18.3.2010 | 08:33
Bónusgrísinn í útrás
Jón Ásgeir í Bónus er hvergi af baki dottinn í stórveldisdraumum sínum og nú á að fara með Bónusgrísinn í útrás og að þessu sinni á að byrja smátt, eða eingöngu með þrjár búðir í þeirri verslanasveltu borg London.
Fyrir nokkrum árum, þó nógu mörgum til að enginn man það lengur, fór Bónusgrísinn í útrás til Bandaríkjanna og þá var byrjað með margar verslanir undir nafninu Bonus Store og er ekki að orðlengja það, að það ævintýri allt saman varð gjaldþrota, eins og átti síðan eftir að liggja fyrir öllum þeim fyrirtækjum sem Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus hafa komið nálægt síðan.
Á sínum tíma sögðu þeir feðgar að Bonus Store ævintýrið hefði verið dýr, en góður skóli, sem margt hefði verið hægt að læra af. Gallinn er bara sá, að þeir feðgar virðast hafa fallið á öllum prófunum, a.m.k. hefur þeim ekki tekist að reka neitt fyrirtæki til langframa og aldrei greitt eina einustu krónu til baka af þeim hundruðum milljarða, sem þeir hafa tekið að láni til að fjármagna framhaldsnám sitt.
Það gengur bara betur næst, verða þau hvatningarorð sem Jóni Ásgeiri í íslenska og enska Bónus verða send í tilefni af þessari nýjustu námsferð hans og vonandi verður hún ekki jafn dýrkeypt fyrir lánadrottnana, eins og þær fyrri.
![]() |
Nýtt Bónusævintýri Jóns Ásgeirs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2010 | 15:21
Þessar tillögur þarfnast nánari skýringa
Ríkisstjórnin er að kynna nýjar tillögur til aðstoðar við skuldug heimili og samkvæmt fyrstu frétt af þessum blaðamannafundi, þarfnast ýmislegt nánari skýringa, því sumar tillögurnar virka hálf einkennilega á mann við fyrstu sýn.
Í fyrsta lagi er sú arfavitlausa hugmynd að stofna nýtt embætti Umboðsmanns skuldara, þerar fyrir hendi er illa nýtt embætti Talsmanns neytenda, en undir það embætti ættu þessi lánamál að heyra, enda eru þau neytendamál.
Eftirtaldar tillögur virka einkennilegar, en þær eru:
hóflegar skuldbreytingar skattfrjálsar
stórfelldar niðurfellingar skattlagðar
dregið úr vægi verðtryggingar.
Eftir er að fá skýringar á því, hvað séu hóflegar og hvað stórfelldar niðurfellingar. Ekki virkar það vel á mann, að fólk, sem ekki ræður við að borga skuldir sínar, sé í stakk búið til að bæta í staðinn á sig "stórfelldri" skattaskuld.
Varðandi að leggja til að dregið verði úr vægi verðtryggingarinnar, hefði verið viturlegra til lengri tíma, að ríkisstjórnin legði til við sjálfa sig, að leggja áherslu á að draga úr verðbólgunni, enda er hún vandamálið, en ekki verðtryggingin.
Ekki eru komnar viðbótarfréttir af hringsnúningstillögu Árna Páls vegna Hummera og Range Rovera, en væntanlega skýrist þetta allt betur síðar.
Miðað við fyrri "afrek" þessarar ríkisstjórnar er ekki vert fyrir fólk að gera sér miklar væntingar.
![]() |
Dregið úr vægi verðtryggingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
17.3.2010 | 13:35
Mótsagnakennd rök Peningastefnunefndar
Peningastefnunefnd Seðlabankans réttlætir þá ákvörðun, að halda vöxtum í landinu áfram háum, m.a. með því, að ekki sé nógu greiður aðgangur að ódýru erlendu lánsfé. Á meðan erlendum lánum var ausið inn í landið, var röksemdin fyrir háum stýrivöxtum, að verið væri að reyna hemja eftirspurnina eftir lánsfénu, en auðvitað hafði það ekki áhrif, einmitt vegna þessa greiða flæðis erlends fjármagns inn í hagkerfið.
Nú segja spekingar Seðlabankans að vextir verði að vera háir, vegna þess að ekki fáist erlend lán, eða eins og segir í yfirlýsingu nefndarinnar: "Að því gefnu að gjaldeyrishöftin haldi mun töfin ekki hafa umtalsverð skammtímaáhrif á gengi krónunnar. Hins vegar væri áhættusamt að afnema gjaldeyrishöftin eða lækka vexti í stórum skrefum á meðan lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndum fást ekki, eða aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum er ekki greiður."
Þetta hljómar eins og öfugmæli miðað við fyrri rökfærslur Seðlabankaspekinganna. Svo heldur yfirlýsing nefndin áfram, með öfugmæavísurnar, þegar hún segir: "Haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar. Svigrúm peningastefnunefndarinnar til vaxtalækkunar verður þó takmarkað meðan veruleg óvissa ríkir um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum."
Þetta eru vægast sagt þokukennd rök, því einmitt á meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði og enginn kemst úr landi með peninga, hefði maður haldið að kjöraðstæður væru til að lækka vexti niður úr öllu valdi, til að reyna að koma þeim peningum, sem liggja aðgerðarlausir í bönkunum til vinnu úti í atvinnulífinu og reyna þannig að koma hjólunum til að snúast á ný.
Einnig væri það gjaldeyrissparandi, þar sem krónubréfabraskararnir fengju lægri vexti af bréfum sínum, en á vaxtagjalddögum hafa þeir heimild til að skipta vaxtatekjunum í erlendan gjaldeyri og flytja hann úr landi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2010 | 08:36
Háleynileg skýrsluprentun
Prentun á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis fer einungis fram um helgar, til þess að almennt starfsfólk prentsmiðjunnar geti ekki með nokkru móti rekið augun í eitt einast orð, hvað þá lagt á minnið, sem í skýrslunni stendur. Um helgarnar er lágmarksfjöldi starfsmanna viðstaddur og hver hreyfing vöktuð af Securitas og prentarkirnar læstar inni í gámi jafnóðum og þær renna út úr prentvélunum.
Þetta eru allt að því eins miklar öryggisráðstafanir og viðhafðar eru við seðlaprentun og illskiljanlegt, að draga útkomu skýrslunnar fram yfir páska, einungis vegna þessa vantrausts á prentsmiðjustarfsfólkinu. Vel ætti að vera framkvæmanlega að prenta skýrsluna, undir ströngu eftirliti á venjulegum vinnudögum, enda lítil hætta á að hægt sé að lesa hana til nokkurs gagns, rétt á meðan að á prentuninni stendur.
Þar fyrir utan verður ekki séð, að það skipti máli þó eitthvað síaðist út um innihaldið einum til tveim dögum áður en hún birtist í heild, því þarna eru á ferðinni upplýsingar, sem allan almenning varðar og búið er að bíða eftir frá því í nóvember.
Það hlýtur að vera hægt að hætta þessu pukri og koma skýrslunni út á næstu dögum.
![]() |
Skýrslan tefst enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.3.2010 | 14:51
Er ríkisstjórnin að undirbúa Alþingiskosningar?
Undarlega skjót umskipti hafa orðið í málflutningi stjórnarliða varðandi afskriftir skulda til þess hluta almennings, sem tók há erlend lán í "lánærinu", sem nú eru orðin illviðráðanleg og urðu það strax við gengisfallið á hruntímabilinu á seinni hluta ársins 2008.
Þá strax lagði Framsóknarflokkurinn til 20% flata skuldalækkun til allra og Tryggvi Þór Herbertsson viðraði svipaðar tillögur og Lilja Mósesdóttir lagði til skuldaniðurfellingu með fastri krónutölu, til þess að þeir sem óvarlegast fóru í lántökum og tóku hæstu lánin og væru tekjuháir, fengju sömu krónutölu í niðurfellingu og þeir tekjulágu.
Þingmenn Samfylkingar og VG töldu þessar tillögur algerlega óframkvæmanlegar og að þær væru einungis lýðskrum, sem ekki stæðist neina skoðun. Nú allt í einu, hringsnúast þessir sömu þingmenn, í einu hendingskasti, eins og góðglaður þingmaður orðaði það, og keppast um að krefjast niðurfellinga á skuldum einstaklinga og þá eingöngu þeirra sem keyptu bíla á erlendum lánum og því meiri niðurfellingu, sem meira var bruðlað í bílakaupunum og algerlega óháð tekjum viðkomandi skuldara.
Fremstur í flokki þeirra, sem hringdansinn stíga nú, er Árni Páll Árnason, sem alls ekki hefur mátt heyra minnst á svona hugmyndir fram að þessu, en er nú allt í einu orðinn harðasti talsmaður bílalánaafskriftanna. Sumir halda að þessi harði tónn Árna Páls núna, sé fyrirboði framboðs hans til formennsku í Samfylkingunni, en aðrir halda því fram, að hann óttist einfaldlega niðurstöður skoðanakannana, sem hafa sýnt hrun í fylgi Samfylkingarinnar undanfarna mánuði.
Svo eru enn aðrir sem telja að stjórnin sé komin að fótum fram og segi af sér fljótlega.
það er ekki verri skýring, en hver önnur, á þessum almennu sinnaskiptum stjórnarliða.
![]() |
Bankarnir hafa svigrúm til afskrifta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.3.2010 | 11:07
Fyrsta vikan fer í Davíð Oddson, svo kemur að hinum
Nú styttist í að hin langþráða skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis líti dagsins ljós, en líklega verður hún opinberuð á föstudaginn, eftir leynilegustu upplýsingasöfnun Íslandssögunnar, að ekki sé talað um öryggisgæsluna á meðan á prentun hennar hefur staðið.
Allt þjóðfélagið bíður í ofvæni eftir skýrslunni og um leið og hún kemur út, verður lúsleitað í henni að öllu sem sagt verður um Davíð Oddsson og hans hlutverk í aðdraganda hrunsins, hvort heldur sem forsætisráðherra og seðlabankastjóri. Hvað svo sem sagt verður um hans hlut, mun allt þjóðfélagið loga a.m.k. fyrstu vikuna vegna umfjöllunarinnar um hann í skýrslunni og verði sú umsögn ekki í allra svartasta lagi, mun nefndin verða ásökuð um að hlífa honum og hans hluta og munu þá margir telja sig vita miklu betur um allt, sem að honum snýr, en nefndin, sem varið hefur einu og hálfu ári í að rannsaka málið.
Jafnvel þó umsögnin um Davíð verði honum ekki sérlega hliðholl, mun allt snúast um hans þátt, og margir munu verða til þess að segja, að skýrslan væri samt að gera hans hlut of lítinn og sama hvað skýrslan segi, þá sé Davíð slíkt skrímsli, að umfjöllunin sé honum alltaf of hagstæð.
Þegar mesti móðurinn verður runnin af mönnum vegna Davíðs, munu umræður geta hafist af raunsæi um innihald skýrslunnar og raunverulegar orsakir hrunsins og hverjir beri þar mesta ábyrgð, sem auðvitað hljóta að vera banka- og útrásarrugludallarnir, sem hér settu allt á hvolf.
Umræðan um þessa langþráðu skýrslu mun yfirskyggja allt annað, næstu mánuði og ár, enda verður hún hluti Íslendingasagnanna í framtíðinni.
![]() |
Fræðimenn verða á skýrsluvakt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.3.2010 | 09:12
ESB á að bjarga Íslandi, en hver bjargar ESB?
Samfylkingin hefur lofsungið ESB undanfarin ár og boðað það fagnaðarerindi, að allir erfiðleikar Íslendinga hyrfu, eins og dögg fyrir sólu, eingöngu við það eitt, að sækja um aðild að bandalaginu og síðan yrði líið ein sæla eftir að landið hefði formlega verið innlimað sem hreppur í stórríkið.
Undanfarið hafa þó verið að birtast fréttir af því, að einstök lönd innan ESB glími við litlu minni kreppu en Íslendingar, sem þó urðu fyrir algeru kerfishruni, sem virðist, þegar að er gáð, aðeins sett Ísland á svipaðan stall og ESB ríkin eru vön að vera á, þegar til lengri tíma er litið.
Atvinnuleysi er í óþekktum hæðum hérlendis eftir hrunið, en slíkt atvinnuleysi nær þó einungis því að vera svipað og meðaltalsatvinnuleysi ESB landanna, sem virðast líta á það sem eðlilegan hlut, á meðan Íslendingar líta á atvinnuleysi, sem eitt mesta böl, sem yfir þá getur komið.
Þó mikið sé rætt um skuldir hins opinbera hérlendis, eru þær síst meiri en gerist og gengur í löndum ESB, eða eins og fram kemur í fréttum, eru opinberar skuldir Grikkja um 113% af landsframleiðslu, 115% af landsframleiðslu á Ítalíu, 73% í Þýskalandi og nærri 69% í Bretlandi.
Skuldir íslenska ríkisins nema um 78% af landsframleiðslu, þannig að þær eru litlu meiri en í forysturíki ESB, Þýskalandi, en til Þýskalands er alltaf litið sem efnahagsrisans í ESB.
Ef Samfylkingin heldur að ESB geti bjargað einhverju fyrir Ísland, hver skyldi þá að hennar mati eiga að bjarga ESB?
![]() |
Lofa að aðstoða Grikki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2010 | 19:35
Nú ætti að sparka boltanum út af vellinum og flauta leikinn af
Hollendingar og Bretar segja, að boltinn í Icesave málinu sé hjá Íslendingum, eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem Jóhanna og Steingrímur j. sögðu að væri algerlega marklaus og peningaaustur. Fjárkúgurunum hefur a.m.k. brugðið við úrslitin og þá hörku gegn kúgunartilraununumi, sem þjóðin sýndi með niðurstöðunni í kosningunum.
Fyrst ofbeldisseggirnir hafa nú gefið boltann frá sér og til Íslendinga, er auðvitað það eina rétta í stöðunni, að sparka boltanum út af vellinum og flauta leikinn af, enda nennir enginn að hafa þetta mál hangandi yfir höfði sér lengur, frekar en Svavar Gestsson og Indriði H., sem aldrei nenntu að standa í neinu þrefi og samþykktu alla skilmála kúgaranna strax í fyrravor.
Líki Bretum og Hollendingum ekki, að leikurinn verði flautaður af, þá geta þeir alltaf skotið þeirri ákvörðun til dómarans, sem þeir hafa að vísu aldrei viljað láta koma nálægt leiknum, því þeir vildu semja leikreglurnar sjálfir, enda verið spilað eftir þeirra höfði hingað til.
Nú loksins er tími dómarans runninn upp.
![]() |
Boltinn er hjá Íslendingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.3.2010 | 16:14
Vaxandi skilningur íslenskra ráðamanna
Upp á síðkastið hefur farið að örla á vaxandi skilningi íslenskra ráðamanna á hagsmunum íslenskra skattgreiðenda í baráttunni gegn fjárkúgunartilraunum Breta og Hollendinga. Það hefur að vísu tekið níu mánuði að síast inn hjá þessum ráðamönnum, aðallega Jóhönnu og Steingrími J., að Svavarssamningurinn var enginn samningur, heldur fjárkúgunarkröfur, sem Svavar nennti ekki að berjast gegn og Jóhanna og Steingrímur ætluðu síðan að láta Alþingi samþykkja, óséðar.
Í allt fyrrasumar var strögglað á Alþingi við að koma saman fyrirvörum við þá ríkisábyrgð, sem kúgararnir kröfðust og hafðist það að lokum í ágústlok, s.l., þrátt fyrir harða andstöðu flestra ráðherra ríkisstjórnarinnar. Þar sem fjárkúgararnir áttu svo trygga bandamenn innan ríkisstjórnar Íslands, voru enn settar fram nýjar kröfur, sem meirihlutinn keyrði með offorsi í gegnum Alþingi, en öllum að óvörum nýtti forsetinn stjórnarskrána til að vísa málinu til afgreiðslu þjóðarinnar, sem auðvitað snerist öndverð gegn allri undanlátssemi við fjárkúgunarkröfum ofbeldisseggjanna.
Nú segir Össur, að skilningur sé að aukast á norðurlöndunum á málstað Íslendinga og helst það í hendur við skilningsauka íslenskra ráðamanna, sem aldrei virðast hafa talað máli þjóðarinnar á erlendum vettvangi, sem varla er von, fyrst hún hafði engan skilning á honum, fyrr en nú.
Skilningur Dana, Svía og Finna dugar hins vegar ekki til, því þeir bjuggu svo snilldarlega um hnútana, þegar þing þeirra samþykkti lánveitingu til Íslands í tengslum við endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS, að binda í samþykktir þinganna, að ekkert lán yrði veitt, fyrr en Íslendingar hefðu gengið að fjárkúgunarkröfum félaga þeirra í ESB.
Það er hinsvegar skref í rétta átt, að íslenskum ráðamönnum skuli vera að aukast skilningur á hagsmunum sinnar eignin þjóðar.
![]() |
Sterkari skilningur en áður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2010 | 13:25
Vextir þyrftu nú að lækka niður í 2%
Greining Íslandsbanka spáir, að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ekki lækka stýrivexti um nema 0,25-0,50% við vaxtaákvörðun sína, núna í vikunni.
Enn og aftur vekur það furðu, að í þeirri algeru stöðnun sem hér ríkir á öllum sviðum framkvæmda, skuli vöxtum ennþá vera haldið þeim hæstu í Evrópu, ef ekki í heiminum öllum og að Seðlabankinn skuli beita þveröfugum aðferðum við alla aðra Seðlabanka í vaxtamálum. Nánast alls staðar annarsstaðar eru stýrivextir seðlabanka frá 0-2% og er það auðvitað gert til þess að örva efnahagslífið og halda hjólum atvinnulífsins gangandi.
Hér er borið við, að verðbólga sé ennþá há, en það skýrist nær eingöngu af skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar, sem dregur úr allri eftirspurn í þjóðfélaginu, sem aftur eykur vanda fyrirtækjanna og eykur atvinnuleysið. Ef vel ætti að vera, ætti Seðlabankinn núna að snara stýrivöxtum sínum niður í 2% og innlánsvöxtum bankanna niður í 1%, sem yrði til þess að þeir færu að lána til arðbærra verkefna úti í þjóðfélaginu, en það gera þeir ekki á meðan Seðlabankinn greiðir þeim hærri vexti, en bankarnir geta fengið á almennum markaði.
Furðulegast af öllu er þó, að bera því við, að ekki sé hægt að lækka vexti hér innanlands vegna þess að ekki sé búið að leysa Icesave málið, því vandséð er hvernig sú fjárkúgunarkrafa getur haft áhrif á vexti í viðskiptum milli íslenskra aðila í íslenskum krónum, enda mun erlent fjármagn ekki flæða hér inn í landið, hvorki þó fjárkúguninni verði hrundið, eða undan henni látið.
Það eru ódýr rök, að halda vöxtum háum núna vegna verðbólgu, sem mun fara hratt niður, þegar áhrif skattahækkanabrjálæðisins verða að fullu komin fram, enda myndu lágir vextir við þessar aðstæður frekar leiða til enn hraðari lækkunar verðbólgunnar.
![]() |
Spá vaxtalækkun í vikunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)