Færsluflokkur: Bloggar

A.m.k pólsku, spænsku, frönsku, dönsku og víetnömsku á skiltin með enskunni

Vegna þess að einn og einn ferðamaður hefur álpast inn á svæði þar sem afleit veðurspá hefur verið í gildi, hefur Vegagerð ríkisins tekið upp á því furðulega athæfi að hætta að birta viðvaranir á vegaskiltum sínum á íslensku, en tekið upp ensku í staðinn.

Ekki er vitað hvort ferðamennirnir sem lentu í hrakningum nú síðast, eða áður, hafi skilið ensku, því oft er um að ræða ítali, frakka, kínverja, japani, filippseyinga og í raun fólk hvaðanæva úr heiminum, sem lent hefur í alls kyns ógöngum í ferðum sínum hingað til lands og margir þeirra hafa ekki kunnað stakt orð í ensku.

Því er óskiljanlegt að Vegagerðin skuli taka enskuna upp sem sitt tungumál, reyndar í algeru trássi við landslög, því ef á að fara að birta allar viðvaranir um veður, vegi, eða annað, á öðrum tungumáli en því ylhýra, þá hljóta ítalska, pólska, franska, víetnamska, danska o.s.frv. að vera jafnrétthá enskunni í þessu efni.

Auðvitað væri miklu auðveldara að brýna fyrir erlendum ferðamönnum að kynna sér veðurspá nokkra daga fram í tímann og haga ferðum sínum í samræmi við það.  Flestir ef ekki allir ferðamenn sem velja Ísland til að ferðast um vita að við ýmsu er hægt að búast í sambandi  við veður og náttúruna yfirleitt.

Að minnsta kosti verður að ætlast til þess að opinberar stofnanir og ríkisfyrirtæki fari að lögum landsins. 


mbl.is Bannað að birta „CLOSED“ á ljósaskilti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skattleggja atvinnuvegina úr landi

Vinstri stjórnin sem ríkti hér í fjögur ár, en þraut örendið sem betur fer í vor, hækkaði alla skatta sem hægt var að hækka og bætti svo mörgum og flóknum sköttum við, að núorðið skilur enginn skattkerfið í landinu nema hálærðir endurskoðendur og aðrir skattasérfræðingar. 

Stórtækasta skattahækkunin sem vinstri stjórnin stóð fyrir, eftir að málið hafði vafist fyrir henni í tæp fjögur ár, var hækkun veiðigjalds sem eftir allan tímann sem fór í undirbúninginn var svo meingallað að ógerningur reyndist að leggja þessa skattahækkun á útgerðina.

Í viðhangandi frétt bendir Þorarður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Deloitte, á að með því að reikna veiðigjaldið m.a. út frá hagnaði landvinnslunnar muni það á endanum leiða til þess að fiskvinnslan muni einfaldlega flytjast úr landinu og á því munu auðvitað allir tapa,  verkafólk, vinnslufyrirtækin og ríkissjóður sjálfur.  

Vinstri menn hafa aldrei skilið hve letjandi ofurskattar eru og ættu að lesa eftirfarandi orð Þorvarðar oft og vandlega:  „Ef við ætlum að draga tennurnar úr íslenskum sjávarútvegi með ofurskattlagningu, þá mun það leiða til minni verðmætasköpunar.“

Þessi vísindi eru ekki flóknari en svo að jafnvel vinstri sinnað fólk ætti að geta skilið þau. 


mbl.is Hætta á að vinnslan færist út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör og ekkert annað

Á morgun mun Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík kjósa um hvort fram skuli fara prófkjör, þar sem aðeins verði kosið um fyrsta sæti listans í næstu borgarstjórnarkosningum, eða venjulegt prófkjör þar sem kosið er um öll sæti listans.

Undanfarna áratugi, nánast eins langt aftur og tiltölulega gamlir menn muna, hafa farið fram prófkjör innan Sjálfstæðisflokksins, þar sem frambjóðendur hafa tekist á um sæti á framboðslistum og hafa þau ávallt heppnast afar vel og ekki orðið nein eftirmál á milli frambjóðenda.  Þvert á móti hafa frambjóðendur snúið bökum saman eftir prófkjörin og unnið heilshugar og sameinaðir að framgangi flokksins í hverjum kosningum fyrir sig.

Að ætla að kjósa eingöngu um leiðtoga listans er undarleg og nánast ómöguleg hugmynd, því hvað hyggst kjörnefndin gera við þá frambjóðendur sem lenda í öðru til tíunda sæti í leiðtogakjörinu?  Ætlar hún að raða þeim á framboðslistann í þeirri röð sem leiðtogakjörið sagði fyrir um, eða á ekki að taka neitt mark á því sem út úr þeirri kosningu  kemur, að frátöldu fyrsta sætinu?  Ef svo, hverja á þá að velja á listann með leiðtoganum?

Leiðtogakjör er stórgölluð aðferð og reyndar nánast handónýt.  Prófkjör um öll sæti listans og sem allt flokksbundið Sjálfstæðisfólk hefur rétt til að taka þátt í er eina raunhæfa leiðin til að velja á framboðslista flokksins.

Ekki verður öðru trúað en að sú verði niðurstaða fulltrúaráðsins. 


mbl.is Kjósa um tvær leiðir við val á lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrum Helga Hjörvar vegna skuldamála

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, afhjúpaði sig sem lýðskrumara af stærri gerðinni á Alþingi í dag þegar hann í fyrirspurn til Frosta Sigurjónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, lét að því liggja að eðlilegt væri að sumir húsnæðislánaskuldarar væru í öngum sínum vegna þess að útlit væri fyrir að þeir fengju ekki nema eina leiðréttingu á lánum sínum, þegar og ef kosningaloforð Framsóknar kemur til framkvæmda.

Helgi segir að þeir sem hafi  fengið niðurfellingu skulda eftir svokallaðri 110% leið hafi miklar áhyggjur af því að fá ekki leiðréttingu aftur, þegar fyrirhuguð lækkun lána vegna verðbólguskotsins á árunum 2007-2010 verður að veruleika, þegar og ef fyrirhugaðar ráðstafanir þar um verða framkvæmdar.

Auðvitað getur ekki verið að nokkrum manni detti í hug að hann fái skuldaniðurfellingu oftar en einu sinni vegna sömu skuldanna og því er lýðskrum af því tagi sem Helgi Hjörvar og fleiri stunda afar ámælisvert.

 


mbl.is Fái ekki leiðrétt tvisvar sinnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þegja til að "líta betur út"

Margt afar athyglisvert kemur fram í viðhangandi frétt af málefnum ESB, fjármála- og bókhaldsóreiðu þess og þeirri staðreynd að aldrei hafa endurskoðendur báknsins getað áritað ársreikningana sem rétta.

Fram kemur að Daly Telegraph segi í umfjöllun um málið "að endurskoðendur ESB hafi, frá því að þeim var gert skylt að senda frá sér árlega skýrslu um fjármál sambandsins árið 1994, ekki getað staðfest reikninga þess vegna víðtækrar óreglu í bókhaldinu og þar á meðal fjársvika."

Þessum staðreyndum vill Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, leyna fyrir almenningi vegna þess að almenn vitneskja um þetta hneyksli í rekstri ESB skapaði neikvæða umfjöllun um stórríkið væntanlega og tiltrú fólks til þess færi síminnkandi.

Leiðtogaráðsforsetinn gaf jafnvel í skyn að endurskoðendurnir ættu, þrátt fyrir eiðsvarna skyldu sína, að gefa jákvæða umsögn um bókhaldið þrátt fyrir alla óregluna og svindlið sem það sýnir glögglega.

Ekki kæmi  á óvart þó ESB samþykkti fljótlega að bókhald og fjárreiður báknsins skuli vera "einkamál ESB" og opinber birting og umfjöllun um það verði þá algerlega óheimil.

Allt til að efla tiltrú almennings á þessu gríðarlega skriffinnskubákni, sem virðist leynt og ljóst stefna að því að líkjast Sovétríkjunum sálugu meira og meira. 


mbl.is Gefi betri mynd af Evrópusambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg samþykkt ESB gegn heimskulegri framleiðslu

Þó hagsmunum Íslands í heild sé betur borgið utan ESB en innan þess er full ástæða til að halda uppi góðu sambandi og viðskiptum við Evrópulöndin, enda er það gert með samningnum um evrópska efnahagssvæðið.

Reglugerðafargan ESB, sem Íslendingar þurfa að taka upp, er gífurlegt og oft hefur Alþingi verið kaþólskara en páfinn, þ.e. þegar reglugerðir hafa verið teknar upp algerlega óbreyttar þrátt fyrir heimildir til þess að laga þær að aðstæðum einstakra landa og nægir þar að benda á reglugerð um raforkudreifingu sem dæmi.

Í viðhangandi frétt er rætt um samþykkt ESB um að takmarka notkun lífræns eldneytis þannig að það fari aldrei yfir 10% af heildarnotkun og að aldrei meira en 6% komi frá landi sem sérstaklega er ræktað til eldneytisframleiðslu úr plöntum.

Það verður að teljast algerlega geggjað að leggja ræktunarland undir eldsneytisframleiðslu á meðan hungur ríkir víða í heiminum og svo langt hefur þessi vitleysa gengið að byrjuð er ræktun lands á Íslandi, því harðbýla landi, til framleiðslu á lífdísel.  

Það hlýtur að teljast toppurinn á þessari vitleysu að ætla að "rækta" eldsneyti, jafnvel á norðurhjara veraldar, á meðan milljónir barna deyja úr hungri á hverju ári. 


mbl.is Takmarka notkun lífræns eldneytis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundurinn er orðinn "þarfasti þjónninn"

Þegar eldur kviknaði í íbúð í fjölbýlishúsi s.l. nótt var það heimilishundurinn sem líklega bjargaði lífi íbúanna í íbúðinni með gelti sínu.  Enginn reykskynjari var uppsettur á staðnum, sem auðvitað ætti að vera sjálfsagður hlutur, en það á  við um ótrúlega mörg heimili landsins.

Þessi saga sannar enn og aftur að hundur ætti að vera á hverju heimili, enda ekki hægt að hafa ljúfari og betri vini í daglegu návígi.  Til viðbótar dregur hundur heimilisfólkið út í göngutúra og eru því heilsubætandi í ofanálag við allt annað.

Reykskynjarar, sjúkrakassar og fleiri öryggisatriði eiga auðvitað að vera í lagi á hverju heimili, en hundur ætti einnig að vera gleðigjafi jafnvíða.

Hundurinn hefur tekið við af hestinum sem "þarfasti þjónninn" og er góður og tryggur vinur að auki. 


mbl.is Hundur bjargaði mannslífum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá lét Birgitta eftir sér að spila á sínar lægstu hvatir

Steinunn Valdís Óskarsdóttir guggnaði undan margra vikna ofsóknum ofstopafólks vorið 2010 og sagði af sér þingmennsku til þess að fá frið fyrir sig og fjölskyldu sína á eigin heimili.

Steinunn segir að Birgitta Jónsdóttir, þá þingmaður Hreifingarinnar og nú Sjóræningja, hafi verið einn af forystumönnum ofsóknarliða sem þá hefur látið eftir sér að spila á sínar lægstu hvatir, en eftir því sem hún sjálf segir þá lætur hún slíka háttsemi oft eftir sér.

Í umræðum á Alþingi í dag datt m.a. upp úr henni í þingræðu um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar: "En vil ég standa á vígvelli í næstu fjögur ár þar sem spilað er inn á lægstu hvatir mannlegs eðlis?“ sagði hún ennfremur og sagðist ekki vilja láta það eftir sér."

Miðað við þessi ummæli hennar finnst henni meira en ásættanlegt að "spila inn á lægstu hvatir mannlegs eðlis", en lætur það ekki eftir sér nema við ákveðin tækifæri.

Steinunn Valdís virðist hafa lent í tímabili þar sem Birgitta lét þessar lágu hvatir eftir sér. 


mbl.is Segir Birgittu að baki aðför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg birtingarmistök mbl.is

Viðhangandi viðtal við dóphaus, sem dásamar E-pilluna undir nýju og sakleysislegu nafni, þ.e. Mollý, hljóta að teljast einhver dapurlegustu og vanhugsuðustu birtingarmistök á vefmiðli í langan tíma.  

Viðtalið er einungis hluti  umfjöllunar sem birtist í Monitor, sem borinn er út með Mogganum, en þar er fjallað um alvarlegar hliðar á neyslu efnisins og þar á meðal dauðsföll sem rekja má beint til neyslunnar.

Viðtalið, sem birtist á mbl.is, er því algerlega út úr kortinu, en í því  er neysla dópsins dásömuð og látið eins og það sé algerlega hættulaust og nánast hreinn gleðigjafi á mannamótum.  Slík upphafning eiturlyfja er ófyrirgefanleg á mest lesna vefmiðli landsins. 

Viðkomandi "blaðamaður" hlýtur að biðjast opinberlega afsökunar á þessum mistökum. 


mbl.is Viðtal við Mollý neytanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blekkingar um "óútskýrðan kynbundinn launamun"

Starfsfólki hins opinbera, bæði hjá ríki og sveitafélögum, er raðað í launaflokka samkvæmt starfsmati, sem tekur ekkert tillit til þess einstaklings sem gegnir starfinu heldur miðast eingöngu við umfang og eðli starfsins sjálfs.

Samkvæmt þessu mati skiptir engu máli hvort karl eða kona er ráðin til starfans, launin eru ákveðin fyrir starfið sjálft en ekki einstaklinginn sem gegnir því.  Áratugum saman hefur hins vegar verið rætt um "óútskýrðan kynbundinn launamun" hjá hinu  opinbera og er sú umræða algerlega óskiljanleg í ljósi þess hvernig laun eru ákvörðuð fyrir störf hjá opinberum aðilum.

Það hljóta að vera hæg heimatökin að fara ofan í saumana á því hvað er verið að greiða fyrir hvert einasta starf, sem metið hefur verið til launa í launatöflum ríkisins og sveitarfélagana og skýra út hvers vegna sumir fá viðbótargreiðslur (aðallega karlmennirnir), en aðrir ekki (aðallega konurnar).  Einnig hlýtur að vera einfalt að sjá hvaða viðbótargreiðslur þetta eru og hvort þær eru í raun nauðsynlegar starfsins vegna, t.d. bílastyrkir, símapeningar, dagpeningar eða hvað allar aukasporslurnar eru kallaðar til að komast fram hjá kjarasamningunum.

Lágmarkskrafa er að hætt verði að bjóða upp á þessa endalausu umræðu um "óútskýrðan kynbundinn launamun".  Hann er hvort sem er einungis blekking sem opinberir aðilar og viðkomandi stéttarfélög hafa engan áhuga á að útrýma. 


mbl.is Karlar með 20% hærri laun í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband