Panamaskjölin beint til skattayfirvalda viðkomandi landa

Ríkisskattstjóri kvartaði á fundi efna­hags- og viðskipta­nefnd Alþing­is í morg­un undan áhugaleysi stjórnvalda á skattsvikum og sagðist hafa verið eins og hrópandinn í eyðimörkinni á undanförnum áratug.

Þetta verða að teljast undarlegar fréttir í ljósi þess að allar ríkisstjórnir segjast vilja beita öllum hugsanlegum aðferðum til þess að uppræta skattsvik. Í framhaldi þessara ummæla þarf ríkisskattstjóri að upplýsa í hverju þetta tómlæti hefur falist og hvaða ráðstafanir hann hefur viljað gera án þess að fá til þess nauðsynleg verkfæri frá sitjandi ríkisstjórnum á hverjum tíma.

Samkvæmt fréttinni kom þetta m.a. fram á fundinum í morgun: "Bryn­dís Kristjáns­dótt­ir skatt­rann­sókna­stjóri gerði grein fyr­ir þeim gögn­um sem embættið keypti um eign­ir Íslend­inga í skatta­skjól­um. Um væri að ræða um 600 fé­lög. Sagði húm að flest þau mál tengd­ust Lands­bank­an­um í Lúx­emburg en ekki öll. Hluti tengd­ist nor­ræna bank­an­um Nordea. Flest væru skráð á Bresku jóm­frúareyj­um eða 80% þeirra. Næst­flest í Panama og þá kæmu Seychell­es-eyj­ar."

Samkvæmt þessu virðist ekki ólíklegt að mörg þeirra nafna sem fram koma í Panamaskjölunum séu þegar í rannsókn hjá skattayfirvöldum og því ættu fréttamennirnir sem hafa þessi skjöl undir höndum að koma þeim umsvifalaust í hendur yfirvalda til rannsóknar á skattskilum þeirra sem þar er getið.

Það eru ekki góð vinnubrögð að ætla að mjatla þessum nöfnum til birtingar í fjölmiðlum á mörgum vikum eða mánuðum.  Það eina rétta er að flýta rannsóknum þessara mála og koma lögum og refsingum yfir þá sem skattsvik hafa stundað í stórum stíl, jafnvel árum saman.


mbl.is Verið hrópandinn í eyðimörkinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki endilega svona einfalt. Í sumum löndum eru lögin þannig að stolin gögn og allt sem kemur úr rannsóknum byggðum á upplýsingum úr stolnum gögnum er ekki hægt að nota. Ávöxtur hins eitraða trés. Sönnunargögn sem aflað er með ólögmætum hætti eru ekki gjaldgeng í flestum réttarríkjum. Þannig að það er heimilt að rannsaka það sem fjölmiðlar segja en ekki taka við þýfi. Það gæti verið hagstæðast og öruggast að fá nöfnin í fréttum frekar en að lenda í endalausum frávísunarkröfum vegna lagalega vafasamra sönnunargagna.

Gústi (IP-tala skráð) 13.4.2016 kl. 22:17

2 identicon

Víglundur Þorsteinsson kom með þá athyglisverðu tilgátu á Útvarpi Sögu að Skattrannsóknastjóri hefði keypt,  síðastl. haust á 37 millj. krónur,  þau sömu Panamagögn og Jóhannes Kr. Kristjánsson hefði þá þegar undir höndum.

Fróðlegt væri að fá að vita hvort það sé rétt

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 13.4.2016 kl. 22:51

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er að opinberast betur með hverjum deginum sem líður, að tilgangur opinberunnar þessara gagna er sá einn að nýta þau í pólitískum tilgangi, að minnsta kosti hér á landi. Engin merki eru um að þeir sem á þessum gögnum liggja hafi einhvern áhuga á að sannleikurinn verði opinberaður, eða að þessi gögn séu nýtt til að ná til þeirra sem fluttu illa fengið fé úr landi og fela það erlendis.

Verst er þó að hugsa til þess að einn maður lá á þessum gögnum í meir en 10 mánuði og flokkaði þau eftir eigin höfði. Eftir framkomu Jóhannesar Kr og félaga síðustu daga, setur sú staðreynd mikinn efa um flokkun gagnanna, hvort sú flokkun hafi kannski hellst falist í að eyða gögnum sem ekki voru pólitískt rétt. Um þetta fáum við aldrei að vita, enda einungis einn maður til frásagnar og útilokað að sanna eða afsanna þetta. En efinn er sannarlega til staðar.

Hins vegar gæti vel verið að þau gögn sem skattayfirvöld keyptu séu einmitt sömu gögn og Jóhannes liggur á. Kannski er það einmitt þess vegna sem hann vill ekki afhenda gögnin, að við samanburðinn á þessum gögnum komi í ljós að þau hafi verið flokkuð með pólitískum augum!

Gunnar Heiðarsson, 14.4.2016 kl. 08:58

4 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara að benda á að skv. fréttum er Jóhannes með aðgang að gagnagrunni sem þýskt dagblað og alþjóðasamtök blaðamann eiga. Hann hefur engar heimildir til að afhenda þau eitt né neitt. Auk þess sem líkur eru á að þessi samtök hafi keypt gögn úr sama leka og skattrannsóknarstjóri fékk að lokum eftir mikil læti að kaupa sig inn í. Þð væru væntanlega ekki sagðar neinar fréttir ef að blaðamenn yrðu fyrst að gefa upplýsingar um þær heimildr sem þau hefðu.

Þá hefur komið fram að þessi gagnagrunnur yrði gerður opin og aðgengilegur í maí á alþjóðavísu.

Magnús Helgi Björgvinsson, 14.4.2016 kl. 09:10

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það kom reyndar fram í fréttum að skattstjóri hefði óskað eftir þessum nafnalista, en Jóhannes hafi neitað að verða við beiðni hans.

Ekki dugar að segja að listinn sé "eign" einhverra samtaka úti í heimi sem ráði því hvenær og hvernig hann verði birtur. Jóhannes segist vita hve mörg nöfn sé um að ræða og fjölda félaga sem fram komi í gögnunum.

Honum ber bæði lagaleg og siðferðileg skylda til að afhenda yfirvöldum þennan nafnalista strax, enda er það yfirvalda en ekki Jóhannesar að rannsaka lagalega hlið málsins og skattskil þeirra sem um er að ræða.

Axel Jóhann Axelsson, 14.4.2016 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband