"Í mestri þörf" fyrir innlögn á líknardeild

Svo ótrúlega sem það kann að hljóma, á að draga saman í rekstri líknardeilda Landspítalans og fækka þar leguplássum þrátt fyrir að deildirnar anni ekki þeirri þörf sem fyrir er og að jafnaði sex dauðvona sjúklingar þurfi að bíða eftir innlögn.

Í fréttinni kemur fram m.a: "Sjúklingar eru teknir inn af biðlista eftir því hver er í mestri þörf hverju sinni. Yfirleitt er biðin frá nokkrum dögum upp í tvær til þrjár vikur. Hinn 19. október sl. voru tveir á biðlista líknardeildar aldraðra á Landakoti og fjórir á biðlista líknardeildarinnar í Kópavogi."

Þetta er nánast ótrúlegur lestur, enda textinn á ómanneskjulegu stofnanamáli.  Að ræða þetta alvarlega mál á þeim nótum að fólk sé látið hanga á biðlistum síðustu lífdagana, EFTIR ÞVÍ HVER ER Í MESTRI ÞÖRF HVERJU SINNI er nánast hneykslanlegt, því enginn sækist eftir því að FÁ að komast inn á líknardeild án þess að vera svo langt leiddur vegna öldrunar eða sjúkdóms, að ekkert bíði þess annað en dauðinn.

Það ætti ekki að vera ofverk þessa þjóðfélags að sjá til þess að aldrað fólk og sjúklingar, sem útséð er um að eigi ekkert framundan annað en að yfirgefa þessa jarðvist, geti gert það með reisn og sóma og án þess að líða kvalir.  Nógu erfiður er slíkur biðtími fyrir viðkomandi sjálfa og aðstandendur hans, að ekki sé aukið á þjáningar og kvöl með fyrirslætti um að þjóðfélagið hafi ekki efni á að líkna dauðvona fólki.

Vonandi skammast ráðamenn þessa málaflokks sín fyrir ástandið á þessu sviði heilbrigðisþjónustunnar og fjölga leguplássum á líknardeildum í stað þess að fækka þeim.

Ef einhversstaðar á að útrýma biðlistum gjörsamlega, þá er það á líknardeildunum. 


mbl.is Sex á biðlista líknardeilda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að stinga höfðinu í steininn"

Össur Skarphéðinsson, sem lét hafa eftir sér í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis að hann hefði ekki "hundsvit á efnahagsmálum" á Íslandi, gefur sig hins vegar út fyrir að vera mikill sérfræðingur um efnahagsmál utan landsteinanna og alveg sérstaklega á vandamálum evrulandanna og gjaldmiðlinum sjálfum.

Þrátt fyrir að allir helstu efnahagssérfræðingar og stjórnmálamenn veraldarinnar hafi miklar áhyggjur af framtíð evrunnar og þess efnahagsvanda sem hún skapar í ýmsum löndum álfunnar, lætur Össur ekkert tækifæri ónotað til að mótmæla slíkum hrakspám og segir að samkvæmt sínu viti sé evran sífellt að eflast og herðist við hverja raun þeirra landa sem notast við hana sem gjaldeyri.

Samþingmaður Össurar fann upp endurbætur á gömlu orðtaki og sagði á þingi af einhverju tilefni að ráðherrarnir væru að "stinga höfðinu í steininn" og bætti um betur með því að segja að ekki ætti að "kasta grjóti úr steinhúsi".

Þó Össur telji sjálfan sig hafa lítið vit á ákveðnum málum, er alveg óþarfi af honum og eiginlega ókurteisi við hunda, að gera lítið úr þeirra vitsmunum.

Vonandi stingur Össur höfðinu ekki í grjótið, áður en því verður kastað úr steinhúsinu.


mbl.is Evran sterkari fyrir vikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óháð mat er grundvallarforsenda

Ýmsir aðilar, þar á meðal nokkrir þingmenn, véfengja útreikninga MP-banka á hagkvæmni Vaðlaheiðargangna og líkunum á því að göngin standi undir sér með veggjöldum. Félag íslenskra bifreiðaeigenda bendir á að meðaltekjur Hvalfjarðargangna af hverjum bíl, sem um göngin fer, sé um fimmhundruð krónur en tekjuspá vegna Vaðlaheiðargangna geri ráð fyrir eittþúsund króna tekjum af hverjum bíl, eða helmingi hærri tekjum en fást í Hvalfarðargöngunum.

Fyrirtækið, sem ætlar að byggja og reka Vaðlaheiðargöng, er í meirihlutaeigu ríkissjóðs og ríkið ætlar að lána þessu ríkisfyrirtæki fyrir byggingarkostnaðinum, a.m.k. á framkvæmdartíma og jafnvel til áratuga, takist ekki að fjármagna framkvæmdina á annan hátt.

Fjármálaráðherra er þingmaður kjördæmisins, þar sem framkvæmdirnar fara fram og stjórnarþingmaður situr í stjórn Vaðlaheiðarganga hf., sem verður eigandi og rekstraraðili.

Þó ekki væri til annars en að útiloka umræður um pólitíska spillingu, af þessum ástæðum, hlýtur það að vera eðlileg og sanngjörn krafa að óháðir aðilar yfirfari alla útreikninga um byggingar- og rekstrarkostnað gangnanna og endurgreiðslugetu vegna lána sem til verksins verða tekin.

Í raun er allt annað gjörsamlega óeðlilegt og vekur grunsemdir um vinnubrögð.


mbl.is Sjálfbærni grundvallarforsenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosið um framtíðarleiðtoga sameiginlegra hugsjóna

Farið er að bera á nokkuð undarlegum málflutningi vegna framboðs Hönnu Birnu til formennsku í Sjálfstæðisflokknum sem einkennist af nokkurri taugaveiklun stuðningsmanna Bjarna Benediktssonar. Bæði hann sjálfur, Tryggvi Þór Herbertsson og fleiri hafa látið að því liggja að framboð hennar sé "tilgangslaust", enda hafi hún ekki komið fram með nýjar áherslur og tillögur og þá sérstaklega ekki varðandi efnahagsmál.

Nýlega voru lagðar fram ýtarlegar tillögur Sjálfstæðisflokksins um endurreisn efnahagslífsins og voru þær unnar af stórum hópi manna, þar á meðal ýmissa sérfræðinga á ýmsum sviðum og eru tillögurnar að sjálfsögðu lagðar fram sem tillögur flokksins, en ekki einstakra flokksmanna, þingmanna eða embættismanna á hans vegum.

Fólk styður stjórnmálaflokka vegna sameiginlegra hugsjóna og stefnu í sveitarstjórnar- og landsmálum og málefnastarf og samþykktir um afstöðu til einstakra mála er unnið og afgreitt af landsfundum flokkanna og eftir þeim ber kjörnum fulltrúum þeirra að starfa.

Þar af leiðandi er algerlega fráleitt að snúa framboðsmálum innan flokka upp í ásakanir um að viðkomandi frambjóðendur hafi ekki sína eigin stefnu um einstök mál, enda ber þeim að framfylgja stefnu flokkanna en ekki einkaskoðunum sínum, fari þær að einhverju leiti í bága við lýðræðislega mótaðar og samþykktar ályktanir landsfunda.

Vonandi tekst að halda kosningabaráttunni um formennsku Sjálfstæðisflokksins á málefnalegum nótum og persónulegt skítkast og baknag komi þar hvergi nærri.


mbl.is Finnur fyrir miklum stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr í lögguna

Jón Gnarr fékk að sitja í löggubíl síðast liðna nótt og fylgjast með vinnandi fólki fást við erfitt og vandasamt starf.

Það hefur vafalaust verið mikil lífsreynsla fyrir borgarstjóraómyndina, sem alveg frá fyrsta degi í embætti hefur sýnt og sannað, bæði með aðgerðar- og getuleysi sínu og ekki síður fáránlegum ummælum við ýmis tækifæri, að hann hefur ekkert til að bera til að gegna opinberu starfi og allra síst ábyrgðarstarfi.

Jón lýsir mikilli aðdáun sinni á lögreglunni eftir þessa lífsreynslu sína og segir réttilega að lögreglan eigi mikla virðingu og hrós skilið fyrir störf sín.

Þar sem bæði Jóni Gnarr og Reykvíkingum væri fyrir bestu að hann skipti sem fyrst um starfsvettvang, væri athugandi fyrir hann að kanna möguleika á starfi hjá lögreglunni.

Hugsanlega gæti hann þá gert eitthvert gagn.


mbl.is Jón Gnarr hrósar lögreglunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþörf þjóðaratkvæðagreiðsla

Hagsmunasamtök heimilanna leggja nú hart að þingmönnum að þeir leggi fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurfellingu skulda heimilanna og afnám verðtryggingar á lánum.

Eins og maður er nú fylgjandi auknu lýðræði og þátttöku almennings í stefnumörkun í stærri málum, þá er alveg óhætt að leggja til að þær tvöhundruðmilljónir króna, sem kostar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, verði sparaðar og notaðar frekar til að styrkja heilbrigðiskerfið, sem er í brýnum fjárhagsvanda.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi mál er algerlega fyrirséð, þar sem ekki er líklegt að nokkur einasti kjósandi myndi segja nei við því að fá lækkaðar skuldir sínar, hvort sem til þeirra var stofnað af fyrirhyggju, eða algeru fyrirhyggjuleysi og jafnvel ævintýramennsku eins og raunin var í sumum tilfellum.

Svo mikið er búið að útmála og sverta verðtrygginguna, að niðurstaða í því máli er jafn fyrirséð, jafnvel þó vaxtaokrið í landinu yrði í kjölfarið meira en nokkru sinni fyrr, enda ólíklegt að lánastofnanir muni lána fé í stórum stíl með neikvæðum vöxtum til langs tíma, enda færu þær fljótlega á hausinn með því móti.

Kannski myndi það að vísu leysa skuldavandann, því enginn gæti þá tekið lán framar og myndi því aldrei lenda í vandræðum með afborganir, vexti eða verðtryggingu þeirra vegna.


mbl.is Fundað um þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkakerfið stendur styrkum fótum

Þrátt fyrir háværar raddir um uppstokkun flokkakerfisins og einhverskonar persónukjör kemur í ljós í hverri skoðanakönnunni á fætur annarri að flokkakerfið stendur styrkum fótum í huga alls þorra kjósenda, enda skipar fólk sér í flokka eftir skoðunum sínum á þjóðmálum og hvernig eigi að stjórna landi og þjóð.

Fylgi flokkanna er nokkuð stöðugt, þó fram komi tiltölulega litlar sveiflur á milli kannanna og ráðast þær aðallega af því sem er að gerast í þjóðlífinu hverju sinni, en að lokum jafnast fylgi flokkanna á ný og helst svipað í hverjum kosningum, með útúrdúrum þegar eitthvað alveg sérstakt og óvenjulegt á sér stað, eins og t.d. efnahagshrun af völdum óprúttinna banka- og útrásargengja.

Aðeins 15% aðspurðra í síðasta þjóarpúlsi Gallups sagðist myndu skila auðu, eða sitja heima, ef kosið yrði til Alþingis núna ig 10% nefna önnur stjórnmálaöfl en þau, sem nú eiga fulltrúa á þinginu.

Þessi niðurstaða sannar enn og aftur, að óánægjukórinn sem kyrjar flokkakerfinu bölbænir, er hávær og skrækur en afar fámennur.


mbl.is 15% myndu skila auðu eða ekki kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannauður Sjálfstæðisflokksins

Framboð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til formennsku í Sjálfstæðisflokknum beinir athygli að því mikla og kröftuga mannvali sem flokkurinn hefur innan sinna raða og að hann hefur upp á mörg öflug formannsefni að bjóða.

Bjarni Benediktsson hefur verið vaxandi í störfum sínum sem formaður flokksins undanfarin tvö ár, en sumum þótt hann hafa verið full linur í ESBmálum og ekki síður varðandi Icesave og einnig hefur hann þurft að sitja undir stöðugum árásum vegna þess hverrar ættar hann er, en föðurætt hans hefur verið áberandi í atvinnumálum undanfarna áratugi og fór ekki varhluta af hruninu, frekar en aðrir.

Þessar ósanngjörnu árásir á Bjarna hafa einnig bitnað að nokkru leyti á Sjálfstæðisflokknum, sem þrátt fyrir allt hefur þó verið að sækja í sig veðrið á ný undir forystu Bjarna og hver skoðanakönnunin á fætur annarri hefur staðfest að fylgi við flokkinn fer sívaxandi.

Hanna Birna hefur sýnt í störfum sínum að hún er geysilega öflugur forystumaður, ákveðin og skoðanaföst, en mikill mannasættir og hefur getað laðað fólk til samvinnu, þvert á flokkslínur.

Sjálfstæðisflokkurinn getur stoltur farið inn í næstu kosningar undir forystu hvort heldur er Bjarna eða Hönnu Birnu og þjóðin mun geta litið með tilhlökkun til þeirrar framtíðar þar sem annað hvort þeira mun leiða þjóðina til nýrrar lífskjarasóknar úr stóli forsætisráðherra.

Vonandi þarf ekki að bíða lengi enn eftir Alþingiskosningum og nýrri ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is Snýst um líklegan sigurvegara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú verða margir svefnvana

Héraðsdómur hefur ógilt niðurfellingu Heiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, á persónulegri ábyrgð eins af fyrrverandi framkvæmdastjórum bankans á lánum sem hann tók til kaupa á hlutabréfum bankans á árunum fyrir hrun.

Í þessu tilfelli var um að ræða 2,6 milljarða lántöku, sem daginn fyrir bankahrun var fært yfir í einkahlutafélag og ábyrgð framkvæmdastjórans felld niður um leið og leit héraðsdómarinn svo á að í raun hefði verið um persónulega gjöf að ræða, enda greiddi einkahlutafélagið aldrei eina krónu af láninu, eftir að það "yfirtók" lánið.

Staðfesti Hæstiréttur þennan dóm hlýtur niðurstaðan að vera fordæmisgefandi fyrir fjölda slíkra mála, enda virtist það vera viðtekin regla í bönkunum að starfsmenn tækju hundruð- eða milljarða lán til hlutabréfakaupa í þeim fjármálastofnunum sem þeir unni í, hirtu arðgreiðslur af bréfunum en greiddu aldrei lánin. Nokkrum mínútum fyrir hrun var svo gefin út yfirlýsing um að persónulegar ábyrgðir væru fallnar úr gildi og viðkomandi þar með lausir allra mála.

Þessi dómur mun því valda mörgum andvöku á næstunni og margir munu bíða niðurstöðu Hæstaréttar með mikilli skelfingu.


mbl.is Greiði Kaupþingi 2,6 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir Össur um þetta?

Ákvörðun Papandreos, forsætisráðherra Grikklands, að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um "björgunarpakka" ESB og AGS til handa Grikkjum, hefur valdið miklum úlfaþyt meðal evrópskra ráðamanna, eins og sjá má af ÞESSARI frétt, ásamt því að valda gífurlegum sviptingum á fjármálamörkuðum, eins og sjá má HÉRNA

Örvæntingin innan ESB eykst dag frá degi vegna skuldavanda evruríkjanna og þær raddir gerast æ háværari frá stöndugri ríkjum sambandsins, að "skussar" eins og Grikkir, Írar, Ítalir, Spánverjar og jafnvel fleiri þjóðir verði reknar úr evrusamstarfinu, en Hollendingar hafa lagt slíkt til og nú hafa Finnar lýst yfir stuðningi við slíkar refsiaðgerðir, eins og lesa má HÉR

Ekki heyrist hósti eða stuna frá íslenskum ESBgrúppíum vegna þessara vandamála og þá sjaldan að þaðan komi viðbrögð, þá eru þau einatt í þá átt að allt of mikið sé gert úr vandamálum ESB landanna og alveg sérstaklega evruþjóðanna og ekki eru margir dagar síðan Össur Skarphéðinsson lýsti því yfir enn og aftur að vandinn vegna evrunnar væri smávægilegur og ekkert til að hafa orð á.  Að vísu lýsti Össur því yfir við Rannsóknarnefnd Alþingis "að hann hefði ekki hundsvit á efnahagsmálum", en það hefur þó ekki aftrað honum frá því að ræða vandamálin á allt öðrum nótum en Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði, stjórnmálamenn ESB landanna og fjöldinn allur af fræðimönnum á þessu sviði.

Öll vandamál, sem herja á Evrópu, munu herja á Ísland áður en yfir lýkur og því afar brýnt að úr rætist og ekki verði algert hrun í álfunni enda er hún okkar helsti útflutningsmarkaður.  Það stafestur reyndar nauðsyn þess að dreifa áhættunni meira og efla og styrkja aðra markaði. 

Það verður auðvitað ekki gert með inngöngu í þetta hrjáða og þjakaða bandalag.


mbl.is Grikkir valda glundroða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband