Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Leikskólabörn til ráðgjafar

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, er einhver aumkunarverðasti ráðherra þeirrar vesælu ríkisstjórnar sem nú ríkir á Íslandi, sem þó ætti allt betra skilið, en þvílíka niðurrifs- og atvinnulífsskemmandi stjórn.

Nú hefur ráðherrann gefið út að hún hefði ákveðið að stofna umhverfisráð ungmenna, sem ætti að vera henni til ráðgjafar.  Ekki er að efa að unga fólkið hefur miklu meiri og betri skilning á þessum málum og samhengi þeirra við atvinnulífið, en sú sem formlega gegnir embættinu.

Samráðshópur leikskólabarna myndi örugglega koma með betri ráð, en þessi ráðherra getur upphugsað sjálfur.

Umhverfisráðherranum ætti að minnsta kosti að leita ráða alls staðar annarsstaðar, en hjá sínum nánustu.

Ráð úr þeirri áttinni hafa ekki reynst þjóðinni til mikils gagns.  Þvert á móti til ógurlegs tjóns.


mbl.is Ungmenni til ráðgjafar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fokið í flest skjól ríkisstjórnarinnar - ef ekki öll

Fokið er í flest skjól ríkisstjórnarinnar, þegar stærstu verkalýðsfélögin eru farin að álykta gegn "norrænu velferðarstjórninni", sem þykist bera hag hinna verst settu sérstaklega fyrir brjósti, en allar gerðir hennar eru hins vegar til þess fallnar, að auka á þjáningu, atvinnuleysi og vonbrigði þjóðarinnar.

Ástandið er orðið verulega alvarlegt, þegar Starfsgreinasambandið, undir forystu Samfylkingarmanna, sendir frá sér harðorða ályktun þar sem ríkisstjórnin er gagnrýnd fyrir að berjast gegn atvinnuuppbyggingu og eyðileggingu stöðugleikasáttmálans.

Í ályktuninni segir m.a:  "Þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda gengur erfiðlega að hrinda í framkvæmd mörgum af þeim brýnu málum sem aðilar sáttmálans sannmæltust um. Vextir eru enn háir, verðbólga mikil, gengið veikt og ennþá bólar lítið á þeim fjárfestingum sem tryggja áttu nýja sókn í atvinnumálum. Allt þetta kann að leiða til þess að kjarasamningar verði í uppnámi um næstu mánaðarmót."

Þetta eru stór orð, en ennþá er hnykkt á gagnrýninni í ályktuninni:  "Mikilvægt er að ríkisstjórnin sýni að henni sé alvara í því að efla hér atvinnu með því að stuðla að fjárfestingum í atvinnulífinu. Það er ekki ásættanlegt að ráðherrar í ríkisstjórninni vinni gegn stöðugleikasáttmálanum og leggi steina í götu stórframkvæmda."


Þegar "stuðningsmenn" ríkisstjórnarinnar álykta á þennan veg, er stjórnin komin á algeran berangur og hefur ekki lengur í nein skjól að leita.


mbl.is Stefnir í skelfilegri stöðu segir Starfsgreinasambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg vinnubrögð ríkisstjórnar

Eitthverjar furðulegustu athafnir nokkurrar ríkisstjórnar veraldarinnar, og þó víðar væri leitað, hafa verið að sjá dagsins ljós undanfarna daga hér á Íslandi og er þó ekkert nauðsynlegra en styrk og markviss stjórn hérlendis, þessa dagana.

Fyrst byrjar svokallaður forsætisráðherra á því að leggja lokavopnin upp í hendurnar á Bretum og Hollendingum í Icesave deilunni, með því að senda þeim, í gegnum íslenska fjölmiðla, þau boð, að ef Íslendingar gangi ekki að ýtrustu kröfum þrælahöfðingjanna, þá muni allt fara í kalda kol á Íslandi og ný kreppa skella á landinu ofaní þá kreppu sem fyrir er og þá verði ólíft í landinu.  Betra vopn gátu kvalararnir ekki fengið á þessu silfurfati ríkisstjórnarinnar.

Næst sendir þetta sama ráðherralíki tölvupóst til Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs og spyr hvort til greina komi að norsk stjórnvöld bjóði Íslandi allt að 2000 milljarða króna lán, án skilyrða um lausn Icesave deilunnar.  Það hafði hvergi komið fram, að Norðmenn vildu bjóða Íslendingum slíkt lán, en hinsvegar hafði komið fram, frá ákveðnum stjórnmálamönnum í Noregi, að beiðni frá Íslendingum um lán, yrði vel tekið í Noregi og það myndi tekið til afgreiðslu með opnum huga.  Milliríkjasamskipti um slíkar lánabeiðnir fara ekki fram með tölvupóstum, heldur eru send formleg erindi, sem síðan eru rædd á formlegan hátt og oftar en ekki taka slíkar umræður langan tíma.

Nú er Orkuveita Reykjavíkur að bíða eftir afgreiðslu Fjárfestingabanka Evrópu á lánsumsókn OR, að upphæð 30 milljarða króna til orkuvinnslu fyrir álver Norðuráls á Reykjanesi.  Þá skellir umhverfisráðherra sér fram á völlinn og lýsir því yfir, að OR sé svo illa statt fyrirtæki, að það geti ekki staðið við greiðslur af nýjum lántökum.  Þessu lýsir hún yfir, þrátt fyrir að orkusölusamningur liggi fyrir um þessa viðbótarorku, sem auðvitað mun greiða lánið upp á tiltölulega skömmum tíma.  Ofan á þetta lýsir fjármálajarðfræðingurinn því yfir, að hann ætli að skattleggja alla stóriðju burt úr landinu.  Hvorug þessara yfirlýsinga á þessum tíma hjálpar til við atvinnuuppbyggingu í landinu, heldur þvert á móti stuðlar að því, að stöðva allt slíkt og auka þar með atvinnuleysið og dýpka kreppuna.

Engin þjóð á skilið að sitja uppi með svona ríkisstjórn, enda nýtur hún einskis stuðnings lengur.


mbl.is Hærra lán ekki í boði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt hafast Bretar að í sínu eigin landi

Mikil áróðursherferð er nú rekin fyrir málstað Breta og gegn Íslendingum vegna bankahrunsins, á Íslandi er harðasti áróðurinn rekinn úr íslenska stjórnarráðinu, svo ótrúlegt sem það er, en í Bretlandi eru aðallega notuð blöðin Financial Times og Guardian.

Nýjasta áróðursgreinin er í Guardian, þar sem spilað er upp á samúð fólks með þeim sem vegna gróðavonar lögðu allt undir og lögðu sparifé sitt inn á  Kaupthing Edge reikninga hjá Kaupthing Singer & Friedlander bankanum í Englandi.

Þetta var alls ekki útibú frá íslenskum banka, heldur gamall og gróinn breskur banki, sem  að öllu leyti laut breskum lögum og breska fjármálaeftirlitinu.  Bretar yfirtóku bankann með beitingu hryðjuverkalaga og átti sú aðgerð stóran þátt í falli Kaupþings á Íslandi.  Þess vegna er allt uppgjör bankans á ábyrgð Breta og kemur Íslendingum ekki við á nokkurn annan hátt, en þann, að Bretar yrðu vafalaust dæmdir skaðabótaskyldir vegna þess tjóns sem þeir ollu, ef látið yrði á það reyna fyrir dómi.

Bretar, ásamt Hollendingum, ESB og AGS, heyja nú efnahagslega styrjöld gegn Íslendingum vegna Icesave reikninga Landsbankans og ætla sér að hneppa íslensku þjóðina í áratuga þrældóm til greiðslu þeirrar skuldar Landsbankans.

Hvers vegna í ósköpunum lætur ekki breska stjórnin reikninginn vegna Kaupthing Edge innistæðnanna falla á breska skattgreiðendur?


mbl.is Töpuðu öllu hjá Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin dregur lappirnar, enda hölt á báðum

Financial Times fullyrðir að það sé útbreidd skoðun erlendra embættis- og bankamanna, að stjórnvöld á Íslandi dragi lappirnar í öllum málum, sem snerta uppgjör og rannsókn banka- og útrásarglæfra og segir t.d:  "....að íslensk stjórnvöld séu að draga lappirnar og hafi hvorki vilja né getu til að takast á við þau vandamál sem verði að leysa og fari vaxandi dag frá degi. "

Þetta er hárrétt skilgreining á ríkisstjórninni, enda gera illdeilur innan og milli stjórnarflokkanna það að verkum, að stjórnin er hölt á báðum fótum og dregst ekki áfram mikið lengur. 

Einnig undrast blaðið hægaganginn í glæparannsóknunum, enda segið það:  „Það er ljóst að hægt hefur gengið að leggja fram ákærur á hendur útrásarvíkingunum: á sama tíma og Bernard Madoff hefur verið afhjúpaður, dæmdur og fangelsaður fyrir stórfelld fjársvik hefur engin ákæra verið lögð fram af hálfu íslenska ríkissaksóknarans," segir blaðamaðurinn Robert Jackson í greininni."  Blaðamaðurinn er greinilega jafn óþolinmóður og Íslendingar sjálfir, en hann þekkir líklega ekki til Baugsmálsins fyrsta og stuðning meginþorra almennings við sakbornigna í því og hvaða áhrif það hafði til lömunar á dómskerfi landsins, enda logaði samfélagið árum saman vegna móðursýkinnar, sem Baugsliðinu tókst að æsa upp í tengslum við rannsókn þess.

Hins vegar er það mikill misskilningur hjá blaðinu, að einungis tvær leiðir sér færar fyrir Ísland í framtíðinni, þ.e. annaðhvort ESB eða einangrun landsins til framtíðar.

Heimurinn er miklu stærri en ESB.  Innan ESB búa innan við 10% mannkyns, þannig að allir vegir eru færir í samskiptum við hin nítíu prósentin.   Þau hafa líka miklu fleira að bjóða en ESB.


mbl.is Telja íslensk stjórnvöld draga lappirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málaferli best úr því sem komið er

Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, sem á að telja kjark og þor í þjóðina á erfiðleikatímum, hefur nú sent frá sér tilkynningu í þveröfugum tilgangi, þ.e. að reyna að koma þjóðinni í skilning um, að mótþrói hennar við Icesave rugli ríkisstjórnarinnar, verði nánast hennar banabiti.

Lýsingin er svohljóðandi:  "Töf á afnámi gjaldeyrishafta, lækkun á lánshæfismati ríkins niður í flokk ótryggra fjárfestinga, líkur á vaxtahækkun, þrýstingur á gengislækkun og þar með aukning verðbólgu ásamt töfum á endurreisn atvinnulífs með vaxandi atvinnuleysi, eru meðal líklegra afleiðinga þess að frekari tafir verði á endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins."

Í fljótu bragði virðist þetta vera lýsing á því ástandi, sem verið hefur hérlendis, frá því að ríkisstjórnin tók við völdum, en verstu lýsingarnar þarna, eru einmitt á því ástandi sem hér hefur ríkt undanfarna mánuði.  Áróðurinn er reyndar til að hræða fólk, með því sem gæti gerst í framtíðinni.

Síðan er enn hnykkt á áróðrinum um að þjóðin sé í ábyrgð fyrir Icesave skuldum Landsbankans og sagt m.a:  „Útilokað er að sjóðurinn geti staðið við lagalegar skuldbindingar sínar verði enn ósamið um Icesave þegar fresturinn rennur út. Sjóðurinn getur því átt von á málssókn á hendur sér og sömuleiðis ríkið fyrir að mismuna innistæðueigendum eftir staðsetningu."

Úr því sem komið er, eru málaferli besti kosturinn í stöðunni, því tilskipun ESB og íslensk lög kveða á um að ríkisábyrgð skuli ekki vera á innistæðutryggingasjóðum.  Því máli myndu Bretar og Hollendingar vafalaust tapa fyrir íslenskum dómstólum og það vita þeir sjálfir fullvel.

Varðandi það, að óheimilt sé að mismuna fólki eftir staðsetningu, má benda á að íslenska ríkinu er algerlega heimilt að bæta sínum þegnum tjón, sem þeir verða fyrir, hvers eðlis sem það er, án þess að allur heimurinn geti gert kröfur um sambærilegar bætur frá íslenskum skattgreiðendum.

Hræðsluáróðurinn er að verða nokkuð magnaður og eingöngu til að undirbúa endanlega uppgjöf ríkisstjórnarinnar fyrir gaddasvipum Breta og Hollendinga.

 


mbl.is Alvarlegar afleiðingar af frekari töfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindabrot að fá ekki að vera borgarfulltrúi

Þingmenn Hreyfingarinnar og einn Framsóknarmaður, sem líklega hefur óskað nafnleyndar, hafa lagt fram frumvarp á Alþingi, þar sem lagt er til gífurleg fjölgun fulltrúa í sveitarstjórnum og þar á meðal að fulltrúum í borgarstjórn Reykjavíkur verði fjölgað í 61.

Telja þingmennirnir að það sé mannréttindaskerðing, að nánast annar hver maður í borginni geti ekki orðið borgarfulltrúi, eða eins og segir í rökstuðningi:  "„Hér er um að ræða lýðræðisskerðingu sem stríðir gegn anda Evrópusáttmálans, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og Ríó-sáttmálans um Staðardagskrá 21 sem er heildaráætlun ríkja Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samfélaga," segir í frumvarpinu."

Þó varla sé hægt að trúa því, þá virðist þetta frumvarp vera flutt í alvöru og það á Alþingi, sem hægt væri að reikna með, að þyrfti að fjalla um alvarleg og aðkallandi mál, á þessum síðustu og verstu tímum.

Auðvitað er ekki hægt að mótmæla því, að sjálfbær þróun Reykjavíkur er háð því að mannréttindi allra séu virt til setu í borgarstjórn, ekki síst í anda Staðardagskrár 21.


mbl.is Vilja að borgarfulltrúar verði 61
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum erlend lán - fáum þau ekki - getum ekki endurgreitt

Allir helstu hagfræðingar þjóðarinnar telja að það sem nauðsynlegast sé fyrir þjóðina nú um stundir sé að komast í þá stöðu, að fá óheftan aðgang að erlendu lánsfé.  Án þess verði engin uppbygging á landinu á komandi árum. 

Heimilin, fyrirtækin og þjóðarbúið í heild sinni er að drukkna núna vegna erlendra lána, sem tekin hafa verið á undanförnum árum og getan til að endurgreiða þau er nánast engin.  Á næsta ári er áætlað að ríkissjóður einn þurfi að greiða 100 milljarða í vexti af lánum sínum, en það jafngildir öllum útflutningstekjum af fiskveiðum Íslendinga árlega.

Allur vöruskiptajöfnuður út- og innflutnings næstu áratuga mun ekki duga til að greiða afborganir og vexti af erlendum skuldum þjóðarbúsins, þannig að ekki þarf að reikna með að íslendingar geti sótt í mikil erlend lán á næstunni.  Reikningsdæmið er ekki flóknara en heimilisbókhaldið hjá hverri fjölskyldu, fjölskyldan getur ekki steypt sér í meiri skuldir, en ævitekjurnar duga til að greiða.

Það má þakka fyrir, ef hægt verður að fá ný erlend lán á næstu árum, til þess að framlengja eldri lánum og því er nánast tómt mál að tala um, að uppbgging næstu ára verði að byggjast á erlendri lántöku.

Þjóðin verður að sætta sig við, að í nánustu framtíð verður ekkert fjárfest, nema fyrir eigið aflafé, a.m.k. ekki með miklum erlendum lántökum.


mbl.is Þurfum aðgang að lánsfé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnlegir fundir um gagnsemi funda

Nú er komið í ljós, að allir fundirnir tuttugu, sem Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, átti með hinum og þessum í Istanbul, voru afar gagnlegir og varð niðurstaða þeirra allra, að áfram skyldi halda gagnlega fundi um hin ýmsu gagnlegu mál, sem að gagni mættu koma og vörðuðu gagnlega vináttu íslensku þjóðarinnar við þrælahöfðingja ESB landanna og handrukkara þeirra, AGS.

Um þetta hefur verið bloggað áður hérna og nú hefur Indriði H., þrælasölumaður, staðfest að niðurstaða funda þeirra Steingríms J., hafi enginn verið, annar en að gagnlegar umræður þyrftu að halda áfram um Icesave og fleiri gagnlega mál. 

Þeir félagar, Steingrímur J. og Indriði H. hafa mánuðum saman reynt að sannfæra íslensku þjóðina um að Icesave samningurinn væri afar hagstæður fyrir Íslendinga og besti samningur, sem hægt væri að hugsa sér, því þrældómurinn samkvæmt samningnum ætti ekki að vara nema í fimmtán ár.  Hvernig akkúrat þessir sömu menn áttu síðan að sannfæra fundarmenn hinna tuttugu funda, um að Icesave samningurinn væri alveg ómögulegur og að Íslendingar vildu ekki undirgangast þrældóminn, er hulin ráðgáta, en sjálfsagt telur ríkisstjórnin þessa menn vera gagnlega sendiboða.

Samkvæmt viðtali við Indriða H., varð niðurstaðan enda ekki mikil, eða eins og þar segir:  "Helst er á Indriða að skilja að árangur ferðarinnar liggi í því að viðmælendur ráðherrans þar úti hafi öðlast betri skilning á afstöðu Íslendinga og þróun efnahagsmálanna hér á landi og mikilvægi þess að áætlun AGS haldi áfram."

Hefði ekki verið gagnlegt, að koma þessum sjónarmiðum að við sjálfa samningagerðina?


mbl.is Icesave-mál hafa ekki haggast neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í greipum vinstrimanna

"Við erum í höndum visnstrimanna og við vitum öll hvað þeir vilja gera við landið.  Við vitum að 72% fjölmiðlanna eru til vinstri.  Þjóðmálaþættir og aðrir þættir í ríkissjónvarpi sem almenningur borgar fyrir eru til vinstri."

Þegar þessi orð eru lesin, er fyrsta hugsunin sú, að einhver Íslendingur sé að lýsa ástandinu hérlendis, en svo er ekki, heldur er það forsætisráðherra Ítalíu sem talar.   Fjölmiðlalandslagið er greinilega líkt með löndunum tveim, þó annað sé í suðuhluta Evrópu, en hitt lengst í norðri.

Íslendingurinn hefði reyndar bætt því við, að allt atvinnulífið væri að komast í hendur vinstri manna og þeir gerðu allt sem í þeirra valdi stæði, til að drepa niður það litla sem eftir er af lífsneista þeirra fyrirtækja, sem ekki eru nú þegar komin í þeirra umsjá.

Eina ríkisstjórnin á vesturhveli jarðar sem virðist viljandi vera að lengja kreppuna og dýpka hana, situr á Íslandi, enda athlægi um víða veröld. 

 


mbl.is Í greipum vinstrimanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband