Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Harður, en góður dómur

Baldur Guðlaugsson, fyrrv. ráðuneytisstjóri, hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi fyrir innherjasvik með sölu hlutabréfa sinna í Landsbankanum, skömmu fyrir fall hans, enda taldi dómarinn að Baldur hefði búið yfir upplýsingum sem almenningi voru huldar um stöðu bankans og að hluthöfum hans yrði ekki bjargað, þegar og ef bankinn færi á hausinn.

Baldur er í raun smápeð í þeirri ótrúlegu fjármálaskák sem tefld var í aðdraganda bankahrunsins og sú upphæð sem hans "viðskipti" snerist um, séu algerir smáaurar miðað við fjármálagerninga aðalleikara þeirrar refskákar allrar. Því verður þessi dómur að teljast nokkuð harður, en þó góður og sanngjarn og gefur vísbendingu um að ekki verði tekið neinum vettlingatökum á þeim sem stærri og meiri brot frömdu á árunum fyrir bankahrun.

Vegna þess hve hægt hefur gengið í rannsóknum meintra sakamála, tengdum banka- og útrásargengjunum, hefur almenningur haft á tilfinningunni að réttvísin myndi ekki ná fram að ganga gagnvart þessum kónum, en dómurinn í dag mun auka bjartsýni á að réttlætið muni ná fram að lokum.

Dómurinn í dag, sem vonandi verður staðfestur í Hæstarétti, gefur tóninn um langa fangavist þeirra sem dæmdir verða að lokum fyrir "bankaránin innanfrá" og þá munu ýmsir sem hátt hafa hreykt sér fram að þessu, þurfa að beygja hné og höfuð í skömm sinni, án þess þó að viðurkenna nokkurn tíma sekt sína.

Niðurstaðan er sem sagt sú, að dómurinn er vísbending um að þeir sem komu þjóðinni á kaldan klaka muni að lokum fá makleg málagjöld.


mbl.is Baldur í 2 ára fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neikvæður áróður JÁsinna

Þær marktæku skoðanakannanir sem birst hafa fram að þessu, hafa allar sýnt að meirihluti kjósenda myndi segja JÁ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave og selja þar með sjálfa sig og aðra Íslendinga í skattalegan þrældóm næstu ár, jafnvel áratugi, til greiðslu á vöxtum og hluta höfuðstóls ólöglegra krafna Breta og Hollendinga vegna glæpsamlegrar bankastarfsemi, sem almenningur gat ekki og hafði ekki nokkra aðkomu að.

Síðustu daga hafa dunið á landsmönnum gífurlegur hræðslu- og ógnaráróður JÁsinna, en eins og áður virkar slík baráttutækni alveg öfugt, enda hafa hlutföll svarenda algerlega skipst samkvæmt nýjustu skoðanakönnun MMR, sem gerð var fyrir Stöð 2 og með sama áframhaldi mun barátta JÁsinna skila stórsigri þeirra, sem ekki hafa viljað láta neyða sig til meiri skattaþrælkunar, en þarf til að koma ríkissjóði út úr sínum eigin fjárlagavanda. Þykir flestum nóg um þær álögur allar, enda sér enginn fram á að núverandi ríkisstjórn leysi úr kreppunni með aðgerðum sem greitt gætu fyrir atvinnuuppbyggingu og hagvexti.

Þó ekkert sé öruggt ennþá með hvernig þessar kosningar fara, þá er a.m.k. búið a sanna enn einu sinni, að kjósendur láta ekki stjórna sér með skrumi og hótunum.


mbl.is 57% ætla að segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allar kauphækkanir beint í Icesave - annars óbreytt laun?

SA og ASÍ hafa sameiginlega gefið út þá yfirlýsingu, að verði þrælasamningurinn um Icesave ekki samþykktur á laugardaginn, þá verði ekki um neina kjarasamninga að ræða, a.m.k. ekki nema þá til skamms tíma með afar litlum, sem engum, kauphækkunum.

Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, að reikna eigi með að allar launahækkanir næstu ára skuli ganga nánast beint til Breta og Hollendinga verði þrælasalan samþykkt, en að öðrum kosti fái launþegar engar kjarabætur, enda geti þeir þá lifað af óbreyttum tekjum, losni þeir við að borga þrælaskattinn til hinna erlendu drottnara.

Aldrei í sögunni hafa aðrar eins yfirlýsingar komið frá aðilum vinnumarkaðarins í tengsum við kjarasamninga.

Stórfurðulegt er að lítið vandamál virðist hafa verið að samstilla ASÍ og SA í þessu efni.

Hafa þessi samtök einhverjar samþykktir félaga sinna á bak við þessar hótanir?


mbl.is Fundur í kvöld eða fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr bullar í gegn um sjálfan sig

Jón Gnarr, hinn algerlega óhæfi borgarstjóri Reykjavíkur, virðist hafa farið mikinn á borgarstjórnarfundi í dag og ásakaði þar m.a. þúsundir foreldra í borginni um að hafa hvorki vit á barnauppeldi eða skólamálum, en þóttist hins vegar sjálfur vera mikill snillingur á þeim sviðum, eins og honum finnst hann vera á flestum öðrum. Ekki eru þó margir sem sammála eru honum um að hann hafi sýnt hæfileika sína í einu eða neinu öðru en uppistandi og grínleik.

Eitt "gullkornið" sem hraut út úr þessum mislukkaða borgarstjóra á fundinum var eftirfarandi, eftir að hafa hellt sér yfir einn borgarfulltrúann með gagnrýni sem var á algjörum misskilningi byggð, samkvæmt fréttinni: "Jón sagðist biðjast velvirðingar hefði hann farið ranglega með. Hann vildi þó segja, að hann væri að minnsta kosti maður til að tala fyrir sig sjálfur og þurfi ekki að tala í gegnum Davíð Oddsson og Agnesi Bragadóttur."

Ómögulegt er að skilja af þessum orðum, hverjir það eru sem tala í gegn um Davíð Oddsson og Agnesi Bragadóttur, því varla eru það þeir borgarfulltrúar sem ræða málin úr ræðustóli borgarstjórnar, svo sneiðinni hefur þá væntanlega verið beint til foreldra leik- og grunnskólabarna borgarinnar, sem þó hafa í eigin persónu haldið tilfinningaþrungnar ræður á opnum borgarafundum og skilað áskorunarlistum með þúsundum nafna í mótmælaskyni við illa grundaðar tillögur hins volaða meirihluta í borgarstjórninni.

Skyldi vera til of mikils mælst, að borgarstjórinn í Reykjavík segi einhvern tíma eitthvað af viti, þegar hann kýs að tjá sig opinberlega, en verði sér og borginni ekki alltaf til skammar og aðhláturs. 


mbl.is Pólitísk skemmdarverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bæjarins bestu" að öðlast heimsfrægð

Minnsti veitingastaður landsins og einn sá elsti er um það bil að öðlast heimsfrægð, en Victoria Haschka, matar- og ferðapistlahöfundur, fer fögrum orðum um þennan íslenska þjóðarrétt og mekka hans, pylsuvagninn við hafnarbakkann í Reykjavík.

Áður höfðu "Bæjarins bestu" öðlast sínar 15 mínútur af frægð í heimspressunni, þegar Bill Clinton þáði þar veitingar í heimsókn sinni hingað til lands um árið, en að vísu þurfti hann að fara í hjartaþræðingu skömmu síðar, en engar sannanir hafa fundist fyrir því að SSpylsan hafi átt þar nokkra sök.

Þessi ágæti pylsuvagn er búinn að þjóna Reykvíkingum í áratugi og pylsurnar þar hafa eitthvert alveg sérstakt "leynibragð", sem engum öðrum tekst að jafna og því á staðurinn sinn trausta viðskiptahóp, eins og biðröðin sem þar er alla jafna sýnir glöggt.

Vonandi mun þetta frábæra pylsuveitingahús fá að standa óhreyft á sínum stað í marga áratugi ennþá og veita gleði, birtu og yl inn í hjörtu bæjarbúa. 

Hátíðlegri en þetta getur umsögn um veitingastað varla orðið. 

Takk fyrir mig.


mbl.is Íslenska pylsan slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamál veraldarinnar leyst á kostnað Íslendinga?

Guardian fjallar í dag um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort veita skuli ríkisábyrgð á kröfur Breta og Hollendinga á hendur Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta, með tilheyrandi vaxtakostnaði upp á tugi milljarða sem lenda myndi á íslenskum skattgreiðendum, fyrir utan áhættu á tuga- eða hundraðamilljarða viðbótargreiðslum vegna höfuðstóls.

Blaðið segir stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi naga á sér neglurnar í ótta sínum um að íslenskir kjósendur sýni þá skynsemi að fella lögin í kosningunum, enda vilja þau síst af öllu að málið fari fyrir EFTAdómstólinn, þar sem líklegasta niðurstaðan yrði sigur Íslendinga, enda engin ESBlög sem geri ráð fyrir slíkum ríkisábygðum.  Ef einhvern tíma og einhversstaðar hefði verið gert ráð fyrir ábyrgð skattgreiðenda á tryggingasjóðum, þá þyrfti auðvitað ekki að neyða Íslendinga til að samþykkja slíkt núna.

Í fréttinni segir m.a:  "Afgerandi lagalegri niðurstöðu í þá veru yrði ekki fagnað á alþjóðavettvangi þar sem að hún myndi varpa ljósi á það hversu gríðarlega illa fjármagnaðir innistæðutryggingasjóðir í Bretlandi, Hollandi og í raun í öllum heiminum eru."

Því verður seint trúað, að íslenskir skattgreiðendur taki sjálfviljugir á sig tuga- eða hundraðamilljarða kostnað til þess eins að setja fordæmi um að allir skattgreiðendur veraldarinnar verði hnepptir í slíkan skattaþrældóm fyrir glæfralega bankastarfsemi, sem nánast alls staðar hefur þrifist undanfarin ár.

Íslendingar hljóta að vera nógu ábyrgir þjóðfélags- og alheimsþegnar til að segja risastórt NEI, þann 9. apríl n.k.


mbl.is Bretar og Hollendingar sagðir óttast dómstólaleiðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að greiða Icesave? - Veit það ekki

Á sjöunda þúsund manns hefur nú greitt atkvæði utankjörfundar í þjóðaratkvæðagreiðslunni um hvort staðfesta skuli, eða hafna, lögunum um að gera íslenska skattgreiðendur ábyrga fyrir vöxtum og að hluta til höfuðstól Icesaveskuldar Landsbankans.

Ótrúlega fáir virðast gera sér grein fyrir því að þessar kröfur Breta og Hollendinga verða ekki greiddar, nema með miklu meiri álögum á skattgreiðendur hér á landi, en nú eru við lýði og þykur þó flestum nóg um það skattabrjálæði sem þjakar landann um þessar mundir.

Afar athyglisverð könnun var gerð fyrir Andríki um afstöðu fólks til þess, hvernig ætti að greiða þessar kröfur og kom í ljós að aðeins 8% vildu gera það með hækkun skatta, en 55% vissu hins vegar ekki hvernig ætti að fara að því.  Þessa könnun má sjá HÉRNA

Það er með ólíkindum að stór hópur kjósenda skuli halda að þetta mál hverfi einhvernveginn út í buskann með því að segja JÁ þann 9. apríl n.k.

Verði niðurstaðan sú, að meirihlutinn segi JÁ, þá fyrst tekur alvara lífsins við, með stórfelldum skattahækkunum og niðurskurði ríkisútgjalda, með tilheyrandi auknu atvinnuleysi opinberra starfsmanna.


mbl.is Tvöfalt fleiri atkvæði utan kjörfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri villan á undanhaldi

Nýjasti þjóðarpúls Gallup opinberar þau stórkostlega ánægjulegu tíðindi að vinstri villan í íslenskum stjórnmálum er á hröðu undanhaldi.

Stjórnarflokkarnir missa stöðugt meira af því fylgi sem þeir fengu í síðustu Alþingiskosningum og kemur auðvitað engum á óvart eftir tveggja ára óstjórn og nánast baráttu fyrir framlengingu kreppunnar og stöðnun atvinnulífsins, réttara sagt herferð gegn allri þeirri atvinnuuppbyggingu sem þó hefði verið völ á, ef ekki væri fyrir andstöðu ráðherranna við þá fjárfesta, sem bíða á hliðarlínunni og vilja stofna hér og reka mannaflsfrek fyrirtæki.

Því miður er kjörtímabilið aðeins hálfnað og því á þjóðin á hættu að þurfa að búa við ríkisstjórnina í heil tvö ár í viðbót, gerist ekki eitthvert kraftaverk sem kemur henni frá völdum. Reyndar er ósamkomulagið milli flokkanna og innan þeira svo mikið, að væntanlega springur ríkisstjórnin fljótlega af sjálfsdáðum, þannig að engin yfirnáttúruleg kraftaverk þurfi til.

Kjörtímabilið munu kjósendur hins vegar láta verða sér víti til varnaðar og í næstu kosningum mun ríkisstjórninni verða refsað að verðleikum, fari svo að hún hangi út tímabilið.


mbl.is Litlar breytingar á fylgi flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þarf lengi að íhuga málin?

Nú eru liðin tvö og hálft ár frá bankahruni og mörg mál, sem tengjast rekstri bankanna árin þar á undan og ýmsar athafnir stjórnenda þeirra, eigenda og helstu skuldara, til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara, en lítið virðist vera farið að sjást fyrir endann á öllum þessum rannsóknum ennþá og engir verið ákærðir, nema tveir, þrír, smáfuglar.

Eftir allan þennan tíma birtast fréttir af því að skilanefnd og slitastjórnir Landsbankans "íhugi" að höfða skaðabótamál gegn fyrrverandi stjórnarmönnum bankans, vegna vanrækslu í störfum með því að hafa ekki komið í veg fyrir 34 milljarða millifærslur út úr bankanum, daginn sem hann hrundi.Þetta munu vera millifærslur fjármuna inn á reikninga Straums og jafnvel fleiri félaga í eigu eða tengslum við aðaleigendur Landsbankans, feðgana Björgólf og Björgólf Thor.

Samkvæmt fréttinni hafa skilanefndin og slitastjórnin skrifað þessum fyrrverandi stjórnarmönnum bankans bréf og tilkynnt þeim um þessa "íhugun" sína, enda hafi þeim átt og mátt vera ljóst að bankinn væri að hruni kominn.  Fréttin endar á þessum orðum:  "Í bréfinu er því haldið fram að bankaráði og stjórnendum bankans hefði verið ljóst, eða hefði mátt vera ljóst, að bankinn var á þessum tíma kominn í þrot, og að athafnaleysi þeirra fæli í sér skaðabótaskyldu"

Hafi stjórnarmönnum bankans ekki verið ljóst á þessum tíma í hvað stefndi, hafa þeir verið algerlega óhæfir til að gegna stjórnarstörfum í bankanum og hafi þeir vitað hvert stefndi, sem er auðvitað líklegra, hafa þeir gerst sekir um stórkostlega vanrækslu með því að sjá ekki til þess að öllum stærri millifærslum væri hætt, þegar þarna var komið og slíkt athafnaleysi, eða að halda að sér höndum vitandi vits, hlýtur að kalla á að reynt verði að draga þá til ábyrgðar.

Hvað þarf að íhuga í tvö og hálft ár í þessu sambandi?


mbl.is Íhuga mál á hendur fyrrverandi stjórnarmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárfesta fyrst - ríkisborgararéttur síðar

Lögfræðingurinn David Lesperance útskýrir í löngu máli ástæður þess að hópur kanadískra og bandarískra auðmanna hefur áhuga á að fá íslenskan ríkisborgararétt og séu tilbúnir til þess að festa háar fjárhæðir í atvinnurekstri hér á landi.

Ástæðurnar, sem gefnar eru upp, eru m.a. þær að þeir vilji forða börnum sínum frá því að verða kvödd til herþjónustu, þeir vilji ekki að skattfé þeirra sé notað til hernaðarmála, þeir séu náttúruunnendur og hafi áhuga á "grænni orku", ekki séu nein kjarnorkuver á Íslandi o.s.frv., o.s.frv.

Engin ástæða er til þess að afgreiða svona mál með upphrópunum um að hér séu tómir glæpamenn á ferðinni, sem séu á einhvern hátt að forðast réttvísina í heimalöndum sínum, enda engar fréttir borist af því að þeir liggi undir rannsóknum vegna starfa sinna og hvað þá ákærum.

Vel mætti hugsa sér að setja fram skilyrði um fjárfestingu fyrst og ríkisborgararétt síðar, þ.e. að fyrst þurfi útlendingar sem óska íslensks ríkisfangs að fjárfesta í atvinnufyrirtækjum hérlendis, en ekki bara koma hingað með einhverja peninga, sem lagðir yrðu inn á bankareikninga eða til kaupa á ríkisskuldabréfum.

Fjárfesti slíkur aðili í fyrirtækjarekstri hérlendis, eða stofni ný fyrirtæki, með fjárfestingu upp á t.d. 500 milljónir króna, þá þurfi hann ekki að bíða nema í eitt ár eftir ríkisborgararétti, 400 milljónir gæfu tveggja ára biðtíma, 300 milljónir samsvöruðu þriggja ára bið og koll af kolli.

Slíkt kerfi myndi tryggja raunverulega fjárfestingu í atvinnuskapandi fyrirtækjarekstri, sem viðkomandi myndi eiga í erfiðleikum með að hlaupa fyrirvaralaust með úr landi aftur og einnig myndi þessi aðferð tryggja að raunverulegur og fölskvalaus áhugi væri fyrir hendi og ekkert annað, sem réði ferðinni í málinu.

Jafnframt þyrfti að setja skilyrði um að öll fjölskylda viðkomandi fylgdi með í pakkanum og eldra ríkisfangi yrði afsalað um leið og það íslenska yrði veitt.


mbl.is Spurningar og svör um auðmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband