Hvað þarf lengi að íhuga málin?

Nú eru liðin tvö og hálft ár frá bankahruni og mörg mál, sem tengjast rekstri bankanna árin þar á undan og ýmsar athafnir stjórnenda þeirra, eigenda og helstu skuldara, til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara, en lítið virðist vera farið að sjást fyrir endann á öllum þessum rannsóknum ennþá og engir verið ákærðir, nema tveir, þrír, smáfuglar.

Eftir allan þennan tíma birtast fréttir af því að skilanefnd og slitastjórnir Landsbankans "íhugi" að höfða skaðabótamál gegn fyrrverandi stjórnarmönnum bankans, vegna vanrækslu í störfum með því að hafa ekki komið í veg fyrir 34 milljarða millifærslur út úr bankanum, daginn sem hann hrundi.Þetta munu vera millifærslur fjármuna inn á reikninga Straums og jafnvel fleiri félaga í eigu eða tengslum við aðaleigendur Landsbankans, feðgana Björgólf og Björgólf Thor.

Samkvæmt fréttinni hafa skilanefndin og slitastjórnin skrifað þessum fyrrverandi stjórnarmönnum bankans bréf og tilkynnt þeim um þessa "íhugun" sína, enda hafi þeim átt og mátt vera ljóst að bankinn væri að hruni kominn.  Fréttin endar á þessum orðum:  "Í bréfinu er því haldið fram að bankaráði og stjórnendum bankans hefði verið ljóst, eða hefði mátt vera ljóst, að bankinn var á þessum tíma kominn í þrot, og að athafnaleysi þeirra fæli í sér skaðabótaskyldu"

Hafi stjórnarmönnum bankans ekki verið ljóst á þessum tíma í hvað stefndi, hafa þeir verið algerlega óhæfir til að gegna stjórnarstörfum í bankanum og hafi þeir vitað hvert stefndi, sem er auðvitað líklegra, hafa þeir gerst sekir um stórkostlega vanrækslu með því að sjá ekki til þess að öllum stærri millifærslum væri hætt, þegar þarna var komið og slíkt athafnaleysi, eða að halda að sér höndum vitandi vits, hlýtur að kalla á að reynt verði að draga þá til ábyrgðar.

Hvað þarf að íhuga í tvö og hálft ár í þessu sambandi?


mbl.is Íhuga mál á hendur fyrrverandi stjórnarmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Upphaf munnlegrar greinargerðar rannsóknarnefndar Alþingis, er nefndin flutti á blaðamannafundi er hún hélt í Iðnó, er eitthvað á þennan veg: Bankarnir voru hreinsaðir að innan, af eigendum þeirra og stjórnendum. Eftirlitsstofnanir sváfu á verðinum og stjórnvöld (Alþingi) skapaði bönkunum of rúmt lagaumhverfi....................

 Nú er bráðum ár, síðan þessi orð féllu í Iðnó. Tók það skilanefndina allan þennan tíma, til að átta sig á því hvað rannsóknarnefndin átti við?  Reyndar má ætla að skilanefndir bankanna skoði sömu eða áþekk gögn og rannsóknarnefndin skoðaði til þess að komast að þessari niðurstöðu með bankanna.   Skilanefndirnar hófu störf á undan rannsóknarnefndinni. 

 En það er svo reyndar annar þáttur tengdur  þessu, sem er ennþá fáranlegri.   Það hefur ekki farið fram rannsókn og virðist ekki vera í gangi rannsókn á því, úr hvaða gögnum stjórnvöld og eftirlitsaðilar höfðu úr að moða, til þess að grípa til aðgerða.  Var t.d. ársreikningur Landsbankans fyrir 2007 og árshlutauppgjör sama banka fyrir fyrri hluta 2008, ástæða til aðgerða?  Var ástæða til þess að grípa til aðgerða gegn banka með AAA+ í mati matsfyrirtækjana.  Hvaða upplýsingar bjuggu að baki því mati?  Var það mat ,,keypt" af bönkunum?   Áttu ekki endurskoðendur bankanna að sjá í hvað stefndi? Eiga eftirlitsstofnanir að haga sér samkvæmt upplýsingum innan úr bönkunum sjálfum, uppáskrifuðum af endurskoðendum þeirra og bakkaðar upp af matsfyrirtækjunum, eða samkvæmt einhverjum öðrum upplýsingum? Ef ,,öðrum upplýsingum", þá hvaða upplýsingum? 

Kristinn Karl Brynjarsson, 3.4.2011 kl. 14:57

2 identicon

Það er ekkert skrítið að ekkert gerist. Skilanefndin er á svo glimrandi launum að þeir taka eins mikinn tíma í þetta og þeir geta og kanski örlítið meir.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.4.2011 kl. 17:43

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það væri með ólíkindum ef ekki væri verið að rannsaka alla þá þætti, sem þú nefnir, Kristinn Karl. Ólafur "sérstaki" hefur sagt að embættið væri að rannsaka um 100 mál af ýmsum toga, en gefur ekkert upp um hvað þau snúast.

Manni finnst hins vegar svolítið einkennilegt að eftir tveggja ára rannsóknir skuli ekki vera farið að ákæra í einu einasta máli, að undanskildum einum eða tveimur nánast smámálum, miðað við það sem hlýtur að eiga eftir að líta dagsins ljós.

Stjórnir bankanna, helstu starfsmenn, endurskoðendur og jafnvel aðkoma matsfyrirtækja geta varla annað en verið ofarlega í þessum rannsóknum öllum og vonandi fer eitthvað að skýrast í þessum málum, enda verður enginn friður í þjóðfélaginu fyrr en réttarhöld hefjast í þessum málum og rannsóknirnar fara að koma fyrir almenningssjónir.

Nú styttist óðum í réttarhlé og vonandi fer eitthvað af þessu að skýrast fyrir sumarleyfi.

Axel Jóhann Axelsson, 3.4.2011 kl. 18:31

4 identicon

Greyið við og auðvitað greyið erlendu lánadrottnarnir sem eru svo vongóðir að íslendingar í skilanefndum vinni bara góða og samviskusama vinnu - en fari ekki "Icelandic on them" aftur og tæmi líka skilanefndina og eignarhaldsfélögin að innanverðu :D    Þá verða stofnaðar nýjar nefndir, e.t.v. til að fara í mál við fyrrverandi skilanefndir :D og svo koll af kolli

Jonsi (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband