Færsluflokkur: Bloggar
18.7.2014 | 00:47
Pútin er ábyrgur fyrir fjöldamorðunum á flugfarþegunum
Pútin, Rússlandsforseti, reynir á aumlegan hátt að kenna stjórnvöldum í Úkraínu um þann ómennska glæp að farþegaþota hafi verið skotin niður yfir yfirráðasvæði uppreisnarmanna þar í landi, sem sameinast vilja Rússlandi og hafa yfir ótrúlega miklum og fullkomnum vopnabirgðum að ráða.
Annað eins vopnabúr er ekki frá neinum komið öðrum en rússneskum yfirvöldum og staðfest hefur verið að eldflaugar sem ætlaðar eru til að granda flugvélum í mikilli flughæð voru einmitt nýlega flutt frá Rússlandi yfir til uppreisnarmannanna í Úkraínu.
Þó tilgangur Rússa með þessum vopnasendingum hafi verið að láta pótintáta sína í Úkraínu skjóta niður úkraínskar flugvélar eru glæpaverkin sem unnin eru með þessum vopnum algerlega á ábyrgð Rússa og undan þeirri ábyrgð getur Pútin ekki skotið sér.
Því miður er hætta á því að þessi glæpaverk falli í skuggann af þeim voðaatburðum sem eiga sér stað í Ísrael um þessar mundir og munu því ekki verða fordæmd af jafn mikilli hörku og annars hefði verið. Í báðum tilfellum eru það óbreyttir borgarar sem verst verða úti og þola þjáningar og dauða sem enginn virðist geta eða vilja stöðva.
![]() |
Pútín varpar ábyrgð á Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
14.7.2014 | 17:36
Hverjir eru "stóru leigusalarnir"?
Húsaleiga hefur farið ört hækkandi á markaði undanfarna mánuði og er "stórum leigusölum" ekki síst kennt um að spenna upp verðið á leiguíbúðunum.
Nokkur félög, sem keypt hafa upp tugi íbúða, eru orðin talsvert ráðandi á leigumarkaðinum og þegar þau kaupa íbúðir sem þegar eru í leigu, hækka þau leiguverðið um allt að 30%, enda reikna rekstraraðilar félaganna með því að leigendur samþykki slíka hækkun þegjandi og hljóðalaust þar sem þeir hafi hvort sem er ekki í nein önnur hús að venda.
Í ljósi þess að einstaklingar kvarta yfir því að bankar séu orðnir afar strangir á greiðslumati og fólki sé jafnvel neitað um lán til húsnæðiskaupa þrátt fyrir að slík kaup kæmu betur út en að leigja, er að mörgu leyti undarlegt að "stórir leigusalar" virðast hafa ótakmarkaðan aðgang að lánsfé sem þeir endurgreiða með síhækkandi húsaleigu.
Þessir sömu "stóru leigusalar" spenna upp verðið á íbúðum með yfirboðum og eru því ekki síður til tjóns fyrir þá sem eru í kauphugleiðingum en hinum sem þurfa að greiða sífellt hærri húsaleigu vegna innkomu þessara aðila á markaðinn.
![]() |
500 vildu leigja eina íbúð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.7.2014 | 20:10
Meira frelsi og ekki bara fyrir Costco
Eftir að út spurðist að bandaríska verslunarkeðjan Costco hefði áhuga á að opna verslun í Reykjavík og selja þar, ásamt öðru, áfengi, lyf, og ferskt innflutt kjöt, hefur mikil umræða orðið í þjóðfélaginu um málið og til að byrja með virtist sá skilningur ríkja að keðjan væri að fara fram á alls kyns undanþágur frá þeim lögum og reglum sem gilda í landinu.
Þegar rykið fór að setjast og línur að skírast kom í ljós að Costco rekur t.d. verslanir í Kanada en þar er algerlega bannað að flytja inn bandarískt nautakjöt, hvort sem það er af heilbrigðisástæðum eða til að vernda innlenda framleiðslu, en Kandada flytur hins vegar mikið af nautakjöti til Bandaríkjanna.
Hérlendis er orðið tímabært að endurskoða lög og reglur um innflutning á kjöti og mætti rýmka til fyrir innflutningi á svína- kjúklinga- og nautakjöti frá Evrópu, enda standist það allar kröfur um heilbrigði og aðrar vottunarreglur ESB.
Algerlega er tímabært að færa sölu á öllu áfengi, hverju nafni sem það nefnist, til almennra verslana eins og tíðkast í nánast öllum vestrænum ríkjum. Að sjálfsögðu þurfa að gilda um slíka sölu álíka reglur og eru við lýði í nágrannalöndunum.
Boðað hefur verið að frumvarp til laga verði flutt á Alþingi í haust þar sem áfengissölunni verði gjörbreytt og er það mikið fagnaðarefni og vonandi að því verði betur tekið en áður hefur verið þegar álíka frumvörp hafa verið flutt.
![]() |
Sjálfsagður hlutur að leyfa þetta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
4.7.2014 | 19:36
Bjór og brennd vín í búðirnar
Andrúmsloftið sem virðist ríkja á samfélagsmiðlunum, eftir að vitnaðist að Costco hefði áhuga á að opna verslun í Reykjavík, er á þann veg að sjálfsagt sé að breyta lögum í þá veru að áfengi verði selt í matvörubúðum ásamt nánast ótakmörkuðum innflutningi á fersku kjöti.
Af og til hafa verið settar fram hugmyndir og jafnvel flutt um það frumvörp á Alþingi að leyft verði að selja bjór og létt vín í matvörubúðum, en allar slíkar hugmyndir hafa jafnan verið kaffærðar og þeim mótmælt harðlega, enda slíkar tilslakanir á áfengislöggjöfinni aldrei fengist samþykktar.
Hugmyndir um að matvöruverslanir selji aðeins bjór og létt vín leiðir auðvitað af sér að ÁTVR yrði að halda áfram rekstri sinna verslana, en selja þar aðeins sterkt áfengi sem vonlaust er að borgaði sig, enda bjór og létt vín orðin uppistaða áfengissölunnar nú orðið.
Verði á annað borð leyft að selja bjór og annað áfengi í matvöruverslunum ætti auðvitað að ganga alla leið og loka verslunum "ríkisins", en láta frjálsa markaðinn alfarið um áfengissöluna eins og gert er víðast hvar í veröldinni.
Umræðan um ferska kjötið ætti svo að vera á vitrænni nótum en að tala um að hollusta íslensks kjöts sé meiri en erlends, en slíkt er auðvitað fjarri öllum sanni enda lifir fólk ágætu lífi víðast hvar af þeim matvælum sem framleidd eru í viðkomandi löndum.
Það sem í raun er um að ræða varðandi kjötið er hvort reka skuli landbúnað á Íslandi eða ekki, a.m.k. í þeirri mynd sem verið hefur fram til þessa. Þá umræðu á ekki að rugla með þrugli um heilbrigðismál, enda yrði aldrei leyft að flytja inn kjöt sem ekki væri heilbrigðisstimplað í bak og fyrir.
![]() |
Vínið verði ekki selt í samstarfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.7.2014 | 16:20
Vörur lækka EKKI í verði við tollalækkanir
Fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína tók formlega gildi í gær og strax í dag koma fram yfirlýsingar frá talsmönnum verslunareigenda að vörur, t.d. fatnaður, muni ekkert lækka í verði þrátt fyrir samninginn.
Skýringin sem gefin er, er sú að Kínverjar afgreiði ekki nema risapantanir og því verði íslenskir kaupmenn að flytja allar kínverskar vörur inn frá milliliðum í Evrópu, sem hvorki nenni né vilji útfylla upprunavottorð vegna framhaldssendinga á vörum til Íslands.
Þær skýringar að Kínverjar vilji ekki afgreiða nema risastórar pantanir stemma illa við þá staðreynd að almenningur á Íslandi hefur í síauknum mæli pantað sér fatnað og annan varning beint frá Kína í gegnum vefverslunina Aliexpress og í mörgum tilfellum án þess að sendingarkostnaði sé bætt við uppgefið verð vörunnar.
Þegar virðisaukaskattur á matvælum var lækkaður fyrir nokkrum árum lækkaði útsöluverð lítið, sem ekkert, en álagning verslana var hækkuð sem þeirri lækkun nam, þannig að neytendur voru ekki látnir njóta lækkunarinnar.
Barátta samtaka verslunarinnar fyrir tollalækkunum á ýmsum vörum og ekki síst matvöru þarf að skoða í þessu ljósi. Sporin hræða og engin trygging virðist fyrir því að tolla- eða skattalækkanir á vörum og þjónustu skili sér til neytenda.
![]() |
Áhrif Kínasamnings á fatnað takmörkuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.6.2014 | 11:35
Fórnarlambið Jón Gnarr
Ég var fórnarlamb míns eigin brandara segir Jón Gnarr um framboð sitt og Besta flokksins til borgarstjórnar í Reykjavík og ennfremur segist hann hafa fengið martraðir þegar brandarinn fór að hafa þær afleiðingar að fólk fór að trúa því að framboðið væri í alvöru en ekki í gríni gert.
Nú segir Gnarrinn í viðtali við heimspressuna að hann útiloki ekki forsetaframboð eftir tvö ár, þannig að svo virðist sem að endurtaka eigi brandarann og útvíkka aðeins. Líklega er Gnarrinn orðinn nógu samlagaður sínum eigin brandara núna, að lítil hætta verði á martröðum að þessu sinni.
Ótrúleg viðkvæmni hefur verið hjá mörgum, ekki síst Jóni Gnarr sjálfum, fyrir allri gagnrýni á svokallaðan borgarstjóraferil hans sem, eins og allir vita sem vilja vita, var nánast að nafninu til og aðrir sinntu flestum skyldustörfunum sem titlinum fylgdu á síðasta kjörtímabili.
Sjálfsagt verður sama uppi á teningnum þegar og ef Jón Gnarr fer í raun og veru af stað með grínþáttinn um forsetaembættið.
![]() |
Fékk martraðir vegna Besta flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.6.2014 | 21:51
Var Luis Suárez nokkuð að hugsa?
Spurt er hvað fótboltasnillingurinn Suárez hafi verið að hugsa þegar hann beit ítalska varnarmanninn í öxlina á HM í Brasilíu. Afar líklegt er að hann hafi alls ekki verið að hugsa nokkuð þegar þetta gerðist, heldur hafi hann þvert á móti verið viti sínu fjær og sjálfsagt varla vitað hvað hann var að gera.
Allir sem fylgjast með HM, sem er stór hluti jarðarbúa, eru algerlega agndofa yfir þessu atviki og fjölmiðlar og ekki síður netmiðlar loga vegna þessa og öll umfjöllunin snýst að sjálfsögðu um að fordæma atvikið, enda ekki í fyrsta sinn sem Suárez bítur andstæðing á vellinum, heldur a.m.k. í það þriðja og líkur færðar að því að oftar hafi verið reynt án þess að takast.
Suárez gengur greinilega ekki heill til skógar, andlega, því hann virðist hreinlega ekki ráða við skap sitt og gerðir ef eitthvað bjátar á eða er honum mótdrægt, því fæstir skapmiklir menn eru ofbeldismenn sem berja þá sem þeir reiðast hverju sinni og hvað þá að þeir bíti mótherja sína í fótbolta hvað eftir annað.
Suárez verður örugglega dæmdur í langt keppnisbann, vonandi bæði frá landsleikjum og leikjum með félagsliðum, enda þarf hann að leita sér lækninga við sínum andlegu veikindum og hefur ekkert inni á fótboltavelli að gera á meðan.
Við umfjöllun um þennan atburð verður að hafa í huga að hér er greinilega um sjúkling að ræða en ekki illmenni.
![]() |
Hvað var Luis Suárez að hugsa? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.6.2014 | 19:50
Borgarlistamaður lætur af störfum
Jón Gnarr, sem í raun hefur gegnt stöðu borgarlistamanns undanfarin fjögur ár, lætur nú af störfum sem slíkur og snýr sér væntanlega að því að vinna úr þeim mikla efnivið sem hann hefur viðað að sér á þessum árum.
Gnarrinn hefur til viðbótar við "uppistand" við ýmis tækifæri komið út einni eða tveim bókum á starfstímanum og vafalaust verður ekki langt að bíða þess að fjöldi skemmtiþátta í útvarpi og sjónvarpi líti dagsins ljós og verði byggðir á því sem hann hefur séð til hinna ýmsu stjórnmálamanna sem við völd hafa verið í borginni undanfarin ár.
Dagur B. Eggertsson hefur sinnt borgarstjórastörfum í heilt kjörtímabil, án þess að fá að bera titilinn formlega enda "gleymdist" að kjósa hann í embættið á borgarstjórnarfundi í dag þar sem forseti borgarstjórnar áleit auðvitað, eins og allir aðrir, að Dagur B. hefði verið borgarstjóri allt síðasta kjörtímabil og því væru öll formsatriði varðandi starfið óþörf.
Jón Gnarr hefur alltaf verið góður leikari og ágætur handritshöfundur, þó ekki kunni allir að meta húmor hans og verður fróðlegt að fylgast með úrvinnlu þeirrar reynslu sem hann hefur aflað sér sem borgarlistamaður á síðasta kjörtímabili.
Dagur B. verður sjálfsagt svipaður borgarstjóri áfram og hann hefur verið og ekki að vænta neinna afreka af hans hálfu næsta kjörtímabil, frekar en á þeim fyrri.
![]() |
Dagur tekinn við taumunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
1.6.2014 | 08:01
Stórmerkileg niðurstaða kosninga í Reykjavík
Margt er merkilegt við niðurstöðu borgarstjórnarkosninganna og þá ekki síst að þrátt fyrir mikinn sigur Samfylkingarinnar dugar hann ekki til að hún og arftaki Besta flokksins geti myndað tveggja flokka meirihluta, þar sem arftakinn beið afhroð miðað við útkomu forverans fyrir fjórum árum.
Miðað við kosningafylgi Samfylkingarinnar verður líklega að telja að hún sjálf hafi í raun fengið mest af fylgi Besta flokksins til sín, enda ekki verið neinn greinanlegur munur á flokkunum tveim á síðasta kjörtímabili.
Önnur stórmerk tíðindi þessara úrslita eru slök niðurstaða Sjálfstæðisflokksins, sem þó er mun skárri en skoðanakannanir gáfu til kynna fram á síðasta dag að flokknum myndi takast að ná. Flokkurinn mun nokkuð örugglega verða í stjórnarandstöðu í borginni næsta kjörtímabil og í því hlutverki verður hann að vera ákveðinn og áberandi, en var hvorugt undanfarin fjögur ár og geldur þess núna.
Við meirihlutamyndun í borginni verður VG líklega kippt um borð með Samfylkingu og Bjartri framtíð og verður fróðlegt að sjá hvernig þessum flokkum mun ganga að vinna saman, þar sem ekki er líklegt að Sóley Tómasdóttir verði eins fylgispök við Dag B. Eggertsson og Gnarrinn hefur verið undanfarin ár.
Einna merkilegustu tíðindi kosninganna eru þó líklega útkoma Framsóknarflokksins, sem margfaldaði það fylgi sem skoðanakannanir spáðu honum aðeins örfáum dögum fyrir kosningar og verður að skrifa þann sigur á gríðarlegar árásir vinstri manna á efsta mann Framsóknar á öllum vígstöðvum dagana fyrir kosningar. Þessar ofboðslegu og illvígu árásir gerðu flokkinn svo áberandi að kosningarnar voru að stórum hluta farnar að snúast um Framsóknarflokkinn og aðrir komust varla að með sín málefni.
Við fyrstu sýn virðist Samfylkingarfólk og fréttamenn ljósvakamiðlanna því hafa misst meirihlutann í borginni með sínum illvíga málflutningi um Framsóknarflokkinn, en tryggt honum sinn stærsta kosningasigur í fjörutíu ár.
Þar feilreiknuðu vinstri menn sig illilega á lokadögum kosningabaráttunnar.
![]() |
Meirihlutinn fallinn í borginni - lokatölur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.5.2014 | 21:05
Man enginn mesta fylgishrun stjórnmálaflokks á heimsvísu?
Fyrir aðeins einu ári, í Alþingiskosningunum, var sett heimsmet í fylgishruni nokkurs stjórnmálaflokks í veröldinni þegar Samfylkingin tapaði yfir 50% af fyrra fylgi sínu.
Þetta fylgishrun varð um allt land og ekki síður í Reykjavík en annarsstaðar á landinu, enda hafði Samfylkingin valdið almenningi gríðarlegum vonbrigðum á kjörtímabilinu og ekki staðið við nein af sínum helstu kosningaloforðum, t.d. um "skjaldborg heimilanna".
Nú, fyrir borgarstjórnarkosningarnar, þykist þessi sami flokkur ætla að byggja þrjúþúsund íbúðir fyrir láglaunafólk án þess þó að hafa nokkurn tíma eða nokkursstaðar útskýrt hvernig flokkurinn hyggst fjármagna þessar íbúðabyggingar. Þegar reynt hefur verið að þinga oddvta flokksins, sem virðist reyndar vera einn í framboði fyrir Samfylkinguna, um málið bendir hann aðallega á Búseta og önnur slík leigufélög, sem fyrir löngu eru búin að gera sínar áætlanir um íbúðabyggingar á næstu árum.
Oft er talað um að skammtímaminni í pólitík sé ekkert og miðað við skoðanakannanir mun það sannast enn og aftur í borgarstjórnarkosningunum 2014.
![]() |
Bæta við sig manni í borginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)