14.3.2010 | 23:59
Á meðan engir fundir eru haldnir er hagsmunum þjóðarinnar borgið
Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave ólögin, sögðu Jóhanna og Steingrímur að áfram yrði haldið samningaviðræðum við fjárkúgarana, eins og ekkert myndi í skerast, strax eftir kosningahelgina, enda væri kosningin marklaus og sóun á fjármunum.
Stórglæsileg kjörsókn og enn glæsilegri niðurstaða úr kosningunni, þar sem 98,1% þeirra sem afstöðu tóku, felldu lögin úr gildi og sendu með því kristaltær skilaboð til umheimsins. að íslenskir skattgreiðendur vildu ekki og ætluðu ekki, að setja sig í skattafjötra til áratuga í þágu erlendra ofbeldisseggja.
Jafnvel Jóhanna og Steingrímur virðast loksins vera farin að skilja, að þau hafa engan stuðning á bak við sig, í þjónkuninni við kúgarana og það sem betra er, er að þeir eru sjálfir farnir að skilja, að íslenska þjóðin mun aldrei samþykkja, að taka á sig að greiða eina einustu krónu, hvorki af höfuðstól skuldar einkafyrirtækis, hvað þá að borga vexti af skuld, sem hún hefur ekki stofnað til.
Meðan engir fundir eru haldnir, semja stjörnvöld ekki af sér og því er það þjóðinni í hag, að fundahöld tefjist sem mest.
Trúin á að ríkisstjórnin geti leitt þetta mál til lykta, eftir lagalegum leiðum, er engin.
![]() |
Gengur hægt að koma á fundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2010 | 18:29
Engan umboðsmann skuldara
Samkvæmt fréttum undanfarna daga stendur til að stofna alls kyns ný embætti á vegum ríkisins, á sama tíma og alls staðar annarsstaðar í kerfinu er verið að skera niður og ekki til peningar, hvorki til að reka sjúkrahúsin, lögregluna, landhelgisgæsluna eða hvað annað, sem ríkið annast.
Nýjasta hugmyndin er stofnun embættis Umboðsmanns skuldara, sem er algerlega óþarft embætti, sérstaklega á þessum niðurskurðartímum og auðvelt að útvíkka starfssvið Umboðsmanns neytenda, enda hefur hann annast slík mál, eftir því sem lög um hans embætti hafa gert ráð fyrir. Einnig hefur Neytendastofa fjallað um slík mál, en embætti Umboðsmanns neytenda er sjálfstætt emætti til viðbótar við Neytendastofu, en hún annast flest mál, sem fjalla undir neytendamál, þannig að embætti Umboðsmanns neytenda er í raun embætti, sem ekki var hugsað alveg til enda, þegar það var stofnað og lögin um hann ófullkomin og verkaskipting milli hans og Neytendastofu óskýr.
Stjórnvöld hljóta að leita allra leiða, til að halda kosnaði ríkisins í algeru lágmarki nú um stundir og algert glapræði að stofna ný ríkisapparöt, þegar önnur eru til fyrir, þar sem hægt er að endurskipuleggja starfsemina og gera skilvirkari.
Það er alger óþarfi og raunar bara bruðl, að stofna fleiri opinber embætti, þegar frekar ætti að fækka þeim.
![]() |
Umboðsmaður skuldara stofnaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 14.3.2010 kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.3.2010 | 22:03
InDefence viðurkennir vaxtakröfu
Fulltrúar InDefence hittu nokkra Hollenska þingmenn, sem sæti eiga í Fjárlaganefnd Hollenska þingsins, og ræddu við þá um Icesave og upplýstu ýmis sjónarmið Íslendinga vegna málsins.
Samkvæmt fréttinni virðast fulltrúar InDefence hafa tekið undir það, að íslenskum skattgreiðendum beri að borga vexti fyrir tryggingasjóð innistæðuegenda, sem er í reynd tryggingafélag sem bankarnir greiddu iðgjöld til og er sjálfseignarstofnun, sem er ekki á neinn hátt tengd ríkissjóði, eða skattgreiðendum með neinu móti.
Það eina, sem InDefence virðist hafa mótmælt vegna vaxtakröfunnar er, að vextirnir væru of háir, en ekki því, sem mestu máli skiptir, sem er að 98,2% kjósenda, sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni, gáfu þau skýru skilaboð, að þeir ætla ekki að láta hneppa sig í áratuga skattaþrældóm í þágu Breta og Hollendinga.
Eins þarft framtak og þessi fundur InDefence með þingmönnunum var, til að útskýra sjónarmið þess kúgaða, veldur þessi uppgjöf varðandi vextina gífurlegum vonbrigðum.
Það verður að vera hægt að ætlast til þess, að þeir sem skýri afstöðu almennings á Íslandi, túlki skoðanir hans á réttan hátt.
![]() |
Spurðu hvassra spurninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
12.3.2010 | 15:10
Anders Borg skammast út af máli, sem hann segir að sér komi ekki við
Össur Skarphéðinsson, utanríkisgrínari, skensaði Andres Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, vegna niðrandi ummæla, sem sá sænski viðhafði um þjóðaratkvæðagreiðsluna þann 6. mars s.l. og niðurstöðu hennar. Í sjálfu sér var Borg einungis að bergmála það, sem bæði Jóhanna og Steingrímur voru búin að boða í langan tíma, þ.e. að atkvæðagreiðslan væri marklaus og hefði enga þýðingu.
Anders Borg tók gríni Össurar illa og svaraði fullum hálsi hjá fréttastofunni TT með því að vísa til þess, sem ríkisstjórnin hefði sjálf sagt honum, eða eins og haft er eftir honum: Við viljum veita Íslandi aðstoð svo framarlega sem Íslendingar standa við efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og skuldbindingar, sem þeir hafa sjálfir undirgengist."
Varla getur sá sænski verið að vitna í annað en það sem Össur sjálfur, eða aðrir úr ríkisstjórninni hafa sagt honum, þ.e. að ríkisstjórn Íslands væri búin að samþykkja fjárkúgunarkröfur Breta og Hollendinga og annað væri ekki eftir en borga, nema jú það smáatriði, að forsetinn væri eftir að skrifa undir lögin. Ekki getur hann verið að meina neinar aðrar skuldbindingar, sem "þeir hafa sjálfir undirgengist".
Að endingu verður Borg að vísu örlítið tvísaga þegar hann segir: " Íslenska ríkisstjórnin lýsti því yfir, að það hefði verið gerður samningur við Holland og Breta. Nú halda samningaviðræður áfram og það er ekki mitt hlutverk að skipta mér af þeim," segir Borg."
Fyrr í viðtalinu staðhæfði hann, að íslenska ríkisstjórnin yrði að standa við það sem hún hefði sagt og samþykkt, en í lokin segir hann, að samningar haldi áfram og sér komi það ekkert við.
Fyrst hann hefur komist að því, að honum sé Icesave óviðkomandi, væri þá ekki hægt að ætlast til þess, að hann hætti að blanda því saman við önnur og óskyld mál?
![]() |
Borg vísar gagnrýni Össurar á bug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.3.2010 | 13:28
Krónan styrkist þrátt fyrir ríkisstjórnina
Eftir því sem andstaða þjóðarinnar hefur vaxið gegn fjárkúgunartilraunum Breta og Hollendinga, hefur krónan styrkst, þvert ofan í svartnættisáróður ríkisstjórnarinnar, sem í níu mánuði hefur látlaust hamrað á því, að með því að samþykkja ekki kröfurnar möglunarlaust, muni allt leggjast í rúst í landinu og t.d. myndi lánshæfi landsins hrapa í ruslfokk og gengið myndi halda áfram að veikjast.
Hvort lánshæfi landsins fellur um flokk, eða ekki, mun ekki skipta sköpum, hvað lánamöguleika Íslendinga erlendis snertir á næstunni, því lánsfé mun ekki liggja á lausu, nema gegn háum vöxtum, þar sem lánsfjárþörf nánast allra ríkja í Evrópu er gífurleg, eins og sjá má af þessari frétt frá því í gær, en þar segir m.a: "Matsfyrirtækið Standard & Poors spáir því að lánsfjárþörf ríkja Evrópu á þessu ári nemi um 1.446 milljörðum evra, rúmum 251 þúsund milljörðum króna. Lánsfjárþörfin er þá sex sinnum hærri en hún var árið 2007 og slær út fyrra met frá árinu 2009 með um 390 milljarða aukningu. Samkvæmt S&P er reiknað með að samtals muni um 46 af 50 ríkjum Evrópu þurfa á þessum fjárhæðum að halda til að fjármagna sig."
Af þessu sést að uppgjöf í Icesavedeilunni mun ekki hafa nokkur áhrif til að auðvelda, hvorki íslenska ríkinu, eða einkaaðilum, að nálgast lánsfé erlendis frá, um talsverða framtíð.
Styrking krónunnar er því athyglisverð, sérstaklega í ljósi þess, að ríkisstjórnin gerir allt til að tala hana niður, ásamt því að aðgerðaleysi stjórnarinnar á öllum sviðum atvinnumála vinnur í raun gegn sterkari krónu.
Fari ríkisstjórnin að taka af sér belgvettlingana, bretta upp ermar og taka til hendinni í baráttunni við atvinnuleysið, eflingu atvinnulífs og heimilanna, þá gæti bjartsýni aukist og hjólin farið að snúast á ný og krónan að styrkjast ennþá meira.
Allt þetta er hægt, þrátt fyrir baráttu Breta, Hollendinga, norðulandanna, AGS og EBS gegn efnahagsbata á Íslandi.
Það eina sem vantar, er ríkisstjórn sem ekki er ráðvillt, hugmyndasnauð og getulaus.
![]() |
Evran ekki lægri í 9 mánuði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2010 | 10:55
Þreyttur á kjaftæðinu í Steingrími
Með því að hnika til nokkrum orðum í ræðu Steingríms J. á fundi Samtaka atvinnulífsins, má lýsa afstöððu almennings til aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar. Þá myndi upphaf ræðunnar hljóða einhvernveginn svona:
Almenningur er orðinn þreyttur á þessu kjaftæði í Steingrími J., að ríkisstjórnin sé eitthvað að gera vegna endurreisnar atvinnulífsins, minnkunar atvinnuleysis og vanda heimilanna og má t.d. gagnrýna framgöngu Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra og VG fyrir ákvarðanir og áherslur í tengslum við skipulag Þjórsársvæðisins og aðrar stórframkvæmdir.
Segja má að framganga Svandísar og VG hafi verið þeim til skammar. Steingrímur ætti að biðjast afsökunar, fyrir sína hönd, Svandísar og VG. Ríkisstjórnin hefur algerlega unnið gegn stöðugleikasáttmálanum varðandi stóriðjuframkvæmdir og vegna vandræðagangs ríkisstjórnarinnar er nokkurt vandamál með fjármögnunina, hún er nánast föst.
Við þetta má bæta vandræðagangi og raunar algeru klúðri varðandi Icesave, vaxtamál, sparnað í ríkisrekstrinum, skattahækkanabrjálæði og almennu getuleysi við úrlausn vandamála þjóðfélagsins.
Það er ekki nóg að vera stórorður og láta skammir dynja á atvinnurekendum, til að hefna fyrir þær skammir sem Steingrímur og ríkisstjórnin fær frá verkalýðsfélögunum fyrir aðgerðarleysi og tafir á öllum málum, sem snúa að stöðugleikasáttmálanum, sem ASÍ er reyndar farið að kalla stöðnunarsáttmála.
Það eina, sem var alveg rétt í ræðunni er, að Steingrímur J. er þreyttur og það er farið að bitna alvarlega á almenningi í landinu.
Steingrímur J. og VG ættu að fara að fá sér góða hvíld.
![]() |
Þreyttur á þessu kjaftæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.3.2010 | 19:41
Hafa Svíar ausið skattfé í Íslendinga?
Norðurlandaþjóðirnar hafa ekki þorað að viðurkenna, fyrr en alveg nýlega, að það séu þær, ekki síður en Bretar og Hollendingar, sem barist hafa gegn endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS og þar með tafið allt ferlið um marga mánuði, með kröfu sinni um að Íslendingar gangist skilyrðislaust að fjárkúgunarkröfum ofbeldisseggjanna.
Norski utanaríkisráðherrann er örlítið að linast í sinni afstöðu, vegna þrýstings almenningsálitsins í Noregi, en engan bilbug er að finna á utanríkisráðherrum annarra norðurlanda, þeir eru ennþá jafn forhertir og svara út og suður, þegar spurt er um þeirra afstöðu til málsins.
Í sjónvarpsfréttum í kvöld var utanríkisráðherra Svía hortugastur af öllum og sagði blákalt, að Svíar væru búnir að ausa milljónum sænskra króna af skattfé til Íslendinga, fyrir utan það lánsloforð, sem gefið var og ekki hefur verið staðið við.
Fréttamaðurinn hafði auðvitað ekki rænu á, að spyrja ráðherrann nánar út í þessa stórmerkilegu yfirlýsingu, því aldrei hafa íslensk yfirvöld svo mikið sem gefið í skyn, að Svíar hafi veitt Íslendingum ríflega ölmusu af sænsku skattfé.
Þetta er svo merkilegt mál, að fjölmiðlar hljóta að vakna og upplýsa þetta, því ef þetta er ekki rétt, þá verður utanríkisráðherra Svía að éta þetta ofan í sig og þar með ómerkingur heita.
![]() |
Ósammála um lán til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.3.2010 | 09:26
Eyðilegging samkeppnismarkaðar
Á verktakamarkaði hefur alltaf ríkt mikil samkeppni og hart barist um hvert verkefni, sem boðið er út. Svo hefur alltaf verið og meira að segja í góðærinu voru undirboð risanna á þessum markaði allsráðandi, því keppikeflið var að blása fyrirtækin út og þau tóku virkan þátt í gulldansinum, með því að ráðast sjálf í byggingar á alls kyns húsnæði, bæði íbúðum og atvinnuhúsnæði, rekin áfram af græðginni, sem gróðavonin af sölu eignanna magnaði.
Nú eru þessi stóru fyrirtæki flest komin að fótum fram vegna gífurlegra erlendra skulda, sem þau steyptu sér út í, á "lánæristímanum" og komin með neikvætt eigið fé upp á tugi milljarða króna, sem í öllum venjulegum skilningi þýðir einfaldlega gjaldþrot.
Nýlega bárust fréttir af því, að búið væri að "endurskipuleggja" Íslenska aðalverktaka og fólst sú "endurskipulagning" í því, að Arion banki situr uppi með tugmilljarða skuldir, en fyrri eigendur halda sínu í einhverskonar felubúningi. Enn berast fréttir af slíkri "endurskipulagningu" byggingarverktaka, nú Eyktar hf., en sú samstæða var með neikvætt eigið fé upp á tæpa tuttugu milljarða króna og ætti því samkvæmt öllum eðlilegum viðskiptalögmálum að vera búið að lýsa sig gjaldþrota. Það hefur samsteypan hins vegar ekki gert og tekur þátt í öllum útboðum sem bjóðast og býður oft svo lág verð, að önnur fyrirtæki á markaðinum geta alls ekki keppt við þau.
Ef til vill lýsir eftirfarandi málsgrein vel, þeim hugsunarhætti sem ríkir hjá mörgum þeim aðilum, sem bíða bara eftir tugmilljarða skuldaafskriftum hjá bönkunum, í þessu tilfelli Íslandsbanka:
"Pétur Guðmundsson, eigandi Holtasels ehf., segir í Viðskiptablaðinu stöðu félagsins og dótturfélaga þess vera fína. Verið sé að vinna að þeim málum sem þurfi að vinna að með viðskiptabanka samsteypunnar. Hann hefur ekki áhyggjur af stöðunni."
Ef hægt er að meta þessa stöðu fína, þá er það væntanlega vegna þess, að bankinn mun afskrifa skuldirnar og eftir það mun Eyktin hafa betri stöðu en nokkru sinni fyrr, til að undirbjóða aðra verktaka á markaðinum, sem ekki hafa fengið slíka "endurskipulagningu" fjármála sinna, enda farið varlegar í sínum rekstri, heldur en Íslenskir aðalverktakar, Eyktin og fleiri.
Svona "hreingerningar" í skuldasukki einstakra fyrirtækja enda á þann veg, að þau fyrirtæki sem hafa verið rekin á varlegan hátt, fram að þessu, verða rekin í þrot vegna þess að þau munu ekki geta keppt við "hreinsuðu" fyrirtækin í framtíðinni.
Í nafni sanngjarnrar samkeppni ætti að leysa þessi skuldafyrirtæki upp og gefa betur reknu fyrirtækjunum kost á að kaupa rekstur þeirra, enda engin sanngirni í því fyrir þau, að þurfa að keppa á hörðum markaði við fyrirtæki, sem í raun eru í eigu bankanna.
![]() |
Eykt skuldar 44 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2010 | 00:07
Bjargar þá evran engu?
Í mörg ár hefur Samfylkingin reynt að telja fólki trú um, að ESB væri slíkt töfrabandalag, að umsókn um aðild, ein og sér, myndi auka svo traust og trúnað á íslensku þjóðarbúi, að hér færi að drjúpa smjör af hverju strái.
Þar fyrir utan hefur hún haldið því fram, að ekki nokkur einasti möguleiki gæti verið á efnahagserfiðleikum, hvað þá kreppu, ef Íslendingar kæmust í klúbb þeirra einstaklega heppnu ríkja, sem hafa evru sem gjaldmiðil. Sá gjaldeyrir væri slíkum eiginleikum gæddur, að varla þyrfti að hugsa um efnahagsmál því evran ein og útaf fyrir sig myndi vernda landið fyrir öllum áföllum.
Svo fóru að berast fréttir af því, að mörg lönd innan ESB, sérstaklega þau sem hafa tekið upp evruna, ættu í gífurlegum efnahagserfiðleikum og þar ríkti slík kreppa, að jafnverl íslensk kreppa, eftir bankahrun og allt sem því fylgdi, væri eins og hjóm eitt í samanburði. Samfylkingin hefur ekki getað gefið neinar viðhlýtandi skýringar á þessum ósköpum sem hrjá evrulöndin, aðra en þá sem Árni Páll Árnason gaf, en hann sagði að þessum löndum væri stjórnað af fíflum.
Ef evran ver þjóðirnar ekki gegn því, að þeim sé stjórnað af fíflum, er til lítils barist, því ef Íslendingar þurfa virkilega á einhverju að halda, þá væri það trygging fyrir betri stjórnmálamönnum.
Fyrst evran tryggir hvorki stöðugt efnahagslíf né skárri stjórnmálamenn, til hvers er þá barist?
![]() |
Munu skoða hugmynd um Gjaldeyrissjóð Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2010 | 13:30
Ríkisstjórnin þarf að fara að starfa á réttum forsendum
Líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði, vegna þess að upphaflega stóðu að henni tveir stjórnmálaflokkar, en eru nú orðnir þrír og sá nýjasti, þ.e. hluti þingflokks VG, styður stjórnina tæplega nema gegn vantrausti.
Ögmundur Jónasson, sem hrökklaðist úr ráðherraembætti vegn andstöðu sinnar við ríkisstjórnina í Icesavemálinu, segist nú vera tilbúinn að taka sæti í henni að nýju, sem fulltrúi "þriðja flokksins" ef það yrði á "réttum forsendum". Vandræði þjóðarinnar eru þó meiri en svo, að öllu skipti hvort einn ráðherra sitji í ríkisstjórninni á "réttum forsendum", því bráðnauðsynlegt er að öll ríkisstjórnin fari að starfa á réttum forsendum.
Hún verður að viðurkenna vilja þjóðarinnar í Icesavemálinu og skilja að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar þýddi NEI við öllum fjárkúgunartilraunum ofbeldisþjóðanna og að krafan sé, að skattgreiðendur taki ekki á sig eina krónu, hvorki vegna höfuðstóls eða vaxta af skuldum einkaaðila.
Einnig verður stjórnin að fara að huga að öðrum og brýnni málum, sem eru efnahagsmálin í heild sinni með því að koma hreyfingu á atvinnustarfsemina, minnka atvinnuleysið (sem er mest aðkallandi), styrkja undirstöður heimilanna í landinu og blása kjarki í þjóðina á ný.
Ekki er oft hægt að vera sammála Ögmundi, en aumt mætti það ráðherraefni vera, sem ekki yrði skárri kostur í ráðherraembætti, en t.d. Álfhildur Ingadóttir eða Svandís Svavarsdóttir.
Einnig er rétt hjá honum, að þjóðaratkvæðagreiðslur á eingöngu að tengja við það málefni sem kosið er um hverju sinni, en ekki líf þeirrar ríkisstjórnar, sem situr í landinu, þegar þær fara fram.
Lágmarkskrafa er þó, að sitjandi ríkisstjórnir taki fullt mark á niðurstöðunum og starfi í samræmi við þann vilja þjóðarinnar, sem fram kemur í þeim, hvort sem þeim líkar það betur eða verr.
![]() |
Til í sæti á réttum forsendum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)