Of há arðsemiskrafa Landsvirkjunar?

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að meðalarðsemi fyrirtækisins frá árinu 1965 hafi verið um 2% á ári, en segir að stefna þyrfti að 11% arðsemi eiginfjár árlega.

Þegar hann talar um arðsemi eigin fjár, hlýtur hann að vera að tala um raunvexti fjárins, þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu, enda bókhald félagsins fært í dollurum og allar tekjur í þeirri mynt.

Til þess að ná 11% arði af eigin fé Landsvirkjunar þyrfti væntanlega að hækka allt raforkuverð í landinu um tugi prósenta, væntanlega bæði til almennings, smærri fyrirtækja og ekki síst til stóriðjunnar.

Landsvirkjun er öflugasta og eignamesta fyrirtæki landsins, þrátt fyrir að arðsemi eigin fjár hafi ekki verið meiri en þessi 2% að meðaltali og því vaknar sú spurning, hvort ekki sé full mikið í lagt að ætla sér að nánast sexfalda þessa arðsemi á næstu árum og áratugum.

Vextir á Íslandi hafa alltaf verið háir, svo háir að um raunverulegt vaxtaokur hefur verið að ræða, en varla hefur nokkur lánveitandi og hvað þá innistæðueigendur getað látið sig dreyma um 11% raunávöxtun fjármuna sinna.

Þeir sem gagnrýna "lága" arðsemi Landsvirkjunar verða að vera reiðubúnir til að greiða margfalt raforkuverð, miðað við það sem þeir gera núna.


mbl.is Of lítil arðsemi af virkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Dásamlegt! Þjóðin kaupir svo margfalt minni raforku en stóriðjan, aðeins fjórðung, að ef vinna ætti upp það að raforkuverðið til stóriðjunnar sé aðeins 25% of lágt, þyrfti að tvöfalda orkuverðið til annarra nota!

Kannski í lagi fyrir Reykvíkinga en hvað um fólkið úti á landi á þeim stöðum þar sem hitað er upp með rafmagni? 

Ef Landsvirkjun hefði verið einkafyrirtæki 2002 hefði Kárahnjúkavirkjun aldrei verið reist. Forsendan var ríkiseignin og ríkisábyrgðin og ávöxtunin fjarri því að vera nógu mikil fyrir einkafyrirtæki. 

Ég kynnti mér sérstaklega hve sáralitlu munaði að virkjunin mistækist þegar borinn stóri var í sjö mánuði að bora sex kílómetra í misgengiskafla sem vísvitandi var ekki kannaður áður en borað var þar í gegn, því að svar upplýsingafulltrúans var: "Við ætluðum þarna í gegn hvort eð var!" 

Þess vegna var því sleppt að kanna þennan kafla með  borunum en hinir kaflarnir, sem litu betur út, voru hins vegar kannaðir með borunum. 

Ráðamenn þess tíma voru alveg tilbúnir til að fara í rússneska rúlletu með þetta og í raun var þetta framferð allt glæpsamlegt, - annað orð er ekki yfir það. 

Nú getur Landsvirkjun ekki gert svipað aftur því að ef þar á bæ er minnst á ríkisábyrgð setur óstöðvandi hlátur að ráðamönnum erlendra ráðafyrirtækja.

Ómar Ragnarsson, 16.11.2011 kl. 00:41

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kárahnjúkavirkjun var mikið áhættuspil og þakka má forsjóninni að ekki fór illa með þá framkvæmd, þó arðsemin sé þó minni en æskilegt hefði verið.

Lengst af hefur stefnan verið sú, að orkufyrirtækin ættu að vera í opinberri eigu til þess að öruggt sé að orkuverðið verði ávallt lágt og þar af leiðandi hefur arðsemiskrafa þessara fyrirtækja ekki verið mjög há hingað til. Það má vel breytast, en þó er spurning hvort 11% arðsemi eigin fjár til langs tíma litið sé ekki full vel í lagt, enda þyrfti að stórhækka allt orkuverð, jafnt til iðnaðar og heimila til að ná því marki.

Þrátt fyrir tiltölulega hóflega arðsemi eigin fjár Landsvirkjunar er fyrirtækið það öflugasta í landinu, með mestar eignirnar og gífurlega sterka eignastöðu. Eins og forstjórinn benti á í ræðu sinni eru allar eldri virkjanir fyrirtækisins nú fullafskrifaðar og auðvitað er það stóriðjan sem hefur greitt þær niður að mestu, enda salan til almennings ekki nema fjórðungur af framleiðslunni, eins og þú bendir á, Ómar.

Axel Jóhann Axelsson, 16.11.2011 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband