Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Íslenska velferðarstjórnin skattaóðari en sú danska?

"Norræna velferðarstjórnin", eins og gárungarnir í íslensku ríkisstjórninni kalla hana, ætlar að leggja á nýjan sykurskatt á næsta ári til þess að stýra matarvenjum landans og fá hann til að borða gulrætur og annað hollmeti í stað sælgætis og annars slíks óþverra.
Þetta er gert eftir fyrirmynd frá dönsku velferðarstjórninni, en eins og allir vita þá sækir "Norræna velferðarstjórnin" ýmsar fyrirmyndir til norðurlandanna og telur að þaðan sé helst snjallræði að finna á flestum sviðum.

Eini gallinn við þessa eftiröpun á sykurskatti Dana er sá, að eftir afar slæma reynslu af fituskatti ætla Danirnir að hætta við að leggja sykurskattinn á og meira að segja að hætta við fituskattinn, en mikið þarf til þess að velferðarstjórnir norðurlandanna hætti við skatta sem þær hafa haft hugmyndaflug til að leggja á.

Afar ósennilegt er að "Norræna velferðarstjórnin" á Íslandi hætti við að leggja á þennan arfavitlausa sykurskatt, enda líklega skattaóðasta ríkisstjórn norðurlandanna og er þá mikið sagt.


mbl.is Fituskattur aflagður og hætt við sykurskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlegt að ætla að lækka laun sjómanna til að greiða hærri auðlindaskatt

LÍÚ hefur sett fram þá fáránlegu kröfu í sambandi við kjarasamninga sjómanna að laun verði lækkuð vegna hins nýja auðlindaskatts sem einmitt er að koma til framkvæmda um þessar mundir.

Sjálfsagt og eðlilegt er að útgerðin greiði sanngjarnan auðlindaskatt fyrir aðgang að fiskimiðunum, en endalaust er hægt að deila um upphæðir í því sambandi og hvað er sanngjarnt og hvað ekki.

Eins og skatturinn er álagður, er hann reiknaður af þeim hagnaði sem til verður eftir að allur kostnaður hefur verið greiddur og því algerlega fáránlegt að ætlast til þess að einn kostnaðarliðurinn verði lækkaður alveg sérstaklega til þess eins að hækka auðlindaskattinn.

Fáránlegast af öllu er þó að láta sér detta í hug að ætla að láta sjómennina greiða hluta skattsins af launum sínum, enda greiða þeir flestir háa skatta til samfélagsins án þess að njóta þjónustu hins opinbera til jafns við okkur landkrabbana.

Þó svo virðist að LÍÚ hafi sett þessa kröfu fram í fullri alvöru, verður því ekki trúað að hún nái nokkurn tíma fram að ganga.


mbl.is Leggjast gegn lækkun launa sjómanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eir sólundar eyri ekkjunnar

Í Biblíunni er sagan um eyri ekkjunnar, þ.e. að sá eyrir er ekkjan gaf í fjárhirsluna hafi verið miklu meira virði en há framlög auðmannanna, því þeir gáfu aðeins lítinn hlut af eigum sínum en ekkjan aleiguna, alla björg sína.

Húsrekstrarsjóður Eirar hefur í mörgum tilfellum tekið við "eyri ekkjunnar", þ.e. aleigu ýmissa eldri borgara, gegn loforði um ævilanga búsetu í þjónustuíbúðum og endurgreiðslu "eyrisins" þegar viðkomandi nýtti ekki íbúðina lengur.

Nú er komið í ljós að húsrekstrarsjóðurinn er nánast á hausnum og hefur verið um tíma, en haldið eftir sem áður áfram að taka við "eyri ekkjunnar" vitandi að ekki yrði hægt að standa við endurgreiðsluna, ef og þegar til ætti að taka.

Stjórn húsrekstrarsjóðsins hlýtur að segja af sér umsvifalaust og rannsaka verður hvort lögbrot hafi verið framin á því fólki sem í góðri trú afhenti þessu fólki umsjón "eyris ekkjunnar", sem í mörgum tilfellum var aleiga þessa fólks, öll björg þess.

Vonandi tekst að bjarga þessum húsrekstrarsjóði frá gjaldþroti, en þó svo fari er gjörð ráðamanna félagsins söm og hlýtur að kalla á rannsókn málsins alls.


mbl.is Áritun í umboði Ríkisendurskoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsagt að rannsaka hrægammavæðingu Steingríms J.

Stjórnarþingmenn á Alþingi hafa ódrepandi áhuga á einkavæðingu bankanna fyrir tíu árum og vilja skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að skrá þá sögu í smáatriðum, til lærdóms fyrir sjálfa sig og framtíðina.  Væntanlega er þessi áhugi tilkominn vegna þess hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna, hinni síðari, þegar Steingrímur J. afhenti vogunarsjóðum og öðrum hrægömmum Íslandsbanka og Arionbanka fyrir rúmum tveim árum, líklega af vanþekkingu einni saman um slíka fjármálahákarla.

Lögð hefur verið fram breytingartillaga á Alþingi um að hrægammavæðing Steingríms J. á nýju bönkunum tveim verði skráð inn í rannsóknarskýrsluna sem viðbót við fyrri einkavæðinguna, enda fyrri sagan nánast öllum kunn eftir fyrri rannsóknir, en sú seinni er flestum sem hulin ráðgáta og allsendis óskiljanleg.

Á þessu bloggi hefur áður verið bent á nauðsyn þess að skrá þessa sögu alla samviskulega og hafi einhver áhuga, má t.d. lesa þetta:  http://axelaxelsson.blog.is/blog/axelaxelsson/entry/1262992/


mbl.is Vilja frekari rannsókn á einkavæðingu banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kótelettuskatt fyrir hjartveika

Að sjálfsögðu er auðvelt að styðja að 10% af áfengisgjaldi renni beint til "úrræða fyrir áfengis- og vímiefnasjúklinga og fjölskyldur þeirra".

Einnig er eðlilegt að hluti allra gjalda sem lagður er á sykur, sælgæti og aðrar sætar vörur verði eyrnamerktur til úrræða fyrir sykursjúka og fjölskyldur þeirra.

Jafnsjálfsagt er að hluti matarskatts og annarra gjalda á kótilettur og annað feitt kjötmeti verði varið til úrræða fyrir hjartveika og fjölskyldur þeirra.

Enn sjálfsagðara ætti að vera að stór hluti skatta og gjalda sem lagðar eru á leikföng og aðrar barnavörur renni beint til úrræða fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Verði ágreiningur um aldursmörk í þessu efni verður vafalaust hægt að flokka gjöldin nánar í flokka eftir aldri og þroska ungviðisins.

Varla ætti að þurfa að rekja svona tillögur lengra til þess að allir sjái fáránleikann í hugmyndinni sem 78% þjóðarinnar segist styðja, samkvæmt skoðanakönnun Capasent Gallup.


mbl.is Rúm 78% styðja Betra líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskar eyðsluklær eru heimsmeistarar í skuldasöfnun

Við Íslendingar höfum lengi verið montnir af upprunanum og alltaf talið Ísland "stórasta land" í heimi og okkur sjálf meiri og merkilegri en allar aðrar þjóðir jarðarkringlunnar. Oft er gumað af hinu og þessu heimsmetinu og þá gjarnan miðað við höfðatölu, en nokkur heimsmet hafa þó fallið án þeirrar viðmiðunar.

Landinn er víða frægur fyrir ýmsar sakir, en frægastur er hann líklega fyrir eyðslusemi og kaupgleði í erlendum verslunum, enda slíkar opnaðar sérstaklega utan almenns opnunartíma þegar von er á hópum frá Íslandi með greiðslukortin á lofti. Gjarnan birtast fréttir í staðarfjölmiðlunum af þessum innkaupaferðum og hvílík guðsgjöf þær eru fyrir efnahagslífið í viðkomanedi bæjarfélagi og nágrannasveitum.

Samkvæmt samantekt sem fylgir í viðhangandi frétt sést að Íslendingar eiga heimsmet í skuldasöfnun einkaaðila, en þær nema 304% af landsframleiðslu og fáir sem komast með tærnar þar sem við mörlandarnir höfum hælana. Hérlendis hefur enginn verið hræddur við að taka öll þau lán sem í boði hafa verið án sérstakra áhyggna af endurgreiðslunum.

Kjörorð okkar Íslendinga hefur lengi verið orðtakið góða "þetta reddast einhvernveginn" og í þeim takti munum við sjálfsagt lifa enn um hríð, enda nógur tími til að sofa rólegur þegar maður verður dauður.


mbl.is Skuldsettar þjóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einvalalið frambjóðenda

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður laugardaginn 24. nóvember n.k. og verður úr vöndu að ráða við val á listann, þar sem einvalalið er í framboði eins og sjá má af þessum lista:

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi
Birgir Ármannsson, alþingismaður
Birgir Örn Steingrímsson, framkvæmdastjóri
Brynjar Níelsson,hæstaréttarlögmaður
Elí Úlfarsson, flugnemi
Elínbjörg Magnúsdóttir, verkakona
Guðjón Sigurbjartsson, framkvæmdastjóri
Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður
Gunnar Kristinn Þórðarson, stuðningsfulltrúi
Hafsteinn Númason, leigubílstjóri
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi
Illugi Gunnarsson, alþingismaður
Ingibjörg Óðinsdóttir, stjórnunarráðgjafi
Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og útgefandi
Pétur H. Blöndal, alþingismaður
Sigríður Ásthildur Andersen, héraðsdómslögmaður
Sigurður Sigurðarson, rekstrarráðgjafi
Teitur Björn Einarsson, lögmaður
Þórhalla Arnardóttir, framhaldsskólakennari

Eins og sjá má, er þarna um frábært framboð fólks að ræða sem býr yfir mismunandi reynslu og þekkingu af hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins.

Á þessum nítján manna lista eru þó aðeins sex konur, en þær hafa löngum verið tregari til framboðs en karlarnir og verður því að telja möguleika þeirra á öruggum sætum góða, enda myndu kraftar þeirra allra nýtast vel á Alþingi næsta kjörtímabil og auðvitað miklu lengur.

Vonandi verður þátttaka í prófkjörinu góð og sýna samstöðu og baráttuhug vegna kosninganna í vor.


mbl.is 19 í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband