Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
22.4.2009 | 15:25
EKKIFRÉTTAMIÐLAR
Alveg er sprenghlægilegt að fylgjast með EKKIFRÉTTAMIÐLUM landsins í aðdraganda kosninga 2009. Ekki fer mikið fyrir stefnumálum framboðanna, eða ástandinu í efnahagslífi landsins og hugmyndum flokkanna til lausnar þeim vanda sem við er að stríða í landsmálunum almennt.
Nei, þetta eru ekki áhugaverð málefni, heldur snýst umræðan um hver auglýsir hvað, hver birtir myndir af hverjum og hverjir styrktu stjórnmálaflokkana og prófkjörsframbjóðendur fyrir síðustu kosningar. Þá giltu allt önnur lög í landinu um fjármál flokkanna og allir hafa alltaf vitað að þeir hafa byggt starfsemi sína á styrkjum frá fyrirtækjum og flokksfélögum. Nú er látið eins og þetta sé einhver splúnkuný uppgötvun og að þetta sýni spillingu og hagsmunatengsl við hin ólíklegustu málefni.
En af hverju að staðnæmast við árin 2005 og 2006? Er ekki nauðsynlegt að láta opna bókhald allra flokka frá stofnun lýðveldisins árið 1944 og samkeyra þá við alla atburði sem upp hafa komið síðan?
Hver hafði hag af lýðveldisstofnuninni?
Hver hafði hag af útfærslu landhelginnar, fyrst í 4 mílur, þá 12, svo 50 og loks í 200 mílur? Hvaða spillingaröfl styrktu flokkana (þ.m.t. Alþýðubandalagið) á þessum tíma?
Rannsóknarblaðamenn nútímans hljóta að geta flett ofan því.
Birta styrki Baugs til þingmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2009 | 13:42
Álið er málið
VG er alfarið á móti stóriðjuframkvæmdum og Smáflokkafylkingin hefur tafið fyrir álveri á Bakka með öllum ráðum. Í morgun birtust fréttir um útflutning frá Íslandi á síðasta ári og þar sagði:
"Útflutningur jókst um 53% frá fyrra ári á verðlagi hvors árs en innflutningur jókst um 19,9%. Hlutur sjávarafurða í útflutningi var 36,7% og iðnaðarvöru 52,1%."
Á næstu árum mun íslenska þjóðin þurfa að lifa á eigin tekjum, því langt verður þangað til erlendar lánastofnanir verða búnar að gleyma íslensku útrásarvíkingunum og tapinu vegna þeirra. Undanfarin ár hafa erlend lán streymt til landsins í alls kyns neyslu og bruðl, en nú er slíkt "lánæri" ekki í sjónmáli aftur um langa framtíð.
Ef hinsvegar er hægt að laða hingað erlenda fjárfesta, með erlent fé, til uppbyggingar atvinnutækifæra, þá eigum við að taka því fagnandi, hvort sem um álversframkvæmdir, eða annarskonar uppbyggingu, er að ræða. Nú þegar er iðnaðarvöruútflutningur orðinn miklu meiri en útflutningur sjávarafurða og værum við nú illa sett, ef við hefðum ekki álverin til að lappa upp á efnahag landsins.
Það er þjóðarhagur, að greiða sem mest, best og fljótast fyrir allri erlendri fjárfestingu.
Gegn slíku berjast vinstri grænir með oddi og egg og Smáflokkafylkingin mun láta þá teyma sig á asnaeyrunum í þessum málum.
Álið leysir vandann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2009 | 11:43
Kratar í kreppu
Systurflokkur Smáflokkafylkingarinnar í Bretlandi kynnir nýtt fjárlagafrumvarp í dag og "neyðist" til að viðurkenna að heimskreppan sé ekki Sjálfstæðisflokknum á Íslandi að kenna, eða eins og segir í fréttinni:
"Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, neyðist til að greina frá alvarlegri stöðu breska hagkerfisins þegar hann kynnir nýtt fjárlagafrumvarp í dag. Fram kemur á vef BBC að búist sé við því að greint verði frá alvarlegri skuldastöðu heimilanna og að kreppan í landinu sé sú versta á friðartímum.
Það þykir því líklegt að skattahækkanir verði boðaðar samhliða niðurskurði í ríkisútgjöldum árið 2011 þegar Darling kynnir viðreisnaráætlun sína."´
Kratar hafa stjórnað lengi í Bretlandi og því vaknar sú spurning hvort kreppan í Bretlandi sé ríkisstjórninni að kenna, eða hvort Bretar geri sér grein fyrir því, að fjárglæframenn heimsins beri þar alla ábyrgð.
Ef til vill hugsa íslenskir vinstri menn allt öðru vísi en félagar þeirra í Efnahagsbandalaginu.
Búast við hinu versta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2009 | 10:32
Óskiljanlegt
Það er óskiljanlegt að forsætisráðherra nokkurrar þjóðar skuli neita að tala við erlenda fréttamenn vegna þess eins að hann skilji ekki spurningarnar. Aðalatriðið hlýtur að vera, að hafa svör við því sem spurt er að, því auðvelt er að hafa með sér túlk í slíkum samræðum. T.d. hefur Alþjóðahús milligöngu um að útvega túlkun á fjölda tungumála.
Í fréttinni er vitnað í erlenda fjölmiðla og:
"Segir þar að bæði AP fréttastofan og arabíska sjónvarpsstöðin Al Jazeera hafi farið fram á að fá viðtöl við Jóhönnu en að beiðnum þeirra hafi verið hafnað á grundvelli annríkis forsætisráðherrans."
Í fréttum á þriðjudag kom fram að ríkisstjórnarfundur hefði fallið niður, vegna þess að ríkisstjórnin væri verkefnalaus og því skýtur skökku við að forsætisráðherrann megi ekki sjá af nokkrum mínútum í erlenda fréttamenn.
Sennilega er pólitík Smáflokkafylkingarinnar jafn óskiljanleg á erlendum tungumálum og hún er á íslensku.
Þögn Jóhönnu til umræðu í Færeyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.4.2009 | 09:18
Úrslitaatkvæði
Ótrúlega stór hluti kjósenda virðst ekki ætla að kjósa, eða skila auðu, í kosningunum á laugardaginn. Samkvæmt fréttinni kemur fram að:
"Yfir 10% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningunum 2007 segjast ætla að skila auðu í kosningunum nú og yfir 7% eru enn óákveðin, samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði 18. til 20. apríl og birti í gær."
Því verður illa trúað, að svo stór hluti sannra sjálfstæðismanna, vilji með þessu stuðla að ríkisvæðingu atvinnulífsins og dýpri og lengri kreppu, en annars hefði orðið, ef hér yrði ekki vinstri stjórn eftir kosningar.
Þessir sjálfstæðismenn mega ekki láta sárindi vegna fortíðarinnar, verða til þess að Smáflokkafylkingin og VG hrósi stórum sigri í kosningunum, með tilheyrandi ósigri þjóðarinnar.
Nú er áríðandi að hver einasti maður sem vill þjóð sinni vel, skili sér á kjörstað og kjósi Sjálfstæðisflokkinn.
Margir ætla að skila auðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2009 | 16:57
Enn veikjast heimilin
Jóhanna, ríkisverkstjóri, og vinnuflokkur hennar hefur hamrað á því í margar vikur, að helsta stefnumál þeirra sé að vinna að styrkingu krónunnar og létta þannig byrðar þeirra heimila, sem eru að sigla í gjaldþrot vegna myntkörfulána á íbúðum og bílum.
Til þess að þetta gæti náðst fram, var fyrsta verk vinnuflokksins að flæma fyrrverandi bankastjórn seðlabankans frá störfum og ráða þangað norskan förusvein og setja á fót peningastefnunefnd, og átti þessi breyting að stuðla að meiri tiltrú á bankanum og gjaldmiðlinum. Síðan þessi breyting var gerð hefur gengið fallið stöðugt, eða um nærri 20%.
Tuttugu prósent hækkun á myntkörfuláni á sex vikum, hlýtur að bera vott um algert getuleysi nýrrar stjórnar seðlabankans til þess að ná markmiðum sínum, eða þetta sýnir að virðing seðlabankans og tiltrúin á ríkisverkstjóranum er engin.
Svo virðist sem margt af því fólki sem ríkisverkstjórinn og vinnuflokkurinn er að svíkja, ætli að kjósa þessa flokka til áframhaldandi stjórnarsetu.
Þangað leitar klárinn, sem hann er kvaldastur.
Krónan veiktist um 0,9% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2009 | 13:22
Til vandamála ESB með VG
Hvað ætlar Smáflokkafylkingin að komast lengi upp með það að blekkja sjálfa sig og þjóðina með tali sínu um að innganga í ESB sé einhver björgunarhringur fyrir Ísland í efnahagskreppunni? Það er skýlaus krafa að ríkisverkstjórinn útskýri hverju það muni breyta fyrir þjóðina, bara að sækja um inngöngu í sambandið, eins og hún heldur fram, án þess að útskýra það nokkurntíma. Eina skýringin sem hún gefur, er að það muni skapa þjóðinni svo mikið traust erlendis, að krónan muni styrkjast og að þá muni erlent lánsfé aftur fara að streyma inn í landið.
Einnig þyrfti Smáflokkafylkingin að útskýra hvers vegna Írland, Bretland, Austurríki, Ungverjaland, Spánn, Lettland o.sfrv., o.sfrv. eru í miklum fjárhagslegum erfiðleikum, öll í ESB, sum með Evru og önnur með gjaldmiðilinn tengdan Evrunni.
Það er ekki viðhlýtandi skýring, sem Árni Páll Árnason, smáfylkingarmaður, setti fram nýlega, að ESB aðild tryggði ekki að þjóðir kysu fífl í ríkisstjórnir. Samkvæmt þeirri kenningu Árna Páls, er flestum ESB ríkjunum stjórnað af fíflum, því nánast öll ESB löndin eiga við mikla erfiðleika að stríða um þessar mundir. Aðildin og Evran hafa ekkert bjargað þeim, enda fyrirfinnst sjálfsagt enginn afburðastjórnmálamaður, eins og Árni Páll, í neinu þessara landa.
Það er ekki þjóðinni samboðið, að áfram skuli haldið að bjóða henni upp á svona innihaldslausan og blekkjandi málflutning.
Það er a.m.k. lágmarkskrafa að Árni Páll og aðrir Smáflokkafylkingarmenn hætti að umgangast þjóðina eins og hún sé samsett af eintómum fíflum.
Til Evrópu með VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.4.2009 | 11:37
Fólk hugsi sinn gang
Þegar fjórir dagar eru til kosninga eru vinstri flokkarnir teknir til fótanna vegna yfirlýsinga sinna um skattahækkanir og niðurskurð eftir kosningar. Það er með öllu óþolandi að þessir flokkar skuli ekki segja kjósendum hvað sé í vændum í efnahagslífi þjóðarinnar. Nú þegar VG og Smáflokkafylkingin þora ekki að upplýsa fólk um hvað sé í vændum, skal hér birtast spálisti yfir þá skatta sem þessir flokkar munu hækka, verði þeir í ríkisstjórn, suma strax á þessu ári og aðra á næsta ári og þarnæsta (verði stjórnin ekki sprungin áður):
Beinir skattar heimila:
Tekjuskattur verður hækkaður og hátekjuskatti bætt við.
Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður.
Eignaskattar verða teknir upp.
Erfðafjárskattur verður hækkaður.
Stimpilgjöld vegna íbúðarkaupa verða ekki aflögð.
Skattar á fyrirtæki og óbeinir skattar:
Tekjuskattar fyrirtækja verða hækkaðir.
Atvinnuleysistryggingagjald verður hækkað.
Tollar verða hækkaðir þar sem það er hægt (takmarkað vegna EES).
Vörugjöld verða hækkuð og þá sérstaklega á "lúxusvörum"
Þjónustugjöld hjá opinberum stofnunum verða hækkuð.
Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verða lækkaðar (sérstaklega hjá "breiðu bökunum").
Fyrir utan það sem hér hefur verið talið hafa vinstri flokkar endalaust hugmyndaflug við að finna nýja "skattstofna" og munu þeir leita logandi ljósi að nýjum sköttum til að leggja á "breiðu bökin" í nafni jöfnuðar og réttlætis.
Þrátt fyrir að allir mögulegir skattar verði hækkaðir, mun það ekki skila nema um það bil 1/3 af fjárvöntun ríkissjóðs, þannig að sparnaður í ríkiskerfinu mun þurfa að nema a.m.k. fjörutíu milljörðum á ári, en um það er einnig þagað þunnu hljóði. Sá niðurskurður verður sársaukafullur og mun koma niður á öllum sviðum ríkisrekstrarins, jafnt mennta- heilbrigðis- og velferðarkerfinu, sem öðrum sviðum.
Það er skylda allra, sem hafa hugsað sér að kjósa vinstri flokkana, eða skila auðu, að hugleiða það sem hér er sett fram, því þeir munu bera ábyrgð á þessum aðgerðum og munu ekki geta kennt neinum um, nema sjálfum sér á næstu árum, ef kosningarnar fara eins og nú lítur út fyrir.
Þennan lista ætti fólk að prenta út og merkja við, jafnóðum og spárnar rætast.
Þetta ætti þó að geymast þar sem börn og viðkvæmt fólk hefur ekki aðgang.
Fleiri munu skila auðu og strika yfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2009 | 17:31
Pólitískir vextir?
Fréttir herma að Landsbankinn sé að lækka vexti um 1-2% á óverðtryggðum skuldbindingum. Þó það sé ekki aðalatriði málsins, er enginn banki í rekstri núna, sem heitir Landsbanki, því eftir hrunið og uppskipti bankans, heitir þessi banki nú NBI hf. Væntanlega er gamli Landsbankinn ekki að lækka vexti, en þetta sýnir enn og aftur þá ónákvæmni sem fram kemur í fréttamiðlunum.
Hitt vekur meiri athygli, að í fréttinni segir:
Í ljósi sterkrar lausafjárstöðu getur bankinn tekið þetta skref en ljóst er að þessi breyting getur ekki orðið varanleg nema aðrir bankar og sparisjóðir fari að fordæmi Landsbankans og lækki sína vexti," segir í tilkynningu Landsbankans.
Hvað koma vaxtaákvarðanir annara banka lausafjárstöðu NBI hf. við? Annaðhvort getur bankinn lækkað vexti eða ekki. Það hlýtur að eiga að ríkja samkeppni á bankamarkaði og því á NBI hf. ekki að geta hótað að hækka vexti sína aftur, ef einhver annar banki tekur öðruvísi ákvarðanir. Þessa yfirlýsingu bankans hlýtur Samkeppniseftirlitið að láta til sín taka, ef ekki Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn, en kvartað hefur verið yfir því að þessir aðilar fylgist ekki nógu vel með bankakerfinu.
Í ljósi þess að dyggur liðsmaður Smáflokkafylkingarinnar er bankastjóri í NBI hf., læðist að sá grunur, að hér sé um pólitíska vaxtalækkun að ræða og talsmenn ríkisverkstjórans verði duglegir næstu daga að benda á þessi jákvæðu teikn á himni efnahagslífsins.
Ef pólitíkusar eru farnir að beita áhrifum sínum í bönkunum, er það áratuga stökk til fortíðar.
Landsbankinn lækkar vexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2009 | 14:25
Utanríkismál í hnotskurn?
Íslendingar sátu sem fastast undir ræðu Ahmadinejad Íransforseta á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttafordóma. Ekket kemur fram í fréttinni hvort íslenska sendinefndin skildi hvað maðurinn sagði, eða hvort hún hafði einhverja skoðun á málinu. Hins vegar segir í fréttinni:
"Samkvæmt upplýsingum íslenska utanríkisráðuneytisins hafa Íslendingar litið til annarra Norðurlanda í málinu og var í þessu tilfelli ákveðið að fylgja Norðmönnum, sem sátu áfram í salnum, er fulltrúar nokkurra Evrópuþjóða gengu út."
Skyldi þetta sýna íslenska utanríkisstefnu í sínu rétta ljósi? Þurfa íslenskir sendimenn utanríkisráðuneytisins ekki að gera annað en fylgjast með því hvað Norðmenn, eða aðrar norðurlandaþjóðir, gera á svona ráðstefnum? Á ráðstefnunni munu vera þrír fulltrúar Íslands, sem hlýtur að vera bráðnauðsynlegt til að fylgjast með Norðmönnunum, því ekki er víst að þeir láti okkar menn alltaf vita, þegar þeir þurfa að bregða sér frá.
Er þetta ekki endanleg sönnun fyrir því, að hægt sé að nánast leggja utanríkisráðuneytið niður og fela Norðmönnum alfarið okkar utanríkismál?
Ferðakostnaður eftirhermanna myndi a.m.k. sparast.
Íslendingar gengu ekki út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)