Færsluflokkur: Bloggar

Sannleikann um kröfur lækna á borðið

Eiríkur Guðmundsson, læknir, sparar ekki stóru orðin þegar hann fjallar um "áróðursmaskínu stjórnvalda" og segir hana og reyndar fjármálaráðherrann ljúga svívirðilega um kröfur lækna í kjaradeilu þeirra við ríkið.

Hann þvertekur fyrir að læknar fari fram á 40-50% launahækkun og fer þó ekki neðar með fullyrðingar sínar um lygina og útskýrir ekkert um hvað kröfurnar snúast og er hann þó í samninganefnd lækna.

Til þess að sýna og sanna í hverju lygar "áróðursmaskínunnar" eru  fólgnar verða læknar að birta kröfur sínar og sýna alþjóð þar með um hvað kröfur þeirra um "launaleiðréttingu" snúast.

Það er talsvert alvarlegt mál að ásaka viðsemjendur sína um lygar, undirróður og önnur óheilindi í umfjöllun um kjarasamninga og eftir þessar geysihörðu ásakanir komast læknar hreinlega ekki hjá því að leggja spilin á borðið og skýra mál sitt svo ekkert fari á milli mála um kröfur þeirra.

Láglaunafólkið í landinu, sem flestir styðja að fái kjarabætur umfram hálaunahópana að þessu sinni hlýtur að bíða þess í ofvæni að læknar sýni  á spilin og sanni að þeir séu einungis að fara fram á kjarabætur sem ekki koma til með að setja þjóðfélagið á hliðina.


mbl.is „Áróðursmaskína stjórnvalda“ í gang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknar eru ekki láglaunastétt og ættu að fara aftar í forgangsröðina

Í heilan mánuð hafa læknar verið með sjúklinga og jafnvel alla þjóðina í gíslingu vegna gríðarlegra krafna um launahækkanir sér til handa, allt að 50% eftir því sem fréttir herma.  

Baráttan gengur út á að kúga ríkisvaldið til undanhalds með því að gefa í skyn að það væri yfirvöldum að kenna, en ekki læknunum sjálfum. ef sjúklingar tækju að deyja unnvörpum vegna skorts á læknisþjónustu.  

Jafnvel þó þeir veikluðustu lifðu kjaradeiluna af tæki við margra mánaða eða ára bið efir nauðsynlegum aðgerðum og þeim engin samúð sýnd sem munu þurfa að líða þjáningar og angist í biðinni eftir læknishjálp.

Öll þjóðin vill viðhalda frábæru heilbrigðiskerfi í landinu og því hafa aðgerðir læknanna notið stuðnings mikils hluta þjóðarinnar, þó úr hafi dregið undanfarið vegna óbilgirni læknanna, sem ekki hafa verið til viðræðna um að slaka hið minnst af kröfum sínum allan þennan tíma, en herða stöðugt ólina um háls sjúklinga sinna til að neyða stjórnvöld til uppgjafar.

Jafn mikill og stuðningur þjóðarinnar er við að viðhaldið verði hinu góða heilbrigðiskerfi í landinu er rík krafa í þjóðfélaginu til að hinir lægts launuðu fái sérstakar hækkanir í næstu kjarasamningum og þá auðvitað meiri hækkanir en hinir sem betur mega sín.

Læknar eru ekki  láglaunastétt og sama gildir um alla aðra í þjóðfélaginu, þ.e. að hafa orðið fyrir gríðarlegri kjaraskerðingu í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 og hafa ekki samkeppnisfær laun við kollega sína í nágrannalöndunum.

Þeir lægra launuðu ættu að vera í forgangi í þeirri kjaraleiðréttingu og læknar ættu að sjá sóma sinn í að bíða á meðan með sínar ítrustu kröfur.


mbl.is Mun færri bóka sig í aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúruskoðarar greiði kostnaðinn sem fylgir ferðum þeirra

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur lengi verið að veltast með hugmyndir um náttúrupassa, eða aðrar leiðir til fjármögnunar á viðhaldi ferðamannastaða vítt og breitt um landið, og virðist loksins komin fram "lausn" á málinu sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra, hefur nú lagt fram.

"Lausnin" felst í því að íslendingar, sem aldrei fara í náttúruskoðun" skuli taka þátt í að greiða fyrir átroðning ferðafólks í viðkvæmri náttúrunni til jafns á við þá sem valda spjöllunum sem náttúrupassinn á að notast til að fjármagna viðgerðirnar.

Því verður seint trúað að slíkur nefskattur verði lagður á þá íbúa landsins sem sjaldan eða aldrei fara á viðkvæm landssvæði.

Þeir sem valda kostnaði vegna uppbyggingar og viðhalds á ferðamannastöðum eru auðvitað þeir sem eiga að greiða þann kostnað.  Seljendur ferða á þessa staði eru auðvitað þeir sem eiga að greiða kostnaðinn.  

Þann kostnað munu þeir auðvitað leggja á viðskiptavini sína með gjaldi á hvern farmiða sem seldur verður og þannig munu þeir greiða fyrir afnotin sem þeirra njóta.


mbl.is Náttúrupassi samþykktur í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru verkalýðsfélögin algerlega handónýt í réttindabaráttu?

Ekki er langt síðan umræða varð í fréttamiðlunum um svindl ýmissa skyndibitakeðja og reyndar fleiri varðandi launagreiðslur til starfsmanna.  Þrátt fyrir margar ábendingar og athugasemdir árum saman gerðu félögin ekkert til að aðstoða félagsmenn sína fyrr en farið var að fjalla um það í fjölmiðlunum og þá þóttust verkalýðsforingjarnir vera að heyra af svindlinu í fyrsta sinn.

Núna birtast fréttir í fjölmiðlum af nánast þrælahaldi hreingerningarfyrirtækis vegna þrifa á Landspítalanum og líklega má álykta sem svo að slíkt þrælahald sé ástundað víðar í "hreingerningabransanum", enda berast reglulega sögur um gríðarlegan sparnað stofnana við útboð á þrifunum til verktaka.

Í gildi eru kjarasamningar um skúringar og þrif, eins og um alla aðra vinnu, og verkalýðsfélögunum ber skylda til að fylgjast með því á vettvangi, þ.e. á vinnustöðunum sjálfum, að kjarasamningar séu haldnir hvað varðar laun, vinnutíma og annan aðbúnað.

Aumara yfirklór og aumingjaskap er ekki hægt að hugsa sér en yfirlýsingu formanns Eflingar um að það væri í verkahring verkkaupandans að hafa eftirlit með launagreiðslum verktakanna, því auðvitað er það í verkahring hans sjálfs að annast slíkt eftirlit.  

Vakni minnsti grunum um að slíkt og þvílíkt svínarí viðgangist gagnvart starfsfólki í nokkru fyrirtæki ber stéttarfélögunum skylda til að stöðva alla vinnu á staðnum þar til bætt hefur verið úr og fyrirheit gefin um bót og betrun, ekki síst í framkomu við starfsfólkið.

 


mbl.is Fulltrúi Eflingar mátti ekki sitja fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þétting byggðar er ágæt, en hvert fer atvinnan?

Undanfarið hafa borgaryfirvöld keppst við að benda á ýmis svæði innan borgarmarkanna, aðallega í eldri hverfum, þar sem áhersla verður lögð á að þétta byggðina.  Það verður aðallega gert með byggingu fjölbýlishúsa með afar fáum, jafnvel engum, bílastæðum en áhersla lögð á umferð gangandi, hjólandi og strætisvagna.

Á a.m.k. sumum þessara fyrirhuguðu byggingasvæða, t.d. Skeifunni, Elliðavogi og Ártúnshöfða svo nokkur svæði séu nefnd, eru nú ýmis atvinnufyrirtæki eins og verslanir, verkstæði og ýmis smærri atvinnurekstur og allir skuli þessir vinnustaðir víkja fyrir íbúðabyggingum.

Sá, sem hér slær á lyklaborð, hefur ekki orðið var við að í umræðunni um breytingar á skipulagi og öll þessi nýju byggingarsvæði sé nokkurn tíma rætt um hvert öll þessi atvinnustarfsemi skuli flytjast.  Engu er líkara en að fyrirtækin eigi að víkja með nánast engum fyrirvara, t.d. í Elliðavogi, án þess að nokkur minnist á hvert þau ættu að flytja sig.

Smáiðnaður og verkstæði hafa oftast byggst upp í útjaðrði byggðarinnar en nú bregður svo við að ekki virðist vera gert ráð fyrir neinu  nýju athafnasvæði í borgarlandinu, enda allt gert sem mögulegt er til að torvelda umferð ökutækja um borgina, þannig að erfitt verður í framtíðinni fyrir starfsmenn og viðskiptavini fyrirtækja að komast á fyrirhugaðan áfangastað.

Getur verið að borgaryfirvöld í Reykjavík ætlist til að atvinnustarfsemi flytjist að mestu leyti í nágrannasveitarfélögin án þess að reiknað sé með að fólk komist á milli staða nema á reiðhjólum?


mbl.is 100 milljarðar í nýtt hverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Norræna velferðarstjórnin" og barnafátæktin

UNICEF hefur birt skýrslu um breytingu  á barnafátækt í fjörutíu og einu landi innan OECD á árabilinu 2008 - 2012 og er niðurstaðan svo sláandi varðandi Ísland að algerlega óviðunandi er, ásamt því að vera falleinkunn fyrir "Norrænu velferðarstjórnina" eins og ríkisstjórnin nefndi sjálfa sig svo ósmekklega á þessum umræddu árum.

Í skýslunni segir m.a:  "Barna­fá­tækt á Íslandi jókst um rúm 20 pró­sentu­stig frá ár­inu 2008 (en þá bjuggu 11,2% ís­lenskra barna við fá­tækt) til 2012 (en þá bjuggu 31,6% ís­lenskra barna við fá­tækt) ef miðað er við lág­tekju­mörk frá ár­inu 2008. Ísland er þannig í neðsta sæti af ríkj­un­um 41, næst á eft­ir Grikklandi, en þessi aukn­ing sam­svar­ar því að um 17 þúsund fleiri börn hér á landi hafi fallið und­ir lág­tekju­mörk­in frá 2008 á þessu tíma­bili."

Allir vita að bankahrun, ásamt meðfylgjandi efnahagserfiðleikum, varð víða um heim á árinu 2008 og Ísland fór ekki varhluta af þeim erfiðleikum þó ýmis lönd innan ESB hafi jafnvel orðið enn verr úti, t.d. Grikkland, Spánn, Írland o.fl.  

Þrátt fyrir að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. hafi sífellt flutt þann áróður að forgangsraðað væri í þágu velferðar, menntunar og heilbrigðismála er útkoman sú að velferð barna hafi hvergi fengið annan eins skell og einmitt undir stórn þeirrar "norrænu".

Greinilegt er að traust almennings og stéttarfélaganna til núverandi ríkisstjórnar er mikið, enda hávær krafa úr öllum áttum um að öll mistök síðustu ríkisstjórnar í efnahagsmálum verði leiðrétt umsvifalaust og stöðu heimila og velferðar verði komið í það horf sem þau voru í á árunum fyrir 2008 og verður ekki annað séð en að ríkisstjórnin sé reiðubúin til að gera allt sem mögulegt er til að verða við þeim óskum.

Þeir sem mest hafa milli handanna nú um stundir hljóta því að una því að fátækustu börnin verði sett í forgang þeirra lífskjaraleiðréttinga sem fram undan eru. 

 


mbl.is Fátækt íslenskra barna jókst mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Leiðréttingar" í kjarasamningum

Lengstum hafa stéttarfélög barist fyrir bættum kjörum félaga sinna, bæði varðandi laun og ýmis önnur kjaraefni, svo sem ellilífeyri, veikindarétt, orlof o.fl.  

Eins lengi og elstu menn muna hefur í upphafi nánast hverra einustu kjarasamningatarnar þeirri kröfu verið hampað að nú skuli leggja ríkasta áherslu á að hækka lægstu launin og aðrir verði látnir bíða betri tíma.  

Í hvert einasta skipti hefur verið samið um hækkun lægstu launa og svo hafa nánast allir aðrir samið um meiri hækkanir sér til handa og því meiri hækkanir sem launin hafa verið hærri áður.

Alltaf snúast kröfur einstakra félaga um að "leiðrétta" þann launamun sem myndaðist í síðustu samningum "viðmiðunarstéttanna", þar sem þær sömdu eins og venjulega um enn meira og betra en hinum tókst að semja um sér til handa.

Um þessar mundir eru aðildarfélög ASÍ að móta kjarakröfur sínar fyrir næstu samningalotu og að sjálfsögðu munu þær kröfur byggjast á því að "leiðrétta" kjörin vegna þeirra samninga sem aðrir gerðu í fyrra og jafnvel á árunum þar á undan.

Svo koma hinir og krefjast "leiðréttinga" á sínum kjörum og þannig mun þetta ganga áfram næstu áratugina eins og áður. 


mbl.is Deilt um viðmið launaþróunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var byssugjöfin keypt?

Dularfulla hríðskotabyssumál ríkislögreglunnar verður sífellt einkennilegra í eyrum og augum almennings í landinu, ekki síst eftir fréttatíma sjónvarpsstöðvanna í kvöld.

Stöð2 sagði frá því í sínum fréttatíma að á árinu 2011 hefði Innanríkisráðuneytið falast eftir byssunum að gjöf frá Norðmönnum og endanlega hafi verið gengið frá þeim málum í maí 2013 þó samningur hafi ekki verið formlega undirritaður fyrr en í desember það ár og byssurnar svo afhentar í framhaldinu.  Skilyrði fyrir gjöfinni hefði þó verið að Landhelgisgæslan yrði móttakandi gjafarinnar og greiddi flutningskostnaðinn til Íslands.  Landhelgisgæslan hafi síðan afhent Ríkislögrelunni hluta gjafarinnar, enda hafi norski herinn talið eðlilegra að gefa vopnin til gæslunnar en lögreglunnar.

Í fréttatíma RÚV var hins vegar sagt að byssurnar hefðu verið keyptar fyrir tólf milljónir króna og birt viðtal við fulltrúa norska hersins því til staðfestingar.  Ekkert kom fram í þeim fréttatíma hvort Landhelgisgæslan hefði komið beint eða óbeint að þessum vopnakaupum.

Burtséð frá því hvaða álit fólk hefur á því hvort lögreglan í landinu eigi að hafa aðgang að svona vopnabúri eða ekki er alveg óþolandi leynimakk í kring um þetta mál af hálfu lögreglunnar, gæslunnar og ráðuneytisins.  

Það hlýtur að vera einfalt mál af hálfu ráðuneytisins að upplýsa í eitt skipti fyrir öll hvernig í þessu máli liggur og hvort Norðmenn hafi selt Íslendingum þessar byssur eða gefið þær. 


mbl.is Gæslan keypti hríðskotabyssur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Wikileaks orðin málpípa morðingja?

Wikileaks hafa sent frá sér einhverskonar yfirlýsingu um að samtökin fordæmi lokun vefsíðunnar Kfilafah.is, sem er eða var áróðurssíða hryðjuverkasamtakanna sem vilja láta kalla sig Ríki Íslams en eru ekkert annað en samsafn morðóðs glæpalýðs.

Að minnsta kosti einn þingmaður Pírata hefur sent frá sér álíka yfirlýsingu og eins og Wikileaks virðist hann álíta lokun síðunnar brot á mál- og tjáningarfrelsi þeirra ógeðslegu villimanna sem flykkst hafa til þátttöku í hryllingsverkum þessara morðvarga sem framin eru og réttlætt með ótrúlegu trúarofstæki.

Stuðningur við "mál- og tjáningarfrelsi" þessara skrímsla í  mannsmynd hlýtur þá að ná til þess að "venjulegir" morðingjar og aðrir ribbaldar fái frið til þess að halda úti vefsíðum til að útskýra málstað sinn og sýna myndbönd af manndrápum sínum og öðrum illverkum svo almenningur geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra.

Mál- og tjáningarfrelsið er dýrmætara en svo að réttlætanlegt sé að misbjóða þeim sem þess njóta á eins lágkúrulegan hátt og talsmenn Wikileaks og Pírata leyfa sér að gera. 


mbl.is Wikileaks fordæmir lokun vefsíðu Ríkis íslams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður ekki að slaka á innflutningsbanni á kjöti, eða hvað?

Eftirlitsstofnun EFTA hefur í dag birt þann úrskurð sinn að íslensk yfirvöld hafi ekki getað sýnt fram á að innflutningshöft á kjöti séu nauðsynleg til að vernda líf og heilsu almennings og dýra og því andstæð EFTAsamningnum.

Samkvæmt þessum úrskurði verða íslensk yfirvöld að breyta lögum um matvælainnflutning innan tveggja mánaða en sæta málshöfðun ella.

Þetta kallar á skjót viðbrögð til lagabreytinga og kollvarpar í raun öllu landbúnaðarkerfinu hérlendis.  Ekki er að sjá að íslendingar geti með nokkru móti komið sér hjá að breyta reglunum hvað þetta varðar og því eins gott fyrir bændur og framleiðslufyrirtæki landbúnaðarafurða að bregðast hratt og vel við þeirri samkeppni sem nú blasir við þeim.

Þetta ætti að verða til þess að lækka matvælaverð í landinu, nema hugvitssömum kerfisköllum takist að finna upp ný og endurbætt vörugjöld (hvað svo sem þau yrðu látin heita) til að halda uppi verði á innfluttu vörunum eins og gert hefur verið hingað til.

Kannski þarf ekki að breyta neinu öðru en leyfisumsóknunum, en halda innflutnigsgjöldunum.  Kerfið mum nánast örugglega ekki gefa neitt eftir af sínum tekjum af þessum málaflokki, frekar en öðrum. 


mbl.is Takmarkanir á innflutningi brjóta í bága við EES-samning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband