Færsluflokkur: Bloggar
16.8.2013 | 21:37
Láta boltaaðdáendur bjóða sér hvað sem er?
365 miðlar boða nú tæplega 30% hækkun á áskriftargjaldi að Stöð 2 Sport 2, sem sjónvarpar enska fótboltanum og umfjöllunum um hann. Mánaðargjaldið verður þá um níuþúsund krónur eða 108.000 á ári.
Skýringin sem gefin er á þessari ofboðslegu hækkun er sú að önnur íslensk sjónvarpsstöð hafi sýnt því áhuga á sýna enska boltann og því hafi orðið að hækka tilboðið í sýningarréttinn upp úr öllu valdi til að halda honum innan 365 miðla.
Spurningin sem vaknar við þetta er hvort íslenskir áhugamenn um enska knattspyrnu láti bjóða sér hvað sem er í þessu efni og að sjónvarpsstöðvunum sé óhætt að bjóða hvað sem er í sýningarréttinn í þeirri vissu að eftir smávægilegt nöldur láti neytendur bjóða sér annað ein okur og þetta og borgi bara eins og ekkert hafi í skorist.
Eina svarið við svona viðskiptaháttum er að segja upp áskriftinni að enska boltanum og sýna forráðamönnum sjónvarpsstöðvanna með því að áhorfendur láti ekki bjóða sér hvað sem er varðandi áskriftarverðið.
![]() |
Enski boltinn hækkar um 28% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.8.2013 | 17:40
"Þetta er nú bara helv.... lygi"
Stundum þegar einhver segir ótrúlega sögu, dettur ósjálfrátt upp úr áheyrandanum: "Þetta er nú bara helvítis lygi", eða "Segðu manni nú eitthvað sennilegra en þetta".
Þannig eru viðbrögðin við viðhangandi frétt um að tíu ára stúlka í Houston í Texas hafi verið kærð fyrir að nauðga þriggja ára gömlum dreng. Ekki síður er ótrúleg meðferð á tíu ára barni í réttarkerfinu í Houston ef eftirfarandi kafli úr fréttinni er réttur: "Stúlkan var handtekin í síðustu viku og haldið í unglingafangelsi í fjóra daga án lögmanns þar til Quanell X, leiðtogi New York Black Panther samtakanna í Houston greip inn í. Gegnir hann nú starfi lögmanns hennar."
Ef einhver fótur er fyrir þessari frétt, þá er greinilegt að þeir sem að þessari handtöku og ákæru hafa staðið eru ekki alveg eins og fólk er flest á andlega sviðinu og ekki síður er margt bogið við réttarkerfið í Texas ef yfirleitt er hægt að fá slíkt mál tekið til meðferðar fyrir dómstólum.
![]() |
10 ára ákærð fyrir að nauðga 3 ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.8.2013 | 14:09
Gleðidagur
Mannréttindi eru í betra horfi á Íslandi en í mörgum öðrum löndum heimsins og sérstaklega geta Íslendingar verið stoltir af því að búið er að lögleiða jafnrétti á nánast öllum sviðum, eins og t.d. til hjónabands, ættleiðinga og erfða, burtséð frá kynhneygð viðkomandi einstaklinga.
Undanfarnir dagar hafa verið "Hinsegin dagar" með ýmum uppákomum og menningarviðburðum á vegum samtaka samkynhneygðra og hefur þar verið úr ýmsum og ólíkum atburðum að velja og í dag nær hátíðn hámarki sínu með Gleðigöngunni sem áætlað er að tugþúsundir manna muni taka þátt í, beint og óbeint.
Ástæða er til að óska Íslendingum öllum til hamingju með stöðu þessara mála, en minna um leið á að marga áratugi tók samkynhneygða að ná þessari eðlilegu og sjálfsögðu stöðu í samfélaginu og í raun tiltölulega örfá ár síðan sigur vannst og jafnvel ekki búið að fullslípa þetta jafnrétti ennþá.
Því ber að vara við hroka og mikilmennsku gagnvart þjóðum sem skemmra eru á veg komin í mannréttindamálum en við, eins og borgarstjórinn í Reykjavík hefur t.d. haft í frammi gagnvart Rússum undanfarið, að ekki sé minnst á stærilæti gagnvart kaþólsku kirkjunni og sína eigin túlkun á Biblíunni og krossfestingu Krists.
Dagurinn í dag á að vera sannkallaður gleðidagur og almenn þátttaka í atburðum dagsins að vera friðsamleg fyrirmynd og áskorun til ráðamanna og almennings annarra þjóða, sem skemmra á veg eru komin með jöfnun mannréttinda, til að vinna að úrbótum í sínum heimalöndum.
![]() |
Miðborgin full af fólki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)
4.8.2013 | 17:43
Hver eru viðurlögin við upploginni nauðgun?
Nauðgun er alvarlegur glæpur og skelfilegur fyrir þann sem fyrir verður og tekur langan tíma að jafna sig eftir slíka hörmungarreynslu, ef viðkomandi nær sér nokkurn tíma að fullu.
Refsing við slíku broti á að vera hörð og til viðbótar fangelsisvist ætti nauðgarinn að verða dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu háar skaðabætur, þó peningar bæti í sjálfu sér ekkert eftir slíkt óhæfuverk gætu þeir þó hjálpað til við úrvinnslu slíkrar reynslu og kaup á sérfræðiaðstoð í þeim tilgangi.
Að ljúga nauðgun upp á saklaust fólk er ekki síður alvarlegur glæpur og ættu viðurlög við slíku að vera hörð, enda oft erfitt fyrir þann sem fyrir slíkum upplognum sökum verður að sanna sakleysi sitt og jafnvel þó það takist fyrir dómi eru dæmi um að almenningur trúi ekki á sakleysi viðkomandi fórnarlambs lyganna og því þurfi viðkomandi að berjast við fordóma og fyrirlitningu samfélagsins eftir slíkar ásakanir.
Nauðgun er alvörumál og upplognar ásakanir um slíkt ekki síður.
![]() |
Maðurinn reyndist vera saklaus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.7.2013 | 13:47
Kjánalegur Jón Gnarr
Þegar fullorðið fólk hagar sér kjánalega er oft sagt að það sé "barnalegt" því það þykir kurteislegra orðalag en að segja hreint út að viðkomandi hegðun sé nánast eins og hver annar fíflaskapur.
Jón Gnarr, svokallaður borgarstjóri, hefur nú lagt fram tillögu um að Reykjavíkurborg slíti allt stjórnmála- og menningarsamstarf við Moskvu vegna afstöðu borgaryfirvalda þar til samkynhneygðra.
Langan tíma tók að vinna að jafnrétti samkynhneygðra á Íslandi og jafnvel vantar enn eitthvað þar uppá eftir áratuga baráttu, en Ísland er þó komið í röð allra fremstu þjóða á þessu sviði í heiminum og geta Íslendingar borið höfuðið hátt vegna þeirra mála.
Yfirvöld á Íslandi, jafnt ríkisstjórn sem sveitarstjórnir, eiga að nýta öll tækifæri til að tala fyrir mannréttindum hvar og hvenær sem tækifæri bjóðast á alþjóðavettvangi en til þess þurfa þau þá að vera í samskiptum við erlend yfirvöld, ekki síst þau sem styttra eru komin á sviði mannréttinda en Ísland.
Í þessu ljósi er tillaga Jóns Gnarrs, svokallaðs borgarstjóra, ekki bara "barnaleg" heldur hreint og beint fíflaleg og mun ekkert gagn gera til stuðnings baráttu samkynhneygðra í Rússlandi eða annars staðar.
![]() |
Segir viðhorf Jóns Gnarr barnalegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.6.2013 | 09:57
Þrífst ferðamannaiðnaðurinn á svindli?
Ferðaiðnaðurinn blómstrar um þessar mundir með mikilli fjölgun hótela, gistihúsa allskonar og hreinni sprengingu í veitingageiranum. Athygli vekur þó að samkvæmt upplýsingum skattstjóra sjást þess lítil merki í auknum skattgreiðslum til ríkisins, hvorki frá rekstraraðilum né í aukinni staðgreiðslu skatta vegna launagreiðslna.
Það hefur lengi loðað við a.m.k. veitingahúsin og skyndibitastaðina að þeir svindluðu á launþegum og þá alveg sérstaklega ungu fólki sem stundar hlutastörf samhliða skólanámi. Sem dæmi má nefna svokallað "jafnaðarkaup", sem hvergi er til í kjarasamningum, en þá er krökkunum borgaður einhver tilbúinn launataxti, jafnvel lítið sem ekkert hærri en dagvinnulaunin, jafnvel þó öll vinna viðkomandi unglings fari fram á kvöldin og um helgar.
Nú virðist enn vera að bætast í svindlflóruna með því að bjóða unga fólkinu upp á "launalausan prufutíma" innan veitingageirans áður en af hugsanlegri ráðningu verður og þá jafnvel á laun sem ekki eru innan kjarasamninga. Eftir Hörpu Ólafsdóttur, forstöðumanni kjaramálasviðs Eflingar, er eftirfarandi haft í meðfylgjandi frétt: Fjölgun mála er í beinu hlutfalli við mikla fjölgun veitingastaða á síðustu árum. Í dag eru um 20% félagsmanna stéttarfélagsins starfsmenn veitingahúsa en þetta hlutfall var 10% árið 2007. Það eru hlutfallslega miklu fleiri sem leita til okkar vegna launamála í þessari stétt en í öðrum starfsgreinum, segir Harpa en um 50% þeirra sem leita til stéttarfélagsins vegna launakrafna eru starfsmenn veitingastaða."
Þessi framkoma við starfsfólk er greininni til skammar og er svartur blettur á vaxandi atvinnugrein sem litið er á sem eina þeirra sem halda á uppi lífskjörum í landinu í framtíðinni.
Varla getur þessi atvinnugrein reiknað með mikilli opinberri fyrirgreiðslu á meðan hún virðist þrífast á starfsmannasvindli og skattaundanskotum.
![]() |
Það á enginn að vinna frítt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
24.6.2013 | 13:14
Er Seðlabankinn að afvegaleiða umræðuna um skuldalækkunina
Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í nýafstöðnum kosningum út á loforð sitt um miklar skuldalækkanir til handa þeim sem skulduðu verðtryggð húsnæðislán á árunum 2007-2010. Afar skiptar skoðanir hafa verið uppi um það, hvort slík skuldalækkun sé raunhæf eða jafnvel réttlætanleg og þá ekki síst vegna afleitrar stöðu ríkissjóðs.
Það fé sem Framsóknarflokkurinn ætlaði í þessar skuldalækkanir á að koma frá vogunarsjóðum og öðrum eigendum gömlu bankanna sem greiðsla fyrir að fá að flytja fjármuni sína úr landi í erlendum gjaldeyri. Með því að nota þetta hugsanlega og væntanlega fjármagn til að létta skuldabyrði ríkissjóðs hefði ávinningurinn ekki aðeins komið íbúðaskuldurum til góða, heldur landsmönnum öllum í formi viðráðanlegri skattbyrði en annars er fyrirséð að verði.
Seðlabankinn hefur nú blandað sér í umræðuna um þessar fyrirhuguðu skuldalækkanir og segir m.a: "Niðurstöður rannsókna sérfræðinga Seðlabanka Íslands sýna að almenn niðurfærsla lána er bæði dýr og óskilvirk aðgerð til að koma til móts við þau heimili sem eiga bæði við greiðslu- og skuldavanda að stríða." Þetta verður að teljast furðulegt innlegg í umræðuna, þar sem aldrei hefur verið rætt um að þessi aðgerð væri hugsuð til að bjarga heimilum sem eru í greiðsluvanda, heldur einungis til að létta undir með þeim sem skulduðu verðtryggð íbúðalán á ákveðnu árabili.
Ef Seðlabankinn ætlar sér að taka afstöðu til pólitískra deilumála er lágmart að hann fari rétt með og haldi sér við sannleikann og þær staðreyndir sem liggja að baki hvers máls.
![]() |
Niðurfærsla lána óskilvirk og dýr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 25.6.2013 kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
23.6.2013 | 20:09
"Netlöggur" Steingríms J. og CIA eiga margt sameiginlegt
Árið 2007 boðaði Steingrímur J. þá draumsýn sína að komið yrði á fót "netlöggu" á Íslandi, sem fylgjast skyldi með því hvort og hvenær landsmenn færu inn á klámsíður á netinu, eða stunduðu þar önnur ósiðleg samskipti. Til þess að uppgötva klámhundana hefði þurft að fylgjast með allri netnotkun allra landsmanna, allan sólarhringinn, allt árið um kring og sía frá "eðlilegu" notkunina frá þeirri "óeðlilegu". Varla þarf að taka fram að hugmyndinni var vægast sagt illa tekið af almenningi, enda komst "netlögga" Steingríms J. aldrei á legg, svo vitað sé.
Njósnastofnanir, leyniþjónustur og lögregluyfirvöld flestra landa halda úti víðtæku eftirliti með þegnum sínum (og annarra þegnum), ekki síst í nafni baráttunnar við hryðjuverkahópa og aðra stórglæpamenn. Til þess að finna þrjótana þarf væntanlega að fylgjast meira og minna með öllum almenningi til þess að geta vinsað "góðu gæjana" frá þeim vondu. Slíkt eftirlit fer meira og minn fram í gegn um tölvur og myndavélar, sem fylgjast með ferðum fólks og farartækja um líklegar sem ólíklegar slóðir. Allar ferðir fólks er orðið auðvelt að rekja eftir farsímum, greiðslukortum og alls kyns rafrænum leiðum og óvíða orðið hægt að fara án þess að auðvelt sé að rekja slóðina eftirá, ef ekki jafnóðum.
Upphlaupið um njósnir CIA um tölvusamskipti almennings í leit að hryðjuverkamönnum er að mörgu leyti undarlegt í því ljósi að öllum hefur verið kunnugt um þessar njósnir árum saman og þær eru stundaðar af flestum löndum veraldarinnar, a.m.k. þeim sem eitthvað þykjast eiga undir sér. Meira að segja er sagt að allar Norðurlandaþjóðirnar standi í njósnum af þessu tagi og teljast þær þó varla með þeim "stóru" í heiminum.
![]() |
Á ekki að fá að ferðast áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.6.2013 | 20:17
Útskýringar óskast á áskorun
Fyrri liður áskorunar til Alþingis og forsetans til vara hljóðar svona: "Við undirrituð hvetjum Alþingi til að samþykkja ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum nr. 74/2012 frá 26. júní 2012 þar sem skilgreind eru þau gjöld sem útgerðinni ber að greiða fyrir afnot af sameiginlegri fiskveiðiauðlind okkar."
Textinn vekur upp þá spurningu hvort sá sem undirritar hann sé með því að segja að ALDREI megi breyta lögum nr. 74/2012, eða bara hvort ekki megi breyta þeim NÚNA á þessu sumarþingi. Ef meiningin er að ALDREI megi breyta umræddum lögum, er það þá skilningur undirritara að í þeim felist hinn eini rétti og eilífi útreikningur á veiðileyfagjöldum og þar með hvorki eigi eða megi Alþingi nokkurn tíma fjalla framar um skatta á fiskveiðar við Íslandsstrendur.
Seinni hluti áskorunarinnar hljóðar á þennan veg: "Verði Alþingi ekki við þeirri ósk verður þessi undirskriftalisti afhentur hr. Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands og hann hvattur til að undirrita ekki lög sem taka til breytinga á lögum nr. 74/2012 frá 26. júní 2012 heldur vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæði til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar."
Verði Alþingi ekki við áskoruninni og hafni forsetinn frumvarpinu staðfestingar þannig að kjósendur taki milliliðalausa afstöðu til málsins, ber þá að skilja afstöðu undirritaranna á þann veg að með slíku yrði sett fordæmi fyrir því að skattabreytingahugmyndir ríkisstjórna framtíðarinnar skuli undanbragðalaust, safnist til þess ákveðinn fjöldi undirskrifta, vísað til þjóðarinnar til ákvörðunar, hvort sem um tekjuskatta væri að ræða, virðisaukaskatt, vörugjöld, tolla eða hvern annan skatt eða gjald sem ríkisstjórnum dytti í hug að hækka, eða lækka, í það og það sinnið.
Vonandi sjá sem flestir, sem undir áskorunina hafa skrifað, sér fært að útskýra hvað þeir höfðu nákvæmlega í huga þegar afstaða til málsins var tekin.
![]() |
Sammála um að vera ósammála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.6.2013 | 14:04
Stórhækka alla skatta
Að sjálfsögðu verður að taka tillit til undirskrifta tíu prósent þjóðarinnar um stórhækkun skatta á alla sem draga björg í þjóðarbúið, hvort sem um er að ræða veiðigjöld, tekjuskatta á greinina sjálfa og svo alla þá sem einhverja hagsmuni hafa af því að útgerð þrífist í landinu.
Þegar að er gáð er það þjóðin sjálf sem mestra hagsmuna hefur að gæta í málinu, þar sem sjávarútvegur hefur verið aðalundirstöðuatvinnugrein hennar um áratugi og í raun komið henni frá örbirgð til sjálfsbjargar.
Þess vegna er auðvitað rökrétt að um leið og veiðigjöld verða hækkuð verulega frá því sem áður hefur verið verði tekjuskattar þjóðarinnar hækkaðir svo um munar, enda nánast hvert mannsbarn í landinu sem nýtur sjávarútvegsins í lífskjörum sínum.
Uppbygging atvinnugreina og velgengni þeirra er bara hjóm eitt hjá því sæluríki sem hægt er að byggja upp hér á landi með ofursköttum og vinnuleysi.
![]() |
Ánægjulegt hve margir hafa skoðun á málinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)