Færsluflokkur: Bloggar
6.9.2013 | 19:51
Húmorslaus kóngur og borgarstjóri á sama plani
Svíakóngur er annálaður fyrir sinn þurra og einkennilega húmor, sem öðrum en honum sjálfum er lítt skiljanlegur eða þykir a.m.k. alls ekki fyndinn af flestum. Svíar hneykslast nú vegna nýjustu "brandara" hans um að kóngur hyggist bara "loka sjoppunni" og stunda bleyjuskipti á barnabarni sínu í New York næstu árin. Ekki þótti heldur sniðugt að hann skyldi segja að líklega flytjist dóttirin til Íslands því þar sé betra að búa en í Svíþjóð.
Íslendingar kannast vel við lélegan húmor einstkra framámanna hérlendis og nærtækast er að benda á borgarstjórann í Reykjavík sem enginn veit hvort meinar það sem hann segir, eða hvort það á að vera fyndið enda með afar furðulegan húmor sem fáum hugnast.
Aðalmunurinn á Svíakóngi og Reykjavíkurborgarstjóranum er þó sá að kóngurinn svarar heimskulegum spurningum með heimskulegri fyndni, en borgarstjórinn svarar skynsamlegum spurningum með aulahætti, enda skilur hann þær sjaldnast.
![]() |
Svíakonungur harðlega gagnrýndur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.9.2013 | 07:17
Siglufjörður verður í forystu ferðamannabæja
Mikil uppbygging ferðaþjónustu hefur verið á Siglufirði undanfarin ár og er henni alls ekki lokið, en þegar allt verður orðið eins og fyrirhugað er verður kaupstaðurinn án nokkurs vafa einn eftirsóttasti ferðamannabær landsins.
Unnið er við nýjan og glæsilegan golfvöll, stækkun skíðasvæðisins er fyrirrhuguð og hafin er bygging nýs hótels í hjarta bæjarins gegnt glæsilegum veitingastöðum sem opnaðir hafa verið í endurnýjuðum fiskvinnsluhúsum við höfnina.
Sá, sem á heiðurinn af þessari uppbyggingu allri, er framkvæmdamaðurinn og fjárfestirinn Róbert Guðfinnsson sem með þessum framkvæmdum er að breyta svip fæðingarbæjar síns úr því að hafa áður fyrr verið einn fremsti fiskvinnslubær landsins í að verða glæsilegasti ferðamannabær landsins.
Við þetta er síðan að bætast bygging Orra Vigfússonar og Chad R. Pike á glæsihóteli í Fljótum og þyrluþjónusta við skíðafólk, sem kýs að skíða á óhefðbundnum skíðasvæðum og verður sú lúxusferðamennska til að ýta enn undir að Tröllaskaginn og Siglufjörður munu laða til sín ferðafólk úr allri tegund ferðaþjónustunnar í nánustu framtíð og raunar til langrar framtíðar.
Ef til vill verða þetta glæsilega framtak öðrum fjársterkum aðilum til fyrirmyndar við uppbyggingu í heimabæjum sínum hringinn í kringum landið. Þangað til a.m.k. verður Siglufjörður fremstur ferðamannastaða landsins.
![]() |
Yfirmaður hjá Blackstone leggur til fé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.9.2013 | 20:43
Hvenær er æra uppreist og skuld greidd?
Mikil umræða hefur skapast vegna þess klaufagangs sem upp kom vegna beiðni Baldurs Þórhallssonar til Jóns Baldvins Hannibalssonar um að vera gestafyrirlesari á námskeiði Baldurs í Háskólanum í vetur og síðan afturköllun þeirrar beiðni vegna klámbréfa Jóns Baldvins til ungrar stúlku í fjölskyldu eiginkonu sinnar fyrir allmörgum árum í sendiherratíð sinni.
Bréfaskriftirnar voru kærðar til saksóknara en fóru aldrei fyrir dómstóla þar sem sök var orðin fyrnd vegna þess hve lengi hafði dregist að leggja kæruna fram. Jón Baldvin baðst síðar afsökunar á "dómgreindarbresti" sínum, en sú afsökunarbeiðni var aldrei tekin til greina af þolandanum og engin fyrirgefning veitt.
Rútubílstjóri var rekinn úr vinnu eftir að upp komst að hann hafði á árum áður verið dæmdur fyrir barnaníð og þann dóm hafði hann setið af sér og ekki komist í kast við lögin eftir það, svo vitað sé. Þetta leiðir hugann að því hvenær æra manna sé uppreist og skuld sakamanna við þjóðfélagið telst greidd.
Er skuldin uppgerð eftir að sakamaður hefur afplánað dóm sinn og á hann þá að vera laus mála og þurfa ekki að þola viðbótarrefsingar og vinnumissi jafnvel mörgum árum eftir að brot var framið og afplánun var lokið? Er skuld við fórnarlamb uppgerð með afsökunarbeiðni þess seka, jafnvel þó fórnarlambið taki þeirri beiðni ekki vel og fyrirgefi aldrei það sem misgert var?
Þetta eru siðferðisspurningar sem vert er að velta vandlega fyrir sér.,
![]() |
Álykta ekki um mál Jóns Baldvins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.9.2013 | 17:32
Hver verður fyrstur til að játa?
Allir sakbornigar í málum sem Sérstakur saksóknari hefur höfðað gegn útrásar-, banka- og öðrum falsfjárfestum á árunum fyrir hrun harðneita öllum sökum og reyna allt sem í þeirra valdi og lögfræðinga þeirra stendur til þess að hvítþvo æru sína í augum almennings.
Enn sem komið er hefur sá kattarþvottur ekki hlotið mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar, en hins vegar eru þessi sakamál svo flókin að erfiðlega virðist ganga hjá saksóknaranum að leggja fram svo pottþéttar sannanir að færustu og dýrustu lögfræðingar landsins geti ekki véfengt þær, afbakað og tafið málin svo að ár og dagar munu líða áður en nokkur niðurstaða mun fást.
Fróðlegt yrði hins vegar að sjá þann sakborning í þessum fjársvikamálum öllum sem játa myndi brot skýlaust og leggja öll spil á borð til að upplýsa þátt sinn í þessum reyfarakenndu málum.
![]() |
Allir sakborningar neituðu sök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.8.2013 | 11:35
Árás óréttlætanleg án öruggra sannana
Obama, Bandaríkjaforseti, virðist vera búinn að ákveða að gerð verði loftárás á sýrlensk skotmörk í hefndarskyni fyrir eiturefnaárás sem gerð var fyrir um það bil tíu dögum í útjaðri Damaskus, höfuðborgar Sýrlands.
Borgarastríðið í Sýrlandi hefur verið að þróast þannig að stjórnarherinn hefur verið að ná yfirhöndinni yfir uppreisnarhópunum og þó stjórnvöld í Sýrlandi hafi sýnt að þeim sé í litlu treystandi, þá verður að segjast að eiturefnaárás af þeirra hálfu á almenna borgara á þessu stigi átakanna hefði verið algerlega vitfyrrt og það sama dag og eftirlitssveit SÞ kom til landsins til að rannsaka ásakanir um fyrri beitingu eiturefna og hvort stjórnarherinn eða uppreisnarhóparnir hafi beitt þeim í þeim tilfellum.
Ætli Bandaríkjamenn og fylgjendur þeirra að leggja út í hernaðaraðgerðir að þessu sinni er lágmarkskrafa að þeir leggi fram algerlega óvéfengjanlegar sannanir fyrir því hverjir stóðu á bak við eiturefnaárásirnar því heimskulegri stríðsaðgerðir hafa ekki sést eða heyrst en þessi eiturefnanotkun á þessum tíma, hafi stjórnarherinn staðið að baki þeirra.
Ýmislegt bendir til að uppreisnarmenn hafi staðið að þessum aðgerðum, einmitt til að fá Bandaríkin til að blanda sér í átökin og aðstoða þannig við að steypa stjórnvöldum í Sýrlandi. Enginn veit hvað tæki þá við í landinu og hvort það yrði landsmönnum þar, eða umheiminum til góða.
Sporin í nágrannalöndunum hræða.
![]() |
Búast við árás á hverri stundu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
28.8.2013 | 01:34
Reykjavík er og verður bílaborg og Íslendingar bílaþjóð
Páll Hjaltason, formaður umhverfis- og skipulagsráðs í Reykjavík, kvartar undan því að borgin sé "bílaborg" og bráðnauðsynlegt sé að tefja umferð bílanna um borgina með þrengingum gatna, fækkunum bílastæða og öllum öðrum ráðum sem fyrirfinnast í þeim efnum.
Þetta endurspeglar það viðhorf að bílar séu á ferðinni um borgina einir og sér í algerum óþarfa og geri ekki annað en að þvælast fyrir gangandi og hjólandi vegfarendum. Staðreyndin er auðvitað sú, að fólk er í öllum þeim bílum sem á ferðinni eru í borginni og eigendur þeirra nota þá til að komast fljótt og örugglega milli staða til þess að spara bæði tíma og fyrirhöfn, því þægilegri ferðamáta en bílinn er ekki hægt að hugsa sér.
Allar breytingar í framleiðslu bifreiða í framtíðinni miða að því að bílarnir verði minni, sparneytnari og mengi minna en þeir gera núna. Þetta mun nást með nýjum vistvænni orkugjöfum, t.d. rafmagni sem hægt verður að framleiða hér innanlands og spara með því dýrmætan gjaldeyri og gera þjóðina allt að því sjálfa sér nóga með orkugjafa fyrir umferðina.
Borgaryfirvöld ættu því að greiða sem mest fyrir fólki sem framvegis, sem hingað til, mun velja sér bílinn sem fararskjóta við að sinna erindum innanbæjar sem utan og þar á meðal að fjölga bílastæðum og bílastæðahúsum sem mest til að anna og greiða fyrir þeirri bifreiðaumferð sem fyrirsjáanlegt er að aukist til mikilla muna í framtíðinni.
Bílahatur einstakra framámanna í borginni beinist fyrst og fremst gegn eigendum þeirra, sem reyndar eru ekki bara bílstjórar, heldur líka kjósendur.
![]() |
Reykjavík er bílaborg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.8.2013 | 20:08
Auðvitað á að opna leikskólann strax aftur.
Í rannsókn hjá til þess bærum yfirvöldum er atvik sem átti sér stað á Leikskólanum 101, sem samkvæmt fréttum snýst um ólithlýðilega framkomu eins eða tveggja starfsmanna gagnvart börnum sem þar voru í dagvist.
Viðhangandi frétt fjallar um málið og m.a. vitnað til ummæla lögmanns eiganda leikskólans og m.a. kemur eftirfarandi fram: "Þá segir hún að Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, hefði greint frá því á fundinum, að miðað við það sem þau hafa í höndunum - sem er þá þessi tilkynning, viðtöl við starfsfólk og þessi myndskeið - að þar væri fram komin atvik sem gerðar væru athugasemdir við en það væri ekki litið svo á að einhver glæpur hefði verið framinn, segir Þyrí og bætir við að hún vilji fá fram allar athugasemdir og úrræði strax."
Væri hér um "atvik" að ræða sem átt hefði sér stað á einhverjum opinberum leikskóla, þ.e. leikskóla í eigu sveitarfélags, hefði honum aldrei verið lokað einn einasta dag og viðkomandi starfsmaður hefði fengið áminningu og haldið starfinu áfram, hafi enginn glæpur verið framinn.
Svipaðar reglur hljóta að eiga við leikskóla hver sem rekstraraðilinn er og því hlýtur Leikskóli 101 að opna aftur fljótlega og halda starfi sínu áfram í þágu foreldra þeirra barna sem nauðsynlega þurfa á dagvist að halda.
![]() |
Bauðst til að opna leikskólann á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2013 | 17:44
Menningarnótt er ekki öllum ætluð
Menningarnótt er hið merkasta fyrirbæri þar sem allir geta skemmt sér við eitthvert þeirra hundruða atriða sem boðið er uppá í miðborginni, eða með því einu að sýna sig og sjá aðra.
Einn stór ljóður er þó á skipulagi hátíðarinnar og hann er sá að ellilífeyrisþegum, öryrkjum og öðrum sem erfitt eiga um gang er nánast gert ómögulegt að taka þátt í herlegheitunum, því miðborgin er algerlega lokuð öllum farartækjum og strætisvagnar fara ekki nær Arnarhóli t.d. en að Hlemmi eða Umferðarmiðstöðinni.
Margir geta ekki skokkað slíkar vegalengdir fram og aftur og það jafnvel oftar en einu sinni á dag, því varla er reiknað með að fólk haldi sig í bænum án hlés frá morgni og til miðnættis.
Til að kóróna vitleysuna er auglýst að til að njóta flugeldasýningarinnar sem hátíðinni lýkur með klukkan 23, þá verði allir að vera staddir á Arnarhóli því þaðan verði sýningarinnar best notið því rakettunum verði skotið upp af húsunum í kringum hólinn. Hvers eiga þeir að gjalda sem ekki hafa áhuga á að sækja hljómleika Rásar 2 sem fram fara á Arnarhóli á tímabilinu 20:30-23:00, þ.e. alveg fram að flugeldasýningunni?
Auðvelt hefði verið að skipuleggja strætóferðirnar þannig að vagnarnir gengju niður Sæbraut og hefðu endastöð við Ingólfsgarð í nágrenni Hörpu og hefði það auðveldað fótafúnum að njóta þeirrar menningar sem boðið er uppá á þessari hátíð.
Vonandi læra skipuleggjendur Menningarnætur af þessum mistökum og bæta úr fyrir næsta ár.
![]() |
Vöfflukaffi og nikkudans á Menningarnótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2013 | 19:32
ESB lýsir yfir stríði gegn fimmtíuþúsund manna þjóð
Fyrsta formlega styrjöldin sem ESB lýsir og leggur í gegn einstakri þjóð er hafið, þar sem ESB hefur lýst yfir efnahagslegri styrjöld gegn fimmtíuþúsund manna þjóðinni sem Færeyjar byggja og eiga allt sitt undir sjósókn og fiskveiðum.
Færeyjar eru í ríkjasambandi við ESBríkið Danmörku sem nú tekur þátt í því að kúga Færeyinga til hlýðni við ESB og yfirgang stórríkisins væntanlega gagnvart örríkjum i norðurhöfum. Ótrúlegt en satt er að Norðmenn styðja þennan níðingsskap og hafa lýst yfir mikilli ánægju með stríðsyfirlýsingu ESB en hafa þó ekki ennþá staðfest að Noregur taki beinan þátt í stríðinu.
ESB hefur jafnframt lýst yfir, með stuðningi Norðmanna auðvitað, að samsvarandi efnahagsstyrjöld verði hafin á hendur Íslendingum fljótlega, sem telja verður mikla hetjudáð úr þeirri átt enda Íslendingar sexfalt fjölmennari en Færeyingar.
Ótrúlegast af því sem sést hefur á islenskum samsfélagsmiðlum er að einstaka ESBsinnar, íslenskir, taka afstöðu með ESBníðingunum og finnst þessi efnahagsstyrjöld gegn smáþjóðum algerlega sjálfsögð. Smámenni sem ekki styðja eigin þjóð á stríðstímum finnast víst hvarvetna, en geðsleg eru þau ekki.
![]() |
Fordæmir framgöngu ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.8.2013 | 14:16
Upplýsingar "teknar" úr fólki
Málvitund og -tilfinning fer hratt hrakandi, sérstaklega hjá yngri kynslóðunum, og kemur þetta æ oftar fram í fjölmiðlunum. Sumar fréttir virðast vera skrifaðar af unglingum sem ekki hafa notið mikillar skólagöngu eða að skólakerfinu hafi hrakað svo mjög að fólk komist í gegnum það án þess að læra sitt eigið tungumál almennilega.
Í viðhangandi frétt, sem ekki er löng eða efnismikil, má sjá góð dæmi um slaka máltilfinningu í eftirfarandi setningum: "Hafði hún ekki aðeins ollið umferðarslysi heldur var hún einnig ölvuð undir stýri. Var hún því handtekinn og ekki látin laus aftur fyrr en að lokinni sýna- og upplýsingatöku."
Í fyrri setningunni átti auðvitað að segja "valdið" en ekki "ollið" og í seinni setningunni er rætt um sýna- og upplýsingatöku eins og þetta tvennt eigi eitthvað sameiginlegt. Sýnin sem rætt er um eru væntanlega blóð- eða þvagsýni sem tekin eru úr viðkomandi á allt annan hátt en upplýsingarnar sem sá grunaði gefur um athæfi sitt.
Sá sem þetta ritar er enginn íslenskufræðingur, en svona ambögur stinga þó í augu og valda heilmiklum andlegum sársauka.
![]() |
Kona á sjötugsaldri stakk af |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)