Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Bókfært verð - söluverð - skuldir

Allar fréttir, sem berast frá útrásargörkum eru misvísandi, segja lítið sem ekkert og eru oftar en ekki villandi, til að reyna að fegra gjörningana, sem er verið að segja frá.

Landic Property, sem átt hefur í miklum erfiðleikum, eftir heimsútrásina, sendir nú frá sér tilkynningu um að félagið hafi selt eignir í Danmörku fyrir tæpa 50 milljarða króna, sem sé ásættanlegt verð, enda það sama og bókfært verð eignanna.  Ekki er víst, að þetta segi alla söguna, þar sem ekkert er greint frá því, hvað félagið hafði tekið stór lán til þessara kaupa á sínum tíma.  Lánin geta verið miklu hærri en þetta söluverð og því sölutapið mikið, en um það er ekkert getið í tilkynningunni.

Annað garkafélag, Hagar, tilkynnti í gær, sigri hrósandi, að það hefði verið að greiða upp sjö milljarða skuldabréfaflokk, sem skráður var í Kauphöllinni og að Hagar væru eina félagið sem hefði afrekað slíkt eftir hrun.  Í framhjáhlaupi var þess getið að Landsbankinn og Kaupþing hefðu lánað fyrir þessari greiðslu, þannig að alls ekki var um greiðslu á skuld að ræða, heldur framlengingu skuldabréfanna.

Þetta bendir til þess, að þessir garpar hafi ekki sama skilning og aðrir á greiðslu skulda, enda hafa þeir aldrei borgað nokkra einustu skuld upp, aðeins "endurfjármagnað" þær. 

Þannig þykjast þeir greiða upp skuldir, en oftast eru þeir að auka skuldir sínar,  en ekki að minnka þær.


mbl.is Landic selur starfsemi í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flensan komin á alvarlegt stig

Nú hefur verið staðfest fyrsta dauðsfallið af völdum svokallaðrar svínainflúensu og eru aðstandendum stúlkunnar sendar innilegustu samúðarkveðjur. 

Spáð hefur verið, að líklega muni þriðjungur til helmingur þjóðarinnar smitast af þessum sjúkdómi áður en yfir líkur, en ennþá hafa ekki verið staðfest, svo öruggt sé, nema 479 tilfelli.  Þar af hafa 60 manns verið lagðir inn á sjúkrahús og einn sjúklingur látist.

Smitist þriðjungur þjóðarinnar, eða um eitthudraðþúsund manns, af flensunni, má gera ráð fyrir, miðað við framangreindar tölur, að tólf til þrettánþúsund manns munu þurfa að leggjast inn á sjúkrahús áður en yfir líkur og jafnvel allt að tvö hundruð manns látast.

Allir sjá að þetta stefnir í að verða gífurlega alvarlegt ástand og full ástæða fyrir alla að vera vel á verði og fara ekki of snemma á fætur aftur, ef minnsta hætta er á að um svínaflensuna sé að ræða.

Faraldurinn er rétt að byrja og á eftir að bitna hart á þjóðlífinu í vetur.


mbl.is Fyrsta dauðsfallið hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrifa endurskoðendur upp á þetta uppgjör?

Exista birtir nú ársreikning sinn fyrir árið 2008 og kemur þar fram að eigið fé félagsins í árslok nemi 34 milljörðum króna, en þá er reiknað með gengi Evrópska seðlabankans á krónunni, en ekki gengi Seðlabanka Íslands, sem skráir opinbert gegni íslensku krónunnar, samkvæmt lögum.

Í tilkynningu Exista kemur þetta fram um stöðu eigin fjár félagsins:  "Eins og fram kemur í ársreikningi Exista hf. munar miklu hvort notast er við gengi Seðlabanka Íslands eða Seðlabanka Evrópu og er ljóst að eigið fé Exista hf. er verulega neikvætt ef uppgjör væri miðað við gengi Seðlabanka Íslands, eins og krafist hefur verið af hálfu bankanna."

Varla verður því trúað, að endurskoðendur skrifi upp á svona útreikninga á eigin fé Existu, því augljóst er að félagið er í raun gjaldþrota, ef miðað er við venjulegar og eðlilegar uppgjörsaðferðir, því ekki er vitað til þess, að nokkurt annað íslenskt félag miði við gengi Evrópska seðlabankans í sínum uppgjörum.

Félag með neikvæða eiginfjárstöðu, er samkvæmt almennum skilgreiningum gjaldþrota og samkvæmt þeim stöðlum ætti Exista að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta strax.

Það er í raun óskiljanlegt hvernig útrásargarkarnir geta þumbast áfram og virðast komast upp með það, átölulaust.


mbl.is Exista tapaði 206 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norræn velferð undir stjórn Sjálfstæðisflokks

Stanslaus áróður er rekinn að hálfu vinstri manna um að undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hafi velferðarmálin verið svelt fjárhagslega, en nú er annað komið í ljós, eins og allir sanngjarnir menn vissu. 

Upphaf fréttarinnar um þetta efni hljóðar svo:  "Heildarútgjöld hins opinbera til almannatrygginga og velferðarmála hafa vaxið verulega síðasta aldarfjórðung eða úr tæplega 5,7% af landsframleiðslu árið 1980 í ríflega 8,9% af landsframleiðslu 2008, en það samsvarar 132 milljörðum króna á því ári.  Þetta kemur fram í nýju riti Hagstofunnar. Velferðarútgjöldin  hafa ríflega þrefaldast að magni á tímabilinu  miðað við verðvísitölu samneyslu og ríflega tvöfaldast á mann."

Í samanburðinum kemur fram, að velferðarútgjöld á Íslandi eru svipað hlutfall af landsframleiðslu og þau eru í Noregi, en örlitlu minni en á hinum Norðurlöndunum.  Aukningin samkvæmt fréttinni er:  "Árið 2008 runnu 413 þúsund krónur til þessa málaflokks á mann samanborið við 181 þúsund krónur í byrjun níunda áratugarins á verðlagi 2008."

Á þessu sést að Sjálfstæðisflokkurinn er mesti velferðarflokkur á Íslandi.


mbl.is Velferðarútgjöld hafa vaxið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Embættismenn semja um lagabreytingar á Íslandi

Bretum og Hollendingum hefur tekist að niðurlægja íslensku ríkisstjórnina og sjálfstæði Íslands endanlega, með því að embættismenn þjóðanna hafa kúgað íslenska embættismannanefnd til að samþykkja að Alþingi breyti lögum, sem þar voru samþykkt í Ágústmánuði s.l.

Þá er niðurlæging íslensku ríkisstjórnarinnar alger, að gefast svona upp fyrir erlendri kúgun.  Að láta bjóða sér aðra eins meðferð og kalla það samninga, er svo alger og niðurlægjandi uppgjöf, að skömm Íslendinga mun í minnum höfð, meðan land byggist.

Þegar lagalegur réttur verður endanlega viðurkenndur í þessu máli, ætla kúgararnir ekki einu sinni að gefa eftir, heldur samþykkja íslensku samningamennirnir, að þá skuli samið að nýju.  Það eina rétta hefði auðvitað verið að kúgararnir hefðu þá lofað að endurgreiða, það sem Íslendingar hefðu verið búnir að láta kúga sig til að greiða, og biðjast svo auðmjúklega afsökunar á háttsemi sinni, gagnvart smáþjóð. 

Þessi niðurstaða er hrikalegt fordæmi um kúgun smáþjóðar og ekki er víst að síðasta svipuhöggið sé fallið.


mbl.is Óviðunandi niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurstaða í dag, á morgun eða í næstu viku

Enn er Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, með beran bakhlutann og lætur húsbændur sína í Bretlandi og Hollandi, hýða sig með gaddasvipunum og virðist bara vera farinn að láta sér svipuhöggin vel lika.  Líklega orðinn háður þeim, eftir allar barsmíðarnar.

Í margar vikur hefur almenningur mátt hlusta á, að endanleg niðurstaða rassskellinganna komi í ljós seinna í dag, á morgun eða í síðasta lagi fyrir næstu helgi.  Enn eru sömu tímasetningarnar settar fram, enda á að vinna yfirvinnu í Fjármálaráðuneytinu alla helgina, svo ekkert hinna Bresku og Hollensku svipuhögga missi marks.

Sennilega endar með því, að Steingrímur J., segir eins og vinur hans og lærifaðir, Svavar Gestsson, sagði í vor:  "Ég nenni bara ekki að hafa þetta mál hangandi yfir mér lengur".

Betra hefði náttúrlega verið að ólatari samninganefnd hefði verið sett í málið í upphafi.


mbl.is Viðbrögð á báða vegu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í gæsluvarðhaldið?

Nú hefur Fjármálaeftirlitið sent mál er varðar allsherjarmarkaðsmisnotkun Kaupþings til Sérstaks saksóknara til frekari rannsóknar og ákvörðunar um ákæru á hendur stjórnendum bankans.

Mörg smærri mál, sem tengjast þessari allsherjarmarkaðmisnotkun hafa áður verið send til embættis Sérstaks saksóknara og hafa verið þar til skoðunar um tíma.

Misnotkun er nógu slæm, en allsherjarmarkaðsmisnotkum er auðvitað miklu verra og alvarlegra mál og þegar mörg mál eru komin saman í einn pakka, hlýtur að vera komin fram staðfestur grunur um alvarleg lögbrot og "staðfastan brotavilja".

Í smærri málum en þessu, væru hinir grunuðu komnir í gæsluvarðhald, á meðan rannsókn stæði yfir, enda væri ástæða til að ætla, að dómur yrði þyngri en tveggja ára fangelsi.  Það hlýtur að eiga við í svona alvarlegu máli, að dómar yrðu þyngri en tvö ár og því hlýtur að fara að skapast ástæða til að fara að beita gæsluvarðhaldsúrskurðum í þessu máli og fleirum, sem tengjast banka- og útrásarglæpamálum.

Alveg er öruggt, að vel er reynt að standa að þessum rannsóknum, en almenningur er orðinn verulega óþolinmóður eftir því, að fara að sjá áþreifanlegan árangur.

 


mbl.is Meint allsherjarmisnotkun Kaupþings til saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítilsvirt atvinnugrein sem ekki ætti að reyna að banna

Vændi er elsta atvinnugrein í heimi og er stunduð í öllum löndum, öllum þjóðfélögum og öllum stigum þjóðfélaganna, en nú á tímum er þetta lítilsvirt atvinnugrein, sérstaklega í tvískinnugslöndunum sem kenna sig við "norrænt velferðarkerfi".

Þeir, sem kenna sig við baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi, prédika stíft að hver manneskja ráði sjálf yfir sínum eigin líkama og megi gera við hann það sem hún vill, svo lengi sem það skaði ekki aðra.   Undir þessa frelsisbaráttu fellur krafan um frjálsar fóstureyðingar, en þegar kemur að því að vilja nota líkamann í vændisstarfssemi, þá er allt annað hljóð í strokknum og þá eru það karlmennirnir sem eru versti óvinurinn og í raun kvenníðingar, vilji þeir kaupa þessa þjónustu.

Það felst mikill tvískinnungur í þessari baráttu og er í raun eingöngu til þess fallin, að niðurlægja þær konur, sem velja að vinna fyrir sér með öðrum líkamspörtum en höndunum, fótunum eða höfðinu.  

Að sjálfsögðu á að berjast með hörku gegn glæpamönnum, sem hneppa konur í þrældóm og neyða þær til að stunda þessa atvinnu, og alveg eins á ekki að líða glæpamönnum, eða öðrum, að hneppa fólk í þrældóm yfirleitt og skiptir þá engu máli um hvaða störf er þar að ræða.

Konur sem stunda vændi af einhverri neyð, t.d. vegna áfengis- eða dópfíknar, eiga að fá hjálp til þess að losna undan fíkninni og þar með ástæðunni fyrir atvinnuvalinu, og á það að vera verkefni félagsmálayfirvalda, að leysa þau mál, en ekki lögreglunnar.

Þær konur, sem kjósa að vinna við vændi, af fúsum og frjálsum vilja, eiga að hafa fullt leyfi til þess, alveg eins og "kvenfrelsisbaráttufólkið" hefur frelsi til að velja sér störf, eftir sínum hentugleika.

Vændi verður ekki upprætt með valdboði, eða lögreglurassíum.  Það ættu menn að vera farnir að skilja, eftir allar þessar þúsundir ára, sem vændi hefur verið stundað.


mbl.is Götuvændi stundað í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrælapískararnir hræddir við dómstóla

Bretar og Hollendingar ætla að hneppa íslensku þjóðina í fjárhagslega ánauð til áratuga, vegna ævintýramennsku einkabanka, sem alls ekki var í ríkisábyrgð og raunar bannar tilskipun ESB alla ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðum banka í ESB löndum, af samkeppnisástæðum.  Án sérstaks leyfis, má til að visa á ÞETTA blogg Lofts Altice Þorsteinssonar og athugasemdirnar við það, en það er afar fróðleg og nánast tæmandi umræða um þetta efni.

Nú segir Jóhanna, forsætisráðherralíki, og Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, að það sem út af standi í viðræðum við þrælapískarana "sé annars vegar hvort Íslendingar geti leitað réttar síns komi í ljós að þeir þurfi ekki að borga, og hins vegar hvað gerist eftir 2024 þegar ríkisábyrgð fellur af lánunum, samkvæmt ákvörðun Alþingis."

Skyldu þessar ráðherranefnur ekki spyrja, a.m.k. sjálfar sig, hvers vegna þrælahaldararnir séu svona hræddir við að málið fari fyrir dómstóla?  Svarið liggur auðvitað í augum uppi.  Þeir vita sem er, að þeir myndu tapa málinu fyrir hvaða dómi sem er í veröldinni.

Það furðulega er, að íslensku ráðherranefnurnar skuli ennþá vera í viðræðum við þessa þrælahöfðingja, en láta ekki frestinn, sem er til 23. október, renna út, innistæðutryggingasjóðinn lýsa sig gjaldþrota og láta síðan þessa svipusveiflandi kvalara sína stefna málinu fyrir dóm.

Þá, og einungis þá, mun réttlætinu verða fullnægt og allt ESB klanið verða að athlægi.


mbl.is Enn deilt um dómstólaleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um Fréttablaðið?

Nú er Skjár einn að gefast upp á að senda út ókeypis dagskrá sína, vegna mikils samdráttar auglýsingatekna.  Mánaðaráskrift er boðuð að verði 2.200 krónur á mánuði og verður fróðlegt að sjá hvernig Skjá einum mun takast upp í samkeppninni við Stöð 2, en þar er mánaðaráskrift nú 6.990 krónur á mánuði.

Skjá einum hefur tekist að verða aðaláhorfsstöð margra, sérstaklega unga fólksins, þannig að afar erfitt er að spá um, hvernig stöðinni mun ganga að fá þessa tryggu áhorfendur sína til þess að fara að borga áskriftargjald.  Unga fólkið hefur margt alist upp við að þurfa ekki mikið fyrir lífinu að hafa, hafa getað treyst á foreldrana um peninga og horft ókeypis á Skjá einn og lesið Fréttablaðið, sem dreyft hefur verið "ókeypis" í hús fram að þessu. 

Reyndar er Fréttablaðinu ekki dreyft lengur í hús, nema á höfuðborgarsvæðinu og nokkrum stærstu kaupstöðunum, annars staðar verður fólk að hafa fyrir því að sækja blaðið á bensínstöðvar eða í götukassa.

Nú hafa auglýsingatekjur Fréttablaðsins hrunið, eins og annarra fjölmiðla, þannig að nú hlýtur að fara að styttast í því, að blaðið verði gert að áskriftarblaði.  Aðalauglýsingatekjur blaðsins koma nú frá fyrirtækjum eigenda þess, þ.e. Baugsveldinu, og líklega dugar sá stuðningur einn ekki til lengdar.

Þegar Fréttablaðið verður orðið áskriftarblað, verður það eingöngu smekkur almennings fyrir efni fjölmiðlanna, sem mun ráða lífi þeirra og dauða.

 


mbl.is SkjárEinn verður áskriftarstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband