Upplýsingar "teknar" úr fólki

Málvitund og -tilfinning fer hratt hrakandi, sérstaklega hjá yngri kynslóðunum, og kemur þetta æ oftar fram í fjölmiðlunum.  Sumar fréttir virðast vera skrifaðar af unglingum sem ekki hafa notið mikillar skólagöngu eða að skólakerfinu hafi hrakað svo mjög að fólk komist í gegnum það án þess að læra sitt eigið tungumál almennilega.

Í viðhangandi frétt, sem ekki er löng eða efnismikil, má sjá góð dæmi um slaka máltilfinningu í eftirfarandi setningum:  "Hafði hún ekki aðeins ollið umferðarslysi heldur var hún einnig ölvuð undir stýri. Var hún því handtekinn og ekki látin laus aftur fyrr en að lokinni sýna- og upplýsingatöku."

Í fyrri setningunni átti auðvitað að segja "valdið" en ekki "ollið" og í seinni setningunni er rætt um sýna- og upplýsingatöku eins og þetta tvennt eigi eitthvað sameiginlegt.  Sýnin sem rætt er um eru væntanlega blóð- eða þvagsýni sem tekin eru úr viðkomandi á allt annan hátt en upplýsingarnar sem sá grunaði gefur um athæfi sitt.

Sá sem þetta ritar er enginn íslenskufræðingur, en svona ambögur stinga þó í augu og valda heilmiklum andlegum sársauka. 


mbl.is Kona á sjötugsaldri stakk af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innilega sammála þér. Margir fjölmiðlamenn sýna litla hæfni í íslenskukunnáttu. Það sem verra er, enginn á viðkomandi fjölmiðli virðist gera athugasemd við þetta. Nafnháttanotkun er leiðindakvilli í íslensku málfari svo og í rituðu máli. Hvort hægt sé að snúa þróuninni við er stór spurning.

Kveðja, Helga Dögg

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 17.8.2013 kl. 15:51

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta er miklu verra reyndar - þú bendir bara á það versta. Almennt hefur mér sýnst að fréttamenn hvorki kunni né skilji setningafræði. Þeir kunna ekki að nota smáorð, eins og "um" og "í." Mig rgunar að fréttamenn veljist úr lægri klassa eða eitthvað. Nema þeir séu allir 12 ára.

Ásgrímur Hartmannsson, 17.8.2013 kl. 17:21

3 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Framhaldsskólar landsins eru annað hvort hættir að kenna íslensku eða þeir gera ekki kröfur til kennaranna. Svo koma nemendur illa að sér í háskólana og komast upp með að skrifa og tala vitlaust. Málfarsráðunautar og fræðingar kalla þetta málþróun og segja að breytingar séu óumflýjanlegar. Það er rétt að vissu marki, en við verðum samt að standa vörð um málið okkar, sé það okkur kappsmál að halda í eigin þjóðtungu. Það gerum við best með því að kenna börnunum okkar að tala rétt og fylgja því eftir.

Ætla má að nákvæmlega engar kröfur séu gerðar til fjölmiðlamanna. Í rituðu máli á borð við það sem þið vísið í, eru ambögurnar stundum sorglega margar og á sumum útvarpsstöðvum er samsafn af krökkum sem virðast geta gert nánast hvað sem þeim dettur í hug. Þeir eru uppteknastir við að viðra eigin skoðanir, segja sögur af sjálfum sér og spyrja hver annan álits á ýmsu. Mér er til efs að fullorðið fólk nenni almennt að hlusta á þessi börn sitja við hljóðnemana og haga sér eins og þau séu í sófanum heima í stofu að halda partý. En sem betur fer eru líka til góðir blaða -og útvarpsmenn, vel máli farnir og skemmtilegir.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 17.8.2013 kl. 20:06

4 identicon

Sammála ykkur, en svo mætti nú benda á það augljósa í greininni, hún var handtekinn.

Diddi (IP-tala skráð) 18.8.2013 kl. 14:55

5 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Einmitt, hún var handtekiNN.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 19.8.2013 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband