Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Lygileg vinnubrögð í kvótamálinu

Breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu hefur verið að velkjast í ríkisstjórn og stjórnarflokkunum allt kjörtímailið og frumvörp til breytinga verið lögð fram á hverju þingi frá myndun núverandi volaðs stjórnarmeirihluta.

Í vor tókst ekki að ná samstöðu um þann frumvarpsbastarð sem þá var lagður fram, frekar en á fyrri þingum, en boðað var að nýtt og endurskoðað frumvarp yrði lagt fram á haustþingi.

Þingið hefur nú verið starfandi í nokkrar vikur og ekkert hefur bólað á nýjustu afurð fiskveiðihugsuða ríkisstjórnarinnar fyrr en síðasta mögulega dag til að leggja fram þingmál, eigi þau að fást tekin til umræðu á Alþingi fyrir jól.

Þrátt fyrir að vera með málið á allra síðustu stundu hefur ekki einu sinni tekist að afla fylgis við það meðal þingmanna stjórnarflokkanna, hvað þá að nokkur einasti maður annar hafi séð frumvarpsdrögin og enn síður lýst yfir stuðningi við það.

Þó vinnubrögðin í þessu máli séu lygilegri en nokkur lygasaga eru þau samt sem áður algerlega í takti við aðra vinnu þess stjórnarmeirihluta sem þjóðin verður að þjást undir fram á vorið.


mbl.is Samfylking fundar um kvótafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VÚDÚ inn í sjúkratryggingakerfið

Á sama tíma og heilbrigðiskerfið er í algeru fjársvelti og ekki til peningar til að halda við húsum og tækjum, né að halda læknum og hjúkrunarfólki í störfum, láta nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar sér detta í hug að leggja fram tillögu um að starfsemi "græðara" verði niðurgreidd úr ríkissjóði án þess þó að nógu nákvæmlega fram á hvers lags kukli viðkomandi "græðarar" geti grætt á kostnað sjúkratrygginga.

Meira að segja ungum jafnaðarmönnum finnst tillagan algerlega út í hött og gera grín að þessum þingmönnum flokks síns og skal engan undra. Ungliðarnir leggja til að hvers kyns særingarmenn, miðlar og aðrir kuklarar falli undir tillöguna og að sjálfsögðu verður ekki staðar numið þar, heldur verður að gæta jafnræðis og undanskilja ekki afirískar særingar og Vúdú, enda hvort tveggja byggt á aldalöngum hefðum og siðum.

Það virðast ekki vera nokkur einustu takmörk fyrir þeirri vitleysu sem þingmenn geta látið frá sér fara í þinginu og ætlast svo til að almenningur beri virðingu fyrir þeim sjálfum og Alþingi sem stofnun.

Um viðbrögð ungra jafnaðarmanna má segja að bragð er að, þá barnið finnur.


mbl.is Starf miðla og særingamanna verði niðurgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákall um formannsembættið

Sjálfstæðisflokkurinn getur verið stoltur af góðri þátttöku í prófkjörinu í Reykjavík og stuðningsfólk hans sýndi með atkvæðum sínum að það er að kalla Hönnu Birnu til formennsku í flokknum. Öðru vísi er varla hægt að túlka þá óvenju glæsilegu kosningu sem hún hlaut, eða þrjú atkvæði í fyrsta sæti af hverjum fjórum atkvæðum sem gild voru í kosningunum.

Að sjálfsöðgu settu eindregnustu stuðningsmenn annarra frambjóðenda sína menn í fyrsta sæti, en þeir voru hvorki fleiri né færri en fimmtán sem skiptu á milli sín þeim fjórðungi atkvæðanna sem ekki féllu á Hönnu Birnu í fyrsta sætið.

Annar frambjóðandi sem einnig telst hafa fengið mjög góða kosningu er Brynjar Níelsson, sem ekki hefur áður tekið þátt í stjórnmálum og kemur nú nýr inn í framvarðarsveitina í Reykjavík. Pétur Blöndal má einnig afar vel við sín úrslit una, þar sem hann eyddi ekki stórum upphæðum í sína kosningabaráttu, heldur treysti nánast eingöngu á orspor sitt og verk sín í þinginu og uppskar annað sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu að launum.

Glæsileg úrslit Hönnu Birnu eru ákall Reyvíkinga til Bjarna Benediktssonar að víkja fyrir henni úr formannsstóli flokksins á landsfundinum í febrúar. Bjarni hefur staðið sig vel í formannsembættinu við erfiðar aðstæður, en einmitt vegna þessarar erfiðu stöðu kemur nú fram þessi áskorun um breytingar í forystu flokksins.

Bjarni getur stoltur litið yfir sinn formannsferil en framundan eru breyttir tímar og svar flokksins og Bjarna við þessari niðurstöðu getur nánast eingöngu verið það eitt að kalla Hönnu Birnu í formannssætið.


mbl.is Lokatölur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhroð Ögmundar og VG

Forval VG í Kraganum snerist upp í algjört grín eða kannski öllu heldur hreinan harmleik, bæði fyrir flokkinn sjálfan og frambjóðendurna.

Gríðarleg smölun átti sér stað með þeim árangri að 350 manns gengu í flokkinn til þess að geta tekið þátt í forvalinu, en aðeins ríflega 700 manns skiluðu sér á kjörstað, þannig að eldri félagar hafa vægast sagt verið áhugalitlir um framboðsmál flokksins fyrir kosningarnar í vor.

Ögmundur Jónasson mun leiða listann með 261 atkvæði á bak við sig, eða 54% þeirra sárafáu sem nenntu að taka þátt í kjörinu og getur það varla talist ríflegt nesti inn í væntanlega kosningabaráttu.

RÚV verður þó varla skotaskuld úr því að gera stórfrétt um "glæsilegt" forval VG í Kraganum og "stórsigur" Ögmundar.


mbl.is Ögmundur fékk 54% í 1. sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör eru hið eina og sanna persónukjör

Prófkjör stjórnmálaflokkanna, sem reyndar heita ýmsum nöfnum eftir flokkum, er rétt leið til að uppfylla síauknar kröfur um persónukjör því í þeim gefst almenningi kostur á að velja frambjóðendur og þar með þá sem líklegastir verða til að komast á þing eða í sveitastjórnir við næstu kosningar.

Undanfarið hefur mikið verið rætt um persónukjör og því vekur það undrun að ekki skuli hafa verið meiri áhugi en raun ber vitni í þeim prófkjörum flokkanna sem þegar hafa farið fram. Vekur það upp þá spurningu hvort áhuginn á persónukjöri sé minni en af er látið og mest heyrist í þeim sem lítinn eða engan áhuga hafa á stjórnmálum, en telja sig eftir sem áður þurfa og eiga að ráða uppröðun á lista allra flokka og framboða sem í boði eru hverju sinni.

Eðlilegast er að stuðningsfólk hvers lista velji sér frambjóðendur sem þeir eru svo tilbúnir til að berjast fyrir þegar að kosningum kemur og láti vera að skipta sér af uppröðun annarra flokka og framboða, enda óeðlilegt að Vinstri grænir raði á lista Samfylkingar, Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokks, eða yfirleitt að andstæðingar stjórnmálahreyfinga skipti sér af framboðum þeirra sem þeir munu svo berjast gegn síðar.

Vonandi mun stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fjölmenna í prófkjör dagsins og stilla upp sterkum og öflugum lista fyrir þingkosningarnar í vor. Í raun er nánast sama hvernig á listann mun raðast, þar sem úrvalsfólk er í framboði og listinn mun verða feykisterkur, nánast sama í hvaða röð frambjóðendurnir raðast á hann.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stöðugri sókn undanfarin misseri og því áríðandi að stuðningsfólkið sýni baráttuhug sinn í verki með því að fjölmenna í prófkjörin.


mbl.is Prófkjör, forval og uppstilling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakkargjörðarhátíð íslenskra púrítana?

 Íslendingar eiga sér marga og mismunandi merkisdaga, sem haldið er upp á með ýmsu móti.  Þrátt fyrir að af nægu sé að taka í því efni virðist einkennileg árátta valda því að fólki finnist það þurfa að bæta við öllum mögulegum og ómögulegum erlendum atburðum og dögum til að halda upp á einnig og má þar benda á Valentínusardag og Hrekkjarvöku sem dæmi.

Nú er enn einn erlendi minningardagurinn að bætast þarna við og er það Bandaríska þakkargjörðarhátíðin.  Á Vísindavefnum má finna eftirfarandi um þakkargjörðardaginn:  "Fyrsta þakkargjörðardaginn héldu enskir púrítanar, svonefndir pílagrímar, haustið 1621. Þeir höfðu í september árið áður hrökklast með skipinu Mayflower frá borginni Plymouth á Englandi að strönd Massachusettsflóa. Þar stofnuðu þeir nýlenduna Plymouth. Eftir harðan vetur en góða sumaruppskeru ákváðu pílagrímarnir að þakka Guði fyrir alla hans velgjörninga með þriggja daga hátíð. Þeir buðu innfæddum einnig að taka þátt í veislunni, en til matar voru einkum kalkúnar og villibráð."

Auglýsingar dynja þessa dagana á landsmönnum um  að þessi og hin verslunin selji "þakkargjörðarkalkún" í veislur landans í tilefni dagsins.

Fyrir hvað skyldu íslenskir púrítanar og aðrir landsmenn vera að þakka í dag? 


mbl.is Kalkúnninn vinsæll við þakkargjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt og harðara glæpasamfélag

Framvinda máls gegn hópi ofbeldismanna í Héraðsdómi Reykjaness sýnir að glæpasamfélagið á Íslandi verður sífellt grimmara og sakborningar sýna af sér æ meiri ófyrirleytni gagnvart dómurum og réttarkerfinu.

Sakborningar hlæja og gera að gamni sínu fyrir dóminum, hæðast að dómstólnum og dómaranum og a.m.k. einn þeirra hefur hrækt á dómara, en neitað því síðan og kvaðst einungis hafa hrækt á skikkju dómarans og það væri hreint ekki það sama og að hrækja á dómarann sjálfan.

Veröld glæpanna er orðin stórhættuleg þeim sem ekki hrærast í henni, þekkja hana ekki og vilja helst ekkert af henni vita og allra síst lenda í klóm þeirra er þar hafast við.

Þetta er þó sá raunveruleiki sem almenningur verður að átta sig á að verður sífellt varasamari og grimmari.


mbl.is Viðburðaríkur morgunn í héraðsdómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfall Össurar hlýtur að teljast stórsigur

Samkvæmt fréttamati RÚV voru þau tæpu 56% atkvæða sem Bjarni Benediktsson fékk í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins gríðarlegt áfall fyrir hann, en þau 49% sem Árni Páll Árnason fékk í prófkjöri Samfylkingarinnar í sama kjördæmi í fyrsta sæti voru túlkuð sem stórsigur hans.

RÚV fannst þátttakan í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins léleg, en þátttakan hjá Samfylkingunni þótti ekki verðug sérstakrar umfjöllunar, þó hún hefði verið mun slakari en hjá Sjálfstæðisflokknum.

Prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík er lokið og Össur Skarphéðinsson hreppti þar fyrsta sætið með 38% greiddra atkvæða í arfaslakri þátttöku Samfylkingarfólks sem á kjörskrá voru.

Samkvæmt fyrra fréttamati RÚV hlýtur fréttastofan að túlka bæði þátttökuna í prófkjörinu og atkvæðafjölda Össurar sem gríðarlegan stórsigur, bæði hans sjálfs og flokksins.


mbl.is Össur í 1. sæti, Sigríður í 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnubótavinna í stað varanlegrar atvinnuuppbyggingar

Í heimskreppunni á fyrri hluta síðustu aldar skapaðist mikið atvinnuleysi hér á landi eins og annarsstaðar og þá gripu sveitarfélög, t.d. í Reykjavík, til þess ráðs að ráða atvinnulausa í svokallaða "atvinnubótavinnu", enda ekki um neinar atvinnuleysisbætur að ræða og neyðin var víða mikil á heimilum landsmanna.

Nú er svo komið, í upphafi tuttugustuogfyrstu aldar, að grípa þarf til sömu úrræða og gert var fyrir 70-80 árum, þ.e. að koma á atvinnubótavinnu vegna langvarandi atvinnuleysis fjölda fólks, sem búið verður að fullnýta rétt sinn til alvinnuleysisbóta á næstu mánuðum.

Ríkissjóður, sveitarfélög og samtök atvinnurekenda ætla að taka höndum saman um að "búa til" á þriðja þúsund tímabundin störf, sem þeim er missa rétt sinn til atvinnuleysisbóta munu standa til boða í allt að sex mánuði.

Atvinnuleysissjóður mun eftir sem áður standa undir meginhluta kostnaðarins við atvinnubótavinnuna, eins og fram kemur í fréttinni: "Heildarkostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna verkefnisins er áætlaður 2,6-2,7 milljarðar króna en tillagan er lögð fram til umræðu með fyrirvara um endanlega fjármögnun og almenna þátttöku sveitarfélaga."

Svona er nú komið í atvinnumálum þjóðarinnar, eftir hatramma baráttu ríkisstjórnarinnar gegn hvers konar varanlegri atvinnuuppbyggingu í landinu  undanfarin ár. 

 

 

 


mbl.is Sveitarfélög skapi 660 störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófriðsamlegt friðarviðræðuboð

Nokkrir þingmenn, undir forystu Birgittu Jónsdóttur, hafa flutt þingsályktunartillögu þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að bjóðast til að standa fyrir friðarviðræðum milli Kínverja og Dalai Lama um framtíð tíbetsku þjóðarinnar.

Tillagan gæti verið góð og gild ef ekki væri fyrir ófriðsamlegt orðalag hennar í garð annars deiluaðilans sem boða á til þessara fyrirhuguðu friðarviðræðna.  Í fréttinni af tillögunni kemur fram m.a: "Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að lýsa yfir þungum áhyggjum af vaxandi ofbeldi og kúgun kínverskra yfirvalda gagnvart tíbetsku þjóðinni og hvetji til að endurmenntunarþvingunum verði hætt tafarlaust þar sem þær hafi meðal annars leitt til þess að 63 Tíbetar hafi kveikt í sér í örvæntingu síðan í mars 2011. Létust 53 þeirra ýmist í logunum eða síðar af sárum sínum."

Varla getur þingmönnunum verið full alvara með tilboði um friðarviðræður með fullkomlega réttlætanlegum mótmælum gegn framferði Kínverja í garð Tíbeta og því hefði verið eðlilegra að láta harðorða mótmælasamþykkt Alþingis nægja í þessu efni, enda engar líkur á að Kínverjar samþykki yfirleitt að ræða nokkurn skapaðan hlut varðandi Tíbet og allra síst að þiggja að viðræður færu fram undir stjórn þeirra sem lýst hefðu eindregnum stuðningi við annan deiluaðilann, þó um þann minnimáttar sé að ræða.

Vegna þess tvískinnungs sem þingmennirnir sýna með tillöguflutningnum mun ekkert mark verða tekið á þeim í þessu efni og er þá verr af stað farið en heima setið. 


mbl.is Vilja friðarviðræður um Tíbet í Höfða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband