Færsluflokkur: Bloggar

ESB í opinbert stríð gegn Íslandi

Undanfarna mánuði hafa ýmsir forráðamenn ESB haft uppi hótanir um efnahagslega styrjöld á hendur Íslendingum vegna sanngjarnra og eðlilegra veiða á makríl innan íslenskrar efnahagslögsögu. Innan ESB munu vera í smíðum sérstakar og harkalegar reglugerðir sem sambandið hyggst notast við í því efnahagsstríði.

Nú hefur bæst við sá fáheyrði atburður, að framkvæmdastjórn ESB hefur krafist aðildar að málarekstri Breta og Hollendinga fyrir EFTAdómstólnum vegna Icesaveskulda Landsbankans, sem þessir yfirgangsseggir vilja neyða íslenska skattgreiðendur til að borga fyrir þennan einkabanka, sem auðvitað var rekinn á ábyrgð stjórnenda hans og eigenda.

Á sama tíma og þessar stríðsyfirlýsingar dynja á Íslendingum skríður íslenska ríkisstjórnin fyrir þessum ofbeldisseggjum og vælir um að fá að innlima Ísland í þetta ofstopasamband, sem reyndar er að breytast í stórríki sem verða mun undir beinni stjórn Þjóðverja og Frakka, en aðrir hreppar stórríkisins munu ekki hafa þar nokkur áhrif.

Hvað skyldi þurfa til að opna augu íslenskra ráðamanna og fá þá til að kalla sendinefnd sína heim frá Brussel?


mbl.is ESB vill aðild að Icesave málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeim fjölgar sem gefa EKKI kost á sér í forsetaframboð

Fimm eða sex manns hafa tilkynnt um framboð sitt til embættis forseta og er kosningabarátta þeirra kominn á fullan skrið, þó nokkur mismunur sé á því hverjum þeirra er hampað í fjölmiðlum og hverjum ekki.

Einhverjir hafa séð ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingar um að þeir hyggist EKKI taka þátt í þessum forsetaslag, a.m.k. ekki að sinni eins og það er oftast orðað, án þess að nokkur hafi í raun reiknað með að þessir einstaklingar ættu nokkurt erindi á Bessastaði.

Enn er eitthvað rúmlega þrjúhundruðþúsund manns sem ekki hafa sent frá sér neinar yfirlýsingar um hvort af framboði verður eða ekki og hljóta fjölmiðlar að fyllast af bréfaskriftum alls þess fólks á næstu dögum, þegar það hefur ákveðið sig endanlega um þátttöku í þessu æsispennandi forsetakjöri.

Spennan magnast dag frá degi, þó allir viti nú þegar hver niðurstaðan verður.


mbl.is Elín Hirst gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrautskipulögð kosningabarátta Þóru og fjölmiðlavina hennar

Fimm einstaklingar hafa tilkynnt framboð til embættis forseta Íslands, en einn þeirra ber af með þrautskipulagða kosningabaráttu, en það er Þóra Arnórsdóttir, enda á hún greinilega stóran vinahóp innan fjölmiðlanna sem allt gera til að auglýsa framboð hennar og að sjálfsögðu ókeypis í fréttum blaða og ljósvakamiðla, sem og í umræðu- og viðræðuþáttum.

Aðrir frambjóðendur fá nánast enga umfjöllun og látið er eins og Þóra ein geti velt Ólafi Ragnari af stalli forsetaembættisins og þrátt fyrir alla kosti og menntun Herdísar Þorgeirsdóttur hefur ekki verið á hana minnst í fjölmiðlum frá því að hún tilkynnti framboð sitt.

Auðvitað er nauðsynlegt að fara út í kosningabaráttu með gott skipulag og fjölmennt stuðningslið, en sú mismunun sem frambjóðendum hefur verið sýnd fram að þessu er vægast sagt hvimleið og virkar þar að auki þveröfugt á fólk, miðað við það sem lagt var upp með.

Hitt er svo annað mál, að eftir því sem frambjóðendum til forsetaembættisins fjölgar, því öruggari verður Ólafur Raganr með endurkjör.


mbl.is Þóra komin með lágmarksfjölda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur skuldar skýringar og útreikninga

Steingrímur J., alsherjarráðherra, hefur lýst því yfir að hann efist um útreikninga Deloitte á áhrifum nýjustu skattabrjálæðistillagna sinna á sjávarútveginn, en fyrirtækið hafði gefið út að áætlun ráðherrans jafngilti 105% skattheimtu á hagnað útgerðarinnar.

Steingrími J. dugar ekki að gaspra út í loftið vegna þessarra útreikninga Deloitte, heldur ber honum skylda til að birta athugasemdir við niðurstöðuna, lið fyir lið, og hrekja þannig útkomuna, ef hann og sérfræðingar hans hafa áreiðanlegri upplýsingar í sínum fórum.

Ekki bara sjávarútvegurinn, heldur almenningur allur, bíður eftir að ráðherrann uppfylli þá skyldu sína að birta sína útreikninga um áhrif veiðileyfaskattabrjálæðisins.


mbl.is Niðurstöður Deloitte ekki keyptar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Köttum misþyrmt af mönnum og hundum

Mikið fjölmiðlafár hefur undanfarið geysað vegna árásár hunds á kött, enda týndi kötturinn lífinu í þeim ójafna og grimma slag. Allt frá því að kettir og hundar urðu fylgjendur mannsins í gegnum súrt og sætt, hefur þessum dýrategundum komið illa saman í flestum tilfellum og þegar þeim lýstur saman fer allt í "hund og kött".

Það ætti því ekki að vera mjög fréttnæmt þó hundur elti kött, jafnvel ekki þó hundur slasi eða drepi viðkomandi kött, þar sem þetta ósamkomulag er árþúsundavandamál og hvorki hundar eða kettir taldir sérstaklega siðmenntaðir, en það á hins vegar við um eigendur þeirra og húsbændur, mennina.

Því ætti það að vera tilefni stórfrétta þegar fólk misþyrmir og drepur dýr algerlega að tilefnislausu og að því er virðist sér til skemmtunar og jafnvel með því að kvelja dýrin og pína þar til líftóran slökknar. Oft er þess getið í fréttum að dýr hafi fundist dauð á víðavangi eftir pyntingar, mismikið særð eða skilin eftir í kössum eða pokum og jafnvel urðuð lifandi undir grjótfargi.

Sjaldnast er þó gert stórmál úr slíkum atburðum og aldrei hefur frést af því að nokkur maður hafi verið dæmdur fyrir slíkt dýraníð, en þegar hudur drepur eða slasar aðra skepnu er þess tafarlaust krafist að hann verði aflífaður samstundis og í síðasta slíka tilfelli kom jafnvel fram krafa í netheimum um að eigandi hundsins yrði umsvifalaust settur í gæsluvarðhald.

Hunda-, katta- og manngæska á sér greinilega ýmsar mismunandi myndir.


mbl.is Fann læðu í kæliboxi við Kúagerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg viðbrögð Samherja

Þau viðbrögð Samherja og erlendra dótturfyrirtækja félagsins, að hætta viðskiptum sín á milli á meðan að á rannsókn Seðlabankans á gjaldeyrisskilum fyrirtækjanna stendur, eru bæði afar skiljanleg og í hæsta máta eðlileg.

Samherji fær ekki upplýsingar frá ákærendum um á hvaða grun rannsóknin er byggð, né hvaða greinar gjaldeyrislaga fyrirtækin eru sökuð, eða grunuð, um að brjóta og þar af leiðandi er ógjörningur að halda viðskiptunum áfram á sama grunni og áður og auðvitað alls ekki ef ásakanirnar eru á rökum reistar.

Sá sem stendur í viðskiptum og er ásakaður um svindl og svínarí hlýtur að slá öllum slíkum viðskiptum á frest, eða hætta þeim alveg, a.m.k. á meðan á rannsókn og kærumeðferð stendur.

Allt annað væri algjörlega út í hött.


mbl.is Krefjast þess að fá að sjá gögnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB stefnir að eigin endalokum

David Campbell Bennerman, breskur ESBþingmaður, telur að Bretar eigi og muni segja sig úr sambandinu, fyrr eða síðar, enda hafi þeir aldrei samþykkt aðild að pólitísku sambandi, heldur einungis viðskiptabandalagi.

Þróun í átt að stórríki sé í fullum gangi og segir um það m.a:  „Það kom til að mynda fram skýrsla í Evrópuþinginu í síðustu viku sem ég tók þátt í umræðum um þar sem kallað var eftir sameiginlegu skattkerfi, sameiginlegu velferðarkerfi og bótakerfi, sameiginlegu lífeyrissjóðakerfi og jafnvel sameiginlegum lögum um hjónaskilnaði fyrir allt Evrópusambandið. Þetta var samþykkt af þinginu þótt sjálfur hafi ég greitt atkvæði gegn því eins og aðrir í þingflokknum mínum.“

Þrátt fyrir þessa tilburði til stofnunar stórríkis ESB, sem yrði undir stjórn Þjóðverja, telur Bennerman að sambandið muni líklega frekar sundrast en sameinast frekar, enda sé evruvandamálið stærra og meira en svo að við verði ráðið.  Líkir hann þeirri leið sem farin er til "björgunar" evrunni við ástandið eins og það var í Weimarlýðveldinu, en þar endaði peningastefnan með því að fólk þurfti hjólbörufylli af seðlum til að kaupa eitt brauð.  Telur hann að endalaus seðlaprentun til bjargar evrunni muni leiða til hins sama í ESB.

Bennerman er annar ESBþingmaðurinn sem fram kemur á nokkrum dögum og lýsa því sem sínum skoðunum að algjört glapræði yrði fyrir Íslendinga að láta innlima landið í stórríkið væntanlega og slíkt myndi hafa hörmulegar afleiðingar fyrir þjóðina til lengri tíma litið.

Íslendingar ættu að hlusta grannt á þá sem þekkja innviði ESB af eigin reynslu. 


mbl.is Evruvandinn ennþá óleystur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Auðlindirnar rændar, fiskimiðin tæmd og lýðræðið eyðilagt"

Haft var eftir Klaus Welle, framkvæmdastjóra Evrópuþingsins, að efla þyrfti samkennd og sameiginlega þjóðernisstefnu íbúa ESB og nefndi sem fordæmi að Þýskaland hefði ekki verið þjóðríki nema síðan árið 1871, en Þjóðverjar hefðu endurskrifað söguna og eins þyrfti að endurskrifa Evrópusöguna og "leggja áherslu á evrópsk einkenni".

Fróðlegt yrði að sjá málsgreinina sem saga Íslandshrepps stórríkisins fengi í þeirri endurskrifuðu Evrópusögu, en auðvitað munu Íslendingar aldrei samþykkja að gera land sitt að útnárahreppi í þessu væntanlega Ofurþýskalandi.

Daniel Hannan, Evrópuþingmaður, hefur meiri skilning á málefnum Íslands og sögu þjóðarinnar en svo, að hann trúi að Íslendingar munu nokkurn tíma gangast undir slíka áþján, en eftir honum er haft í meðfylgjandi frétt:  "Hannan vitnaði síðan til nýjustu skoðanakönnunar á Íslandi sem sýndi að 67% Íslendinga vildu ekki ganga í Evrópusambandið. Ástæðan væri sú sagði hann að þeir vissu hvað innganga hefði í för með sér. Auðlindir þeirra yrðu arðrændar, fiskimiðin þeirra tæmd og lýðræði þeirra eyðilagt. Íslenska þingið yrði aðeins að héraðsþingi. Hann sagði Íslendinga vera klára þjóð sem hefði herst við þá erfiðleika sem, kynslóðir þeirra hefðu gengið í gegnum og þeir vissu betur en að kasta á glæ frelsi sínu."

Það er fróðlegt að sjá, að a.m.k. sumir ESBþingmenn skuli sjá í hvers lags skrímsli kommisararnir í Brussel eru að reyna að breyta bandalaginu í og betra væri að núverandi ráðamenn á Íslandi væru gæddir sama skilningi.


mbl.is „Hver hlær núna?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera eða að vera ekki á fundi

Stjórnarþingmenn kvarta og kveina yfir því að einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi yfirgefið næturfund á Alþingi, efir að hafa setið þar hálfa nóttina í umræðum um hálfklárað, eða reyndar alveg óklárað, frumvarp um nýja stjórnarskrá.

Þetta virðist fara verulega í taugarnar á nokkrum stjórnarþingmönnum, jafnvel þeim sem lágu sofandi heima hjá sér og voru ræstir af þingforseta til að mæta um miðja nótt til að taka þátt í atkvæðagreiðslu, án þess að hafa tekið nokkurn þátt í umræðunum og hvað þá að hafa látið svo lítið að hlusta á hina sem það þó gerðu.

Það er orðin mikil spurning um hvort það er verra að fara af fundi áður en honum lýkur eða að mæta alls ekki á fund fyrr en honum er að ljúka.


mbl.is Lágmarkið að sitja út fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LÍÚ fer ekki rétt með, frekar en Jóhanna

Jóhanna Sigurðardóttir er þekkt fyrir að fara rangt með í rökstuðningi fyrir hinum og þessum málum, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram undanfarin ár og því telst ekkert nýtt í því, ef hún fer með fleipur um hagnað sjávarútvegsins og væntanlegt auðlindagjald sem fyrirhugað er að leggja á, samkvæmt nýjasta frumvarpsbastarði stjórnarinnar þar um.

LÍÚ mórmælir rangfærslum forsætisráðherrans um afkomu greinarinnar og segir m.a. í yfirlýsingu sinni:  „Hið rétta er að framlegð sjávarútvegsins í heild voru 60 milljarðar (EBIDA), en þá á eftir að greiða vexti af lánum, draga frá afskriftir og afborganir lána. Þegar það hefur verið dregið frá er hagnaður sjávarútvegsins um 33 milljarðar árið 2010 – skattar voru samanlagt 5,7 milljarða sem skiptust þannig að auðlindagjaldið nam 3,5 og tekjuskatturinn 2,2 milljarðar.“

Afborganir lána teljast ekki til rekstrarkosnaðar fyrirtækja og því er það beinlínis rangfærsla hjá LÍÚ að segja að BÆÐI afskriftir og afborganir lána eigi að dragast frá EBITU, til að reikna út endanlegan hagnað.  Það verður að teljast lágmarkskrafa að beita ekki blekkingum, þegar verið er að mótmæla blekkingum og rangfærslum annarra.

Hitt er svo allt annað mál, að skattabrjálæði ríkisstjórnarinnar hefur hvergi sýnt sig berlegar en í þessum nýjasta kvótafrumvarpsbastarði og hefur þó flestum þótt nóg um fram að þessu. 

 


mbl.is Segja forsætisráðherra fara rangt með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband