Alþingi niðurlægt af Bretum, Hollendingum og ESB

Aðspurður um væntanlega fyrirvara Alþingis við ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Lansbankans, svarar talsmaður breska fjármálaráðuneytisins einfaldlega:  „Það er búið að semja um Icesave við Ísland.“

Þetta svar einkennist af sama hroka og yfirgangi og Bretar hafa sýnt Íslendingum á öllum stigum þessa svokallaða samningaferils, sem auðvitað eru engir samningar, heldur uppgjafaskilmálar hertekinnar þjóðar í fjármálalegri styrjöld, sem Bretar, Hollendingar og norðurlöndin, undir herstjórn ESB, hafa háð gegn Íslendingum.

Uppgjafaskilmálarnir voru, af Svavari Gestssyni, að nafninu til, undirritaðir með fyrirvara um staðfestingu Alþingis, en eins og fram kemur í hrokafulla svari þess breska, var engin meining í þeim fyrirvara.  Samningurinn sem Svavar var látinn undirrita, voru endanlegir uppgjafaskilmálar, sem stríðsherrar Breta og Hollendinga settu Íslendingum og árásarþjóðirnar eru greinilega ekki til viðræðu um að breyta.

Eftir því, hve aumlega Steingrímur J., reyndi að réttlæta þessa uppgjafaskilmála í Kastljósi, er augljóst, að ríkisstjórnin var löngu búin að gefast upp og samþykkja skilmálana, þegar hún loksins mannaði sig upp í að játa sig sigraða, þann 5. júní s.l.

Fyrirvarinn um staðfestingu Alþingis á samningnum, var greinilega settur inn af hálfu stríðsþjóðanna, eingöngu til að niðurlægja Alþingi og Íslendinga.

 


mbl.is „Það er búið að semja!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Það er misskilningur að þetta sé hroki í Bretum og Hollendingum þeir eru einfaldlega vanir öðrum vinnubrögðum.  Þeirra þing er meira upplýst um hvað er að gerast.  Það er venja í lýðræðislöndum að meirihlutastjórnir hafi umboð þingsins til að ganga frá samningum.  Samþykki þingsins er yfirleitt formsatriði þar sem helstu nefndir þingsins hafa verið fengið öll gögn og upplýsingar á meðan samningar standa yfir, en ekki eftir að framkvæmdavaldið skrifar undir. 

Ef einhvers staðar er hroki þá er það hjá íslenska framkvæmdavaldinu gegn Alþingi.

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.8.2009 kl. 09:14

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Samniongurinn átti að vera svo mikið trúnaðarmál, að ekki einu sinni þingmenn áttu að fá að sjá hann, hvað þá að þingnefndir ættu að fá að fjalla almennilega um málið.

Steingrímur J. þurfti að leggjast á hnén til þess að fá að sýna þingi og þjóð, um hvað þessi samningur snerist og öll undirgögn þurfti að toga út með töngum og reyndar er ennþá full mappa af pappírum, sem þingmenn fá ekki einu sinni að sjá, nema með þagnareiði.

Framkvæmdavaldið á Íslandi hefur oftast notað Alþingi sem stimpilpúða og stríðsþjóðirnar hafa sjálfsagt gengið út frá því sem vísu, að hin sigraða þjóð í þessu fjármálastríði væri svo niðurbrotin, að hún léti allt yfir sig ganga.

Árásarþjóðirnar ætluðu ekki að láta nægja, að sparka í liggjandi mann, heldur átti líka að reka rýting í bak hans.

Axel Jóhann Axelsson, 7.8.2009 kl. 09:30

3 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Hver gerði árás á hvern?  Er Icesave ekki íslensk uppfinning?  Bretar og Hollendingar eru bara að verja hagsmuni sinna skattgreiðenda eins vel  og þeir geta.  Er hægt að ætlast til annars af þeim?

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.8.2009 kl. 09:53

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Nei, en það er hægt að ætlast til þess að Íslendingar verji sína hagsmuni eins vel og þeir geta. 

Það er varla hægt að leggjast lægra, en að berjast fyrir hagsmunum andstæðinganna.

Axel Jóhann Axelsson, 7.8.2009 kl. 10:49

5 identicon

Ég les fréttirnar öðru vísi en þú, Axel, því miður.

Samningaferillinn um tryggingu Icesaveinnistæðurnar í Landsbankaútibúunum er búinn. Okkar menn skrifuðu undir samning.  Talsmaður breska ráðuneytisins er því að fara með rétt mál .

Hvað var það í viðtalinu við Steingrím Sigfússon í gærkvöldið sem pirraði þig sérstaklega? Hvað meinar þú með að ríkisstjórnin sé að"berjast fyrir hagsmunum andstæðinganna? 

Agla (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 15:12

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Agla, þú verður að lesa öll orðin í fréttunum.  Samningurinn um ríkisábyrgðina var undirritaður með fyrirvara um staðfestingu Alþingis.  Samningaferillinn er því ekki búinn, fyrr en Alþingi hefur staðfest hann.  Þó samninganefndin hafi skrifað undir, skuldbindur það ekki ríkissjóð til að greiða hundruð milljarða króna, því ekki má greiða neina peninga úr ríkissjóði, nema samkvæmt lögum frá Alþingi.

Viðtalið við Steingrím J. var alls ekkert pirrandi, það var nákvæmlega eins og búast mátti við af honum.  Hann og aðrir, sem halda því fram að þetta sé góður samningur fyrir Íslendinga, eru að réttlæta málstað andstæðinganna í þessu deilumáli.  Íslenska þjóðin stofnaði ekki til þessara skulda og á því ekki að greiða hana.  Ef bankinn, sem tók við þessum innlánum, getur ekki endurgreitt þau, þá tekur Tryggingasjóður innistæðueigenda við og greiðir, eftir því sem hann hefur bolmagn til.

Tilskipun ESB hreinlega bannar ríkisábyrgð á tryggingasjóðina, vegna samkeppnismála og því er þessi samningur andstæður ESB tilskipuninni og íslenskum lögum.

Axel Jóhann Axelsson, 7.8.2009 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband