Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016
28.4.2016 | 18:48
Er Árni Páll fær um að fara að eigin ráðum?
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur nú boðað að hann ætli að skipa sér í hóp hinna fjögurra flokksfélaganna sem berjast munu um formannsembættið seinnihluta maímánaðar. Í síðustu formannskosningu sigraði Árni Páll með eins atkvæðis mun, þ.e. eingöngu með sínu eigin atkvæði og verður spennandi að sjá hve stórt hvert hinna fimm flokksbrota verður að kosningunum loknum.
Árni Páll hefur farið í fylkingarbrjósti þeirra þingmanna sem lengst hafa gengið undanfarið í rógi og svívirðingum um félaga sína á þingi og stundað málþóf um ekki neitt í stað þess að ræða þau málefni sem fyrir þinginu liggja og þurfa afgreiðslu við, þjóðfélaginu til heilla og framfara.
Ekki er langt síðan að Árni Páll sendi samflokksfólki sínu afsökunarbréf vegna lélegs gengis Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum og algjöru vantrausti yfir 90% þjóðarinnar á störfum hans sjálfs og flokksins.
Í bréfinu sagði Árni Páll m.a: "Við höfum nefnilega sem hreyfing og samfélag ítrekað misst af tækifærinu til að axla sameiginlega ábyrgð á mistökum, en frekar kosið að fórna einstaklingum til að koma öðrum í skjól. Ingibjörg Sólrún baðst afsökunar á sínum hlut. Sú afsökunarbeiðni átti að vera okkur fagnaðarefni og tækifæri til að auðvelda flokknum að takast á við mistök í þeirri ríkisstjórn. Í staðinn var sú afsökunarbeiðni nýtt sem syndakvittun fyrir aðra. Flokkurinn tók ekki félagslega ábyrgð á prófkjörum sem hann hafði efnt til, heldur fórnaði Steinunni Valdísi einni. Framgangan í Landsdómsmálinu og fórn Steinunnar Valdísar hafa skilið eftir djúp sár um alla okkar hreyfingu og sáð fræjum efasemda um að við séum samhent sveit sem axli saman félagslega ábyrgð á mistökum sem við gerum saman. Ég hef oft sagt að Samfylkingin þurfi sjálf að vera gott samfélag, ef hún ætlar að breyta samfélaginu til góðs. Það er alveg nóg af upphrópunum, yfirgangi og afarkostum í daglegri umræðu í samfélaginu í dag og við eigum ekki að tileinka okkur þá samskiptahætti. Við þurfum að breyta því hvernig við tölum hvert við annað. Við þurfum að tala betur hvert um annað, verja hvert annað og sýna að við séum gott og eftirsóknarvert samfélag. Ef sótt er að forystufólki í flokki og enginn kemur því til varnar, upplifir þjóðin það sem skilaboð um sundurlausan flokk sem ekki sé treystandi."
Fram til þessa hefur Árni Páll ekki getað farið sjálfur eftir heilræðum sínum og áskorunum um almenna mannasiði í samskiptum við annað fólk. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort hann nái að temja sér að fara að eigin ráðum á næstunni.
Hér með skal efasemdum lýst um að honum muni takast það.
Árni Páll gefur áfram kost á sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2016 | 13:19
Syndir feðranna...............
Samkvæmt smáskammtaupplýsingum úr Panamaskjölunum er fyrir "algera tilviljun", á sama tíma og Ólafur Ragnar Grímsson boðar framboð sitt til forsetaembættisins á ný, birtar upplýsingar um að faðir eiginkonu hans hafi átt aflandsfélag á einhverju tímabili á meðan hann var enn á lífi og sá sjálfur um rekstur fyrirtækja sinna.
Mikil umræða er og verður á næstu vikum og mánuðum um þá sem fynnast í Panamaskjölunum og að sjálfsögðu á að koma öllum upplýingum um viðskipti sem grunur gæti legið á að væru ólögleg til rannsóknarlögreglunnar og skattayfirvalda.
Ennfremur ætti að rannsaka uppruna þess fjár sem ávaxtað hefur verið í þessum aflandsfélögum og þar sem í ljós kæmi að um væri að ræða fjármuni sem "rænt hefði verið innanfrá" úr gömlu bönkunum og útrásarfélögunum af þeim gengjum sem þar réðu öllu og fóru með bankana eins og sína eigin sparibauka.
Í umræðunni verður hins vegar að skilja á milli þeirra sem létu glepjast til að leggja nöfn sín við slík aflandsfélög vegna lítilla eða engra viðskipta, vegna þess að fjármálaráðgjafar bankanna töldu þeim trú um að það væri einhvers konar stöðutákn að vera skráður fyrir slíku félagi úti í hinum stóra heimi.
Rannsóknir og umræða ætti að snúast um þá sem notuðu þessi aflandsfélög til að fela illa fengið fé og svindla á sköttum og öðrum skyldum sínum gagnvart samfélaginu sem fóstrað hefur þetta lið. Að því þarf að beina athyglinni en ekki dreifa henni á þá sem litlu máli, eða engu skipta, í þessu sambandi.
Að sjálfsögðu er það svo algerlega glórulaust að dæma fólk fyrir eitthvað sem ættingjar þeirra eða vinir hafa gert í gegn um tíðina, enda óvíst að margir yrðu útundan í slíkum nornaveiðum í eins fámennu samfélagi og það íslenska er.
Ólafur Ragnar: Ekki mótað afstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
23.4.2016 | 20:59
Ekki gott fordæmi
Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, hefur ákveðið að segja upp störfum hjá sjóðnum vegna þess að nafn hans kemur fyrir í Panamaskjölunum svokölluðu.
Hann segir í yfirlýsingu að hann hafi ekkert grætt á þeirri fjárfestingastarfsemi sem þessi aflandsfélög hafi verið stofnuð til að stunda og þrátt fyrir að að öllu hafi verið löglega og heiðarlega staðið. Hann telji ekki rétt að blanda lifeyrissjóðnum í þann djöflagang sem fyrirséð er að dómstóll götunnar muni þyrla upp um alla sem í skjölunum finnast, hvernig sem þeir hafa komist yfir það fé sem í félögunum var ávaxtað og hvort sem full skattskil hafi verið gerð eða allt verið bæði illa fengið og falið fyrir yfirvöldum.
Þrátt fyrir góðan ásetning Kára er ekki hægt að fallast á að þetta sé gott fordæmi, því hafi fullkomlega löglega verið að málum staðið á sínum tíma og langt er um liðið síðan "viðskiptin" áttu sér stað, enda er þessi gjörð greinilega gerð til þess að forðast það ógeðlega umlal sem "góða fólkið" í þjóðfélaginu leyfir sér að viðhafa um saklausa jafnt sem seka, ekki síst ef hægt er að nota viðbjóðinn í pólitískum tilgangi.
Það er ömurlegt til þess að vita að fólk sé farið að veigra sér við að stunda vinnu sína af ótta við ofsóknir þeirra sem þykjast vera öllum öðrum betri og siðlegri.
Hættir hjá Stapa vegna Panamaskjala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2016 | 13:32
Er lýðræðið einungis fyrir suma og ekki aðra?
Ýmslegt furðulegt er haft eftir einstaka stjórnmálamanni um framboð Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakosningunum sem framundan eru og virðast þeir telja að slíkt framboð sé ekki frjálst fyrir þá sem þessum pólitíkusum eru ekki að skapi.
Ekki er síður undarlegt að fylgjast með því sem skrifað er á ýmsa netmiðla, sem kalla sig fréttamiðla en eru hlutdrægari, pólitískari og sumir ofstækisfyllri en nokkurt flokksblað var á áratugum áður, þegar dagblöðin studdu dyggilega "sinn" stjórnmálaflokk í samræmi við hver útgefandinn var.
Á þessum miðlum, sumum, er sitjandi forseta úthúðað á persónulegum nótum og honum fundin öll þau illnefni sem hægt er að láta sér detta í hug og ekki liggja lesendurnir heldur á liði sínu í ógeðsorðræðunni í athugasemdadálkunum frekar en fyrri daginn.
Engu er líkara en að lýðræðið sé einkaeign þessa fólks og hinir sem ekki taka þátt í þessu illa umtali, eða þeirri ofstækisumræðu sem oft tröllríður netheimum af minnsta tilefni, eigi ekkert tilkall til þess að fá að kjósa þann sem þeim sýnist frambærilegastur hverju sinni, hvort sem þar er um einstakling að ræða eða stjórnmálaflokk.
Aldrei nokkurn tíma hefur verið mælt með kosningu Ólafs Ragnars Grímssonar á þessu bloggi, en komi ekki fram áhugaverðari frambjóðendur til forsetaembættisins en þegar hafa tilkynnt um framboð verður ekki erfitt að gera upp hug sinn að þessu sinni.
Mótmælin ekki til einskis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.4.2016 | 20:08
Panamaskjölin beint til skattayfirvalda viðkomandi landa
Ríkisskattstjóri kvartaði á fundi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun undan áhugaleysi stjórnvalda á skattsvikum og sagðist hafa verið eins og hrópandinn í eyðimörkinni á undanförnum áratug.
Þetta verða að teljast undarlegar fréttir í ljósi þess að allar ríkisstjórnir segjast vilja beita öllum hugsanlegum aðferðum til þess að uppræta skattsvik. Í framhaldi þessara ummæla þarf ríkisskattstjóri að upplýsa í hverju þetta tómlæti hefur falist og hvaða ráðstafanir hann hefur viljað gera án þess að fá til þess nauðsynleg verkfæri frá sitjandi ríkisstjórnum á hverjum tíma.
Samkvæmt fréttinni kom þetta m.a. fram á fundinum í morgun: "Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri gerði grein fyrir þeim gögnum sem embættið keypti um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Um væri að ræða um 600 félög. Sagði húm að flest þau mál tengdust Landsbankanum í Lúxemburg en ekki öll. Hluti tengdist norræna bankanum Nordea. Flest væru skráð á Bresku jómfrúareyjum eða 80% þeirra. Næstflest í Panama og þá kæmu Seychelles-eyjar."
Samkvæmt þessu virðist ekki ólíklegt að mörg þeirra nafna sem fram koma í Panamaskjölunum séu þegar í rannsókn hjá skattayfirvöldum og því ættu fréttamennirnir sem hafa þessi skjöl undir höndum að koma þeim umsvifalaust í hendur yfirvalda til rannsóknar á skattskilum þeirra sem þar er getið.
Það eru ekki góð vinnubrögð að ætla að mjatla þessum nöfnum til birtingar í fjölmiðlum á mörgum vikum eða mánuðum. Það eina rétta er að flýta rannsóknum þessara mála og koma lögum og refsingum yfir þá sem skattsvik hafa stundað í stórum stíl, jafnvel árum saman.
Verið hrópandinn í eyðimörkinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.4.2016 | 16:23
Skattaskjólið Ísland og önnur slík
Mikil umræða fer nú fram um eignir í skattaskjólum og er sú umræða ekki bundin við Ísland, heldur fer fram víða um heim og loksins virðist vera að myndast alþjóðleg samstaða um að loka slíkum afdrepum fyrir skattsvikara.
Stórundarlegt er að ekki skuli fyrir löngu vera búið að gera haldbæra milliríkjasamninga um þetta, þar sem það hlýtur að vera öllum ríkjum kappsmál að allir leggi fram sinn sanngjarna og eðlilega skerf til reksturs samfélagsins.
Margir sem ávaxta fé sitt í nafni félaga sem skráð eru á svokölluðum aflandseyjum hafa talið allar sínar tekjur fram til skatts með eðlilegum hætti og því ósanngjarnt að setja alla í sama flokk sem slík félög eiga, en þá sem notað hafa slíka aðstöðu til skattsvika á að finna og refsa harðlega.
Skattstjórinn í Reykjavík skýrði frá því fyrir nokkrum dögum að samkvæmt útreikningum stofnunarinnar vantaði áttatíuogþrjá milljarða króna í skattgreiðslur til íslenska ríkisins miðað við umsvifin í efnahagslífinu.
Þar sem erlendu eignirnar teljast varla með í umsvifum innlends efnahagslífs hlýtur hér að vera um skattsvik sem stunduð eru innanlands og vekur upphæðin mikla furðu þar sem hún samsvarar tæpri hálfri milljón króna að meðaltali á hvern Íslending á vinnualdri.
Það þarf greinilega stórátak til að uppræta skattsvik hér á landi og ekki má láta umræður um þá sexhundruð einstaklinga sem skráðir eru fyrir aflandsfélögum trufla þá áherslu sem verður að leggja í þennan málaflokk almennt.
Nokkrir milljarðar í aukið skattaeftirlit yrðu fljótir að borga sig upp.
Sigurður Ingi: Innsýn í undarlega veröld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2016 | 20:37
Sigmundur: Engar dylgjur, nöfnin upp á borðið
Þjóðin hefur fylgst í forundran með klaufagangi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns, við að útskýra sína hlið mála vegna félags eiginkonu sinnar erlendis, sem mun hafa þann tilgang að ávaxta fjármuni hennar.
Þrátt fyrir að ekkert hafi komið fram að um ólöglega starfsemi, eða skattaundanskot, hafi verið að ræða varðandi þetta félag, tókst Sigmundi Davíð að klúðra öllum viðtölum og missa allt traust vegna aulagangs við útskýringar málsins.
Eins og allir vita endaði Sigmundur Davíð með að missa forsætisráðherraembættið vegna þessara mála, en verður væntanlega óbreyttur þingmaður fram til næstu kosninga. Ef til vill verður það einungis fram á haustið þar sem ríkisstjórnin hefur gefið í skyn að kosið verði í haust, þrátt fyrir að kjörtímabil sé fjögur ár og kosningar ættu því ekki að fara fram fyrr en næsta vor.
Í fyrsta viðtali sínu eftir missi ráðherradómsins heldur Sigmundur Davíð áfram einkennilegri framkomu sinni, sem einkennt hefur allar hans gerðir undanfarið, og dylgjar um að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hafi reynt að nýta sér pólitískan glundroða í eigin þágu og róið að því öllum árum að fórna sér og Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráherra, sjálfum sér til framdráttar og væntanlega til að kosmast sjálfir í forystusæti flokks og ríkisstjórnar.
Svona dylgjur eru óþolandi fyrir samstarfsmennina í ríkisstjórninn, stuðningsmenn stjórnarflokkanna og reyndar hefur fólk almennt enga þolinmæði lengur gagnvart hálfkveðjun vísum í stjórmálastarfi.
Það er skýlaus krafa að Sigmundur Davíð skýri undanbragðalaust frá því hverjir þetta voru, sem hann var að ýja að, eða vera minni maður ella og í raun ómerkingur.
Vænir áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins um eiginhagsmunasemi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.4.2016 | 11:24
Besta lausnin að Bjarni Ben. taki við forrætisráðuneytinu
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, virðist vera búinn að mála sig út í horn vegna ótrúlega klaufalegrar framgöngu sinnar varðandi fjármál sín og eiginkonu sinnar, eftir að upplýst var að auðurinn væri ávaxtaður erlendis í nafni félags sem skráð er á Tortola.
Þrátt fyrir að þau hjónin haldi því fram að þessar eignir hafi alltaf verið gefnar upp til skatts á Íslandi og öll tiheyrandi opinber gjöld verið greidd. Ráðherrann hefur hrakist úr einu víginu í annað og komið fram eins og fórnarlamb en ekki hnarrreistur liðsforingi sem sækir fram gegn því sem hann segir vera ofsóknir á fölskum forsendum.
Úr því sem komið er skiptir engu hvernig í fjármálum forsætisráðherrahjónanna liggur, Sigmundur Davíð virðist endanlega vera búinn að tapa orustunni og jafnvel ærunni og mun tæpast verða vært í embættinu, því svo löskuð virðist ímynd hans orðin að erfitt verður að bæta þar úr.
Það eina rétta í stöðunni væri að Bjarni Benediktsson tæki við forsætisráðherraembættinu og Framsóknarflokkurinn fengi fjármálaráðuneytið og þó yrði líklega betra að Sjálfstæðisflokkurinn héldi því ráðuneyti einnig, þannig að Framsóknarráðherrunum fækkaði um einn.
Þetta yrði besta lausnin á málinu, en að öðrum kosti yrði að tryggja stuðning annarra flokka við minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins a.m.k. fram á haustið því ekkert vit væri í því að fara út í þingkosningar nánast samhliða forsetakosningunum í vor.
Viðskiptavinir sæta refsiaðgerðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.4.2016 | 14:33
Er ekki allt sem er löglegt líka siðlegt?
Mikil umræða á sér stað í þjóðfélaginu vegna eigna ýmissa einstaklinga erlendis og ekki síst þeirra peningaeigna sem vistaðar eru á svokölluðum aflandseyjum og skattaskjólum.
Samkvæmt þeim lögum sem gilda í landinu, sem og víðast annarsstaðar, er leyfilegt að geyma sjóði sína nánast hvar sem er og vitað er að flestir reyna að komast hjá því að greiða hærri skatta en nokkur möguleiki er að komast af með.
Ekkert er í raun hægt að segja við því að nýttar séu allar löglegar leiðir til að minnka skattgreiðslur einstaklinga og fyrirtækja, en skattsvik eru hins vegar algerlega óþolandi og gegn þeim þarf og á að berjast með öllum tiltækum ráðum.
Umræðan undanfarið virðist ganga út á að gera allta tortryggilega sem eignir eiga utan landsteinanna og látið eins og um ótýndan glæpalýð sé að ræða, þrátt fyrir að viðkomandi hafi í einu og öllu farið eftir gildandi lögum um þessi efni.
Sem betur fer virðist skilningur ríkisstjórna loksins vera að aukast á því að almenningur sættir sig ekki við að hægt sé að komast hjá skattgreiðslum með því að fela eignir í svonefndum skattaparadísum og þegar er byrjað að semja þjóða á milli um að loka fyrir slíka möguleika, en betur þarf að vinna til að girða algerlega fyrir alla möguleika fyrirtækja til þess að flytja hagnað landa á milli til að fela slóð hans í skattaskjólið.
Ekki á að úthrópa þá sem fara eftir lögunum, heldur berjast fyrir breytingum í þá veru að girt sé fyrir öll skattaundanskot og önnur lögbrot varðandi þessi mál.
Það sem er löglegt í hverju landi á hvernum tíma, hlýtur að teljast siðlegt jafnframt, a.m.k. á meðan lögunum er ekki breytt.
Eiga verðbréf í skattaskjólum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)