Er lýðræðið einungis fyrir suma og ekki aðra?

Ýmslegt furðulegt er haft eftir einstaka stjórnmálamanni um framboð Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakosningunum sem framundan eru og virðast þeir telja að slíkt framboð sé ekki frjálst fyrir þá sem þessum pólitíkusum eru ekki að skapi.

Ekki er síður undarlegt að fylgjast með því sem skrifað er á ýmsa netmiðla, sem kalla sig fréttamiðla en eru hlutdrægari, pólitískari og sumir ofstækisfyllri en nokkurt flokksblað var á áratugum áður, þegar dagblöðin studdu dyggilega "sinn" stjórnmálaflokk í samræmi við hver útgefandinn var.

Á þessum miðlum, sumum, er sitjandi forseta úthúðað á persónulegum nótum og honum fundin öll þau illnefni sem hægt er að láta sér detta í hug og ekki liggja lesendurnir heldur á liði sínu í ógeðsorðræðunni í athugasemdadálkunum frekar en fyrri daginn.

Engu er líkara en að lýðræðið sé einkaeign þessa fólks og hinir sem ekki taka þátt í þessu illa umtali, eða þeirri ofstækisumræðu sem oft tröllríður netheimum af minnsta tilefni, eigi ekkert tilkall til þess að fá að kjósa þann sem þeim sýnist frambærilegastur hverju sinni, hvort sem þar er um einstakling að ræða eða stjórnmálaflokk.

Aldrei nokkurn tíma hefur verið mælt með kosningu Ólafs Ragnars Grímssonar á þessu bloggi, en komi ekki fram áhugaverðari frambjóðendur til forsetaembættisins en þegar hafa tilkynnt um framboð verður ekki erfitt að gera upp hug sinn að þessu sinni.


mbl.is Mótmælin ekki til einskis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þú veist að Sturla Jónsson er búinn að safna nægilegum fjölda meðmælenda, ekki satt? Hann var reyndur fyrstur allra frambjóðenda til þess...

Guðmundur Ásgeirsson, 19.4.2016 kl. 15:31

2 identicon

Ég tek undir með Axel Jóhanni.  Það er til minnkunar þeim sem stunda þessa illu umræðu og leitt til þess að vita að svo mikið sé til af fólki sem getur hugsað sér að ausa sér yfir annað fólk með orðfæri sem það mundi aldrei þora að nota upp í opið geðið á þessu sama fólki.  Um leið vil ég nota tækifærið og lýsa gleði minni með framboð Ólafs Ragnar til forseta einu sinni enn. Enginn forseti hefur staðið sig með þvílíkum ágætum sem hann, að öllum fyrri forsetum ólöstuðum.

Guðlaugur Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.4.2016 kl. 16:04

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lýðræðir er einfalt fyrir mér. Hver sem er býður þjónustu sína, ekki síst ef viðkomandi fær hvatningu til þess. Ég kýs það sem mér hugnast og aðrir það sem sannfæring þeirra segir. Sá fær embættið sem flestir veðja á. Sumum þykir það súrt en aðrir fagna. Lýðræði sker úr um það hvað sem illmælgi og undirróðri sætir. Þeir sem tjá sig þannig eru frjálsir til þess, en orðræðan er stærri dómur um karakter þess sem tjáir sig en þeirra sem um er rætt.

Það er ákveðin skýring á leiðtogakreppunni sem hér ríkir, að mínu mati, en það er einmitt þessi illskeytta orðræða sem hér virðist kandlæg, með persönuárásum og skítkasti framar málefnum. Engin vitborin manneskja með þokkalega sjálfsvirðingu lætur sér detta í hug að sækjast eftir embættum í þannig andrúmslofti. Ekki bara sín vegna, heldur vegna sinna nánustu mest.

Þessi málefnasnauða og óþroskaða umræðuhefð sem hér hefur þróast og leidd er af þröngum hópi á samfélagsmiðlum, umræða sem markast framar öðru af ad hominem, eða því að ráðast á manninn í stað boltans fælir frambærilegar manneskjur frá því að vilja þjóna í slíkum anda.

Öllum er frjálst að tjá sig og öllum er líka frjálst að láta það vera að lesa athugasemdir sem kalla má að leysa skoðanavind. Að leyfa þessu að taka völdin er líka ábyrgðahluti.

Það er allavega dagljóst að uppbyggileg og skapandi umræða með heilbrigðum og öguðum sloðanaskiptum fer ekki fram á síðum samskiptamiðla eða á athugasemdadálkum blaða. Sumir reyna jú en drukkna í vaðlinum. Þessi umræða er fyrst og fremst niðurrifsumræða og útrás fyrir gremju, sem á sér líkast til ekki rætur í því eða þeim sem um er rætt.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.4.2016 kl. 18:45

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Allt er þetta satt og rétt sem þú segir Jón Steinar, en verra er að umræðan á Alþingi er á margan hátt komin niður á sama plan og umræðan í athugasemdadálkum samfélagsmiðlanna.  Sífellt virðist minna vera rætt um stjórnmál og málefni en orðræðan, sérstaklega frá núverandi stjórnarandstöðu, orðin meira og minna persónuníð þar sem andstæðingarnir eru sífellt ásakaðir um óheiðarleika og glæpi algerlega að tilefnislausu.

Á meðan þingmenn geta ekki virðingar sjáls sín vegna og ekki síður Alþingis lyft orðræðu sinni á hærra og málefnalegra plan, er varla von að ástandið batni í þessu efni annarsstaðar í þjóðfélaginu.

Axel Jóhann Axelsson, 19.4.2016 kl. 19:44

5 identicon

Lestu leiðara Morgunblaðsins, ritstjórinn fylkir sér þar með Hallgrími Helgsyni í illmælginni.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 20.4.2016 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband