Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Ábyrgð Ögmundar og uppreisn í Samfylkingu

Tillaga Bjarna Benediktssonar um að Alþingi dragi til baka ákærurnar á hendur Geir H. Haarde og hætti þar með við málsmeðferðina fyrir Landsdómi hefur haft hinar ólíklegustu og ótrúlegustu hliðarverkanir.

Þrátt fyrir að allir þingmennirnir sem samþykktu að stefna Geir fyrir dóminn og lýsa um leið aðra ráðherra saklausa af öllum ávirðingum, sverji og sárt við leggi að ekki hafi verið um pólitískan gjörning að ræða, ætlar allt vitlaust að verða innan Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þegar einstaka þingmenn flokkanna lýsa því yfir að þeir muni styðja tillöguna um afturköllun málsins.

Þingflokkur VG logar stafna á milli vegna yfirlýsinga Ögmundar Jónassonar, ráðherra dómsmála, um að málið allt sé af pólitískum toga og að hann hafi gert mistök með því að samþykkja þessar pólitísku ofsóknir á sínum tíma og að Guðfríður Lilja skuli hafa dirfst að lýsa svipuðum skoðunum og Ögmundur.

Uppreisn er hótað innan Samfylkingarinnar og þeim þingmönnum flokksins, sem hugsanlega vildu styðja tillögu Bjarna, er hótað öllu illu og þar með missi þingsæta sinna, láti þeir verða af því að fylgja samvisku sinni og tillögunni.

Ekki vex virðing Alþingis, þingflokka Samfylkingar og VG, eða einstakra flokksfélaga þeirra við þetta upphlaup.


mbl.is Á ábyrgð Ögmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstaða með og án grímu

Jóhanna Sigurðardóttir segir að Samtök atvinnulífsins stundi "grímulausa" stjórnarandstöðu, hvað svo sem hún meinar með því, en SA hafa reyndar bent á grímulaus svik ríkisstjórnarinnar, síendurtekið, vegna flestra þeirra atriða sem stjórnin hefur samþykkt í tengslum við gerð kjarasamninga.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og samflokksmaður Jóhönnu, ásamt flestum öðrum forystumönnum verkalýðsfélaga landsins hafa einnig stundað "grímulausa" stjórnarandstöðu með því að mótmæla svikum ríkisstjórnarinnar og það hafa þeir gert af engu minni ákafa en talsmenn atvinnurekenda.

Stór hluti landsmanna stundar nákvæmlega samskonar "grímulausa" andstöðu við þessa voluðu ríkisstjórn, sem hafa verið vægast sagt mislagðar hendur á flestum eða öllum sviðum, nema varðandi skattahækkanir og niðurskurð ríkisútgjalda, sem þó hefur verið gerður í mikilli andstöðu við alla sem hann hefur snert, sem auðvitað var fyrirséð.

Þeir einu sem stunda stjórnarandstöðu með grímu eru samflokksmenn Jóhönnu, sem orðnir eru fullsaddir af þessari ríkisstjórn, en þora ekki ennþá að fella hana.


mbl.is Grímulaus stjórnarandstaða SA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki Hagfræðistofnun aftur og aftur

Eftir margra vikna umhugsun hefur Forsætisnefnd Alþingis hafnað beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar sama Alþingis um að fela Hagfræðistofnun HÍ að gera úttekt á kostnaðar- og arðsemismati Vaðlaheiðargangna og veldur sú afgreiðsla nefndarformanni síðarnefndu nefndarinnar miklum vonbrigðum.

Afstaða fyrrnefndu nefndarinnar er þó skiljanleg í því ljósi að þáverandi samgönguráðherra og og þá- og núverandi stjórnarmaður í Vaðlaheiðargöngum hf, Kristján L. Möller, hafði fyrir löngu fengið neikvæða skýrslu um arðsemi þessara sömu gangna og haldið henni vandlega leyndri fyrir öllum öðrum en samþingmanni sínum úr kjördæmi Vaðlaheiðar, Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra þáverandi.

Allir hljóta að sjá að það væri óþarfur peningaaustur að fela Hagfræðistofnun að endurvinna leyniskýrsluna, enda forsendur varla mikið breyttar frá því að þeirri skýrslu var stungið undir ráðherrastól.


mbl.is „Veldur okkur vonbrigðum og undrun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra fyrir Baltasar

Contraband, nýja myndin sem Baltasar leikstýrði í draumasmiðjunni Hollywood, er að gera það gott í Ameríkunni á frumsýningarhelginni og lofar aðsóknin góðu um framhaldið.

Bandaríski spennumyndamarkaðurinn er líklega sá erfiðasti í heiminum og því mikið afrek hjá Baltasar að fá tækifæri til að leikstýra slíkri mynd þar og miðað við útkomuna af þessari mynd munu örugglega opnast fleiri dyr fyrir honum þar ytra í framtíðinni.

Það sem ekki er síður merkilegt við þessa frumraun Baltasars í Hollywood er að með honum starfaði stór hópur íslenskra kvikmynda- og tæknimanna, enda segir Baltasar að það sé sitt markmið að nýta sambönd sín í útlöndum til að efla og styrkja íslenska kvikmyndagerð og helst að taka myndir upp hérlendis og láta íslenska kvikmyndagerðarmenn vinna sem mest við eftirvinnslu þeirra.

Baltasar á heiður skilinn fyrir þessa afstöðu sína og ekki síður ber að óska honum innilega til hamingju með myndina og að hafa "meikað það" í Hollywood.


mbl.is Baltasar í sjöunda himni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efla verður löggæsluna strax

Í ráðherratíð Björns Bjarnasonar sem dómsmálaráðherra börðust vinstri menn harkalega gegn hvers konar áformum hans um að efla löggæsluna í landinu, t.d. með eflingu forvirkra rannsókna og aukinni baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, sem sífellt eflist og þróast í landinu.

Lögreglan haldleggur sífellt meira af hverskonar vopnum og er nú svo komið að glæpahópar vaða uppi í landinu og meðlimir þeirra jafnvel vopnaðir sjálvirkum byssum og öðrum drápstólum. Íslenskir glæpamenn sækjast eftir inngöngu í alþjóðleg glæpasamtök eins og t.d. Hells Angels og Bandidos.

Það kemur því vel á vonda að það skuli þurfa að koma í hlut vinstri stjórnar og ráðherra Vinstri grænna að taka til við að efla og bæta löggæsluna, sem þeir börðust hart gegn í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Stundum væri betra að hugsa fram í tímann í stað þess að slá pólitískar keilur, eingöngu vegna þess að stjórnmálamaður úr andstöðuflokki reyni að koma góðum málum til leiðar.


mbl.is Vítisenglar í gæsluvarðhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona gerir maður ekki.

Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, hélt leyndri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem niðurstaðan var að veggjöld í Vaðlaheiðargöngum þyrftu að vera helmingi hærri, eða um tvöþúsund krónur á ferð, en ráðherrann og aðrir héldu fram á meðan þeir reyndu að blekkja Alþingi til að samþykkja framkvæmdina.

Steingrímur J. og Kristján Möller eru báðir þingmenn Norðausturkjördæmis, sá fyrri var fjármálaráðherra og sá síðari samgönguráðherra, ásamt því að vera stjórnarmaður í ríkishlutafélaginu, sem ætlað var að taka lán hjá ríkinu til framkvæmdanna og falsa með því ríkisreikninginn með því að taka framkvæmdina ekki inn á fjárlög.

Þegar í ljós er komið að félagarnir Kristján og Steingrímur hafa beitt blekkingum og hylmingum til þess að blekkja þingheim, hljóta lög um ráðherraábyrgð að koma til skoðunar og hvort svona vinnubrögð teljist ekki vera gróft brot í starfi.

Eins hlýtur að koma til greina að báðir segi af sér þingmennsku á meðan málin væru rannsökuð nánar.


mbl.is Skýrslu stungið undir stól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESBríki samþykkja ósamda samninga

Íslenskir áróðursmenn fyrir innlimun Íslands í væntanlegt stórríki ESB hafa hangið eins og hundar á roði á þeirri mýtu sinni að smáríki hafi svo mikil áhrif á þróun stórríkisins og lagasetningu, að algerlega lífsnauðsynlegt sé fyrir Ísland að innlimast, enda verði Íslendingar þar með leiðandi aðilar og muni nánast ráða þróun þeirra málaflokka sem landið varða.

Allir aðrir en áróðursmeistararnir vita hins vegar að smáríkin hafa nákvæmlega ekkert vægi innan ESB og flest stærri ríkin eru þar jafn áhrifalaus, enda allar mikilvægar ákvarðanir teknar af Merkel og Sarkozy, eða Merkozy eins og þau eru jafnan kölluð núorðið, og síðan er öðrum ríkjum gert að staðfesta ákvarðanir þeirra.

Í desember s.l. var haldinn einn af mörgum neyðarfundum ESB um skuldavanda einstakra ríkja og evrukrísuna og þar var samþykkt að samþykkja væntanlega ákvörðun Merkozys um hvernig skyldi staðið að sviptingu fjárræðis einstakra ríkja innan stórríkissins og herða tök Brusselvaldsins yfir fjárlagagerð allra undirsáta sinna.

Að samkomulag Merkozys hafi verið samþykkt fyrirfram, án þess að einstök ríki hafi haft hugmynd um hvað kæmi til með að felast í því sannast enn og aftur í þessari setningu úr fréttinni:  "Einn samninganefndarmanna staðfesti í dag að komin væru drög að samkomulagi sem 26 ESB ríkjanna hefðu í desember heitið að styðja. Bretar hafa ekki viljað styðja samkomulagið."

Ætli Merkozy hafi haft samráð við Jóhönnu og Össur um þessi drög að samkomulagi, sem heitið var stuðningi í desember s.l., án þess að stafkrókur væri kominn á blað um innihaldið. 


mbl.is ESB með drög að samkomulagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ratast kjöftugum hér satt orð á munn?

Samfylkingin og aðrir ESBáhangendur hafa fram að þessu haldið fram þeirri blekkingu að Ísland stæði í einhverskonar samningaviðræðum við ESB um innlimunarskilmála og undanþágur frá regluverki stórríkissins væntanlega.  Með slíkum "samningaviðræðum" væri hægt að fá að "sjá hvað væri í pakkanum" og þannig og einungis þannig væri hægt að gera sér grein fyrir þeim skilmálum sem í boði væru við innlimunina.

Ekki síður hefur því verið haldið fram að með innlimun myndu Íslendingar hafa mikil áhrif á alla ákvarðanatöku í valdastofnunum stórríkissins væntanlega og jafnvel myndu Íslendingar verða leiðandi afl á ýmsum sviðum, t.d. varðandi sjávarútvegsstefnu framtíðarinnar.

Loksins hefur einn málsvari innlimunarsinna látið frá sér fara sannleikann í þessu efni, en í fréttinni er eftirfarandi haft eftir Merði Árnasyni:  "Allmennt er þetta þannig að við erum að ganga inn í klúbbinn og í honum gilda reglur klúbbsins og í þeim málum sem varða tollabandalagið og innri markaðinn þá hlítum við þeim lagaramma sem Evrópusambandið hefur og það eru engar undanþágur í því. Það erum við sem erum að ganga í Evrópusambandið, ekki Evrópusambandið í okkur."

Í þessu tilfelli virðist hið fornkveðna eiga vel við:  Oft ratast kjöftugum satt orð á munn. 


mbl.is ESB ekki að sækja um á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk réttarhöld eru Alþingi til skammar

Vegna þess að Bjarni Benediktsson hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að hætt skuli við hin pólitísku hefndarréttarhöld gegn Geir H. Haarde, ætlar Hreyfingin að leggja fram gagntillögu um að pólitíska ofstækið skuli útvíkkað og ákærur einnig lagðar fram gegn þeim þrem ráðherrum sem Alþingi ákvað á sínum tíma að sleppa við slíkar ofsóknir.

Pólitíska ofstækið og hefndaræðið gagnvart anstæðingum í stjórnmálum verður síst minni við að fjölga þeim aðilum sem ofsóttir verða með pólitískum sýndarréttarhöldum og afar kjánalegt að halda því fram að með því gefist umræddu fólki kærkomið tækifæri "til að hreinsa nafn sitt", eins og sumir bullustrokkar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa látið eftir sér hafa.

Varla eru nokkrar líkur á því að Geir H. Haarde, eða aðrir ráðherrar yrðu sakfelldir fyrir eitt eða neitt fyrir Landsdómi og því ætti ákærandinn í málinu, þ.e. Alþingi sjálft, að fella málið niður og biðja viðkomandi afsökunar á bráðræði sínu og dómgreindarleysi við afgreiðslu málsins.

Það nær ekki nokkurri átt að stefna fólki fyrir dómstóla "af því bara" eða vegna þess að viðkomandi hafi öðruvísi stjórnmálaskoðanir en þingmeirihluti hverju sinni.

Slíkt er Alþingi til minnkunnar, en ekki þeim ofsótta.


mbl.is Kosið verði um alla ráðherrana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggið er lesið víða um veröld

Fyir ári setti ég "Flag Counter" á bloggsíðuna mína til að sjá að gamni hvort bloggið á mbl.is væri lesið utan landsteinanna og mér til mikillar undrunar hefur komið í ljós að ótrúlega víða um veröldina er gluggað í bloggfærslurnar.

Á þessu ári, sem liðið er, hefur bloggsíðan verið heimsótt frá 105 löndum utan Íslands og heimsóknir erlendis frá eru nærri 13% af heildarfjölda allra innlita á síðuna.  Þessi staðreynd kom verulega á óvart, en er þeim mun skemmtilegri fyrir vikið.

Öllum lesendum síðunnar eru færðar kærar kveðjur og þakkir fyrir heimsóknirnar og lesturinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband