Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Auðlindagjald fari ekki beint í eyðsluhítina

Nefnd um stefnumörkun í auðlindamálum leggur til að innheimt verði svokölluð auðlindarenta af öllum afnotum auðlinda landsins og er það að sjálfsögðu ekkert annað en sjálfsagt mál. Sjálfsagt verða menn svo aldrei sammála um hversu hár slíkur skattur á að vera á hverjum tíma.

Nefndin leggur hins vegar til að auðlindarentan renni beint í ríkishítina og verði að mestu leyti til ráðstöfunar í eyðslugleði þeirrar ríkisstjórnar sem að völdum situr hverju sinni. Samkvæmt fréttinni gerir nefndin þó þessa undantekningu á því: "Um eiginlega sjóðssöfnun geti hins vegar verið að ræða þegar tekjur stafa af auðlindum sem augljóslega eru ekki endurnýjanlegar. Þannig yrði búið í haginn fyrir komandi kynslóðir sem ekki nytu góðs af sömu auðlindum."

Heillavænlegra væri að leggja allt auðlindagjaldið í sérstakan auðlindasjóð sem eingöngu yrði gripið til við sérstakar aðstæður, t.d. efnahagserfiðleika í kjölfar aflabrests, náttúruhamfara o.s.frv., eða bara ef til álíka hruns kæmi og gerðist á árinu 2008.

Engar auðlindir eru í raun endurnýjanlegar, því vatnsföll geta breyst eða þornað upp vegna náttúruhamfara, aflabrestur getur orðið nánast hvenær sem er eins og dæmin sanna í gegn um tíðina og enginn veit fyrir víst hvort eða hvenær heitavatnsæðar geta breyst eða kólnað.

Íslendingar þyrftu að læra af fortíðinni og safna varasjóðum til framtíðarinnar í stað þess að eyða öllum tekjum jafnóðum og þeirra er aflað, ásamt því að skuldsetja sig upp fyrir haus í eintómu neysluæði. 


mbl.is Vilja stofna auðlindasjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf versnar ástandið á stjórnarheimilinu

Í langan tíma hafa logað illdeilur innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra, enda svo komið að stuðningur við stjórnina og flokkana sem hana skipa hefur fallið meira en hitastigið í frosthörkunum að undanförnu og styttist í að fylgið nái alkuli.

Síðustu daga hefur þó keyrt um þverbak, en a.m.k. tveir þingmenn VG krefjast þess að Ögmundur Jónasson verði rekinn úr ráðherraembætti og ekki annað að sjá en að nánast allir þingmenn flokksins séu með kutana í baki hvers annars.

Ungliðar Samfylkingarinnar hafa sent frá sér harðorða gagnrýni á nokkra félaga sína á þingi, þar með talin þau Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, og saka þau um dómgreindarskort og svik við jafnaðarstefnuna, sem ungliðarnir virðast telja að eigi að snúast um pólitískt ofstæki og hefnd á andstæðingum flokksins í stjórnmálum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, safnar undirskriftum meðal þingmanna í þeim tilgangi að ná að hrekja Ástu Ragnheiði úr forsetastólnum og aðrir þingmenn þess flokks hafa heldur ekki sparað gífuryrðin að undanförnu um þá sem varðveita vilja lýðræði og málfrelsi á Alþingi.

Jóhanna og Steingrímur J. hafa verið að vonast eftir stuðningi Hreyfingarinnar við að framlengja líf ríkisstjórnarinnar um nokkra mánuði, en takist þau hjaðningarvíg sem nú eru reynd í báðum stjórnarflokkum munu svo margir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar falla, að þrír þingmenn Hreyfingarinnar munu ekki megna að styrkja stjórnarhræið nægilega til að það komist upp af hnjánum aftur.

Kosningar hljóta óhjákvæmilega að verða í vor og í kjölfar þeirra mun þjóðin vonandi fá starfhæfa ríkisstjórn, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, sem fær verður um að leiða þjóðina út úr þeim þrengingum sem nú er við að glíma og núverandi ríkisstjórn hefur gefist upp á að glíma við.


mbl.is Lýsa vantrausti á forseta Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refskák eða fjöltefli innan VG

Björn Valur Gíslason, sérstök málpípa Steingríms J., ræðst harkalega að samflokkskonu sinni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, fyrir þá afstöðu hennar að eðlilegt sé að þingmál fái eðlilega umræðu og afgreiðslu á Alþingi, hvert sem málefnið er og hvaða þingmaður flytur það.

Í útvarpsþætti í morgun lýsti Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, því yfir að vegna sömu afstöðu ætti Ögmundur Jónasson að víkja úr ráðherrastóli og gaf í skyn að þingflokkur VG myndi reka hann úr embættinu fljótlega.

Á undanförnum mánuðum hefur kvarnast verulega úr þingmannaliði VG, en þrír hafa sagt sig úr þingflokknum nú þegar og óvíst er orðið um stuðning Jóns Bjarnasonar við ríkisstjórnina eftir að hann var hrakinn úr ráðherraembætti og Þráinn Bertelsson hefur lýst því yfir að hann muni ekki framar ábyrgjast ríkisstjórn með Össur og Ögmund innanborðs.

Björn Valur segir að Guðfríður Lilja tefli refskák, sem hann telur ekki víst að hún nái að tefla til sigurs, enda þurfi meira til en venjulega skáksnilli svo vel fari í slíku tafli.

Ekki verður annað séð en að innan VG sé verið að tefla pólitískt og persónulegt hatursfjöltefli, þar sem allir tefla við alla og enginn sé annars bróðir í þeim leik.


mbl.is Varasamt að tefla refskák
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýtt undir sjálfsdýrkun Ólafs Ragnars

Ólafur Ragnar Grímsson býr yfir ýmsum eiginleikum og sá sem er einna mest áberandi er óstjórnleg og lítt haminn sjálfsdýrkun.

Ólafur Ragnar hefur verið mesta kamleljón íslenskra stjórnmála og hefur með ótrúlegum hætti tekist að snúa sig frá því að vera hataðasti maður þjóðarinnar til þess að verða sá dáðasti. Það eina sem í raun þurfti til þess var að fara að vilja fjórðungs kjósenda, sem skoruðu á hann að synja Icesavelögunum staðfestingar og með því ávann hann sér það álit að vera bjargvættur þjóðarinnar frá ömurlegustu ríkisstjórn Íslandssögunnar.

Í áramótaávarpi sínu gaf Ólafur í skyn að hann væri tilbúinn til þess að bjóða sig fram til forsetaembættisis í fimmta sinn, ef það væri "þjóðarvilji". Nú hefur stuðningsmönnum hans tekist að magna upp stemningu í þjóðfélaginu fyrir áskorun á hann að bjóða sig fram enn og aftur og stefna að ekki færri áskorunum á hann en a.m.k. þann fjölda sem þátt tók í Icesaveundirskriftunum.

Það mun auðvitað takast og Ólafur mun verða forseti fimmta kjörtímabilið. Það mun einnig verða til þess að sjálfsdýrkunin mun ná nýjum hæðum og mun endalaust verða vitnað til þessarar miklu ástar þjóðarinnar og að vald forsetans komi beint frá henni.

Það verður ömurlegra en nokkru sinni að hlusta á véfréttaávörpin frá Bessastöðum á næsta kjörtímabili.


mbl.is 10.000 undirskriftir á sólarhring
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skömm Þórs Saari mun lengi lifa

Þór Saari eys svívirðingum í allar áttir um þá þingmenn sem greiddu atkvæði gegn tillögu pólitískra ofstækisseggja á Alþingi um frávísun á þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um niðurfellingu Landsdómsákærunnar á hendur Geir H. Haarde.

Þór nafngreinir nokkra þingmenn sérstaklega og segir að skömm þeirra muni lifa um aldur og ævi vegna þess að þeir greiddu atkvæði samkvæmt samvisku sinni og vildu ekki setja það fordæmi að tillögum væri vísað frá eingöngu til að losna við óþægilegar umræður á Alþingi.

Ekki er ljóst hvort þessir umræddu þingmenn, sem Þór Saari leyfir sér að atyrða á þennan hátt, munu greiða tillögu Bjarna atkvæði sitt þegar þar að kemur, en þeir hafa það þó fram yfir Þór Saari að virða tillögufrelsi einstakra þingmanna og rétt þeirra til að fá mál sín rædd og afgreidd efnislega á þinginu eftir rökræður og vandlega yfirferð í þingnefnd.

Þór Saari vildi hefta bæði tillögu- og málfrelsi þingmanna með málflutningi sínum á þinginu við afgreiðslu þessa máls og mun skömm hans fyrir þá afstöðu og framkomu við umræðuna lengi lifa í huga þeirra er með því fylgdust.


mbl.is „Hafi þau skömm fyrir um aldur og ævi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í milliriðil á ölmusumörkum?

Allt bendir til að Slóvenar hafi hreinlega gefið íslenska handboltaliðinu tvö mörk í leikslok, þegar Slóvenar voru fjórum mörkum yfir í leiknum og gert það til þess að koma íslenska liðinu í milliriðil án stiga, en komast þangað sjálfir með tvö stig í farteskinu.

Þetta munu þeir hafa gert í þeirri vissu að Króatar myndu vinna Noreg, sem þar með félli úr keppni og lyki þar með þátttöku á mótinu. Svona "svindl" á stórmóti er algerlega óforsvaranlegt og á ekki að líða.

Forráðamenn íslenska liðsins ættu að krefjast rannsóknar á þessu máli og sannist að þetta sé rétt, hljóta Slóvenar að verða dæmdir frá keppninni og þar með færu Norðmenn áfram í milliriðil í þeirra stað.

Verði Slóvenar ekki reknir heim með skömm eftir þessa leikfléttu geta Íslendingar varla gert annað en að afþakka þátttöku í milliriðlinum og gefa sætið eftir til Norðmanna.

Frammistaða liðsins í keppninni fram til þessa verðskuldar hvort sem er ekki frekari þátttöku í þessari keppni.


mbl.is Þjálfarinn gaf skipun um að gefa eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salti stráð í fjölmiðlasárið

Í síðustu viku var þjóðin særð holundarsári með æsifréttum fjölmiðla af iðnaðarsalti sem notað hefur verið í matvælaiðnaði hér á landi undanfarin ár.

Matís og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafa nú, með mælingum, staðfest fullyriðnar framleiðanda saltsins um að saltið sé framleitt undir ströngum heilbrigðiskröfum og sé í raun enginn munur á iðnaðarsalti og matarsalti, annar en kornastærðin.

Þar með er komið í ljós að fjölmiðlafárið var einungis stormur í vatnsglasi, eins og fjölmiðlarnir blása iðulega upp og valda með því miklum usla í þjóðfélaginu, oft af litlu tilefni eins og í þessu máli.

Þegar upp er staðið hafa fjölmiðlarnir sært sjálfa sig mest með þessu upphlaupi og nú má segja að iðnaðarsalti sé stráð í það djúpa sár.


mbl.is Iðnaðarsaltið ekki hættulegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískur sakamálafarsi

Nú fer fram á Alþingi pólitískur farsi, dulbúinn sem umræða um sakamál, og fara nokkrir þingmenn VG og Samfylkingar með helstu hlutverkin í skrípaleiknum. Hlutverk þessara þingmanna er að þykjast ekki hafa vit á hlutverki sínu sem ákærenda í sakamáli og láta eins og þeim komi málið gegn Geir H. Haarde ekki við lengur, eftir farsann sem leikinn var í þinginu haustið 2009 þegar tókst að hringla málum svo að engum ráðherra var stefnt fyrir Landsdóm öðrum en Geir.

Atli Gíslason, sem var formaður nefndarinnar sem lagði til að fjórir ráðherrar yrðu kærðir, er þó maður að meiri eftir að hann viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð við afgreiðslu málsins, en hann sagði m.a: í þinginu í dag:  "Ég hygg að okkur hafi orðið á mistök, þar á meðal þeim sem hér stendur, og dæmi það ef til vill fyrst og fremst á því, að flestir ef ekki allir þingmenn yfirgáfu þingsal eftir atkvæðagreiðsluna með stein í maganum og óbragð í munninum. Ef til vill olli sú spenna og geðshræring, sem var í þingsal, því að atkvæðagreiðslu um málið í heild var ekki frestað.  Það er gott að vera vitur eftir á og rétt að vera vitur eftir á geri maður mistök."

Atli sagði einnig að algerlega óeðlilegt væri að vísa tillögu Bjarna Benediktssonar um niðurfellingu málsins fyrir Landsdómi frá þinglegri meðferð og að tillögunni ætti að vísa til Saksóknarnefndar Alþingis, þar sem nefndin og þar með Atli sjálfur, ætti að taka tillöguna til vandlegrar og efnislegrar umföllunar.

Það er ekki nema von að Atla hafi ekki verið vært innan þingflokks Vinstri grænna. 


mbl.is Tel að við höfum gert mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seldi sálina og sannfæringuna fyrir ráðherrastól

Steingrímur J. heldur áfram að gráta krókódílatárum yfir innlimunarferlinu í væntanlegt stórríki Evrópu og þykist ennþá vera á móti því að landið verði innlimað í það sem áhrifalaus útnárahreppur, en til að hanga á ráðherrastólnum sínum, neyðist hann til að dansa þann Hrunadans með Samfylkingunni.

Í viðtali við Bændablaðið áréttar Steingrímur þetta, t.d. með þessari setningu:  "Ég reiknaði ekki með því að þetta yrði svona hart sótt en það var einfaldlega niðurstaðan að grundvöllurinn fyrir því að af þessari ríkisstjórn gæti orðið var einhvers konar lending í þessu máli á þeim nótum sem varð."

Þetta getur ekki heitið neitt annað en sala á sálu sinni og sannfæringu.  Nema Steingrímur J. segi allt annað en hann meinar um þetta mál, eins og svo mörg önnur. 


mbl.is Ekki skynsamlegt að draga umsókn til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir Jóhanna við þessum svikabrigslum?

Jóhanna Sigurðardóttir fór mikinn í þingræðu fyrir nokkrum dögum og sakaði Samtök atvinnulífsins um lygar og áróður vegna gagnrýni samtakanna á ríkisstjórnina vegna ítrekaðra svika hennar á loforðum sínum í tengslum við kjarasamninga, allt frá árinu 2009.

Jóhanna minntist hins vegar ekkert á að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa jafnvel verið enn harðorðari en SA í garð svikastjórnar Jóhönnu og Steingríms og margir þeirra vilja segja upp kjarasamningum um mánaðamótin, jafnvel þó atvinnurekendur hafi staðið við allt sem þeir skrifuðu undir.

Nú eru uppi háværar raddir, t.d. frá formanni Verkalýðsfélags Akraness, um að ASÍ lýsi yfir vantrausti á ríkisstjórnina og meira að segja Samfylkingarmaðurinn Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur lýst því yfir að launþegar muni ekki gera fleiri samninga með aðkomu ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms, enda sé ekki eitt einasta orð að marka þau skötuhjúin.

Ætli Jóhanna haldi ræðu á Alþingi af þessu tilefni? Eða þá Steingrímur J?


mbl.is Þungur tónn vegna svika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband