Gullæðið að kaffæra sjálft sig?

Mikið gullæði hefur gripið um sig í landinu vegna snöggt vaxandi fjölda ferðamanna, en fjöldi þeirra stefnir í að ná milljóninni á þessu ári.  Gangi spár eftir mun ferðamönnum enn fara fjölgandi á næstu árum, enda enn verið að byggja hótel út um hvippinn og hvappinn og alger sprenging hefur orðið í útleigu íbúða til túristanna og ekkert lát virðist á þeirri þróun, frekar en í hótelfjölguninni.

Norðurslóðir eru í tísku um þessar mundir og að sjálfsögðu nýtur Ísland góðs af því, en ekki er líklegt að ferðamenn sem landið heimsækja muni koma hingað aftur og aftur, nema auðvitað lítill hluti þeirra sem fá dellu fyrir landinu, eins og gengur og gerist með það sem grípur um sig í huga fólks og vill ekki þaðan víkja.

Tíska getur verið duttlungafull og breyst á undraskömmum tíma og þegar norðrið dettur úr tísku, sem getur gerst hvenær sem er, verður mikið hrun í ferðamannaiðnaðinum íslenska og þá ekki síst í gistihúsageiranum, en þar munu verða mörg og mikil gjaldþrot.  Líklega mun eins fara fyrir mörgu veitingahúsinu, en í þeim geira hefur verið og mun verða mikil fjárfesting eins og í gistingunni.

Þrátt fyrir að ferðamannastraumurinn sé ekki kominn í það hámark sem spáð er, eru gistihúsaeigendur þegar farnir að kvarta undan offjárfestingu í greininni og að verð þurfi að lækka vegna samkeppninnar sem þegar er orðin, a.m.k. í miðborg Reykjavíkur.

Gullgrafaraæði hefur áður gripið um sig hér á landi í ýmsum atvinnugreinum og alltaf hefur slíkt endað illa.  Af þeirri reynslu draga menn hins vegar aldrei neina lærdóma og því endurtekur sagan sig sífellt.

Efnahagslíf þjóðarinnar kemst aldrei í jafnvægi á meðan gullgrafarahugsunarhátturinn verður ríkjandi meðal þjóðarinnar.

 


mbl.is Sprenging í útleigu íbúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála. Eftir ca. þrjú ár munu hálfbyggðar eða fullbyggðar, ónýttar hótelbyggingar blasa við um allar koppagrundir. EHF-inn fara í gjaldþrot, milljarðar verða afskrifaðir og kostnaðinum velt yfir á almennining um leið og menn undirbúa næsta fjárfestingaævintýri. Sama, gamla sagan.

Ellert Grétarsson (IP-tala skráð) 25.7.2014 kl. 13:42

2 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Það er oft talað um fákeppni á Íslandi en ætti frekar að tala um eltikeppni. Þetta er keppni í hver er forystusauðurinn og allir hinir elta  án þess að hafa neitt viturlegt fram að færa. Í öllum markaðsfræðum er talað um að fara eftir eigin markmiðum og leiðum. Á Íslandi snýst keppnin um að leiða sauðina. Meðan þetta ástand varir þá mun gullgrafaraæði verða síendurtekið.

Rúnar Már Bragason, 25.7.2014 kl. 15:04

3 identicon

Ef Íbúðarlánasjóður og Bankarnir, sem eiga hundruðir tómra íbúða um alla borg/land, væru klókir,,,,  þá mundu þeir leigja túristum tómu íbúðirnar og milljarðarnir gætu hrannast upp

anna (IP-tala skráð) 25.7.2014 kl. 23:11

4 identicon

Í hagfræðinni er þessi gullgrafarahugsunarháttur kallaður "Lögmálið um framboð og eftirspurn" og er ekki eitthvað sem Íslendingar fundu upp eða eru einir um. Í heilbrigðu hagkerfi þá leitar markaðurinn jafnvægis. Fjölgun hótela við fjölgun ferðamanna er eðlileg þróun þegar ekkert er að. Þegar markaðir bregðast ekki við aukningu í framboði eða eftirspurn þá fyrst er ástæða til að fara að hafa áhyggjur. Því í heilbrigðu hagkerfi fara þeir á hausinn sem lakastir eru og eftir stendur betri þjónusta á hagstæðu verði og hámarks afrakstur fyrir þjóðarbúið. Inngrip í þessa þróun skilar lakari þjónustu á uppsprengdu verði þar sem nokkrir græða en afrakstur þjóðarbúsins er lítill.

Að mati þeirra sem nú bjóða laka þjónustu á uppsprengdu verði er hætta á að framboð verði í framtíðinni svo mikið að bjóða þurfi góða þjónustu á hagstæðu verði. Þeir telja sig ekki geta starfað í því umhverfi og biðla nú til almennings um stuðning við að takmarka samkeppni. Almenningur er að kokgleypa agnið.

Efnahagslíf þjóðarinnar kemst aldrei í jafnvægi á meðan hlustað er á kröfur um inngrip í eðlilega þróun.

Hábeinn (IP-tala skráð) 26.7.2014 kl. 12:12

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hábeinn, að sjálfsögðu á markaðurinn að aðlaga sig að aðstæðum á þessu sviði eins og öðrum. Hér er einfaldlega verið að benda á að gullgrafaraæði endar alltaf með hruni í viðkomandi grein og ekkert sem bendir til annars en að slíkt muni einnig gerast í ferðamannabransanum.

Að sjálfsögðu eiga hvorki ríki eða sveitarfélög að grípa inn í þróunina á þessum markaði frekar en öðrum. Áður en yfir líkur munu margir verða gjaldþrota, aðrir standa uppi með stórgróða og enn aðrir munu hafa í höndunum góð og rekstrarhæf fyrirtæki sem munu svo starfa um langa framtíð.

Axel Jóhann Axelsson, 26.7.2014 kl. 17:43

6 identicon

Jamm, Axel, leggst ekki vel í mig þetta æði, ásamt með öllum byggingakrönunum a.m.k. hér á höfuðb.svæðinu. Þykist minnast þess að þegar ég fór fyrst til Spánar árið 1969 var fjöldi ferðamanna ca. jafn mannfjölda á Spáni. Þótti vera með ólíkindum. Þá voru Frakkar nánast búnir að verðleggja sig út af markaðnum einmitt með svona æði. Nú erum við að stefna í að taka á móti ca. þreföldum íbúafjölda okkar ! Við erum bara ekki alveg í lagi, og það trekk í trekk, stóru sveiflurnar, sem alltaf koma, virðast stefna í að vera á 10 ára fresti, sem er allt of stuttur tími :)

Hilmar Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.7.2014 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband