Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Jón Baldvin og Ólafur Ragnar hætta aldrei

Jón Baldvin er orðinn einhver ofnotaðasti álitsgjafinn í sögu þjóðarinnar og af einhverjum ástæðum er mikið til hans leitað um álit á hinu og þessu og ekki síst ef von er til að fá hann til að segja eitthvað ljótt um ákveðnar persónur. Það er honum einkar tamt og slíkt rennur auðveldlega upp úr honum og yfirleitt ekki spöruð stóryrðin.

Ólafur Ragnar Grímsson fær nýjustu gusurnar frá þessum mikla, að eigin áliti, "þjóðfélagsrýni" og segir Jón Baldvin að vegna framgöngu Ólafs í forsetaembættinu ætti að leggja það niður og þá væntanlega í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að Ólafur gæti boðið sig fram oftar, en hann er þegar búinn að sitja jafn lengi í embætti og þeir fyrirrennarar hans sem lengst sátu.

Ólafur Ragnar er háll sem áll og ætlar sér greinilega að bjóða sig fram enn einu sinni, en ætlar að láta líta svo út að hann geri slíkt eingöngu vegna ástar þjóðarinnar á sér, sem sannist með fjölda áskoana um áframhaldandi setu hans á Bessastöðum.

Það er meir en nóg komið af Ólafi Ragnari á Bessastöðum og miklu meira en nóg af Jóni Baldvini.


mbl.is Forsetinn heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósvífið kjördæmapot og hrossaprang

Eitt sóðalegasta dæmi seinni tíma um sóðalegt kjördæma- og hagsmunapot fór fram á Alþingi þegar ráðherra úr Norðausturkjördæmi veitti þingmanni úr sama kjördæmi lánsloforð upp á milljarða króna til gerðar Vaðlaheiðarganga.

Einn hluti skrípaleiksins fólst í því að stofnað var einkahlutafélag í meirihlutaeigu ríkissjóðs og væntanlega hefur þessi sami ráðherra farið með hlut ríkisins í félaginu og þingmaðurinn úr kjördæminu sat í félagsstjórninni. Síðan var samið um að ríkið tæki lán til að lána félaginu, eingöngu til að falsa ríkisbókhaldið, en opinberlega átti að líta út fyrir að ríkissjóður væri ekki að auka skuldsetningu sína með þessari framkvæmd.

Annar hluti blekkingarleiksins var að birta vanreiknaða kostnaðaráætlun og ofreiknaða tekjuáætlun til þess að réttlæta framkvæmdina og láta líta svo út að rekstur þeirra myndi skila nægum hagnaði til að greiða framkvæmdina niður á tuttugu til tuttuguogfimm árum.

Nú hefur allt sjónarspilið og blekkingarnar verið afhjúpaðar með óháðri úttekt sérfræðings með mikla reynslu af slíkum framkvæmdum, t.d. Hvalfjarðargöngunum og með vinnu fyrir lífeyrissjóðina vegna Vaðlaheiðarganganna.

Á þessum síðustu og verstu tímum er lágmarkskrafa að hreinræktuðum blekkingum sé ekki beitt til þess að koma framkvæmdum í gang í einstökum kjördæmum.


mbl.is Veggjöld standi ekki undir kostnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókhaldsóreiða hjá Framsókn?

Ríkisendurskoðandi hefur farið fram á að ríkisstyrk til Framsóknarflokksins, að upphæð sextíumilljónum króna, verði haldið eftir og hann ekki afhentur flokknum fyrr en hann skilar ársreikningi fyrir árið 2010, en frestur til þess rann út fyrir rúmum þrem mánuðum.

Það verður að teljast nokkuð hart, að flokkar sem taka þátt í því að setja lög á Alþingi um allt milli himins og jarðar og setja borgurunum hinar og þessar skorður á ýmsum sviðum og leggur á þá skyldur á öðrum skuli ekki fara að lögum sjálfir.

Alþingi setur lög um bókhald og ársuppgjör og setur fólki og fyrirtækjum fresti til að skila slíkum gögnum til viðkomandi yfirvalda að viðlögðum hörðum viðurlögum og sektum verði misbrestur á slíku, t.d. hörðum refsingum við að skila ekki ársreikningum og framtölum til skattayfirvalda, að ekki sé minnst á þær gríðarlegu álögur sem lagðar eru á rekstraraðila sem ekki skila staðgreiðsluskatti eða virðisaukaskatti á réttum tíma.

Það getur varla talist mikil kröfuharka að ætlast til þess að þeir sem setja öðrum lög og reyndar lög um sjálfa sig líka, fari eftir þeim lögum sem um þá sjálfa gilda og þá jafnt um bókhald, ársreikningaskil sem annað.

Varla liggur skýringin á þessum drætti í bókhaldsóreiðu flokksins. Eða hvað?


mbl.is Fá ekki styrk fyrr en uppgjöri er skilað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólga og upplausn í stjórnarliðinu

Sífellt opinberast meiri og meiri ólga, óánæja og upplausn innan beggja stjórnarflokkanna og á milli þeirra. Í Samfylkingunni grasserar óánægja með forystu Jóhönnu Sigurðardóttur í ríkisstjórninni, stefnuleysi flokksins í atvinnumálum og nú síðast ráðherrakapal hennar, þar sem hún fórnaði Árna Páli Árnasyni til þess að réttlæta brottrekstur Jóns Bjarnasonar úr embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.

Í VG hefur óánægjan með forystu Steingríms J. kraumað alllengi og þá ekki síst vegna svika hans við flest helstu stefnumál flokksins og þá ekki síst sveigju flokksins í átt til samþykktar á innlimun Íslands sem útkjálkahrepps í væntanlegt stórríki Evrópu, en andstaðan við ESB hefur frá upphafi verið einn af hornsteinum stefnumörkunar allra helstu stofnana flokksins.

Margir burðarásar flokkanna beggja koma nú fram hver af öðrum og ræða opinskátt um þá reiði sem grefur sífellt meira um sig innan flokkanna og er svo komið að ýmsir af stofnfélögum VG hafa sagt sig úr flokknum og aðrir sem lýst hafa óánægju sinni með gang mála segjast þó ennþá kjósa að halda áfram að berjast gegn málaefnasvikunum innan flokksins sjálfs.

Undiralda óánæjunnar í þjóðfélaginu endurspeglast einnig í þeim fjölda nýrra stjórnmálaflokka sem hyggjast bjóða fram í næstu Alþingiskosningum, en ef fer fram sem horfir verða allt að tíu flokkar í framboði þegar að þeim kemur.

Nái flest þau framboð fólki inn á þing, mun það ekki verða til þess að auka jafnvægi í þjóðmálunum, heldur þvert á móti auka á þá pólitísku kreppu sem fyrir er í landinu og að öllum líkindum tefja enn frekar fyrir að bjartari tímar renni upp í efnahagslífi landsins.

Næstu ár verða að öllum líkindum spennandi pólitískt séð, en landanum dýrkeypt að öðru leiti.


mbl.is Sögð hafa svikið flest loforð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Satt og logið, sitt er hvað

Athyglisvert er að allir helstu leiðtogar og sérfræðingar austan hafs og vestan tala opinskátt um evru- og skuldakreppuna og leyna engu um þá erfiðleika sem framundan eru til næstu ára við lausn þeirra erfiðleika.

Þetta á við um alla, sem um vandann ræða, aðra en íslenska Samfylkingingarmenn og þá fáu sem fylgja þeim í tilraunum þeirra til þess að innlima Ísland sem útnárahrepp í væntanlegt stórríki ESB.

Það er mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að vel takist til við úrlausn vandamálanna í Evrópu, sem er helsta markaðssvæði íslenskra útflutningsafurða, þannig að kreppan í nálægum löndum mun fyrr eða síðar koma niður á lífskjörum hér á landi og þar með auka á þá erfiðleika sem við er að etja. Með núverandi ríkisstjórn mega Íslendingar ekki við miklum áföllum þar til viðbótar.

Vegna þess vanda sem við er að glíma í nágrannalöndunum er nauðsynlegt að Íslendingar ræði málin af hreinskilni og að ríkisstjórnin fari að ræða í fullri alvöru um tilganginn með því að halda innlimunaráætluninni til streitu.


mbl.is Segir Evrópu á barmi kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í skemmtilegra kosningar og erfiða stjórnarmyndun

Eins og útlitið er núna stefnir í að a.m.k. tíu stjórnmálaflokkar bjóði fram í næstu Alþingiskosningum og verður það þá algert met í framboði stjórnmálaafla, en líklegt að eftirspurnin verði lítil í einhverjum tilfellum.

Kæmu allir þessir flokkar fulltrúum á þing er hætt við að stjórnarmyndun gæti orðið erfið í kjölfarið og varla yrði um sterka ríkisstjórn að ræða, yrði hún samansett úr fjórum til fimm flokkum með þeim hrossakaupum sem því myndu fylgja. Nóg hefur fólki þótt um hrossakaup og vandræðagang þeirrar tveggja flokka stjórnar sem nú situr að völdum og væri ekki á bætandi með fleiri flokka þar innanborðs.

Allt bendir sem sagt til að næstu kosningar verði spennandi og skemmtilegar, en eftirköstin gætu orðið óspennandi og lítt skemmtileg.


mbl.is Fjölgun flokka alþjóðleg þróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálaflokkar án stefnumála

Lilja Mósesdóttir boðar stofnun nýs stjórnmálaflokks og að með henni vinni fjöldi fólks úr öllum "gömlu" flokkunum og framboðið verði orðið að veruleika fyrir þingkosningarnar 2013. Lilja segir hins vegar að ekki sé farið að vinna að ráði að málefnaskrá flokksins og því ekki ljóst ennþá fyrir hvaða málefnum hann ætli að berjast en þó líklega einna helst að skuldamálum heimilanna.

Guðmundur Steingrímsson og Besti flokkurinn hafa einnig boðað stofnun nýs stjórnmálaflokks og eins og í tilfelli Lilju er allt óákveðið um málefnin sem flokkurinn mun standa fyrir og það eina sem þegar er ákeðið í þeim efnum er að berjast fyrir innlimun Íslands í væntanlegt stórríki ESB.

Áður og fyrrum sameinaðist fólk í stjórnmálaflokkum eftir lífsskoðunum sínum, en nú á tímum virðist vera í tísku að stofna flokka í kringum ákveðna frambjóðendur og ákveða eftirá hvaða málefni eigi að setja á oddinn. Það eru sem sagt ákveðnar persónur sem eru í fyrirrúmi en ekki málefni eða hugsjónir.

Þrátt fyrir þessa áherslu á persónur, en ekki málefni, segjast þessir nýju flokkastofnendur vera á móti "persónudýrkun og foringjaræði" þeirra flokka sem fyrir eru og þeim "klíkum" sem þar ráði ríkjum.

Ráði annað en hugsjónir og málefnaáherslur ríkjum í "gömlu" flokkunum, hvaða hvatir eru það þá aðrar sem ráða stofnun þessara nýju stefnulausu "stjórnmálaflokka"?


mbl.is Nýtt framboð að verða til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjördæmapot eða bara venjulegt ráðherrapot

Síðasta verk Jóns Bjarnasonar í embætti sjávarútvegsráðherra var að reka prófessor úr stöðu stjóranarformanns Hafró og setja fiskverkanda úr eigin kjördæmi í stöðuna.

Jón segir að engin sérstök ástæða hafi verið til að reka prófessorinn og hann hafi gert það "af því bara", eins og krakkarnir segja. Sú ástæða er reyndar stundum gefin upp þegar pólitíkusar geta ekki með góðu móti réttlætt gerðir sínar.

Furðulegt er að hæfni fiskverkandans skuli ekki hafa verið nefnd sem ástæða skipunarinnar í embættið enda virðist hann ekki hafa neitt framyfir prófessorinn sem gagnast mætti í þessu starfi.

Svona hundakúnstir ráðherra eru ekki boðlegar, enda reynir Jón ekki einu sinni að gefa neinar skýringar á þessu kjördæma- eða ráðherrapoti.


mbl.is Enginn aðdragandi að málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengi getur vont "grín" versnað

Reykvíkingar hafa þurft að þola grátt grín Jóns Gnarr úr embætti borgarstjóra í eitt og hálft ár og að óbreyttu þurfa þeir að vera aðhlátursefni í tvö og hálft ár í viðbót, eða fram til næstu borgarstjórnarkosninga.

Nú þegar Ólafur Ragnar hefur gefið í skin að hann muni ekki bjóða sig fram til setu fimmta kjörtímabilið á Bessastöðum, sýnir Jón Gnarr enn og aftur smekkleysi sitt og lélega kímnigáfu með því að lýsa yfir að hann sé að hugleiða forsetaframboð og gefur í skin, eins og alvöru fólk gerir jafan, að einhverjir "hafi sett sig í samband og skorað á hann í forsetaframboð".

Þeir eru ekki margir sem treysta sér lengur til að verja vitleysurnar sem Jón Gnarr sýnir af sér í núverandi embætti og svona lélegur brandari í upphafi nýs árs er nánast móðgun við þjóðina og það alvöru fólk sem gæti verið að hugleiða forsetaframboð.

Nokkrum sinnum hafa misheppnaðir grínarar tekið þátt í forsetaframboðum og hafa að sjálfsögðu aldrei verið teknir alvarlega og svo mun auðvitað ekki verða nú, spili Jón Gnarr þennan "brandara" til enda.


mbl.is Jón íhugar forsetaframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar er háll sem áll

Ólafur Ragnar Grímsson er að ljúka sínu sextánda ári á forsetastóli og hefur enginn forseti setið Bessastaði í lengri tíma en það. Samkvæmt áramótaávarpi Ólafs lætur hann eins og hann vilji láta þessi sextán ár nægja, en gefur um leið í skin að hann væri alveg til í að halda áfram "ef þjóðin bæði alveg sérstaklega um það".

Ólafur Ragnar hefur alla tíð verið mikið ólíkindatól og aldrei hægt að vita fyrirfram hvað honum dettur í hug í það og það skiptið. Ólafur var helsta hækja og málpípa útrásarvíkinganna á "bankaránsárunum" og hlaut fyrir hatur og fyrirlitningu þjóðarinnar og var um tíma óvinsælasti maður landsins. Með klókindum sínum og áróðurstækni tókst honum að snúa því dæmi algerlega við með því "að hlutsta á þjónina" og samkvæmt áskorunum fjórðungs kjósenda og hafna lögum um Icesave II og III staðfestingar og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem þau voru kolfelld, þrátt fyrir mikinn áróður ríkisstjórnarinnar og annarra um uppgjöf gagnvart kúgunum Breta, Hollendinga, AGS og ESB.

Efir það varð Ólafur Ragnar elskaður og dáður meðal landslýðs og er nú hvers manns eftirlæti og enginn man lengur að hann staðfesti lögin um Icesave I, sem hins vegar Bretar og Hollendingar neituðu að samþykkja, vegna þeirra miklu fyrirvara sem þingmönnum stjórnarandstöðunnar tókst að fá samþykkta í tengslun við þau lög.

Nú viðist sem Ólafur Ragnar ætli að spila út vinsældum sínum til þess að réttlæta fimmta kjörtímabil sitt í forsetastólnum og geta sagt eftir á að hann hafi alls ekki sóst sjálfur eftir svo langri forsetatíð, en að hann geti ekki hafnað óskum þjóðarinnar þar um, enda elski hún hann út af lífinu og geti ekki hugsað sér framtíðina án síns elskaða, vitra og dáða leiðtoga.

Ólafur Ragnar er óneitanlega mesta kamelljón íslenskrar stjórnmálasögu.


mbl.is Framboð ekki útilokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband