Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
2.4.2011 | 19:21
Gnarrandi hrun
Samkvæmt nýjustu Gallupkönnun hefur fylgi Besta flokksins aðeins hrunið úr 35% fylgi frá borgarstjórnarkosningum, niður í 19%.
Verður þetta að teljast ótrúlegt fylgi við þennan skrípaflokk, sem ekkert bitastætt hefur lagt til vitrænnar umræðu um borgarmálefni og lagt fram hverja klúðurstillöguna um breytingar á grunnþjónustu borgarinnar, sem íbúarnir hafa snúist öndverðir gegn og kveðið í kútinn með miklum samtakamætti.
Að nánast fimmti hver kjósandi í Reykjavík skuli ennþá segjast styðja þessa trúða og skemmtikrafta, sem eru mjög góðir sem slíkir en ömurlegir stjórnmálamenn, er stórfurðulegt og rannsóknarefni fyrir mannfræðinga.
Reykvíkingar munu þó sitja uppi með þennan einnota stjórnmálaflokk í þrjú löng ár í viðbót. Það er þung refsing fyrir kjósendur, sem ætluðu sér bara að refsa gömlu flokkunum með því að kjósa "eitthvað nýtt".
![]() |
Fylgishrun hjá Besta flokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.4.2011 | 17:58
Hefur ASÍ umboð aðildarfélaga og launþega í Icesave?
ASÍ eru heildarsamtök verkalýðsfélaga á almennum vinnumarkaði og hefur það hlutverk að annast samræmingu og úrvinnslu krafna féganna í ýmsum málum, ekki síst varandi kjarasamninga og önnur hagsmunamál launþega í landinu.
Slíkum fjöldasamtökum skyldi maður halda að væri stjórnað á lýðræðislegan hátt með sem mestri aðkomu þeirra félaga sem samtökin mynda og ekki síður frá grasrótinni í aðildarfélögunum, þ.e. launþegunum sjálfum.
ASÍ sendir um þessar mundir frá sér áróðursrit til að hvetja almenning í landinu til þess að taka á sig tug- eða hunraðamilljarða skattaklafa vegna ólöglegra krafna ríkisstjórnar Íslands, Breta og Hollendinga á hendur honum. Helstu rökin fyrir samþykkt fjárkúgunarkröfunnar virðast vera þau, að betra sé að heiðra óbótamanninn en að verjast honum og fórna til þess öllum væntanlegum kjarabótum, sem hægt verður að kreista út úr atvinnulífinu í náinni framtíð.
Ekkert væri við þessa áróðursherferð ASÍ að athuga, ef hún væri studd samþykktum aðildarfélaganna og þær væru studdar af niðurstöðum skoðanakannana innan verkalýðshreyfingarinnar í heild, en ekki hefur heyrst af nokkrum slíkum könnunum eða umræðum yfirleitt meðal almennra verkalýðsfélagsmanna.
Samkvæmt skoðanakönnunum eru það fyrirtækjaeigendur, hálaunaðir stjórnmálamenn, forstjórar, embættismenn og annað hálaunafólk sem helst er fylgjandi samþykkt skattaklafans, en þeir sem lægri launin hafa á móti honum, enda vita þeir sem er, að þeim verður ætlað að strita fyrir kostnaðinum, en hálaunafólkið mun að sjálfsögðu finna mun minna fyrir okinu.
Telur ASÍ virkilega að það sé kjarabót fyrir launþega í landinu að bæta sköttum vegna Icesave á sig, til viðbótar við annað skattabrjálæði sem yfir hefur dunið að undanförnu og á eftir að skella á vegna hallareksturs ríkissjóða á næst ári?
Þær skattahækkanir munu koma til viðbótar sköttunum sem lagðir verða á vegna þess hagvaxtar sem flytja á úr landinu í nafni Icesave.
![]() |
Gerir athugasemdir við málflutning ASÍ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.4.2011 | 08:35
Kvótamál í brennidepli kjaraviðræðna
Eitthvað virðist vera að draga saman í sjónarmiðum útvegsmanna og ríkisins varðandi skipan fiskveiðistjórnunarmála, a.m.k. einhverskonar millilending í bili sem liðkað gæti fyrir gerð kjarasamninga til næstu þriggja ára, en niðurstaða í þessu máli er alger forsenda þess að SA treysti sér til að skrifa undir kjarasamninga til þriggja ára.
Ótrúlegur tími með tilheyrandi pukri, leynd og þvermóðsku, hefur farið í þetta mál hjá Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegsráðherra, sem nú er búinn að veltast með málið í tvö ár og liðið á annað ár síðan nefnd á hans vegum lauk störfum og skilaði af sér "sáttaleið", sem ríkisstjórnin hefur svo aldrei verið sátt við og verið að pukrast síðan með sínar eigin breytingarleiðir, sem enginn fær að vita um hvað snúast, eða hvenær ættu að taka gildi.
Mest óánægja hefur verið með heimildir útgerða til að leigja og selja frá sér kvóta og reyndar alveg með ólíkindum, að ekki skuli vera búið að taka á þeim málum fyrr. Þrátt fyrir alla óánægjuna með framsalið, hefur ekki náðst nein samstaða um hvernig því skuli breytt, eða hvernig hleypa eigi kvótalausum útgerðum inn í kerfið, en vitlausasta hugmyndin í því sambandi er þó sú, að setja allan kvóta á markað og bjóða hann hæstbjóðanda, árlega.
Á þessu bloggi hefur annað slagið verið fjallað um þessi mál og má t.d benda á ÞETTA blogg frá janúar 2010, þar sem stungið er upp á að hvert skip fái kvóta í samræmi við aflareynslu þriggja síðustu ára og þá einnig þeir sem gert hafa út á leigukvóta. Öll sala og leiga á kvóta yrði bönnuð, en skipti á tegundum milli skipa heimiluð, sem þá hefði áhrif á úthlutun næsta fiskveiðiárs.
Sá kvóti, sem afgangs yrði árlega yrði þá settur á markað og leigður hæstbjóðanda, t.d. til þriggja ára, en að sjálfsögðu myndi engum detta í hug að bjóða í slíkan kvóta, nema hafa skip til þess að veiða hann.
Núna verður Jón Bjarnason að brjóta odd af oflæti sínu og höggva á þann hnút sem kjaraviðræðurnar virðast vera komnar í, vegna þessa ótrúlega seinagangs við að kynna fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og þeirrar óvissu sem sjávarútvegurinn er í vegna þess.
![]() |
Nálgun í útvegsmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.4.2011 | 14:01
Opinn og gagnsær Jón Bjarnason
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er jafn óútreiknanlegur og veðrið þegar hann svarar spurningum fréttamanna um störf sín.
Vilji hann ekki svara spurningum, talar hann um veðrið, öskuna á suðurlandi eða svarar bara einhverju algerlega út úr kú, sem tengist umræðuefninu hverju sinni ekki neitt.
Fréttin á mbl.is endar svo á þessum orðum: "Aðspurður hvort hann teldi að frumvarpið liti dagsins ljós á yfirstandandi þingi svaraði Jón engu og gekk á brott."
Væntanlega er þetta háttarlag ráðherrans í fullu samræmi við það mottó ríkisstjórnarinnar að öll mál skuli "vera uppi á borðum" og "opin og gagnsæ".
![]() |
Svarar engu um frumvarpið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.4.2011 | 09:14
Ríkistjórnin að rumska - þarf að vakna alveg
Ríkisstjórnin hefur loksins, fullseint þó, rumskað og lofar nú að hætta að mestu að berjast gegn atvinnuuppbyggingu í landinu og gefur jafnvel fyrirheit um að gera eitthvað smávegis sjálf, til að koma hreyfingu á hlutina.
Þegar allt var við að sigla í strand í kjaraviðræðunum, kallaði stjórnin aðila vinnumarkaðarins á sinn fund og sýndi þeim "drög að tillögum" sínum í þessu efni, að vísu algerlega óútfærð en mjór er stundum mikils vísir. Fyrirheit voru gefin um átak í vegagerð, byggingu fangelsis, landspítala og hjúkrunarheimila, en þær byggingingar voru svosem fyrirhugaðar hvort sem var, en þó jákvætt að ekki skuli vera hætt við allt saman.
Galli var þó á tillögunni um aukna vegagerð, þar sem með fylgdi að í þær yrði farið ef leiðir til SÉRSTAKRAR fjármögnunar fyndust, en skammt er síðan tugir þúsunda manna skrifaði undir mótmælaskjal vegna hugmynda um vegatolla til að fjármagna þessar vegaframkvæmdir. Einnig var þess getið að fangelsisbygging yrði boðin út í apríl, en sá sem hreppa myndi framkvæmdina yrði að byggja fangelsið á eigin kostnað, eiga það og leigja til fangelsisyfirvalda. Með því yrði þá tekinn upp vísir að einkarekstri í fangavistun á Íslandi og ekki hefði maður fyrirfram búist við slíkri einkavæðingu í tíð hreinræktaðrar vinstri stjórnar, eins og núverandi ríkisstjórn segist vera.
Þrátt fyrir að nánast hafi ekki verið staðið við eitt einasta atriði, sem ríkisstjórnin undirritaði og lofaði að koma í framkvæmd með Stöðugleikasáttmálanum árið 2009, verður að fagna því að stjórnin skuli nú vera að rumska og verkefni aðila vinnumarkaðarins þarf að vera að koma henni almennilega á fætur og fá viðunandi lausn í þau mál sem ennþá standa útaf í þeim efnum, sem að ríkisvaldinu snýr.
Nú er að bretta upp ermar, bæta álverinu í Helguvík á framkvæmdaplanið, komast til botns í fiskveiðistjórnarmálum og nokkrum fleiri atriðum, sem nauðsynlegt er að ljúka sem fyrst.
Atvinnumálin verða að fá allan forgang á næstunni og skal ríkisstjórnin studd til allra góðra verka á því sviði.
![]() |
Tjáðu sig lítið um tillögurnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)