16.11.2011 | 19:19
Tvennt athugavert
Á Alþingi standa yfir umræður um fjáraukalög fyrir árið 2011 og eru vinnubrögð stjórnarflokkanna algerlega stórfurðuleg og reyndar fullkomlega óboðleg í lýðræðisþjóðfélagi. Í anda vinnubragðanna sem viðhöfð voru þegar frumvarpið um Icesave I var lagt fram og átti að afgreiðast án þess að þingmenn fengju að kynna sér innihaldið eða lesa "samninginn", á nú að afgreiða fjáraukalögin án þess að þingmennirnir fái að vita hvað þeir muni vera að samþykkja ef þeir greiða frumvarpinu atkvæði sitt.
Í fréttinni kemur þetta fram um leynimakkið: "Fram kom að þingmenn í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd fengu að sjá þessa samninga í morgun en var þá sagt að leynd hvíldi yfir þeim. Þeirri leynd var aflétt síðdegis en þá kom í ljós að hluta af samningunum vantaði í þau eintök, sem þingmenn höfðu undir höndum. Vildu stjórnarandstæðingar að umræðu um fjáraukalögin yrði frestað svo þingmenn gætu kynnt sér málið nánar. Við því var ekki orðið."
Þetta eru meira en lítið athugaverð og vítaverð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og furðulegt að stjórnarþingmenn fáist til að greiða atkvæði með frumvarpi sem þeir vita ekki til fulls hvað inniheldur, eða hvaða kostnað það hefur í för með sér fyrir ríkissjóð og þjóðfélagið.
Annað sem er athugavert, en þó að nokkru skiljanlegt, er að stjórnarandstaðan skuli ekki ætla að mæta á boðaðan þingfund, þó svo að hann sé boðaður á óvanalegum tíma, því frumskylda þingmanna er auðvitað að taka þátt í þingstörfum.
Fáist ríkisstjórnin ekki til að leggja fram umbeðnar og nauðsynlegar upplýsingar um þau mál sem til umfjöllunar eru hverju sinni, hefur stjórnarandstaðan það beitta vopn uppi í erminni að beita málþófi og koma þannig í veg fyrir að svona fáránleg mál séu keyrð í gegn um þingið.
Hvorki stjórn eða stjórnarandstaða eru þinginu til mikils sóma þessa dagana.
![]() |
Verða upptekin þegar atkvæðagreiðsla fer fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.11.2011 | 19:26
Of há arðsemiskrafa Landsvirkjunar?
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að meðalarðsemi fyrirtækisins frá árinu 1965 hafi verið um 2% á ári, en segir að stefna þyrfti að 11% arðsemi eiginfjár árlega.
Þegar hann talar um arðsemi eigin fjár, hlýtur hann að vera að tala um raunvexti fjárins, þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu, enda bókhald félagsins fært í dollurum og allar tekjur í þeirri mynt.
Til þess að ná 11% arði af eigin fé Landsvirkjunar þyrfti væntanlega að hækka allt raforkuverð í landinu um tugi prósenta, væntanlega bæði til almennings, smærri fyrirtækja og ekki síst til stóriðjunnar.
Landsvirkjun er öflugasta og eignamesta fyrirtæki landsins, þrátt fyrir að arðsemi eigin fjár hafi ekki verið meiri en þessi 2% að meðaltali og því vaknar sú spurning, hvort ekki sé full mikið í lagt að ætla sér að nánast sexfalda þessa arðsemi á næstu árum og áratugum.
Vextir á Íslandi hafa alltaf verið háir, svo háir að um raunverulegt vaxtaokur hefur verið að ræða, en varla hefur nokkur lánveitandi og hvað þá innistæðueigendur getað látið sig dreyma um 11% raunávöxtun fjármuna sinna.
Þeir sem gagnrýna "lága" arðsemi Landsvirkjunar verða að vera reiðubúnir til að greiða margfalt raforkuverð, miðað við það sem þeir gera núna.
![]() |
Of lítil arðsemi af virkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2011 | 11:58
Íslendingar eru algerlega kaupóðir
Nánast í hvert skipti sem ný verslun opnar á Íslandi grípur um sig algert kaupbrjálæði og biðraðir myndast við þessar búðir, þar sem þúsundir "berjast" um að komast sem fyrst að vörurekkunum til að birgja sig upp af því sem til sölu er hverju sinni.
Yfirmenn sænsku verslunarkeðjunnar Lindex, sem opnaði í Smáralind um helgina, höfðu aldrei í sextíu ára sögu keðjunnar séð annað eins kaupæði og rann á Íslendinga við opnun verslunar á vegum keðjunnar og í því sambandi er verið að tala um veröldina alla.
Verslunareigendur í öllum nálægum löndum þekkja þetta kaupæði Íslendinga og oft hafa birst fréttir í erlendum fjölmiðlum af geggjunni sem grípur um sig þegar mörlandahópar í flugvélaförmum birtast á þeirra svæði.
Ísland er sannarlega "stórasta land í heimi" og Íslendingar "stórustu" eyðsluklær veraldar, jafnvel í dýpstu og verstu efnahagskreppu sem yfir landið hefur dunið.
![]() |
Loka vegna vöruskorts |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.11.2011 | 10:04
Er verslunarferðum til útlanda að fjölga aftur?
Samkvæmt nýjustu tölum dróst velta dagvöruverslana saman um tæp 2% í október, miðað við sama mánuð á síðasta ári og þá ekki síst í fatnaði og skóm.
Á árum áður voru farnar skipulagðar verslunarferðir, jafnvel dagsferðir, til útlanda og voru það þá ekki síst einmitt þessar vörutegundir sem vinsælastar voru í slíkum ferðum.
Nú hafa ferðalög til útlanda aukist á ný og því vaknar sú spurnig hvort tengsl séu ekki á milli þessara auknu ferðalaga og minnkandi vörusölu hér innanlands og verslun sé að flytjast í auknum mæli úr landi á ný. Hækkun virðisaukaskatts og annarra álaga hér innanlands ýtir örugglega undir að slík þróun verslunarhátta aukist á nýjan leik.
Sala áfengis hefur einnig minnkað mikið milli ára og þar er aðalskýringin án vafa gríðarleg hækkun skatta og gjalda í ríkissjóð af þeirri vörutegund, sem einnig leiðir af sér aukið smygl og heimabrugg, enda mikið farið að bera á slíku síðustu mánuði.
Fróðlegt væri að vita hvort sala áfengis í Fríhöfninni hefur fylgt þróuninni á áfengissölunni í verslunum ÁTVR, eða hvort marktæk aukning hafi orðið á sölunni þar, þrátt fyrir aukna gjaldtöku á vörunum þar, eins og annarsstaðar þar sem ríkisstjórnin er með puttana.
![]() |
Minnkandi sala á fötum og skóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2011 | 20:23
Austurvöllur er ekki tjaldstæði
Loksins hefur Forsætisnefnd Alþingis látið frá sér heyra og mótmælt vegna tjaldanna sem setja ljótan svip á Austurvöll um þessar mundir.
Austurvöllur er ekki og á ekki að vera tjaldstæði, hvorki fyrir ferðamenn eða mótmælendur. Önnur svæði eru til þess ætluð og henta mun betur til slíkra nota.
Það er algerlega fáránlegt af borgaryfirvöldum að leyfa slíkar tjaldbúðir á þessum stað langtímum saman og ekki til vegsauka fyrir miðborgina.
![]() |
Tjöldin ekki til prýði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.11.2011 | 10:43
Verður nokkurn tíma hægt að fá botn í þessi mál?
Geirfinns- og Guðmundarmál hafa verið í umræðunni áratugum saman og sitt sýnist hverjum um sekt eða sakleysi þeirra ungmenna sem sökuð voru um hvarf mannanna og dóm hlutu fyrir, allt að sautján ára fangelsi.
Sakborningar játuðu á sig glæpina á sínum tíma, en drógu þær játningar fljótlega til baka og sögðu þær hafa verið knúðar fram með harðræði í ómanneskjulega löngu gæsluvarðhaldi og með því að "planta fölskum minningum" í hugi sína með lymskulegum yfirheyrsluaðferðum og falskri "góðsemi".
Eitt er alveg víst og það er að rannsókn málanna, meðferð sakborninganna og yfirheyrslur hafa vægt sagt verið harðneskjulegar og myndu ekki standast neinar nútímakröfur til rannsókna sakamála, yfirheyrsluaðferða eða meðferð sakamanna.
Innanríkisráðherra hefur sett á fót nefnd til að rannsaka rannsóknina og nánast víst er að hún mun komast að þeirri niðurstöðu að rannsókn og öll málsmeðferð hafi verið fyrir neðan allar hellur og sé og verði blettur á íslenskri réttarfarssögu og öllum til skammar sem að málunum komu á sínum tíma.
Hvort nokkurn tíma tekst héðan af að sanna eða afsanna sekt þeirra sem dóma hlutu á sínum tíma er svo annað mál og líklegt að þráttað verði um það áfram um ókomna tíð.
![]() |
Afhenda skjöl um Geirfinnsmálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.11.2011 | 15:58
Taugar Samfylkingarfólks að gefa sig
Mörður Árnason, eins og fleiri vinstri grænir (þó í Samfylkingunni séu), virðist vera að fara algerlega yfirum af taugaveiklun vegna þeirrar sífellt auknu velgengni sem Sjálfstæðisflokkurinn nýtur í skoðanakönnunum og ekki síður vegna þeirrar athygli sem að flokknum beinist þessa dagana vegna væntanlegs landsfundar og formannskosninga sem þar munu fara fram.
Mörður býsnast mikið yfir því að formannsframbjóðendurnir skuli ekki vilja láta Fréttablaðið stjórna kosningabaráttunni og ráða því um hvað hún komi til með að snúast. Einnig fárast hann yfir því að ekki skuli vera mikill pólitískur skoðanamunur á milli þeirra sem í fraboði eru og virðist ekki skilja að um er að ræða tvo einstaklinga, sem hafa sömu lífsskoðanir og hugsjónir og því sammála að mestu leyti um markmið og leiðir varðandi þjóðmálin.
Að sjálfsögðu er það að mörgu leyti skiljanlegt að pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins séu taugaveiklaðir þessi misserin, enda vita þeir sem er að stjórnarflokkarnir munu ekki verða svipur hjá sjón eftir næstu kosningar.
Ekki síður veldur vitneskjan um að sá sem kjörinn verður formaður Sjálfstæðisflokksins um næstu helgi, verði einnig að öllum líkindum næsti forsætisráðherra þjóðarinnar.
![]() |
Herra Ekkert berst við frú Ekkert |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.11.2011 | 11:27
Kreppa í þrjú ár eða tíu?
Stefna, eða réttara sagt stefnuleysi, ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum mun valda því að kreppan mun vara út þennan nýbyrjaða áratug, í stað þess að ástandið hefði verið orðið ásættanlegt á ný um þessar mundir, hefði áætlun AGS og ríkisstjórnarinnar frá haustinu 2008 gengið eftir.
Alveg má spyrja sig að því hvort í raun sé hægt að tala um stefnuleysi í atvinnumálum, þar sem ríkisstjórnin hefur beitt öllum sínum kröftum til þess að berjast gegn hvers kyns fjárfestingu og uppbyggingu í atvinnulífinu og þar með viðhaldið atvinnuleysi í landinu í sögulegu hámarki fram á þennan dag og ekkert útlit fyrir minnkun þess á næstu árum, með sama áframhaldi.
Það er nánast með ólíkindum að svo til ekkert hafi breyst í þjóðfélaginu frá hruni annað en að ríkissjóður sé að nálgast hallalausan rekstur, en það er auðvitað ekki ráðsnilld stjórnarinnar að þakka, heldur gengdarlausri skattpíningu atvinnulífsins og þess hluta almennings sem ennþá hefur einhverja atvinnu.
Ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur verður minnst um ókomna tíð sem einnar lélegustu ríkisstjórnarinnar á lýðveldistímanum.
![]() |
Getum komist út úr kreppu á þremur árum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.11.2011 | 15:46
Tré í forgangsröð, en börn á biðlista
Jón Gnarr, titlaður borgarstjóri, skýrði það að börn væru ekki tekin inn á leikskóla í þau pláss sem laus væru og hægt væri að fylla án þess að fjölga starfsfólki, með þeim orðum að "ÞAÐ KOSTAR".
Þetta er að vísu hæpin skýring, þar sem verið var að tala um þau pláss sem hægt væri að fylla án fjölgunar starfsmanna og því ætti fjölgun barna á þeim leikskólum sem svo háttar um að auka tekjur en ekki útgjöld.
Vegna þessarar undarlegu sýnar á þau óþægindi sem þetta veldur fjölda foreldra í borginni verða öll börn, sem fædd eru árið 2010, látin hanga áfram á biðlistum og ekkert tillit tekið til aðstæðna foreldranna eða barnanna sjálfra, jafnvel þó hægt væri að taka hluta þeirra inn á leikskólana strax, án þess að "það kostaði" viðbótarútgjöld fyrir borgina, en myndi hins vegar spara foreldrunum talsvert fé.
Á sama tíma hafa trjáskipti í nokkrum götum borgarinnar forgang fram yfir börnin, enda líður mörgum trjám illa, samkvæmt upplýsingum garðyrkjustjóra borgarinnar. Til þess að auka vellíðan tjánna átti að verja um tíu milljónum króna, en þar sem vanlíðanin er meiri en reiknað var með, mun kostnaður vegna velferðar trjánna fara talsvert fram úr kostnaðaráætlun.
Þetta er nú forgangsröðun málaflokkanna í höfuðborginni um þessar mundir.
![]() |
Tíu milljóna króna trjáskipti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.11.2011 | 23:53
Hvaða skatta og gjöld eru íslensku flugfélögin að innheimta?
EasyJet ætlar að hefja flug milli London og Íslands næsta vor og mun samkeppni á þeirri flugleið verða mikil og er það að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni, því samkeppni er af hinu góða og því meiri sem hún er því betra.
Reikna má með að nýja, eða væntanlega, íslenska flugfélagið WoWair muni einnig fljúga á þessari leið, þannig að þegar þessi félög bætast við verða þúsundir flugsæta í boði á milli Íslands og Bretlands í viku hverri og vonandi mun næg eftirspurn fylgja þessu mikla sætaframboði.
Í fréttinni af easyJet segir m.a: "Byrjað verður að selja miða í flug til og frá Íslandi á morgun og eru ódýrustu miðarnir á 32,99 pund, 6.100 krónur aðra leiðina. Fargjaldið fyrir flugmiða fram og til baka verður 58,81 pund, 10.900 krónur, með sköttum."
Sundurliðun á fargjaldi frá Keflavík til London, aðra leiðina, með Iceland Express hljóðar svo, samkvæmt kvittun: "Fargjald kr. 7.500, skattar og gjöld kr. 10.350, samtals kr. 17.850. Samkvæmt kynningu easyJet ætlar félagið að fljúga báðar leiðir fyrir nánast sömu upphæð og íslensku flugfélögin innheimta í skatta og gjöld af flugferð aðra leiðina.
Hvaða skatta og gjöld eru íslensku flugfélögin að innheimta, sem erlend félög þurfa ekki að standa skil á?
Er kannski bara verið að blekkja neytendur með verðskrá íslensku félaganna og verið að fela hluta raunverulegra tekna félaganna sjálfra undir liðnum "skattar og gjöld"?
Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem íslenskir neytendur væru hafðir að fíflum af óprúttnum viðskiptasvíðingum.
![]() |
EasyJet flýgur til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)