Færsluflokkur: Bloggar

Auðkýfingar byggi spítala - tímabundið

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. lagði á svokallaðan auðlegðarskatt og strax í upphafi var því lýst yfir að hann yrði tímabundinn til nokkurra ára á meðan ríkissjóður væri að komast yfir erfiðasta hjallann eftir bankahrunið um haustið árið 2008.

Eins og til var ætlast rann skattur þessi sitt skeið og lýsti ríkisstjórnin því yfir að hann yrði ekki endunýjaður, heldur myndi hann falla niður eins og upphaflega hefði verið ráð fyrir gert.

Núna, eftir að vera komin í stjórnarandstöðu, ber Steingrímur J. og tveir aðrir þingmenn VG fram tillögu um að skatturinn verði lagður á aftur og tekjur ríkissjóðs af honum eyrnamerktar til byggingar nýrra húsa á Landspítalalóðinni.  Ennfremur er látið fylgja að skatturinn skuli vera tímabundinn, sem fyrr, og einungis verða lagður á í fimm ár, þ.e. árin 2016-2020.

Samkvæmt fréttinni á íbúðareign að vera undanþegin auðlegðarskatti og þó ekki komi fram við hvaða upphæð verið er að miða, getur það varla talist til mikillar auðlegðar þó hjón eigi skuldlausa íbúð og jafnvel rúmlega það og njóti þeirra eigna sinna í ellinni án mikilla fjárhagslegra áhyggna.

Svona skattur mun samt sem áður njóta mikillar hylli í þjóðfélaginu, enda verður hann lagður á "hina", enda njóta allir skattar mikillar hylli sem leggjast á alla aðra en þann sem dásamar skattana hverju sinni.  

Hitt er annað mál að hafi þeir eignamiklu góðar tekju af eignum sínum er ekkert athugavert við að þær séu skattlagðar sérstaklega, tímabundið auðvitað. 

 


mbl.is Auðlegðarskattur til byggingar spítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppnislög yfir Mjólkursamsöluna

Mjólkursamsalan hefur samkvæmt úrskurði Samkeppniseftirlitsins beitt keppinauta sína, fyrst Mjólku og síðar Mjólkurbúið Kú, níðingslegum brögðum til að koma þeim út af markaði.  Mjólkursamsalan notaði markaðsráðandi stöðu sína til að okra á samkeppnisfyrirtækjunum í verði hráefna sem þau gátu ekki keypt annarsstaðar vegna einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar á því sviði.

Mjólkursamsalan er undanþegin samkeppnislögum og hefur nýtt sér það til að einoka markaðinn fyrir mjólkurvörur og tókst að leggja Mjólku undir sig í samstarfi við Kaupfélag Skagfirðinga, sem mun vera stærsti eigandi Mjólkursamsölunnar og þar með ráðandi aðili á þeim markaði í landinu.

Í ljósi þessa alvarlega máls hljóta stjórnvöld að grípa í taumana og setja lög um aðskilnað samrekstrar Kaupfélags Skagafjarðar og Mjólkursamsölunnar, brjóta Mjólkursamsöluna upp í smærri einingar og færa allan rekstur fyrirtækja sem tengjast landbúnaði undir samkeppnislög, eins og hver önnur fyrirtæki í landinu.

Núverandi skipan laga og reglna um fyrirtæki landbúnaðarins og þá alveg sérstaklega um rekstur Mjólkursamsölunnar er nánast eins og hvert annað nátttröll úr þjóðsögunum sem dagað hefur uppi með breyttum kröfum um nútímalega og heiðarlega viðskiptahætti.

Ekki síður þyrfti að breyta lögum í þá veru að brjóti fyrirtæki jafn gróflega af sér og Mjólkursamsalan hefur orðið ber að, þá verði stjórnendur þeirra gerðir persónulega ábyrgir alveg eins og gildir um stjórnendur ef þeir standa ekki skil á gjöldum starfsmanna sinna til hins opinbera.

 


mbl.is Segir tjónið nema 200 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sykraður Landspítali?

Fólk er misjafnlega áhugasamt um háa skattlagningu og oftast snýst áhuginn um að sleppa sjálfur sem best frá allri skattlagningu en þykja jafn sjálfsagt að "hinir" borgi sem allra mest, bæði í beina og óbeina skatta.

Fyrirhuguð niðurfelling hins fáránlega sykurskatts gefur einum þingmanni Framsóknarflokksins tilefni til að viðra þær hugmyndir að vænlegra væri að láta nammigrísi þjóðarinnar halda áfram að borga slíkan skatt, enda sé sykur óhollur og á tuttugu árum gæti skatturinn greitt byggingarkostnað nýs landspítala.  Með sömu rökum má segja að með því að tvöfalda skattinn væri hægt að borga nýjan spítala upp í topp á tíu árum.

Til að fjármagna tækjakaup fyrir nýja sjúkrahúsið ætti með sömu rökum að skattleggja saltnotkun landans sérstaklega með háu vörugjaldi og þá ekki síður feitt kjöt, hveiti og alla aðra óhollustu sem hægt er að tengja þeim lífsstílssjúkdómum sem nú til dags eru raktir til mataræðis fólks og þar með aukningu innlagna á sjúkrahúsin og aukins álags á heilbrigðiskerfið í heild sinni.

Áhugafólk um skattpíningu mun  alltaf geta fundið réttlætingu á skattahækkunum, sérstaklega á alla "hina". 


mbl.is Gæti borgað nýjan Landspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misræmi í máli Ríkissaksóknara sem verður að rannsaka

Ríkissaksóknari segir eitt í viðtölum við RÚV, en allt annað í skriflegu svari til Morgunblaðsins.

Í viðtalinu við RÚV gaf hún í skin að lögreglustjóri hafi haft stjórn á rannsókn "lekamálsins" svokallaða, en í svarinu til Moggans játar hún að hafa sjálf haft stjórn þeirrar rannsóknar með höndum.

Umboðsmaður Alþingis hlýtur að kalla eftir skýrslum frá Ríkissaksóknara, Lögreglustjóra, RÚV og Mogganum og rannsaka þetta misræmi í málflutningi saksóknarans og fá endanlegan botn í það dularfulla mál hver það var sem stjórnaði rannsókninni.

Níðurstaða slíkrar rannsóknar gæti varpað ljósi á það hver hafði leyfi til að tala við hvern um rannsóknina og hvort einhver hefði mátt spyrja einhvern um gang málsins og þá hvern.

Allt stefnir í að vegna "lekamálsins" verði að fara fram viðamestu rannsóknir Íslandssögunnar, ef undan er skilin rannsóknin vegna bankahrunsins. 

 


mbl.is Ríkissaksóknari mælti fyrir um framkvæmdina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta skuldarar borið heimsku fyrir sig til að losna undan lánaskilmálum?

Árið 1979 voru sett lög, svokölluð Ólafslög, um verðtryggingu fjárskuldbindinga og síðan hefur mestur hluti lána sem veitt hafa verið í landinu verið bundinn við breytingu vísitölu.  Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á því við hvaða vísitölu skuli miðað en undanfarin mörg ár hefur verið miðað við breytingu neysluverðsvísitölunnar.

Vegna mikils falls krónunnar á árunum 2008 og 2009 og þar með mikillar hækkunar neysluverðsvísitölunnar hafa ýmsir skuldarar verðtryggðra lána rekið mál fyrir dómstólum í tilraun til þess að fá þau dæmd ólögleg og í andstöðu við ESB-tilskipanir, en með úrskurði EFTA-dómstólsins í dag virðist sú tilraun farin út um þúfur.

Stefnendur hanga þó á síðasta hálmstráinu, sem er að skuldarar skilji ekki upp eða niður í verðtryggingunni, þrátt fyrir þrjátíuogfimm ára gildistíma, og viti því ekki undir hvað þeir eru að gangast með undirritun lánasamninganna.

Í úrskurði EFTA-dómstólsins segir m.a:  "Hvað varðar þá spurn­ingu hvort aðferðinni við út­reikn­ing verðbreyt­inga hefði verið ræki­lega lýst taldi dóm­stóll­inn það ákaf­lega mik­il­vægt að neyt­andi fengi nægi­leg­ar upp­lýs­ing­ar um skil­mála samn­ings og af­leiðing­ar hans áður en hann samþykkti hann. Slík lýs­ing yrði að gefa neyt­and­an­um færi á að taka upp­lýsta ákvörðun áður en hann und­ir­ritaði samn­ing. Þetta ætti sér­stak­lega við í til­vik­um þar sem aðilar kæmu sér sam­an um verðtrygg­ingu sem leiddi sjálf­krafa til breyt­inga á höfuðstól skuld­ar­inn­ar líkt og verðtrygg­ing­in í þessu til­viki. Það væri á grund­velli þeirra upp­lýs­inga sem neyt­andi ákvæði hvort hann vildi skuld­binda sig eða ekki sam­kvæmt skil­mál­um sem selj­and­inn eða veit­and­inn hefði samið fyr­ir­fram."

Niðurstaða málsins virðist því velta á því hvort skuldarar geti borið fyrir sig heimsku til þess að sleppa undan lánasamningum sínum, t.d. húsnæðislánum. 


mbl.is Verðtrygging ekki bönnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar henda mat frekar en að gefa hann

Alkunna er að magir kaupa alls ekki matvöru þegar fer að nálgast dagsetninguna sem merk er á umbúðirnar sem "best fyrir" og jafnvel henda allri vöru á heimilinu sem komin er að þessari dagsetningu.

Flest allar vörur endast langt fram yfir þessa "best fyrir" dagsetningu, að ekki sé minnst á dagsetninguna sem segir til um "síðasta söludag" og þrátt fyrir það eru ótrúlega margir sem forðast slíkar dagsetningar eins og heitan eld.

Frakkar íhuga að setja lög sem skyldar verslanir til að gefa allar matvörur sem seljast ekki fyrir þessar umræddu og skelfilegu dagsetningar til góðgerðarstofnana og feta þannig í fótspor Belga, sem settu slík lög í vor.  Er þetta auðvitað gert til að minnka það gríðarlega magn fullkomlega neysluhæfrar matvöru sem lendir á sorphaugum heimsins, engum til gagns nema þá helst rottum og öðrum álíka geðslegum kvikindum.

Fyrir nokkrum árum útdeildu Heimilishjálp Íslands, Mæðrastyrksnefnd og slík samtök matvöru sem komin var að "síðasta söludegi" til sinna skjólstæðinga og ekki vitað til þess að nokkrum manni  hafi orðið meint af, enda endast flestar vörur nokkuð langt fram yfir slíka dagsetningu eins og lagasetning Belga og Frakka ber glöggan vott um.

Ekki þarf að orðlengja það, að hér á landi varð allt vitlaust út af þessum matarúthlutunum sem þóttu engum bjóðandi og var slíkt að lokum bannað til að friða hina íslensku þjóð, sem virtist almennt verða óglatt við tilhugsunina eina um þessar "útrunnu" matvörur.

Fróðlegt verður að sjá viðbrögðin hérlendis þegar og ef tilskipun kemur frá ESB um lagasetningu í takt við þá belgísku. 

 


mbl.is Verslanir mega ekki henda mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna kveður mannorðsníðingana í kútinn

Undanfarna mánuði hafa allir helstu mannorðsníðingar landsins keppst við að níða æruna af Hönnu Birnu, Innanríkisráðherra, og reynt að bola henni úr embætti með ótrúlega ógeðslegum árásum á hana af upphaflega ómerkilegu tilefni en með sífelldum viðbótum við ásakanirnar og nýjum dylgjum.

Herferðin hefur verið undir forystu ritstjóra DV, sem virðist illa haldinn af ofsóknaræði og Ríkisútvarpið hefur gert sitt til að kynda undir óhróðrinum og ekki hafa rógtungur vinstri aflanna látið sitt eftir liggja í þessari ófrægingarherferð í samræmi við þá gömlu kenningu að ef ósannindin eru endutekin nógu oft fari þau að virka eins og sannleikur.

Hanna Birna hefur kosið að halda sig til hlés og verja sig ekki með tilvísun til þess að slíkt væri ekki við hæfi á meðan á rannsókn málsins stæði, en líklega hafa það verið mistök af hennar hálfu því þögn hennar hefur einungis virkað eins og olía á eld þegar litið er til framgöngu DV og annarra mannorðsníðinga í herferðini gegn henni.

Loksins hefur mælirinn verið orðinn fullur að hennar mati því hún kom fram í löngu og ítarlegu viðtali í þættinum "Sprengisandi" á Bylgjunni í morgun og eins og vænta mátti sýndi hún fram á hversu glórulausar þessar árásir hafa verið og tilefnislausar.

Eftir þetta viðtal hljóta þeir sem fremstir hafa farið í flokki í þessum ógeðslegu og ósanngjörnu árásum á mannorð Hönnu Birnu að skammast sín og biðjast afsökunar á framferði sínu.  Líklega er það þó til of mikils mælst miðað við fyrri framkomu þessara aðila. 


mbl.is „Vantraust á ráðuneytið moldviðri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er stéttarfélögum stjórnað af eintómum liðleskjum?

Fulltrúar stéttarfélagsins Einingar játa að þeim berist fjöldi erinda í hverjum mánuði vegna þess að eigendur veitingahúsa stela í stórum stíl af launum starfsmanna sinna.  Áður hafa fulltrúar VR játað opinberlega að vita um og fá stöðugar kvartanir vegna slíkra þjófnaða.  Hvorugt félagið, né nokkur önnur, gera nokkurn skapaðan hlut til að berjast gegn þessum ræningjabælum og útrýma þessum ósóma.

Að greiða launþegum skipulega lægri laun en kjarasamningar segja til um, er skýrt samningsbrot og því skylda lanþegafélaganna að skerast í leikinn og berjast af krafti fyrir hönd skjólstæðinga sinna, enda er þeim það gjörsamlega ómögulegt hverjum fyrir sig enda reknir umsvifalaust óski þeir leiðréttingar sinna mála.

Stéttarfélögin eiga að sjálfsögðu að boða verkföll á hverjum þeim vinnustað sem upplýsist að rekinn sé af slíkum vesalingum að þeir hafi samvisku til að stela af launum þeirra starfsmanna sinna sem á lægstu laununum vinna, væntanlega til þess að geta veitt sjálfum sér meira í þeirri von og vissu að stéttarfélögunum sé stjórnað af slíkum liðleskjum að aldrei verði gripið til raunhæfra aðgerða til þess að fletta ofan af þjófunum.

 


mbl.is Krafðist réttra launa og var rekin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju að skipa Árna Þór í sendiherrastöðu?

Geir H. Haarde verður glæsilegur fulltrúi Íslands í stöðu sendiherra á erlendri grund, enda varla hægt að finna vandaðri mann með víðtæka reynslu af opinberri stjórnsýslu en hann.  Fyrir utan langan þingmannsferil hefur hann bæði gegnt starfi forsætis- og utanríkisráðherra og því gjörkunnugur þeim störfum sem sendiherrar landsins þurfa að inna af hendi.

Hins vegar veldur meiri undrun að Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, skuli einnig vera skipaður i sendiherrastöðu, enda með tiltölulega litla reynslu af utanríkismálum þó hann hafi setið á Alþingi í sjö ár og reyndar haft þar nasasjón af störfum utanríkismálanefndar.  

Ekki leikur nokkur vafi á að Geir H. Haarde mun verða landi og þjóð til sóma á sínum nýja starfsvettvangi og verði hann sendiherra í Wasington, eins og mbl.is getur sér til, mun hann örugglega vinna ötullega að því að efla á ný vináttu og samvinnu Íslands og Bandaríkjanna, sem Össur Skarphéðinsson virtist gera allt sem hann mögulega gat til að spilla í sinni utanríkisráðherratíð.

Vonandi stendur Árni Þór sig einnig vel í sendiherrastarfinu, þó mun meiri vonir hljóti að verða gerðar til Geirs H. Haarde í þeim efnum.  Báðum er þeim óskað velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi. 


mbl.is Geir Haarde sendiherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullæðið að kaffæra sjálft sig?

Mikið gullæði hefur gripið um sig í landinu vegna snöggt vaxandi fjölda ferðamanna, en fjöldi þeirra stefnir í að ná milljóninni á þessu ári.  Gangi spár eftir mun ferðamönnum enn fara fjölgandi á næstu árum, enda enn verið að byggja hótel út um hvippinn og hvappinn og alger sprenging hefur orðið í útleigu íbúða til túristanna og ekkert lát virðist á þeirri þróun, frekar en í hótelfjölguninni.

Norðurslóðir eru í tísku um þessar mundir og að sjálfsögðu nýtur Ísland góðs af því, en ekki er líklegt að ferðamenn sem landið heimsækja muni koma hingað aftur og aftur, nema auðvitað lítill hluti þeirra sem fá dellu fyrir landinu, eins og gengur og gerist með það sem grípur um sig í huga fólks og vill ekki þaðan víkja.

Tíska getur verið duttlungafull og breyst á undraskömmum tíma og þegar norðrið dettur úr tísku, sem getur gerst hvenær sem er, verður mikið hrun í ferðamannaiðnaðinum íslenska og þá ekki síst í gistihúsageiranum, en þar munu verða mörg og mikil gjaldþrot.  Líklega mun eins fara fyrir mörgu veitingahúsinu, en í þeim geira hefur verið og mun verða mikil fjárfesting eins og í gistingunni.

Þrátt fyrir að ferðamannastraumurinn sé ekki kominn í það hámark sem spáð er, eru gistihúsaeigendur þegar farnir að kvarta undan offjárfestingu í greininni og að verð þurfi að lækka vegna samkeppninnar sem þegar er orðin, a.m.k. í miðborg Reykjavíkur.

Gullgrafaraæði hefur áður gripið um sig hér á landi í ýmsum atvinnugreinum og alltaf hefur slíkt endað illa.  Af þeirri reynslu draga menn hins vegar aldrei neina lærdóma og því endurtekur sagan sig sífellt.

Efnahagslíf þjóðarinnar kemst aldrei í jafnvægi á meðan gullgrafarahugsunarhátturinn verður ríkjandi meðal þjóðarinnar.

 


mbl.is Sprenging í útleigu íbúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband