tryggingasjóða innistæðueigenda í löndunum þrem og á þeim á ekki að vera ríkisábyrgð, samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins.  Reyndar bannar tilskipunin slík ríkisafskipti, vegna þess að ábyrgðir einstakra ríkja á bankainnistæðum, myndu skekkja alla samkeppnisstöðu fjármálastofnana innan ESB.  Af þeim ástæðum mega Bretar og Hollendingar ekki heyra minnst á dómstóla, til þess að skera úr um, hver ber ábyrgð á hverju í þessum efnum.

Árni Þór segir einnig að nágrannaþjóðir Íslendinga geri sér enga grein fyrir því, hve íþyngjandi þessi "samningur" er fyrir komandi kynslóðir á Íslandi.  Það er ekki von, að viðsemjendurnir, hvað þá aðrir, hafi gert sér þetta ljóst, því íslenska samninganefndin, undir forystu Svavars Gestssonar, gerði sér alls ekki heldur nokkra grein fyrir því, um hvað hún var að semja.

Hefði samninganefndin haft einhvern skilning á málinu, hefði hún að minnsta kosti getað reynt að útskýra það fyrir mótherjum sínum við samningaborðið.


mbl.is Gera sér ekki grein fyrir byrðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi niðurlægt af Bretum, Hollendingum og ESB

Aðspurður um væntanlega fyrirvara Alþingis við ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Lansbankans, svarar talsmaður breska fjármálaráðuneytisins einfaldlega:  „Það er búið að semja um Icesave við Ísland.“

Þetta svar einkennist af sama hroka og yfirgangi og Bretar hafa sýnt Íslendingum á öllum stigum þessa svokallaða samningaferils, sem auðvitað eru engir samningar, heldur uppgjafaskilmálar hertekinnar þjóðar í fjármálalegri styrjöld, sem Bretar, Hollendingar og norðurlöndin, undir herstjórn ESB, hafa háð gegn Íslendingum.

Uppgjafaskilmálarnir voru, af Svavari Gestssyni, að nafninu til, undirritaðir með fyrirvara um staðfestingu Alþingis, en eins og fram kemur í hrokafulla svari þess breska, var engin meining í þeim fyrirvara.  Samningurinn sem Svavar var látinn undirrita, voru endanlegir uppgjafaskilmálar, sem stríðsherrar Breta og Hollendinga settu Íslendingum og árásarþjóðirnar eru greinilega ekki til viðræðu um að breyta.

Eftir því, hve aumlega Steingrímur J., reyndi að réttlæta þessa uppgjafaskilmála í Kastljósi, er augljóst, að ríkisstjórnin var löngu búin að gefast upp og samþykkja skilmálana, þegar hún loksins mannaði sig upp í að játa sig sigraða, þann 5. júní s.l.

Fyrirvarinn um staðfestingu Alþingis á samningnum, var greinilega settur inn af hálfu stríðsþjóðanna, eingöngu til að niðurlægja Alþingi og Íslendinga.

 


mbl.is „Það er búið að semja!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er ESB stöðugleikinn?

Á Íslandi hrundi nánast allt bankakerfið s.l. haust og eftir stóð efnahagslífið í rúst og öll helstu fyrirtæki landsins ónýt, vegna þess að eigendur bankanna og aðrir fjárglæframenn voru búnir að tæma þau af eigin fé og skuldsetja þau upp fyrir rjáfur með stjarnfræðilega háum lánum, sem erlendar lánastofnanir verða nú að afskrifa.

Í kjölfar þessa hruns, er atvinnuleysi hérlendis um 9%, spáð er að landsframleiðsla dragist saman um tæp 10% á árinu og verðbólga er um 12% og skuldir þjóðarinnar eru miklar.  Þetta er mesta kreppa, sem þjóðin hefur lent í á lýðveldistímanum.  Jóhanna Sigurðardóttir og hirð hennar, lofaði þjóðinni því, að um leið og beiðni um inngöngu í ESB yrði afhent, myndi stöðugleiki nást á ný hérlendis, vegna þess að traust og tiltrú annarra þjóða yrði þá svo mikið, að öll vandamál myndu leysast, nánast af sjálfu sér.

Í ljósi loforða Jóhönnu, er með ólíkindum að lesa um hrakfarir Eystrasaltsríkjanna, en þar hefur ekki orðið neitt bankahrun, en bankastarfsemi í þeim löndum er aðallega á hendi erlendra banka, sem væntanlega hafa nú þegar, eða eiga eftir að tapa gífurlegum fjárhæðum í þessum löndum og þá mun hrikta verulega í mörgum öðrum ESB löndum.

Í fréttinni er vitnað í Seðlabanka Litháen,  en þar segir m.a:  "Spá seðlabankans verður alltaf svartari og svartari. Í maí spáði hann tæplega 16% samdrætti og í janúar hljóðaði spáin upp á 4,9% samdrátt í efnahagslífinu.  Staðan er heldur skárri hjá nágrannaríkinu Lettlandi en þar er spáð 18% samdrætti í ár. Í Eistlandi er spáð 15,3% samdrætti."

Þetta er versta efnahagskreppa, sem þessi lönd hafa fengið yfir sig, síða þau losnuðu úr klóm Sovétríkjanna sálugu.  Íbúar þessara landa trúðu sínum "Jóhönnum", sem héldu því fram að aðild að ESB myndi tryggja þeim velmegun og stöðugleika í framtíðinni, ekki síst vegna tengingar gjaldmiðils landanna við Evruna.

Hver er hjálpin af ESB aðildinni?  Hvar er ESB stöðugleikinn?  Hvernig stendur á því að þessi lönd eru í verri málum en Ísland, sem stengur utan ESB?

Samfylkingarmenn hljóta að svara þessu með haldbærum rökum.


mbl.is Staða Litháen sú versta innan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins greindir fá Svínaflensu

Nú eru 63 greindir með Svínaflensuna og aldrei í manna minnum hefur birst annað eins nákvæmnisbókhald yfir smitaða af öðrum sjúkdómum.  Einkenni þessarar flensu eru svipuð og annarra af A-stofni, sem gegnið hafa um heiminn undanfarin ár. 

Vegna þess, hve þessi flensa er lík öðrum, vekur undrun allur þessi fréttaflutningur af henni og er sá grunur farinn að gera vart við sig, að einhverjir, sem hagsmuna eiga að gæta, þ.e. seljendur lyfja, hreinsiefna og þess háttar, kyndi undir þessari daglegu fréttamiðlun.

Óttast er, að Svínaflensan stökkbreytist og geti orðið að stórkostlegu heilsufarsvandamáli næsta vetur, og því mætti ætla, að fréttirnar ættu ekki að snúast um nánast hvert nýtt tilfelli, heldur dygði að segja af og til frá því, hvort flensan væri ennþá "bara venjuleg", eða hvort hún hafi stökkbreyst og til hvaða ráða verði þá gripið.

En, eins og maðurinn sagði, þegar hann heyrði að nú væru 63 greindir með flensuna:  "Þá smitast ég aldrei, því ég hef aldrei verið talinn greindur."

 


mbl.is Svínaflensa staðfest hjá 63
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynt að lappa upp á lélegasta samning Íslandssögunnar

Fyrst eftir að Svavar Gestsson skrifaði undir samninginn um ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, hélt Steingrímur J. Sigfússon fjálgar ræður, um hve góður og hagstæður samningur þetta væri fyrir Íslendinga.  Líklega höfðu hinir slyngu samningamenn Breta og Hollendinga talið Svavari og Steingrími trú um þetta og í barnaskap sínum, héldu þeir félagar að þessir vingjarnlegu útlendingar hefðu verið að gera Íslendingum stóran og mikinn greiða, af eintómri manngæsku.

Eftir því sem frá líður og "samningurinn" verið lesinn, kemur æ betur í ljós, að þetta er versti og óhagstæðasti "samningur" sem vélaður hefur verið inn á Íslendinga, allt frá upphafi byggðar í landinu.  Meira að segja Steingrímur J. er hættur að mæra samninginn og Alþingi leitar nú allra leiða til að fella samninginn, án þess að fella hann beint í alvöru atkvæðagreiðslu.  Í Svavari heyrist ekkert meira, enda ekki víst að hann nenni að hugsa lengur um málið, eins og hann orðaði það sjálfur í Moggaviðtali.

Í fréttinni kemur fram að:  "Talið er að þeir fyrirvarar sem settir verða við samkomulagið jafngildi nýjum samningi. Þá er talið ólíklegt að viðsemjendurnir fallist á lánveitingar til Tryggingasjóðs innstæðueigenda þar sem ábyrgð ríkisins verði svo takmörkuð."

Fyrirvararnir eiga greinilega að verða til þess að Bretar og Hollendingar lýsi samninginn ógildan og semja þurfi upp á nýtt. 

Skýrara getur álit Alþingis ekki verið á þessu samningarugli Svavars og Steingríms J.

 

 


mbl.is Fyrirvarar um greiðsluþak og hve lengi verður borgað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar hvetja til lögbrota

Yfirgengilegar lánveitingar bankanna til tengdra aðila, eins og fram hefur komið nú síðast í Kaupþingslekanum og áður með lekum úr Glitni og Landsbanka, gengur algerlega fram af fólki og sýna í hverskonar óraunveruleikaheimi banka- og útrásarglæframenn lifðu.  Þeir héldu því ávallt fram, að "velgengni" þeirra væri svo mikil vegna þess hversu miklir snillingar þeir sjálfir væru.  Miðað við "svargreinar" sumra þeirra í fjölmiðlum, eru þeir sömu skoðunar ennþá, það var eingöngu lélegur seðlabanki og ótrúleg óheppni sem varð þeim að falli.

Burtséð frá firringu og spillingu banka- og annarra fjárglæframanna, þá er algerlega óþolandi, að ráðherrar og þingmenn hvetji til lögbrota í "þágu almannahagsmuna", eins og þeir hafa verið að gera síðustu daga.  Ef lög um bankaleynd, eða hver önnur lög, eru úreld eða gölluð, ber Alþingi að breyta slíkum lögum, en alls ekki eiga þingmenn og ráðherrar að hvetja fólk til þess að taka einfaldlega lögin í sínar hendur.  Almenningur á rétt á að fá allar þær upplýsingar, sem lög leyfa, enda koma þær væntanlega allar fram við réttarhöld, sem örugglega verða vegna þessara mála. 

Dómstóll götunnar á ekki að hafa síðasta orðið og sakamál á ekki að reka fyrir honum.

Að forsætisráðherra og reyndar aðrir ráðherrar, hvetji til lögbrota, eða verji þau, er engri þjóð bjóðandi.


mbl.is Þurfa breyttar reglur um bankaleyndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðugur niðurskurður

Búlgaría, eins og önnur lönd í Evrópu, ekki síst í Austur-Evrópu, berst við kreppuna og ekki hjálpar ESB aðildin og Evrutengingin í þeirri baráttu.  Fjármálaráðherra Búlgaríu, Simeon Djankov, segir að brúa þurfi fjárlagahalla, að upphæð 200 milljarða íslenskra króna og ætlar á seinni hluta þessa árs að skera niður ríkisútgjöld um helming þeirrar upphæðar og hinn helminginn á að innheimta með sköttum og tollahækkunum.

Það er athyglisvert að upphæðin sem Búlgarar virðast ætla að skera niður hjá sér, er nánast sú sama og er á fjárlögum Íslands, og Íslendingar hafa samið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, að verði jafnaður á þrem næstu árum.

Munurinn er hins vegar sá, að Búlgarar eru um þrjátíu sinnum fjölmennari en Íslendingar, eða um níu milljónir, en Búlgaría er hins vegar litlu stærri að flatarmáli en Ísland.

Ef Búlgarar kalla brúun 200 milljarða króna fjárlagahalla, blóðugan niðurskurð, hvaða orð nær þá yfir ríkissjóðshallann á Íslandi og niðurskurðinn, sem þarf til að slétta hann út?

Í þessu sambandi er eingöngu verið að ræða um rekstrarhalla ríkissjóðs, en íslenskir ráðherrar segja að það sé ekkert mál fyrir þjóðina að bæta við sig Icesave skuldum Landsbankans.

Skyldu íslensku ráðherrarnir ekki vera alveg í takti við raunveruleikann?


mbl.is Blóðugur niðurskurður í Búlgaríu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband