Er Björk að undirbúa þingframboð?

Björk Guðmundsdóttir fer nú mikinn í baráttu sinni gegn nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar til endurreisnar efnahagslífs þjóðarinnar og baráttunnar gegn atvinnuleysisbölinu, sem er versta plága, sem vinnufús einstaklingur þarf að líða, bæði efnahagslega og andlega.

Björk skirrist ekki við að færa vel í stílinn í baráttu sinni og segir t.d. við féttamann AFP að Magma Energy sé í þann veginn að kaupa upp allar auðlindir landsins í samstarfi við AGS, þegar hið rétta er að fyrirtækið hefur enga auðlind keypt, þó það hafi gert leigusamning um nýtingarrétt á heitu vatni á Suðurnesjum, en sá samningur er ekki kaupsamningur heldur nýtingarréttarsamningur.  Samningstíminn er umdeilanlegur og vel hægt að fallast á, að hann sé til of langs tíma, en um kaup auðlinda er ekki að ræða, eftir sem áður.

Fullyrt var fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, að Björk sæi um að fjármagna framboð Besta flokksins og væri helsti bakhjarl hans og um  það er ekkert nema gott að segja, því fólki er að sjálfögðu heimilt að styðja og styrkja hvern þann stjórnmálflokk sem því sýnist, en af einhverjum ástæðum var þessum fréttum hvorki játað né neitað af viðkomandi aðilum á sínum tíma.

Eftir sigur Besta flokksins í borgarstjórnarkosningunum hefur Björk snúið sér af fullum krafti að þjóðmálabaráttunni og þá helst umhverfismálum, sem talsverðra vinsælda njóta nú um stundir og þar sem útlit er fyrir að styttist í Alþingiskosningar, er varla nema von að þessi mikli áhersla, sem Björk leggur á, að komast í sviðsljósið vegna þessara mála, bendi til undirbúnings fyrir kosningarnar, sem munu verða ekki síðar en á næsta ári.

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessa væntanlega stjórnmálaflokks á næstunni.


mbl.is Björk: Magma vinnur með AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Nýr flokkur með nýtt fólk, listfólk og grínara væri það besta sem komið gæti fyrir landið og fólkið í því. Það treystir enginn lengur þessum gömlu flokkum og þeirra fólki eftir allar lygarnar í því. Engir eru betur fallnir til að skemmta íslendingum en atvinnuskemmtarar. Lygar þeirra eru alla vega skemmtilegar.

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.8.2010 kl. 10:26

2 identicon

listfólk og grínara,NEI TAKK! Éf ég vil að skemmta mér það horfa ég á Comedy Central...ekki Alþingi.Er til bara þjófar og listfólk í þessu landi?????

ks (IP-tala skráð) 3.8.2010 kl. 10:43

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er nú ekki fögur framtíðarsýn, að ætla að skemmta sér við lygar atvinnuskemmtikrafta í stað leiðindanna af lygum atvinnustjórnmálamannanna.

Best væri að stjórnmálamenn ræddu málin af raunsæi og heiðarleika, þó seint verði þeir sammála, enda engin ástæða til því ávallt eru fleiri en tvær hliðar á hverju málefni.  Ekki væri síðra að skemmtikraftarnir héldu áfram að skemmta landanum á öðru sviði en stjórnmálasviðinu.  Stjórnmál, grín og fíflagangur eiga sáralitla samleið í heimi raunveruleikans.

Axel Jóhann Axelsson, 3.8.2010 kl. 10:48

4 identicon

"„Við erum með nóg af álverum á Íslandi,“ sagði söngkonan í viðtalinu.." Hvaða "Við"? Hún er búsett á Bretlandi og borgar sína skatta erlendis. Hefur ekki séð ástæðu til að styðja við atvinnuuppbyggingu eða almannaþjónustu á Íslandi.

Draumurinn um sæta litla Ísland með litla sveitabæi, krúttleg sjávarþorp og börn að leik með leggi og skeljar er eitthvað sem aðeins útrásarvíkingar eins og Björk geta leyft sér.

Krulli (IP-tala skráð) 3.8.2010 kl. 10:54

5 Smámynd: Þorvaldur Guðmundsson

Hver er ad færa i stilinn Axel, hvar stendur i frettinni ad Bjørk segi ad Magma se i tann veginn ad kaupa allar orkulindir landsins. Profadu ad taka nidur politisku gleraugun og lestu svo frettina aftur.

Þorvaldur Guðmundsson, 3.8.2010 kl. 11:19

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þorvaldur, upphaf fréttarinnar er svona:  "„Magma Energy er að skoða hvort þeir geti keypt upp allar orkuauðlindir Íslands,“ fullyrti Björk við fréttamann AFP að loknum blaðamannafundi í Helsinki í gærkvöldi."

Er mismunurinn á hennar orðalagi og mínu ekki bara spurning um blæbrigði?  Alla vega er þetta bara bitamunur, en ekki fjár.

Axel Jóhann Axelsson, 3.8.2010 kl. 11:31

7 Smámynd: Dystópía

Magma mun eiga nýtingarréttinn allt mitt líf og gott betur samkvæmt upphaflegum samningstíma. Þar af leiðandi hefur Magma keypt auðlindina í mínum huga.

Hvaðan komu þessar "fullyrðingar" um fjármögnun Bjarkar á framboði Besta flokksins? Hvaða sannanir lágu þar að baki annað en orðin tóm?

Ég efast stórlega að hún vilji eitthvað inn á þing gera. Þótt hún tjái sig meira opinberlega um ýmis þjóðfélagsmál þá þýðir það ekki að hún sé að plægja akurinn fyrir einhverja kosningabaráttu. Þetta Magma mál er bara gríðarlega mikilvægt fyrir framtíð þjóðarinnar og hún sér sig knúin til að segja sína skoðun á því. Hefur ekkert með pólitík að gera. 

Dystópía, 3.8.2010 kl. 12:44

8 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Vandinn sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir, er í rauninni mun alvarlegri en þetta Magma-mál.  Magma-málið bara endurspeglar vandann, ásamt öðrum málum.

Vandamál okkar er það, að miðað við þann "söfnuð" sem nú situr á þingi, þá er ekki í kortunum myndun starfhæfrar meirihlutastjórnar.  

 Þó svo að hægt sé að benda á að þingmenn þeirra flokka sem sitja í stjórn, sé 34 af 63 þingmönnum, þá fer fjarri að allir þessir 34 þingmenn séu að róa í sömu átt, að landi.

Fljótt á litið er eins og að Samfylkingin, sé ein í minnihlutastjórn, með tæplega 30 þingmenn af 63.

 Lítur þetta þannig út að nærri helmingur þingmanna VG hafi boðið sig fram af heillindum undir merkjum Vinstri grænna.  Hinir hafi hins vegar, verið "Samfylkingarúlfar í VG-gæru".

Kristinn Karl Brynjarsson, 3.8.2010 kl. 12:57

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Dystópía, "fullyrðingar" um fjármögnun Bjarkar á framboði Besta flokksins komu fram í fjölmiðlum fyrir og eftir borgarstjórnarkosningarnar, en ekki man ég til þess, að hafa séð þeim "fullyrðingum" játað eða neitað af frambjóðendum flokksins eða Björk sjálfri, þannig að málið virðist ennþá vera á huldu, þó engin ástæða sé til að halda einu eða neinu leyndu varðandi fjármögnun framboða.

Yfirlýsingar Bjarkar um Magma málið eru stórpólitískar, enda um stórpólitíska herferð að ræða að undirlægi VG og annarra, sem hart berjast gegn hvers konar nýtingu auðlindanna til atvinnuuppbyggingar í landinu.

Axel Jóhann Axelsson, 3.8.2010 kl. 13:18

10 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

 

Björk er greinilega á leið í greenaree með Jóni G. Narr. Fullyrðingar hennar eru svo fráleitar að engin maður á jarðarkringlunni tekur mark á þeim. Meðal annars er haft eftir Björku:

 

  • “Magma Energy is checking out if they could buy out all Iceland's energy sources"
  •  
  • “Magma "has a reputation of working with the IMF (International Monetary Fund) and buying up the energy sources of countries on the verge of bankruptcy"
  • "We already have aluminium smelters. We don't need more…we need green options (like) greenhouses, but the government doesn't give discounts for energy access to greenhouses (as) it does to these foreign giants."

 

  

Auk þess að Björk er að hefja feril í greenareei, þá er hún að selja afurðir sínar á öðrum sviðum. Hún er að hallmæla landi og þjóð í eigingjörnum tilgangi. Við þurfum ekki á að halda afskiptum útlendinga eins og Bjarkar. Að auki eru Vinstri-Grænir alveg fulfærir um að skemmta landsmönnum á kostnað Magma Energy.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 3.8.2010 kl. 14:29

11 Smámynd: Einhver Ágúst

Axel minn, engann hef ég annann séð fullyrða um frjármögnun Bjarkar á Besta flokknum en þig....hvaða heimild hefurðu auk þess að ég hef komið beint fram við þig og neitað þessu svo ekki hefur legið á okkur í Besta að neita þessu þó að þú kjósir að halda þig við ruglið. Komdu með heimildir eða eitthvað í líkingu við sannleika og ég skal svara þér eða kanna hvort eitthvað sé hæft í því en trúðu mér það eru engar milljónir fljótandi um í Besta flokknum frá Björk.

En vissulega munum við bjóða fram til Alþingis í vor og storma inná alþingi með 38  þingmenn eða svo, því máttu treysta.

 Svo skýturðu skjólhúsi yfir hinn ætíð rógberandi Loft Altice sem kallar íslendinga sem honum hugnast ekki  útlendinga fyrir það að berjast gegn hættulegum fjárfestingum útlendinga í íslenskum orkuiðnaði á viðkvæmum tímum þarsem auðvelt er að gera góðann díl á blankri eyju. Þó að það sé nú í grunninn aukaatriði í umræðunni hvort viðkomandi sé svíi, kanadamaður eða einhver eðalíslendingur einsog fyrri eigendur HS orku, aðalatriðið í þessari baráttu um orkuna er að orkuauðlindir okkar séu í okkar eign og umsjá og svo grunnmannréttindi og lífsgæði íbúa landsins séu tryggð. 

Við þurfum ekki að endurtaka sama leikinn og þjóðir suður Ameríku og það meira að segja með sömu fjárfestum að mestu leyti....við getum sleppt því, jú vissulega verður hér meira að gera og við þurfum að hafa aðeins meira fyrri hlutunum og skapa sjálf vörur og tekjur án þess að treysta á Marshallaðstoðir og aðra fjárfestingu en slíkar skyndilausnir hafa líka fært okkur þangað sem við erum í dag.

Kærar kveðjur Gústi

Og Loftur minn, ég skil ekki alveg hvaða málstað þú ert að styðja?

Einhver Ágúst, 3.8.2010 kl. 14:51

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ágúst, eins og ég sagði, þá var það fullyrt í einhverjum fjölmiðlum fyrir og eftir kosningar, að þið hefðuð fengið fjármögnum frá Björkinni, en með eindreginni neitun þinni þar um, þá tek ég þig alveg trúanlegan í þessu efni, þó þið hefðuð í sjálfu sér ekkert til að skammast ykkar fyrir, þó hún hefði styrkt framboðið, því auðvitað hefði henni verið það algerlega frjálst og heimilt, enda kosta öll framboð sitt og þurfa á styrkjum að halda.

Þegar þú talar um að þið ætlið að bjóða fram í þingkosningunum væntanlegu, áttu þá við Besta flokkinn í samstarfi við Björk, eða án hennar þátttöku?  Hvort þingmannafjöldinn verðu svo 38 plús eða mínus, skal ósagt látið á þessari stundu, en allar góðar vættir forði þjóðinni frá þeim ósköpum.

Hvaða leik eigum við ekki að leika eftir þjóðum suður Ameríku?  Við erum ekki vön að leita þangað að fyrirmyndum í efnahagsmálum, eða öðrum, svo endilega upplýstu þetta betur.  Nýting orkuauðlindanna er forsenda fyrir grunnmannréttindum og lífsgæðum íbúa landsins, en hvert mannsbarn sér að gróðurhúsaræktun á ávöxtum og grænmeti mun ekki verða einn af stærstu útflutningsatvinnuvegum landsins næstu árþúsundin, frekar en allt "annað" sem græningjar hafa talað um að ætti að koma í stað stóriðjunnar hérlendis.

Innlegg frá Lofti Altice Þorsteinssyni eru ekki síður velkomin í umræður hérna en annarra, enda hefur hann margt merkilegt fram að færa og í flestum tilfellum er ég sammála hans skoðunum, þó einhverjar undantekningar geti verið þar á.

Axel Jóhann Axelsson, 3.8.2010 kl. 15:08

13 Smámynd: smg

Björk er gott og nauðsynlegt mótvægi við einkavæðingasinna og aðra landráðmenn sem vilja af einhverjum óskiljanlegum hvötum, selja/gefa frá sér auðlindir Íslands.

smg, 3.8.2010 kl. 15:27

14 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

smg, hvaða landráðamenn vilja selja/gefa frá sér auðlindir Íslands.  Svona fullyrðingar er ekki boðlegt að setja fram án frekari rökstuðnings.

Axel Jóhann Axelsson, 3.8.2010 kl. 15:31

15 identicon

hefur pabbi hennar ekkert um mali ad segja ? , hann var nu mikill malskorungur her a arum adur,eg spyr HVAR er kallinn pad hefur ekki heyrst i honum eftir hrunid, hann var alltaf ad tja sig a opinberum vettvangi um ymis mal og madur beid bara eftir pvi ad hann faeri a ping en aldrei vard.

En liklega er pad betur borgad saetid hja rafidnadarsambandinu en pinginu.

arnar atli (IP-tala skráð) 3.8.2010 kl. 15:37

16 Smámynd: Einhver Ágúst

AGS og fyrirtækið Magma hafa þar farið offari í að sjúga upp auðlindir þjóða í vandræðum, ss í suður Ameríku, við fylgjum nú þeirri aðferð en sem betur fer virðumst við geta stöðvað það áður en það er búið að selja regnvatnið einsog í löndum suður Ameríku....það er okkar lukka.

Já vissulega eruð þið Loftur sammála og allt gott um það að segja en á meðan þú hefur nú heldur mildast á liðnum mánuðum og ert einhvernveginn allur annar að tala við þá er skoðanabróðir þinn ansi hreint rætinn á köflum, ég get nú alveg fullyrt að Björk hefur skapað landi og þjóð meir tekjur en nokkur Íslendingur og það á jafnt við um lifandi sem dauða. Og það þó að hún sé með rekstur sinn mikið til erlendis og allt það. Verðmætasköpun að hennar sið er eitthvað sem við þurfum að skoða nánar þarsem aðalhráefnið er hugmyndir og sköpun án mikilli aðkomu auðlinda sem alltaf verða takmarkaðar og þarf að ganga um af virðingu og varúð. Hvað Loftur hefur skapað með bloggi sínu og bollaleggingum veit ég nú lítið um. En blogg hefur nú skilað mér afar litlu, enda eyði ég alltaf minni og minni tíma í þessa iðju og líður alltaf betur og betur.

Alþingisframboð verður og það án beinnar þáttöku Bjarkar í fjármálum eða framboði flokksins. Bestun Reyjavíkur er í fullum gangi og Bestun Íslands framundan.

Bestu kveðjur Gústi

Einhver Ágúst, 3.8.2010 kl. 15:38

17 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ágúst, satt er það, að Björk hefur skapað miklar tekjur fyrir þjóðfélagið, en því miður eignumst við ekki marga listamenn af slíkri stærðargráðu á hverri öld, en vonandi fer þeim þó fjölgandi eftir því sem á þessa öld líður, að ekki sé talað um þær næstu þar á eftir.

Auðvitað á að ýta undir allar greinar sem skapað geta tekjur fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið, en örugglega verður æði langt í að þjóðin í heild geti lifað á hugmyndaflugi sínu einu saman og a.m.k. mun slíkt ekki leysa vanda 16.0000 atvinnuleysingja á þessu ári, því næsta eða þarnæsta.

Hvað svo sem aukin menntun og listræn snilld mun skila þjóðarbúinu í framtíðinni, mun aldrei nema hluti þjóðarinnar hafa lifibrauð sitt af verðmætasköpun á þeim sviðum og því þarf að huga að atvinnu fyrir hina líka, sem hvorki munu afla sér langskólamenntunar eða menntunar á sviði leiklistar og söngs. 

Axel Jóhann Axelsson, 3.8.2010 kl. 15:51

18 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ágúst Már fer offari eins og fleirri sem halda að það sé hagsmunum Íslendina til framfara að hafna öllu samstarfi við útlendinga, nema sem gólfdreglar Evrópuríkisins. Engar röksemdir fylgja fullyrðingum eins  og þeim sem Ágúst býður upp á:

AGS og fyrirtækið Magma hafa þar farið offari í að sjúga upp auðlindir þjóða í vandræðum, ss í suður Ameríku, við fylgjum nú þeirri aðferð en sem betur fer virðumst við geta stöðvað það áður en það er búið að selja regnvatnið einsog í löndum suður Ameríku.

Hvar eru heimildir fyrir því að Magma Energi sé í einhverju ástarsambandi við AGS ? Þetta er sama bullið og Björk lætur frá sér. Hvernig tengist Magma Energy regnvatni í Suður-Ameríku ?

Svo heldur Ágúst því fram að Björk hafi skapað Íslendingum einhverjar tekjur. Hún er með allar sínar tekjur og útgjöld í Bretlandi og er varla hægt að nefna hana Íslending, þótt hún komi hingað í fríum. Svo er hún að senda landsmönnum tóninn, auk lyga og rangfærslna, sem hún er iðin við að dreifa.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 3.8.2010 kl. 15:58

19 Smámynd: Einhver Ágúst

Hæ Loftur og eigðu góðann dag. Skoðaðu bara sögu AGS í suður Ameríku, ég þarf nú varla að upplýsa annann eins snilling einsog þig.  Enginn Íslendingur lifandi eða dauður hefur skapað landinu meiri kynningu og tekjur en Björk Guðmundsdóttir....enginn.

Kv Gústi

Einhver Ágúst, 3.8.2010 kl. 16:51

20 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ágúst, þú útskýrir ekki hvernig framferði AGS í Suður-Ameríku tengist Magma Energy. Ég þekki nokkuð til aðkomu AGS víða um heim og meðal annars í Argentínu. Um þetta hef ég skrifað nokkrum sinnum.

Fullyrðingar þínar um gagnsemi Bjarkar fyrir Ísland eru stórlega orðum auknar, enda hefur þú ekkert þeim til staðfestingar. Björk er mest í að kynna sjálfa sig og það er hennar mál.

Loftur Altice Þorsteinsson, 3.8.2010 kl. 18:20

21 Smámynd: Einhver Ágúst

Um daginn voru 7 starfsmenn í ferðaþjónustu í London spurðir að því hvort þeir þekktu einhvern íslending og allir sögðu sama nafn, enginn hafði komið hingað og enginn hafði hitt Íslending. Hvaða nafn heldurðu að það hafi verið?

Loftur ég ráðlegg þér einlæglega að beita nú kröftum þínum að uppbyggilegum hlutum fyrir samfélagið okkar frekar en að níða eitthvað fólk og kalla það útlendinga. 

Þú kannast jú við starfsemi AGS í suður Ameríku einsog þú bendir á og veist þá eins vel og ég að þar beittu þeir einkafyrirtækjum vinveittum bandaríkjastjórn gegn þegnum landanna. Vissulega voru Magma ekki með í því en hafa nú komið víða við í Suður Ameríku í kjölfarið og virðast að mínu viti ekkert frábrugðnir þeim fyrirtækjum með hámörkun gróða sem meginmarkmið og kraftmiklum yfirtökum á almannaeign í orku og vatnsbúskap.

Mér persónulega hugnast ekki að slíkt sé í höndum einkaaðila og gildir þá einu hvort um er að ræða Jón Ásgeir eða Magma. Almannahagsmunir og öryggi í orkumálum er of dýrmætt til að gambla meira með það en orðið er.

En vissuleg þarf fjárfestingu til og hana tel ég hægt að laða að landinu eftir sem áður. Tildæmis í hátækniiðnaði og nýsköpun í orkugjöfum og þá helst rafknúnum og vetnisknúnum bílum og samgöngutækjum. Því er verið að vinna í en í núverandi fjármálastöðu heimsins er ljóst að það verðu einhver bið á stórkostlegri fjárfestingu annarra en hákarla sem eru úti eftir að kaupa á útsölu munað þjóðar í miklum skuldavanda. Það get ég ekki stutt. Öndum rólega, að mörgu leyti gegnur hér betur en á horfðist í fyrstu en nú eru teikn á lofti að sama kerfið sé að endurræsa sig með stöðuveitingum og útþenslu bankakerfisins, því þarf að vinda ofnaf og á það jafnt við um sossana "vini" þína sem íhaldsmennina sem nú raða sér í SA/SI og allt hvað það nú heitir og berjast gegn framþróun og uppbyggingu vegna þess eins að þeir eru ekki við völd.  Mottóið víða um samfélagið virðist ss vera að "hinum" má ekki ganga vel því að þá erum "við" að tapa, undan því blæðir heilli þjóð og hefur gert síðan í seinni heimstyrjöld.  Er ekki komið nóg af þvi rugli?

Kv Gústi

Einhver Ágúst, 3.8.2010 kl. 20:26

22 Smámynd: Einhver Ágúst

Fljót google leit sýnir eftirtaldar staðreyndir.

 Björk:

About 14.900.000 results (0,37 seconds) 
 
Laxnes:
 
About 742.000 results (0,33 seconds) 
 
Magma Corp
 
About 1.130.000 results (0,32 seconds) 
 
University of Iceland
 
About 7.460.000 results (0,20 seconds) 
 
Ég
 
About 56.700 results (0,32 seconds) 
 
Loftur Altice
 
About 12.200 results (0,34 seconds) 
 
Vatnajökull
 
About 253.000 results (0,12 seconds) 
 
 
Segir þetta þér eitthvað? Alveg óvísindaleg könnun gerð á 5 mínútum.

Einhver Ágúst, 3.8.2010 kl. 20:34

23 identicon

Ef við notum heimsk rökk hans Lofts þá væri Jón Sigurðsson hálfur íslendingur (bjó 46 ár í Denmörku) og átti ekki að skipta sig af málum á Íslandi. Loftur er líklegur vel gefinn, en vitur er hann ekki.

Jakob Andersen (IP-tala skráð) 3.8.2010 kl. 22:15

24 identicon

Umræðan öll mjög málefnaleg eins og venjulega.

Ágúst sagði:""Um daginn voru 7 starfsmenn í ferðaþjónustu í London spurðir að því hvort þeir þekktu einhvern íslending og allir sögðu sama nafn, enginn hafði komið hingað og enginn hafði hitt Íslending. Hvaða nafn heldurðu að það hafi verið?"
Geri ráð fyrir að svarið eigi að vera Björk. En sjö menn sem aldrei hafa komið til Íslands og ekki hitt neinn Íslending, eða heyrt aðra en Björk, hafa vísast ekki skapað Íslandi miklar tekjur. Frægð og tekjur landsins fara ekki endilega saman þótt þær geti vissulega gert það. Ég ætla t.d. að halda því fram að Gandhi sé frægasti Indverjinn, en ég held að ýmsir hafi orðið til þess að skapa Indversku þjóðinni meiri tekjur fyrir því.

Og í guðanna bænum, grænmetið er ekki lausn. Fyrst er rafmagnið niðurgreitt um ca. helming af ríkisframlög, þá koma beingreiðslur og loks innflutningstollar á erlenda grænmetið til þess að verða samkeppnishæft í verði. Og þá er búið að flytja erlenda grænmetið til Íslands. Til þess að íslenska grænmetið geti orðið útflutningsvara og keppt við erlenda grænmetið þarf því þar að auki að bæta við flutningskostnaði á erlenda markaði. Ef einhver sér í alvörunni sóknarfæri í þessu, þ.e. að nokkuð ódýrt rafmagn sé betra en sólarljósið sem nóg er af nær miðbaugi, þá óska ég þess að sá hinn sami komist ekki í mína skattpeninga.

Úlfur (IP-tala skráð) 4.8.2010 kl. 03:00

25 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Björk er kunnasta og verðætasta vörumerki Íslands og lang-þekktasti íslendingurinn fyrr og síðar. Áhrif hennar ná langt út fyrir tónlistargeirann sem leiðtogi í frjórri og skapandi hugsun.

- Þegar að hún talar er hlustað og þegar hún spyr, leggja ráðamenn sig fram um að svara.-

Hún er Gandi og Mandela Íslands, hún er höfundur evrópska sándsins og hún er samviska heimsins fyrir okkar hönd.

Verðmæti hennar verða seint mæld í peningum einum eins og auraúlfarnir og vindbelgirnir reyna að gera. En það mun satt vera að engin menningarverðmæti íslendinga hafa laðað til landsins jafn marga ferðamenn eða aflað þjóðinni jafn mikilla tekna og Björk og tónlist hennar.

Svanur Gísli Þorkelsson, 4.8.2010 kl. 09:43

26 Smámynd: Einhver Ágúst

Vissulega er grænmetisrækt á Íslandi vanköntum búinn og á margann hátt undarlegur bransi, samanber auglýsingaherferðina "þú veist hvaðan það kemur".  Enda er ég ekkert að hugsa um grænmetisrækt í þesu sambandi, þessi svokallaðir græni hugsunarháttur sem Loftur hæðir er töluvert víðtækari en bara tómatarækt í gróðurhúsum. Þar erum við að tala um nýja orkugjafa í samgöngum og framþróun í þeim málum sem kannski mestar tekju- og framfaramöguleikann í Íslandi framtíðarinnar. 

Auk þess að gera íslenskann landbúnað og ferðaþjónustu að gæðavöru þarsem metnaður ræður för fremur en N1 bensínstöðvar og lélegt drasl. Nú er mikil vakning í þessum bransa og margt á döfinni, það skapar atvinnu og velsæld auk þess að veita fullnægju bæði þeim sem starf við ferðamannaiðnaðinn og ferðamönnunum sjálfum.

Og varðandi málefnalega umræðu Úlfs um að Ghandi hafi ekki skapað indlandi tekjur, þú hlítur að vera að grínast er það ekki? Ef Ghandi hefði ekki notið við hefði Indland ekki losnað undan drottningu Bretaveldis og sjálfstæðistilfinning Indverja ekki vaknað, Indverjar sköpuðu sér nú ekki miklar tekjur undir krúnunni og þó að Indalnd nútímans glími við gríðarleg vandamál er þar að finna menningu og auð sem að miklu leyti má þakka Ghandi fyrir. Og auk þess er hann sameiningartákn Indverja og þeirra þekktasti einstaklingur. Og þó að þessir sjö einstaklingar í þessari könnun hafi ekki komið hingað vita þeir af þessu landi vegna verka Bjarkar Guðmundsdóttur og langaði að koma hingað, slík markaðsetning er langvarandi og ötulli vinnu hennar sem listamanns og baráttumanneskju fyrir mannréttindum að þakka. Markaðssetning er kannski vitlaust orð því að einsog sjá mátti á frekar örvæntingafullri og dapurri Inspired herferð þá eru engar skyndilausnir til, það gildir að halda áfram, gera gott verk og fylgja sannfæringu sinni. Svo ef þú spyrð mig hefði þessum milljarði verðið betur varið í íslenska tónlist og kvikmyndagerð sem svo elur af sér raunverulega listamenn sem bera hróður landsins um allann heim. Sem gerist alltaf reglulega og í raun merkilega oft frá þessari litlu eyju.

Má þar nefna myndir einsog Börn Náttúrunnar, 101 Reykjavík, Englar Alheimsins, Hrafninn flýgur auk fjölda heimildamynda og nú síðast sjónvarpsþátta sem til stendur að framleiða erlendis.

Og tónlistamenn svosem Sigurrós, Bang Gang, FM Belfast, Seabear, Amina, Emiliana Torrini, Lay Low og nefnda Björk.

Hugsið ykkur mátt þessara verka í landkynningu, þó að þau séu ekkert sérstaklega til þess gerð heldur bara list sem ætlað er að standa fyrir sjálfri sér. Og allt þetta fólk stendur undir sér sjálft í dag án styrkja eða títthataðra listamannalauna.

Sitt er hvað tekjur og auður, erfitt að mæla huglæga hluti vissulega en ómetanleg er sú kynning sem fólk einsog Björk, Ghandi, Mandela, Martin Luther og slíkt andans fólk veitir þjóðum sínum. Það eiga þau svo sameiginlegt að þau storka öll gildandi viðhorfum og drottnandi miðaldra körlum sem óttast ekkert meira en að missa tökin og völdin. Oft með alvarlegum afleiðingum fyrir eigin heilsu og aldur. 

Það er oft erfitt að skilgreina og auðvelt að skjóta niður andans fólk en tíminn leiðir sannleikann í ljós.

Svanur kemur sterkur inn, takk. 

Kv Gústi

Einhver Ágúst, 4.8.2010 kl. 13:34

27 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það sem græningjum virðist vera lífsins ómögulegt að skilja, er að þegar rætt er um atvinnumál, þá er verið að tala um fasta vinnu til margra ára fyrir tugþúsundir manna og kvenna, en ekki útgáfu bókar, uppsetningu málverkasýningar eða skipulagningu á tónleikaferðum.  Næsta vetur munu a.m.k. 16.000 manns vera atvinnulausir hér á landi (fyrir utan þau 10.000 sem þegar hafa flutt erlendis) og árlega bætast 3 - 5000 manns á atvinnumarkaðinn.  Það þarf að skapa fasta varanlega vinnu fyrir allt þetta fólk og þá sem bætast á vinnumarkaðinn á hverju ári í framtíðinni og þetta fólk skapar sér ekki allt framtíð með eigin listagáfu og ekki tekur ferðamannaiðnaðurinn við þeim öllum og ekki vinna við tilraunir með græna orku heldur.

Það þarf að efla allar greinar atvinnulífsins og fjölga störfum í öllum geirum, ekki bara fyrir mennta- og listaklíkur, heldur ekki síður (og miklu frekar) fyrir verkafólk, iðnaðar- og tæknimenntað fólk, menntafólk á öllum sviðum, sem sagt almenning í landinu, en ekki eingöngu þá, sem geta skapað sér eitthvað sjálfir og staðið undir sér án listamannalauna.

Þegar vinstri sinnað menntafólk kemst í samband við þann veruleika sem þjóðin lifir í og fer að gera sér grein fyrir þörum annarra en sjálfs sín, færist umræðan vonandi á vitrænna plan varðandi atvinnu- og efnahagsmálin, sem og önnur brýn hagsmunamál almennings í landinu.

Axel Jóhann Axelsson, 4.8.2010 kl. 14:18

28 Smámynd: Einhver Ágúst

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/08/04/ranglega_haft_eftir_bjork/?ref=fphelst

Gott svar Axel! En mér langaði bara að benda ykkur á að við erum búnir að eyða einum sólahring í röfl um eitthvað sem var rangtúlkað í fjölmiðlum og gagnrýnendur(hvað er gagnið?) Bjarkar notuðu gegn henni.

Einnig langar mig að benda þér á Axel að stór hluti þessara 10000 voru farandverkamenn sem voru hér aðeins til að takak þátt í ruglinu og fluttu svo aftur til síns heimalands. Raunverulegir brottflutningar umfram það sem eðlilegt getur talist eru mun lægri tölur en þú notar þarna og það veistu eflaust, snjall sem þú ert.  Auk þess að vond sem ríkisstjórnin nú er og þar getum við verið sammála að mörgu leyti þá er samt atvinnuleysi mun lærra en við bjuggumst við er það ekki?

 Kv Gústi

Einhver Ágúst, 4.8.2010 kl. 14:26

29 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það sniðuga við þessar rangtúlkanir og orð sem henni voru lögð í munn, var allt saman varið af mörgum aðdáendum, eins og hinn eini hreini sannleikur og nú verða þeir líklega allir að draga í land, eins og goðið sjálft.

Varðandi fjöldann, sem fluttur er úr landi þá kom það fram frá Hagstofunni í vor að á sjötta þúsund fullorðinna Íslendinga hefðu flutt af landi brott undanfarna tólf mánuði (þ.e. þegar fréttin birtist).  Bæði fyrir og eftir það tólf mánaða tímabil hefur verið stöðugur brottflutningur frá landinu, þannið að ekkert fjarri lagi er að áætla að 10.000 Íslendingar hafi flutt á brott frá landinu frá því að kreppan skall á í október 2008.

Ef til vill eru atvinnuleysistölurnar lægri en áætlað var, vegna þess að brottflutningur vinnufærs fólks sé miklu meiri en reiknað var með.

Axel Jóhann Axelsson, 4.8.2010 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband