Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Hrikaleg staða

Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru orðnar svo miklar, samkvæmt IFS-greiningu, að allar gjaldeyristekjur þjóðarinnar næstu áratugi, munu ekki duga til að greiða þær niður.

Um þetta var fjallað á þessu bloggi fyrir tveim dögum og ásæðulaust að endurtaka það allt, en þá færslu má sjá hérna

Til að árétta þessa grafalvarlegu stöðu, er vert að vitna til niðurloka fréttarinnar: 

Í hnotskurn

» IFS-greining reiknar með að 10% líkur séu á greiðslufalli ríkissjóðs. Samkvæmt greiningarfyrirtækinu CMA eru þessar líkur þó 25%.
» Í mati IFS kom fram að þrátt fyrir að allar gjaldeyristekjur landsins yrðu notaðar í greiðslu á erlendum skuldum yrði Icesave-skuldbindingin þjóðarbúinu engu að síður of þungbær.
» Taka mun tíma að byggja upp fjölbreyttari útflutningsatvinnuvegi í umhverfi lægra raungengis en síðastliðin ár. Útflutningur dróst saman um tæplega þriðjung á fyrstu níu mánuðum ársins.

Skýrara getur þetta varla verið.

 


mbl.is Gjaldeyristekjur duga ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur tekur engum sönsum

Allir vita hvers vegna Samfylkingunni er svo mikið í mun, að ríkisábyrgðin vegna skulda Landsbankans (án allra fyrirvara) verði samþykkt, en það er auðvitað vegna þess að hann er aðgöngumiði Íslands að ESB, að vísu afar dýr miði, en Samfylkingunni er sama um það, enda verða það skattgreiðendur sem borga.

Hins vegar er afstaða og þvermóðska Steingríms J., algerlega óskiljanleg, því eftir því sem hann segir sjálfur, er hann andvígur því að gera landið að áhrifalausum útnárahreppi í stórríki Evrópu.  Hann hefur flækt sig svo rækilega í þrælsgreipar kúgaranna, að það er sama hvaða rök koma gegn samningnum, þá afskrifar hann þau öll, sem úrtölur og villukenningar.  Þá skiptir engu hvort ábendignarnar koma frá sauðsvörtum almúganum eða virtum lögfræðingum og öðrum fræðimönnum.

Steingrímur segir að komist ríkissjóður gegn um árið 2011, þá verði allir vegir færir í framhaldinu, en hvers vegna skyldi árið 2011 verða ríkissjóði erfiðara en árið 2010?  Skýringin hlýtur að vera sú, að stjórnin heyktist nánast á öllum nauðsynlegum sparnaði í ríkisútgjöldum við fjárlagagerðina fyrir árið 2010, en ætlar að skattpína almenning og fyrirtæki í drep í staðinn, en samt mun hann reka ríkissjóð með á annað hundrað milljarða króna tapi á næsta ári.

Árið 2011 verður ekki hægt að ganga lengra í skattahækkanabrjálæðinu og þá neyðist hann til að taka á honum stóra sínum í sparnaði ríkisútgjalda og þá munu kjósendur hans í röðum opinberra starfsmanna verða honum þungir í skauti.

Þó Steingrímur J. hiki ekki við að svíkja félaga sína í hverju málinu á fætur öðru, þá mun hann hika, þegar hann þarf að fara að segja þeim upp vinnunni.


mbl.is Forsendur IFS-álits svartsýnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega lélegir málafylgjumenn

Samkvæmt svörum við fyrirspurn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi um framgöngu ráðherranefnanna í sambandi við öflun stuðnings við málstað Íslands vegna þrælakúgunar Breta og Hollendinga á íslenskum skattgreiðendum, þá hefur ekki tekist að afla Íslandi stuðnings frá einu einasta ríki í veröldinni.  Að vísu sýndu Færeyingar velvild sína í garð þjóðarinnar, en það var án þess að Össur eða Jóhanna töluðu nokkuð við þá, líklega sem betur fer.

Fram kemur að Jóhanna, forsætisráðherralíki, hafi talað við tvo til þrjá aðila, en það var löngu eftir hún og félagar höfðu selt þjóðina í ánauð til bretanna og hollendinganna, svo þá var líklega ekki aftur snúið, hvort eð var.

Össur, utanríkisgrínari, segist hings vegar hafa farið víða og blaðrað mikið, eða eins og segir í fréttinni:  "Utanríkisráðherra greinir frá því að hann hafi fundað um Icesave með 21 evrópskum utanríkisráðherra, þremur þjóðhöfðingjum og þrettán sendiherrum."  Þetta eru samtals 37 fulltrúar erlendra þjóða, sem grínistinn hefur spjallað við, án nokkurs einasta árangurs.

Líklegast er, að erlendir aðilar taki ekki nokkurt einasta mark á þessu fólki, frekar en fólk gerir hérlendis.

Þar fyrir utan hafa þeir ekki heldur skilið húmor utanríkisgrínarans, enda er um slíkan einkahúmor að ræða, að maðurinn ætti ekki möguleika á að vinna fyrir sér, sem uppistandari.


mbl.is Undarlega lítill kraftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hunsa öll lagarök

Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, og Jóhanna, forsætisráðherralíki, ætla að keyra fyrirvaralausu ríkisábyrgðina í gegnum þingið fyrir áramót, hvað sem tautar og raular, þrátt fyrir athugasemdir allra helstu lögspekinga landsins og álitsgerðar lögmannsstofunnar Mishcon de Reya.  Allir þessir aðilar telja mikinn vafa leika á því hvort íslenskum skattgreiðendum beri skylda til að greiða skuldir Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.

Lárus L. Blöndal hrl. og Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, telja samþykkt Alþingis á nauðasamningnum höggva nærri fullveldi Íslands og aðrir lagaspekingar hafa sett fram alvarlegar viðvaranir á ýmsum forsendum.

Í fréttinni kemur fram að:  "Fleiri lögfræðingar telja álitið staðfesta gagnrýni á Icesave-samninginn. Ragnar Hall hrl. segir álitið staðfesta að fyrirvari sem kenndur er við Ragnar sé orðinn verulega útþynntur. Það geti skapað ríkinu hundraða milljarða kostnaðarauka. Sigurður Líndal lagaprófessor segir að sér sýnist að álitið staðfesti gagnrýni hans á samninginn."

Ráðherranefnurnar blása á öll lögfræðirök og aðrar viðvaranir og þykjast þess umkomnar að þykjast vita betur en allir helstu lagaspekingar Íslands, fyrir utan marga erlenda, sem tekið hafa undir skoðanir þeirra.

Nýjustu útreikningar Seðlabankans á skuldastöðu þjóðarbúsins virðast ekki einu sinni vekja ugg í þeirra brjósti, enda sennilegt að þau treysti á að ESB hlaupi undir bagga, þegar búið verður að svíkja þjóðina inn í bandalagið.

Viðbrögðin benda a.m.k. ekki til mikillar þjóðhollustu, nema þá við bresku og hollensku þjóðirnar.

 


mbl.is Lagalegur vafi og ágreiningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðsluþrot þjóðarbúsins

Nýjasta áætlun Seðlabankans er að skuldir þjóðarbúsins verði 5.150 milljarðar króna í árslok 2010, eða 320% af vergri landsframleiðslu.  Í fyrrahaust sagði AGS að ef skuldir þjóðarbúsins færu yfir 160% af landsframleiðslu, myndi ekkert annað blasa við en greiðsluþrot, því slíkar skuldir væru gjörsamlega óviðráðanlegar fyrir nokkra þjóð.

Nú, þegar skuldirnar eru metnar helmingi hærri, en AGS taldi óviðráðanlegar, þá breytir sjóðurinn einfaldlega mati sínu og segir að þetta sé vel viðráðanlegt.  Þar virðist vera notast við gamla íslenska ráðið:  "Þetta reddast einhvernveginn", en það hefur sýnt sig, að sú efnahagskenning er ekki alveg óbrigðul.

Gjaldeyristekjur af útfluttum sjávarafurðum á árinu 2008 voru um 100 milljarðar króna og samkvæmt skuldaáætlun Seðlabankans myndu allar gjaldeyristekjur vegna sjávarafurða í 52 ár, þurfa til að greiða niður þessar erlendu skuldir.  Jafnvel þó þessar tekjur tvöfölduðust í krónum talið, vegna gengishrunsins, tæki það sjávarútveginn samt 26 ár, að afla þess gjaldeyris, sem þarf til að greiða þessar skuldir.

Miðað við þessar forsendur mun þjóðin ekki hafa annan gjaldeyri, en þann sem álið og ferðamannaiðnaðurinn skapar, til að fjármagna allann innflutning á vöru og þjónustu, ásamt vöxtum af skuldunum.  Hver maður getur sagt sér að slíkt getur aldrei gengið upp, þó gjaldeyrishöft verði hert verulega.

Ekki er ólíklegt, að fljótlega stefni í skömmtunaseðlakerfi, eins og hér var við lýði fram á sjöunda áratug síðustu aldar.

Draumur skáldsins um Sovét-Ísland er líklega að rætast.


mbl.is Skuldum 5150 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sami þjösnagangurinn

Frumvarpið um niðurfellingu flestra fyrirvara Alþingis vegna ríkisábyrgðar á skuldum Landsbankans, var tekið út úr Fjárlaganefnd í morgun, án þess að farið væri yfir þau álit, sem nefndinni höfðu borist og fleiri aðilar áttu eftir að skila umsögnum.

Þar með er endanlega komið í ljós, að stjórnarmeirihlutinn ætlaði sér aldrei að standa við það samkomulag sem hann sjálfur gerði, um að Fjárlaganefnd færi vandlega yfir tuttugu atriði, sem stjórnarandastaðan vildi láta skoða betur og að nefndin tæki sér þann tíma til þess, sem hún þyrfti.

Enn á að beita sama þjösnaganginum og svikunum, til að knýja málið í endanlega atkvæðagreiðslu í þinginu, en við þriðju umræðu hafa þingmenn afar takmarkaðan tíma til umræðna.

Greinilegt er að svipuhöggin dynja enn á bakhluta stjórnarþingmanna og eymslin eru orðin svo óbærileg að allt skal til vinna, að geta farið að hylja bossann aftur.

Gallinn er bara sá, að íslenskum skattgreiðendum mun blæða í staðinn, næstu áratugina.


mbl.is Icesave tekið út úr nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími til að rita sögu söguritarans

Allir sem kynni hafa af Akraneskaupstað, vita að bærinn er bæði fallegur og vinalegur og íbúar skemmtilegir og viðkynningargóðir.  Einnig er saga bæjarins merkileg og hlýtur reyndar að vera miklu meiri og stórkostlegri, en margan hefði grunað, miðað við þann tíma, sem tekið hefur að draga saman helstu atriði úr sögu bæjarins.

Sagnaritari bæjarins hefur setið sveittur við skriftir í tíu ár og fengið fyrir tæpar 7,5 milljónir króna á ári, enda væntanlega unnið daga og nætur við gagnaöflun og minnispunkta.  Ekki er séð fyrir endann á verkinu ennþá, enda bætist alltaf við söguna, eftir því sem árin líða.

Þar sem þetta er orðin svona langur tími, sem farið hefur í söguritunina, hlýtur að fara að verða kominn tími til að ráða annan sagnaritara, til að skrifa söguna um skráningu Akranessögunnar.

Ekki má láta svo merka sögu glatast, en varla er við því að búast, að sagnaritari Akranesbæjar hafi tíma til að rita sína eigin ritarasögu, vegna þess hve vinnan við Akranessöguna er tímafrek.

Við ráðningu söguritara söguritarans þyrfti fyrirfram að ganga úr skugga um, að hann væri örugglega bæði læs og skrifandi. 


mbl.is 73 milljónir fyrir að rita sögu Akraness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn tryggingasjóður nema fyrir Breta og Hollendinga?

Breska lögmannsstofan Mishcon de Reya segir í áliti sínu vegna Icesave þrælasamningsins, að samningurinn banni íslenska ríkinu, að stofna nýjan innistæðutryggingasjóð innistæðueigenda í innlendum bönkum, svo lengi sem íslenskir skattgreiðendur verði ánauðugir Bretum og Hollendingum.

Það er með miklum ólíkindum, að stjórnvöld á Íslandi virðast ekki botna upp eða niður í þeim samningi, sem þau sjálf gerðu, um að selja þjóðina í þrældóm til áratuga, enda samningurinn skrifaður af húsbændunum sjálfum og á flóknu ensku lagamáli, sem ekki er auðskilið hverjum sem er, frekar en nýja íslenska skattalöggjöfin.

Ekki er hægt að líta öðruvísi á, en að niðurstaða Mishcon de Reya sé sú, að varla hefði verið hægt að skrifa undir samning, sem hefði orðið öllu óhagstæðari fyrir Íslendinga.

Það er erfitt að viðurkenna mistök og þess vegan þrjóskast stjórnarliðar enn við að falla frá stuðningi sínum við svikasamninginn, í örvæntingu sinni við að þóknast herraþjóðunum.

Svipusmellirnir hræða ennþá.

 


mbl.is Nýr sjóður samningsbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskýrt og óréttlátt

Breska lögfmannsstofan Mishcon de Reya hefur skilað áliti á Icesave málinu og við fyrstu skoðun á því sýnist stofan fara afar varlega í umsögn sinni, enda ekki haft langan tíma til að yfirfara málið.

Eftirfarandi kemur fram í álitinu, samkvæmt fréttinni:  "Mishcon de Reya segist ekki geta lagt mat á það hvað sé pólitískt viðunandi fyrir Alþingi. Hins vegar séu færð rök fyrir því í lögfræðiálitinu, að núverandi samkomulag, sem Alþingi er að fjalla um, sé hvorki skýrt né réttlátt. Þá sé það einnig skilningur lögfræðistofunnar, þótt hún hafi ekki gert sérstaka útreikninga, að samkomulagið kunni einnig að verða Íslendingum ofviða en leggja þurfi mat á greiðslugetu og áhrif afborgana á aðrar skuldbindingar Íslendinga og þarfir þjóðarinnar."

Síðan segir í álitinu, að ekki sé ólíklegt, að Bretar og Hollendingar hafi lagt mat á greiðslugetu Íslendinga, en það getur engan veginn staðist, a.m.k. hefur það mat þá verið byggt á gömlum og úteltum upplýsingum, því í vor talaði AGS um að skuldir þjóðarbúsins næmu um 140% af landsframleiðslu, en síðan hefur sú tala farið síhækkandi og er nú talin vera um 350%.

Bretar og Hollendingar geta alls ekki hafa lagt rétt mat á greiðslugetu Íslendinga, fyrst sérfræðingar Seðlabanka Íslands og AGS gátu það ekki og ekki einu sinni víst að öll kurl séu komin til grafar ennþá.

Michcon de Reya segir að lausn málsins verði að vera pólitísk, því annars væri hætta á að Bretar, Hollendingar, AGS og ESB segi Íslandi stríð á hendur, efnahagslega, og það gæti jafnvel haft verri afleiðingar en að samþykkja þrælaklafann strax.

Ekki skal það efað, að þessum aðilum væri trúandi til slíks, enda er þeim sama um álit umheimsins á slíkum hefndaraðgerðum gagnvart smáþjóð, sem ekki vildi standa og sitja eins og þeir vildu.

Samþykkt ríkisábyrgðar á skuldum Landsbankans setur drápsklyfjar á íslenska skattgreiðendur, þannig að spyrja má hvort nokkrar efnahagsþvinganir geti orðið verri.


mbl.is Icesave-samningur hvorki skýr né réttláttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðgreiðsluskattkerfið eyðilagt á svipstundu

Áratugum saman var hér við lýði skattkerfi, þar sem skattar voru greiddir eftirá og gátu komið sér vægast sagt illa, sérstaklega fyrir þá sem höfðu breytilegar tekjur milli ára, t.d. sjómenn.

Kerfið var líka orðið svo flókið, að ekki var orðið fyrir nema endurskoðendur og aðra skattasérfræðinga að skilja það.  Á árinu 1988 var tekið upp staðgreiðslukerfi skatta, sem var einfalt og auðskilið, með stighækkandi sköttum eftir því sem tekjur fólks urðu hærri.

Á næsta ári, tuttuguogtveim árum síðar, verður þessu kerfi rústað, með flóknu ógagnsæju skattkerfi, sem strax í upphafi verður svo flókið, að ekki verður nema fyrir sérfræðinga að skilja það.  Mikið mun verða um eftirálagða skatta, vegna svokallaðrar þrepaskiptingar skattsins, þannig að á árinu 2011 mun fjöldi fólks bæði þurfa að greiða staðgreiðsluskatta og eftirágreiddann skatt.

Fljótlega munu svo koma fram breytingar og "lagfæringar" á kerfinu, sem, eins og var fyrir árið 1988, mun gera skattkerfið svo vitlaust og flókið, að innan fárra ára mun þurfa að umbylta því á nýjan leik.

Betra hefði verið að hækka persónuafsláttinn og skattprósentuna í núverandi kerfi og halda einfaldleikanum sem í því er.

Núverandi kerfi er einfalt, skilvirkt og skiljanlegt.  Væntanlegt kerfi er flókið, óskilvirkt og óskiljanlegt.

Ruglið er kynnt sem réttlátt og tekjujafnandi kerfi í anda "norrænna velferðarstjórna".

Skyldi íslenska "velferðarstjórnin" vita hve mikið er um svarta vinnu á hinum norðurlöndunum?


mbl.is „Ömurlegt skattkerfi sem enginn skilur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband