Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
3.8.2010 | 10:10
Er Björk að undirbúa þingframboð?
Björk Guðmundsdóttir fer nú mikinn í baráttu sinni gegn nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar til endurreisnar efnahagslífs þjóðarinnar og baráttunnar gegn atvinnuleysisbölinu, sem er versta plága, sem vinnufús einstaklingur þarf að líða, bæði efnahagslega og andlega.
Björk skirrist ekki við að færa vel í stílinn í baráttu sinni og segir t.d. við féttamann AFP að Magma Energy sé í þann veginn að kaupa upp allar auðlindir landsins í samstarfi við AGS, þegar hið rétta er að fyrirtækið hefur enga auðlind keypt, þó það hafi gert leigusamning um nýtingarrétt á heitu vatni á Suðurnesjum, en sá samningur er ekki kaupsamningur heldur nýtingarréttarsamningur. Samningstíminn er umdeilanlegur og vel hægt að fallast á, að hann sé til of langs tíma, en um kaup auðlinda er ekki að ræða, eftir sem áður.
Fullyrt var fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, að Björk sæi um að fjármagna framboð Besta flokksins og væri helsti bakhjarl hans og um það er ekkert nema gott að segja, því fólki er að sjálfögðu heimilt að styðja og styrkja hvern þann stjórnmálflokk sem því sýnist, en af einhverjum ástæðum var þessum fréttum hvorki játað né neitað af viðkomandi aðilum á sínum tíma.
Eftir sigur Besta flokksins í borgarstjórnarkosningunum hefur Björk snúið sér af fullum krafti að þjóðmálabaráttunni og þá helst umhverfismálum, sem talsverðra vinsælda njóta nú um stundir og þar sem útlit er fyrir að styttist í Alþingiskosningar, er varla nema von að þessi mikli áhersla, sem Björk leggur á, að komast í sviðsljósið vegna þessara mála, bendi til undirbúnings fyrir kosningarnar, sem munu verða ekki síðar en á næsta ári.
Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessa væntanlega stjórnmálaflokks á næstunni.
Björk: Magma vinnur með AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
2.8.2010 | 13:09
Helgin í rólegri kantinum og fáar nauðganir
Nú um Verslunarmannahelgina, þegar allir eiga frí og skemmta sér, nema verslunarmenn, hefur allt gegnið eins og vera bera um þessa miklu hátíðahelgi. Mikið hefur verið um fyllerí, dópneyslu- og sölu, ölvunarakstur og skemmdir á bílum, tugir líkamsárásarmála, fáeinar nauðganir og helgarendir með roki og rigningu.
Mótshaldarar og lögreglan eru yfir sig ánægð með framgang mála um helgina og þakka mótsgestum sérstaklega og innilega fyrir að ekkert alvarlegt skyldi koma uppá, en framangreind atriði þykja hreinir smámunir, enda enginn drepinn og nauðganirnar og líkamárásirnar varla til að hafa orð á. Þetta þykir Verslunarmannahelgi í rólegri kantinum og allir eru glaðir og ánægðir, enda eru venjulegar helgar, t.d. í miðborg Reykjavíkur stundum skrautlegri að þessu leyti en stórar útihátíðir, þar sem flestir eru samankomnir til að skemmta sér og sínum á eðlilegan og friðsaman hátt.
Í dag er hinn eiginlegi frídagur verslunarmanna og er þeim óskað til hamingju með daginn, þrátt fyrir að margir þeirra hafi ekkert frí átt um helgina og séu einnig að vinna í dag í þjónustustörfum fyrir hina, sem geta nýtt sér fríið til upplyftingar og skemmtunar.
Komi ekkert sérstakt uppá í dag, verður þessarrar Verslunarmannahelgar minnst fyrir óvenjulega rólegt fyllerí og fáar nauðganir.
Tjöld fjúka í Herjólfsdal | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.8.2010 | 19:22
Tekst VG að eyðileggja alla atvinnuuppbyggingu í landinu?
Svo virðist komið að VG sé að takast það ætlunarverk sitt að koma í veg fyrir alla frekari atvinnuuppbyggingu í landinu og eyðileggja þær vonir, sem þó voru fyrir hendi um erlenda fjárfestingu í landinu.
Þegar íslenskir útrásarglæpamenn voru búnir að eyðileggja og koma öllum helstu fyrirtækjum landsins á hausinn var eina vonin um að endurreisa efnahag landsins sú, að laða að erlenda fjárfesta, sem tilbúnir væru til að hætta fé sínu til atvinnuuppbyggingar hér á landi, svo sem í orkugeiranum, orkufrekum iðnaði, gagnaverum og heilsutengdri starfsemi. Eins og við var að búast hefur VG reynt að flækjast fyrir allri samvinnu við útlendinga um atvinnumál, en hvorki flokkurinn eða ríkisstjórnin í heild, hefur þó getað bent á nokkurn skapaðan hlut annan til eflingar atvinnu eða uppbyggingar efnahagslífsins, enda mun kreppan verða mun lengri og dýpri, en annars hefði þurft að verða.
Fyrsta erlenda fjárfestingin eftir hrun, voru kaup Magma Energy á HS orku og yfirtaka félagsins á réttinum til að nýta jarðvarma til raforkuframleiðslu, án þess þó að eignast auðlindina sjálfa, því eingöngu er um leigu á nýtingarrétti að ræða. Fjárfesting í frekari orkuöflun er alger grundvallarforsenda fyrir frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar og gagnavera, en með upphlaupi sínu virðist VG vera að takast að eyðileggja þessa fjárfestinu og þar með áður væntanlega iðnaðaruppbyggingu.
Það sem merkilegast er þó, er það, að takast skuli að æsa upp ótrúlega stóran hóp fólks til að taka þátt í þessu upphlaupi VG, en raunar hefur það sést margoft áður, hve auðvelt er að snúa skoðunum fólks og beina hjarðhegðuninni í þá átt, sem hentar áróðrinum hverju sinni.
Öll vitleysan í kringum þetta mál segir meira um okkur Íslendinga en Magma Energy og fyrirætlanir þess um fjárfestingar í landinu.
Beaty: Vilja ekki hætta við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)