Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Af hverju var niðurstaðan ekki skynsamleg fyrir Íslendinga?

Jóhanna og Steingrímur J., með einstaka gjammi frá Össuri, hafa dásamað samninginn um Icesave skuldir Landsbankans, sagt að ekki væri hægt að fá betri samning og enginn vandi yrði fyrir þjóðina, að axla skuldbindinguna, vandinn væri ekki meiri en svo, að hækka þyrfti tekjuskatta einstaklinga um aðeins 20%.  Velferðarstjórninni finnst það ekki mikil skattahækkun, þó greiðendur skattanna séu ekki alveg á sama máli.

Í dag kom Lee Buchheit, bandarískur sérfræðingur í skuldaskilum ríkissjóða, fyrir Fjárlaganefnd Alþingis og samkvæmt fréttinni sagði hann m.a:  "Menn þurfi að fallast á að skuldin verði greidd þegar allar staðreyndir málsins liggi fyrir.  Þannig sé hugsanlegt að loka málinu um tíma þangað til eignir Landsbankans hafa verið gerðar upp og menn viti hvað þeir geti greitt."  Okkar menn hafa alltaf sagt, að sama hver upphæðin yrði, við myndum bara borga og brosa.

Áður hafði Buchheit reyndar sagt, að skynsamt fólk ætti að geta komist að skynsamlegri niðurstöðu.

Hvers vegna skyldu íslensku samningamennirnir og ríkisstjórnin ekki hafa komist að þannig niðurstöðu í málinu?

Því verður hver að svara fyrir sig.


mbl.is Skynsamlegt að semja að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilraunalagasetning

Við myndun ríkisstjórnarinnar setti hún sér verkefnalista, sem átti að framkvæma á fyrstu hundrað starfsdögum hennar.  Síðan hefur reglulega verið gefnar út yfirlýsingar um hvað mörg mál hafi verið afgreidd og hve mörg séu eftir.

Samkvæmt féttinni af kerfisbreytingu skattalaga, sem samþykkt var fyrr í sumar og Pétur Blöndal kallar tilraunalagasetningu, þarf nú að breyta og laga þessi lög, eins og sjá má hérna

Það er ekki nóg, að setja sér fyrir ákveðin verkefni og vinna þau svo illa, eins og í þessu tilfelli, þar sem hjólbörðum og skyldum vörum er ruglað saman við sælgæti og hjúpaður lakkrís og slíkar vörur gleymast, þegar hækka á gjöld á öðrum tegundum af lakkrís.

Nær væri, að gefa sér betri tíma til að vinna verkin, en gorta sig minna af fjölda þeirra.


mbl.is Kerfisbreyting á 15 mínútum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er skýringa þörf

Ef Victor I. Tatarintsev, sendiherra Rússa, er að segja satt og rétt frá "Rússaláninu", sem engin ástæða er til að efast um, verður að krefjast skýringa á málinu frá íslenskum stjórnvöldum.  Davíð Oddson, fyrrverandi seðlabankastjóri, skýrði frá því 7. október í fyrra, að Rússar væru tilbúnir til þess að lána Íslendingum þessar fjórar milljónir Evra, en síðan var málinu snúið á þann veg, að hann hefði hlaupið á sig með tilkynningunni og að ekki væri annað en könnunarviðræður í gangi við Rússana.

Allir vita, að Davíð Oddson og forysta Sjálfstæðisflokksins var andsnúin því, að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, en Samfylkingin barðist hins vegar með oddi og egg fyrir þeirri leið.  Nú verða ráðherrar ríkisstjórnar Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar, og þau sjálf, að sjálfsögðu, að útskýra þetta mál, eins og svo mörg önnur mál frá haustinu, sem ennþá eru sveipuð huliðshjúp.

Fullyrðing sendiherrans um að sótt hafi verið um lánið og það síðan afþakkað, þrátt fyrir að Rússar hafi verið tilbúnir til að lána, er svo grafalvarleg, að hún krefst tafarlausrar rannsóknar og útskýringar.

Þarna gæti hafa verið um þvílík mistök að ræða, að þau hafi stórskaðað málstað Íslendinga í öllum samskiptum við Breta, Hollendinga, norðulöndin, ESB, Noreg og fleiri þjóðir.  Staða Íslendinga í samningaviðræðum við aðrar þjóðir um lánamál væru örugglega í öðrum og betri farvegi nú, ef þetta lán hefði fengist á sínum tíma.

Var verið að slá á puttana á Davíð Oddssyni, eingöngu til að sverta trúverðugleika hans og Seðlabankans, í baráttunni við að losna við hann úr bankanum?

Upplýsa málið núna.  STRAX.


mbl.is „Íslendingar vildu ekki lán frá Rússum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri skilningur en hjá ríkisstjórninni

Gífurlega mikilvægur stuðningur við Íslendinga í deilunni um ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, berst nú úr óvæntri og vel þeginni átt, þ.e. frá hinu virta breska viðskiptablaði Financial Times.  Blaðið segir að Bretar og Hollendingar eigi að taka á sig aukinn hluta þeirra byrða sem uppgjafaskilmálarnir gera ráð fyrir að falli á Íslendinga, annars verði hætta á langvarandi stöðnun í íslensku efnahagslífi.

Merkilegur samanburður kemur fram í blaðinu, en þar segir:  "„Þeir 3,3 milljarðar punda, sem stjórnvöld í Reykjavík féllust á að ábyrgjast, eru lág upphæð í augum flestra þjóða en hún svarar til yfir 10 þúsund punda (2,1 milljón króna) á hvern íbúa í þessu landi út við heimskautsbaug. Hin efnahagslega byrði - um það bil helmingur af árlegri landsframleiðslu - vegna bóta til erlendra sparifjáreigenda, er svipuð og kostnaður breska ríkisins vegna samdráttarins í Bretlandi sem þó er minni en á Íslandi," segir Financial Times."

Íslenska ríkisstjórnin, með Jóhönnu og Steingrím J. í fararbroddi, hafa reynt að sannfæra þjóðina um að Íslendingar réðu vel við að greiða þessar stríðsskaðabætur, en meira að segja Breskir blaðamenn sjá, hvers konar áþján er verið að leggja á þjóðina, með þessum afarkostum.

Blaðið segir réttilega, að íslenskar eftirlitsstofnanir hafi sofið á verðinum, en segir jafnframt:  "En ensk og hollensk stjórnvöld hefðu getað séð í hendi sér, að háir vextir Icesave-reikninganna hefðu ekki verið öruggari en geta Íslendinga til að ábyrgjast innlánin." 

Það er nokkuð hart að íslensk stjórnvöld berjist með kjafti og klóm, fyrir málstað Breta og Hollendinga, en þeirra eigin viðskiptablöð taki upp hanskann fyrir íslensku þjóðina.


mbl.is FT segir að jafna eigi Icesave-byrðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú snýst þetta um andlit Steingríms J.

Ástandið á stjórnarheimilinu verður sífellt erfiðara vegna afgreiðslu ríkisábyrgðarinnar á skuldum Landsbankans, því stöðugt vex þeim fiskur um hrygg innan stjórnarflokkanna, sem berjast gegn samþykkt ábyrgðarinnar.  Nú er svo komið, að jafnvel einstaka þingmaður Samfylkingarinnar er farinn að gæjast út úr skápnum og viðra andstöðu sína við ríkisábyrgð á óbreyttan samning.

Málið snýst nú um að semja fyrirvara við ríkisábyrgðarfrumvarpið sem verði orðaðir á þann hátt, að ekki eingöngu Bretar og Hollendingar geti sætt sig við það, heldur snýst málið ekki síður um að Steingrímur J. haldi andlitinu út á við, án þess að hann og raunar Jóhanna og Össur, þurfi að játa sig algerlega sigruð í málinu.

Þessir ráðherrar og fleiri áhugamenn um inngönguna í ESB, hafa barist með kjafti og klóm fyrir þessari ríkisábyrgð og nánast talað eins og blaðafulltrúar Breta og Hollendinga í áróðri sínum fyrir ríkisábyrgðinni.

Ráðherrarnir eru farnir að undirbúa undanhaldið með mildari yfirlýsingum undanfarna daga.

Nú þarf bara að púðra aðeins á þeim andlitin og bera á þá svolítinn kinnalit og reyna þannig að láta þá líta betur út við afgreiðslu fyrirvaranna við ríkisábyrgðinni.

Þjóðin mun svo fá reikninginn fyrir snyrtingunni.


mbl.is Andstaða líka í Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Straumur stórviðskiptanna

Ef minnið svíkur ekki var verið að lýsa kröfum í þrotabú Straums fyrir nokkru og kom þá m.a. fram að fyrrverandi forstjóri hefði gert nokkur hundruð milljóna launakröfu í búið, þó enginn, sem ekki hefur verið bankatoppur, skilji slíkar launaupphæðir.

Nú birtist frétt af því að þrotabú Straums sé að kaupa eignir annars þrotabús fyrir 97 milljarða króna, þ.e danskar fasteignir Baugsfyrirtækisins Landic Property.  Í fréttinni kemur m.a. fram að: "Enn á eftir að ganga frá flutningi skulda  og skuldbindinga milli banka, samkvæmt heimildum Børsen. Á Straumur í viðræðum við þýska bankann Aareal Bank,  Heleba Trust, og danska fjármálafyrirtækið Nykredit Realkredit um skuldirnar og skuldbindingarnar."

Eina rökrétta skýringin á þessu er sú, að Landic Property hafi skuldað öllum þessum bönkum vegna fasteignanna og Straumur hafi setið uppi með stærstu skuldirnar og því snúist samningarnir við hina bankana um, hvað mikið þeir þurfi að afskrifa af sínum skuldum, áður en þær verða færðar yfir í þrotabú Straums.  Þessar eignir, eins og aðrar "eignir" útrásarmógúlanna, hafa verið fjármagnaðar með lánum, enda "keyptu" þeir aldrei neitt nema fyrir lánsfé, hvort sem um var að ræða fyrirtæki, lúxusíbúðir, skíðahallir, þotur eða snekkjur.

Með því að tæma íslensku bankana, sem nam 10-12 faldri landsframleiðslu, að viðbættum stjarnfræðilegum lánum frá helstu bönkum Evrópu, töldu þessir útrásarmógúlar að þeir sjálfir væru snjöllustu viðskiptamenn veraldar og þó víðar væri leitað.

Það versta er, að þeir trúa því ennþá eins og nýju neti.


mbl.is Illum og Magasin til Straums
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaeftirlitið að klúðra málum, aftur?

Skilanefndir gömlu bankanna hafa það hlutverk að hámarka endurheimtur lánadrottna bankanna, sem voru búnar að lána þeim óheyrilegar upphæðir, sem námu um 10-12 faldri landsframleiðslu, en margir rugla saman gömlu og nýju bönkunum og halda að skilanefndirnar hafi umsjón með bæði gömlu og nýju bönkunum.

Skilanefndirnar voru skipaðar af Fjármálaeftirlitinu, sem reikna hefði mátt með, að fylgdist með framvindu mála hjá nefndunum og setti sig inn í gang mála þar.  Því eru það merkileg vinnubrögð, að reka menn, fyrirvaralítið, úr nefndunum, þegar samningar við kröfuhafana eru á viðkvæmu lokastigi, eða eins og í fréttinni er haft eftir Páli Benediktssyni, upplýsingafulltrúa skilanefndar Landsbankans:  "Páll segir að viðræður hafi staðið yfir milli kröfuhafa og skilanefndar Landsbankans frá því í haust og aðilar hafi myndað traust og trúnað sín á milli.  „Þannig kom það spánskt fyrir sjónir að þegar farið var að sjá fyrir endann á samningunum þá væri allt í einu tveim af fjórum bara vikið frá í skilanefndinni. Mönnum sem þeir höfðu verið að semja við um þetta. Mönnum sem þeir treystu til þess og vissu að væru vel inni í málum," segir Páll." 

Fjármálaeftirlitið klúðraði eftirlitshlutverki sínu með bönkunum undanfarin ár og virðist nú vera að því komið að klúðra sínum hluta í uppgjöri gömlu bankanna.

Allt virðist ætla að verða Íslands óhamingju að vopni.


mbl.is Ársæll og Sigurjón starfa áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kylliflatur utanríkisráðherra

Sífellt hitnar meira undir ríkisstjórninni og nú þarf að halda leynifundi með Ögmundi, áður en öðrum ráðherrum er hleypt inn á ríkisstjórnarfundi, til þess að reyna til þrautar að snúa honum frá villu síns vegar í ríkisábyrgðarmálinu, að mati Jóhönnu, Össurar og Steingríms J.

Í morgun var bloggað hérna um samstöðuleysið innan og milli stjórnarflokkanna og er greinilegt, að þar var ekkert ofsagt um það stjórnleysi, sem nú ríkir í landinu.  Reyndar má segja, að ákveðin stjórnarkreppa hafi verið hér, síðan Samfylkingin fór á taugum í Janúar og hljópst undan skyldum sínum í síðustu ríkisstjórn.

Í fréttinni kemur fram að Össur hafi verið í símanum undanfarnar vikur og rætt við flesta utanríkisráðherra ESB og þar segir:  " Í þeirra samtölum hafi þetta mál komið upp og hann hafi gert þeim grein fyrir óánægjunni og því að staða málsins hafi þyngst. Íslendingar telji að þetta séu þröngir, erfiðir og ranglátir samningar, Það sé stemmningin á Alþingi Íslendinga þar sem málið sé til meðferðar. Þá hafi komið fram að ekkert hafi skort á að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi gert það sem þeir geta til að koma samningnum í gegn vegna þess að þeir trúi því að það sé það rétta þegar horft sé til framtíðarhagsmuna þjóðarinnar."

Össur var sem sagt alls ekki að tala máli þjóðarinnar fyrir þessum kollegum sínum í ESB, þvert á móti var hann að sannfæra þá um að ríkisstjórnin væri undirlægja ESB og berðist fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga og reyndi allt sem hún gæti til að fá þessa ríkisábyrgð samþykkta, þrátt fyrir andstöðu þings og þjóðar.

Getur nokkur ráðherra lagst lægra en þetta?


mbl.is Ríkisstjórn á suðupunkti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt á suðupunkti í stjórnarsamstarfinu

Eftir að Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, og fleiri þingmenn VG, greiddu atkvæði gegn því, að sótt yrði um aðild að ESB, hefur mikil spenna verið ríkjandi milli stjórnarflokkanna og Samfylkingarmenn vilja helst, að Jóni verði vikið úr ríkisstjórninni.

Eftir að aðildarumsóknin var samþykkt og Icesave tók sviðið, hefur misklíðin innan stjórnarflokkanna og milli þeirra, sífellt komið skýrar í ljós, með hverjum degingum sem líður.  Óánægjan innan VG magnast stöðugt og er nú svo komið að Steingrímur J. og Ögmundur geta ekki talast við lengur, öðruvísi en á fundum með málamiðlununarmönnum, sem reyna að brúa ágreining þeirra.

Það hlýtur að teljast mikil bjartsýni hjá Ögmundi, að ríkisstjórnin myndi geta starfað áfram í óbreyttri mynd, ef svo færi að hans atkvæði felldi ríkisábyrgðina á Alþingi.  Ríkisstjórnin yrði algerlega lömuð og óstarfhæf, enda myndi ríkisstjórn sem kæmi engu stórmáli í gegnum þingið, missa allt traust og samstarfið innan og milli stjórnarflokkanna yrði gersamlega í rúst.

Hvernig sem fer með Ögmund og ríkisábyrgðina, þá verður þessi ríkisstjórn varla langlíf úr þessu.

Að minnsta kosti munu Steingrímur J. og Ögmundur ekki verða báðir innanborðs, ef tækist að endurlífga stjórnarsamstarfið.


mbl.is Stjórnarsamstarf undir Ögmundi komið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískur samningur

Því hefur verið haldið fram af stjórnarþingmönnum, að ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, sé ekki fyrst og fremst spurning um að uppfylla lagalegar skyldur, heldur sé hann til þess gerður, að leysa pólitískan vanda milli Íslands og Evrópusambandsins, þ.e. til þess að koma í veg fyrir að málið fari fyrir dómstóla, vegna þess að tilskipun ESB um tryggingasjóði innistæðueigenda sé meingölluð.  ESB geti alls ekki hugsað sér að fá þetta mál fyrir dóm, vegna þess að bankakerfi Evrópu gæti verið í hættu og þess vegna "verði" Alþingi að samþykkja þessa ríkisábyrgð.

Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, hefur ekki látið mikið á sér bera í þessari umræðu, tók sér reyndar sumarleyfi á meðan hennar fulltrúar í Fjárlaganefnd Alþingis bögglast með málið vikum saman, til að reyna að berja í brestina á þessum ömurlegasta samningi Íslandssögunnar.

„Það er ekki öll nótt úti enn," sagði Jóhanna á Alþingi og átti þar við, að ennþá væri möguleiki á að snúa þeim þingmönnum VG, sem ennþá láta þjóðarheill sig einhverju varða.  Auðvitað er það ríkisstjórninni til háborinnar skammar, að ætla sér að treysta á stjórnarandstöðuna, til að bjarga sér fyrir horn í hverju stórmálinu á fætur öðru.

Pólitíska samninga á að gera á milli pólitískra fulltrúa, en ekki setja embættismannanefndir í slíka vinnu, enda bera þeir enga pólitíska ábyrgð.  Samningagerð milli Íslands, Hollands og Breta um þetta Icesave rugl, á að fara fram á milli æðstu ráðherra þjóðanna og að því verkefni ætti Jóhanna, meintur forsætisráðherra, að fara að snúa sér.  Með sér ætti hún auðvitað að hafa löggilta túlka og skjalaþýðendur.

"Það er kominn tími til að ríkisstjórnin fari að tala máli okkar Íslendinga við þá sem við er að semja," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins við umræðurnar í þinginu í dag.

Það eru orð að sönnu.


mbl.is Ekki öll nótt úti enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband