Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
24.6.2009 | 11:20
Greiðslufall með auknum kostnaði
Hagsmunasamtök heimilanna hefur samþykkt stuðning við "greiðsluverkfall fjölda Íslendinga", án þess að útskýrt sé nánar hvað það þýðir. Í fréttinni segir að: "Þátttaka í greiðsluverkfallinu getur auk þess að hætta að greiða af lánum meðal annars falist í að draga greiðslur eða takmarka þær og hvetja til úttekta og flutnings á innistæðum."
Að hætta að greiða af lánum eða takmarka þær, gerir náttúrlega ekkert annað en að auka kostnað skuldarans vegna dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Þýðir samþykktin að HH ætli að standa á bak við þennan aukna kostnað "fjölda Íslendinga"? Hvað ef einhver af þessum "fjölda Íslendinga" missir hús sín vegna þessara aðgerða?
Að boða verkfall vegna launadeilna og að hætta að greiða af lánum, er ekki sambærilegt að öðru leyti en því, að menn verða jafnvel blankari við aðgerðirnar, tímabundið vegna verkfallanna en jafnvel til framtíðar vegna greiðslufalls skulda.
Í samþykktinni er hugtökum greinilega ruglað saman, því samþykkt var að setja saman verkfallsstjórn til að stjórna greiðslufallinu. Nær væri að tala um greiðslufallsstjórn.
Ætlar greiðslufallsstjórnin að loka útibúum banka, eða hvernig á að framfylgja greiðslufallinu?
Hagsmunasamtök heimilanna styðja greiðsluverkfall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.6.2009 | 09:24
Ríkisverðbólga
Vísitala neysluverðs hækkar milli mánaðanna maí og júní um 1,38% og munu verðtryggð lán hækka sem því nemur. Þessi vísitöluhækkun er alfarið í boði ríkisstjórnarinnar og frekari hækkun hennar boðuð með skattahækkunum í næsta mánuði.
"Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 7,8% (vísitöluáhrif 0,36%) og verð á áfengi og tóbaki um 9,8% (0,32%) og er það að hluta til vegna hækkunar gjalda. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 1,2% (0,17%)." Hækkun á eldsneytissköttum er ekki komin inn í vísitöluna en mun gera það í næsta mánuði. Verð á mat og drykkjarvöru er öll tilkomin vegna lækkunar á gengi krónunnar, en ekkert er gert til að styrkja gengi hennar.
Á sama tíma og ríkisstjórnin hamast við að hækka bæði gengis- og verðtryggð lán, er allt í hnút í Karphúsinu, vegna ósamkomulags við ríkisstjórnina um sparnað í ríkisfjármálum á árunum 2011 - 2013, en skattahækkanir sem fyrirhugaðar eru á þeim árum eru svo gífurlegar, að aðilar vinnumarkaðarins telja, að hvorki atvinnulíf né almenningur muni geta staðið undir slíkri skattpíningu.
Hvað sem öðru líður, mun ríkisverðbólgan ekki hjaðna á næstunni.
Verðbólga eykst á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2009 | 16:39
Staðfestir að um kúgun sé að ræða
Jakob R. Möller, hæstaréttarlögmaður, hefur unnið álitsgerð fyrir utanríkisráðuneytið vegna Icesave samningsins og þvert ofnan í það, sem ráðuneytið hefur vænst, staðfestir hann að um kúgun og handrukkun sé að ræða af hálfu Breta og Hollendinga.
Í fréttinni er haft eftir Jakobi: "Mér er tjáð að komin hafi verið upp pattstaða sem skipti Stóra-Bretland litlu fjárhagsmáli. Á meðan pattstaðan væri uppi, hefði Ísland í reynd verið talið einangrað frá alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Stóra-Bretland og Holland munu hafa þvertekið fyrir að fara með málið fyrir dómstóla eða gerðardóm, segir Jakob. Áhyggjur af bankakerfi og aðrir slíkir hagsmunir voru taldir skipta Breta mun meira máli."
Fjárhagslegir hagsmunir skiptu Breta ekki nokkru máli, þeir höfðu eingöngu áhyggjur af gallaðri tilskipun ESB um tryggingarsjóði, að þeirra eigin mati. Til að kúga Íslendinga var því ESB beitt af fullum þunga í málinu og meira að segja norðurlandaþjóðirnar tóku þátt í þessari handrukkun.
Fyrr í fréttinni kemur fram að: "Jakob segir í álitsgerðinni að að af hálfu íslenska ríkisins hafi ítrekað verið sagt að Ísland myndi standa við skuldbindingar sínar án þess að tiltekið væri nákvæmlega hverjar þessar skuldbindingar væru."
Þessar skuldbindingar hljóta að hafa verið að fara eftir tilskipun ESB um Tryggingarsjóð innistæðueigenda, enda var sá sjóður starfræktur eftir tilskipuninni, en í henni kemur skýrt fram, að á sjóðunum skuli ekki vera ríkisábyrgð.
Til að vernda sína eigin hagsmuni, voru sendir handrukkarar á Íslendinga og eins og margir þolendur ofbeldis, lætur ríkisvinnuflokkurinn undan fjárkúgurunum og samþykkir að taka á sig að borga ofbeldismönnunum "lausnargjald".
Stríðsglæpamenn eru dæmdir fyrir stríðsglæpadómstólum.
Líklega eru engir dómstólar sem taka að sér að dæma þjóðríki fyrir efnahagsofbeldi.
Hagstæð ákvæði Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2009 | 14:29
Skipta skattgreiðendur ekki við bankana?
Jóhanna, ríkisverkstjóri, hefur af sínu alkunna hyggjuviti og þekkingu á efnahagsmálum, fundið nýja leið til að greiða 500 milljarða króna, sem hún og ríkisvinnuflokkurinn vill, af örlæti sínu, ríkistryggja fyrir Breta og Hollendinga.
Fram að þessu hefur hún og fjármálajarðfræðingurinn reynt að telja fólki trú um, að engin hætta væri á því, að ríkissjóður þyrfti nokkurn tíma að borga nokkuð vegna þessa máls, en nú þegar sýnt hefur verið óyggjandi fram á að a.m.k. 500 milljarðar lendi á Íslendingum, þá fær Jóhanna vitrun og finnur nýja greiðendur.
Þessir nýju greiðendur eru viðskiptavinir íslenskra fjármálastofnana, því aukaálag í Tryggingasjóð innistæðueigenda mun að sjálfsögðu verða tekið af viðskiptavinum bankanna í formi vaxtamunar, eða annarra þjónustugjalda, en í fréttinni segir að: "Jóhanna vill láta leggja sérstakt álag á fjármálastofnanir sem gangi inn í tryggingasjóðinn til að hindra að skattgreiðendur þurfi að greiða skuldirnar sem kunni að falla á Tryggingasjóð innstæðueigenda eða ríkið vegna þessa."
Það er að vísu sá smágalli á þessari bráðsnjöllu hugmynd, að viðskiptavinir bankanna eru almenningur og fyrirtæki á Íslandi, sem einnig eru skattgreiðendur á Íslandi.
Ef peningarnir eru teknir úr vinstri vasanum, minnkar ekkert í hægri vasanum, eða þannig.
Tortryggni í samfélaginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2009 | 13:49
Smjörþefurinn af því sem koma skal
Hannes Smárason, útrásarmógúll, kærði húsleit Sérstaks saksóknara á heimilum sínum tveim við Fjölnisveg og hefur héraðsdómur nú kveðið upp þann úrskurð, að húsleitin hafi verið fullkomlega lögleg. Ekki er ólíklegt að Hannes kæri þennan úrskurð til Hæstaréttar og mundi það þá tefja málið um einhverjar vikur.
Þetta er bara forsmekkurinn að því sem koma skal í meðferð kærumála á hendur útrásargörkunum, því eins og einhverjir muna, þá gekk á endalausum kærum til héraðsdóms og hæstaréttar um hvert smáatriði varðandi Baugsmálið fyrsta, enda tókst að tefja það mál árum saman fyrir dómstólunum. Allur tíminn var síðan notaður af lögfræðinga- og fjölmiðlahirð Baugsmanna til að vekja og viðhalda samúð almennings með "ofsóttu sakleysingjunum". Reyndar er vægt til orða tekið, að kalla það samúð, þar sem um hreint múgæði var að ræða gegn ákæruvaldinu og með sakborningunum.
Baugsmálið fyrsta er aðeins smjörþefurinn af því sem koma skal á næstu árum, þegar málaferli hefjast á hendur banka- og útrásarvíkingum og innlent og erlent lögfræðingalið hefst handa við að hártoga og véfengja hvert einasta orð, sem frá embætti Sérstaks saksóknara kemur. Nú þegar er byrjað að gera lítið úr persónu saksóknarans og Evu Joly, aðstoðarmanns hans og mun þessi róður verða hertur, eftir því sem lengra líður.
Munurinn er sá, að múgæsingin hefur snúist við, frá því sem áður var.
Húsleit hjá Hannesi lögleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.6.2009 | 10:36
Dómstóllinn er víst til
Eiður Guðnason, fyrrverandi pólitíkus og sendiherra, gerir lítið úr fremstu lögspekingum landsins og telur að þeir viti ekki um hvað þeir séu að tala, þegar þeir benda á þá augljósu staðreynd, að lagalegan ágreining eigi að útkljá fyrir dómstólum.
Hann telur að enginn dómstóll sé til, sem geti skorið úr milliríkjadeilum, eins og t.d. ágreiningi um ábyrgð ríkisins á Icesave innlánum Landsbankans. Hingað til hefur ekkert skort á að evrópskir dómstólar hafi getað fjallað um og ákært Íslendinga, ef þeir hafa ekki verið nógu fljótir að innleiða allskyns tilskipanir frá ESB. Í þessu bloggi er sýnt fram á að tilskipun ESB um Tryggingasjóð innistæðueigenda gerir ekki ráð fyrir ríkisábyrgðum, enda þyrftu Bretar og Hollendingar þá ekki að kúga Alþingi til að samþykkja ríkisábyrgð núna.
Íslendingar þurfa einungis að hafna ábyrgð á Icesave, umfram ábyrgð tryggingasjóðsins og ef Bretar og Hollendingar sætta sig ekki við það, þá finna þeir réttan dómstól til að reka sín mál fyrir.
Ef þeir lenda í einhverjum vandræðum með að finna dómstól, má benda þeim á, að lögþing ríkissjóðs er á Íslandi og þar er hægt að höfða innheimtumál gegn ríkissjóði eins og öðrum.
Eiður: Dómstóllinn ekki til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.6.2009 | 09:25
Ríkið eykur atvinnuleysið á almennum markaði
Jóhanna, ríkisverkstjóri, og Steingrímur Jong Sig., fjármálajarðfræðingur, boðuðu fyrir kosningar, að ríkið myndi leggja mikið í að halda úti mannaflsfrekum framkvæmdum, til þess að sporna gegn atvinnuleysinu á almenna vinnumarkaðinum. Nú eru efndirnar að koma í ljós og þær eru í takt við allt annað hjá þessum ríkisvinnuflokki, sem sagt þveröfugar við það sem lofað var fyrir kosningar.
Ríkisvinnuflokkurinn getur ekki komið sér saman um sparnað og hagræðingu í rekstri ríkisstofnana og grípur því til þess ráðs, að skerða ekki hár á höfði nokkurs ríkisstarfsmanns, en senda enn fleiri starfsmenn almenna markaðarins á atvinnuleysisskrá.
Á meðan einhver hefur ennþá vinnu á almenna markaðinum, skal hann og fyrirtækið sem hann vinnur hjá, skattpínt í drep, til þess að greiða ríkisstarfsmönnunum, sem ekki má hrófla við, sem óbreyttust laun. Með þessu er ekki verið að halda því fram, að ríkisstarfsmenn séu of sælir af sínu, en það skýtur bara skökku við, að enginn áhugi virðist vera á, að koma almenna atvinnulífinu aftur á fæturna, til þess að halda opinbera kerfinu gangandi, án endalausra skattahækkana.
Á þessu þarf kannski enginn að vera hissa, því opinberir starfsmenn eru tryggustu kjósendur vinstri flokkanna.
Hvað gera menn ekki til að halda kjósendum sínum góðum?
Verktakastarfsemi blæðir út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2009 | 16:23
Tilskipun um innistæðutryggingar verndar ríkissjóð
Í tilskipun ESB um innistæðutryggingar, sem má sjá hér kemur fram að Tryggingsjóðir innistæðueigenda skuli ekki vera á ábyrgð yfirvalda, enda skulu lánastofnanir sjálfar bera kostnaðinn af fjármögnun þeirra. Þetta má glögglega sjá á eftirfarandi klausum úr tilskipuninni:
"Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma
leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánin
eða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess að
lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við
fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg
geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar.
Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis
aðildarríkisins í hættu.
Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld
þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa
séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum
af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar
sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu
í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun."
Með svokölluðum Icesave samningi er verið að neyða Íslendinga, með ógnunum, til að taka á sig a.m.k. 500 milljarða króna, sem allir geta séð að ríkissjóður Íslands getur aldrei greitt.
Það hlýtur að vera hægt að koma ESB þjóðunum til þess að fara eftir sínum eigin tilskipunum.
Ef ESB þjóðirnar eru ekki sáttar við það, eiga þær að leita til dómstóla.
Málið er ekki flóknara en það.
Ísland fær helming eigna Landsbankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.6.2009 | 14:27
Alþingi á ekki að staðfesta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.6.2009 | 14:03
Glæpur gegn þjóðinni
Fleiri og fleiri af mestu lögspekingum landsins hafa verið að tjá sig undanfarið um Icesave málið og komast allir að þeirri niðurstöðu, að það sé glapræði að láta ekki á málið reyna fyrir dómstólum. Flestir ganga svo langt að segja, að samningurinn sem ríkisvinnuflokkurinn ætlar að troða ofan í kok þjóðarinnar sé algerlega andstæður þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands.
Því verður ekki trúað að óreyndu, að Alþingi láti kúga sig til hlýðni í þessu máli, sem samkvæmt nýjasta mati skilanefndar Landsbankans, mun skilja eftir sig að minnsta kosti 250 milljarða króna gat. Ríkisvinnuflokkurinn getur ekki komið sér saman um sparnað í ríkisrekstrinum á næstu þrem árum, um 170 milljarða króna, sem reyndar á að ná inn a.m.k. að helmingi með skattahækkunum. Hvernig í ósköpunum á ríkissjóður að geta tekið á sig það sem upp á vantar í Icesave málinu, sem í raun er alls ekki skuld íslenska ríkisins, enda engin ríkisábyrgð á Tryggingasjóði innistæðueigenda.
Um þetta hefur áður verið fjallað í þessu bloggi og þar reynt að rökstyðja, að neyðarréttur leyfir að gera sérstakar ráðstafanir á ákveðnum svæðum vegna hamfara sem yfir ganga. Sama hlýtur að gilda um efnahagslegar hamfarir, eins og náttúruhamfarir.
Að láta ekki reyna á dómstólaleið vegna Icesave, er glæpur gegn þjóðinni.
Eignir duga ekki fyrir Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tryggvi Þór Herbertsson bendir á leið út úr Icesave ruglinu, sem væntanlega myndi ekki setja íslenska þjóðarbúið á hausinn, en í fréttinni kemur fram að: "Tryggvi Þór segist vilja, að málið verði leyst með því að gefa ríkisábyrgð á óbreyttan samning en þó með því skilyrði að við þyrftum aldrei að greiða meira en eitt prósent af landsframleiðslu á ári í sjö ár.
Hann viðurkennir að sjálfstæðismenn hafi í raun rutt veginn með því að samþykkja að semja um greiðslur vegna Icesave reikninganna án þess að málið fari fyrir dómstóla. Íslendingum hafi verið stillt upp við vegg af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu vegna EES samningsins og aðeins hafi verið samþykkt að fara samningaleiðina. Hann spyr þó hvort það sé fimmhundruð milljarða virði að hafa þá góða. Sjálfur telji hann ekki að svo sé."
Íslendingar voru þvingaðir til þess að fara samningaleið, en ekki dómstólaleið, vegna hagsmuna ESB, en ekki Íslands og auðvitað var það aumt, að láta kúga sig til að samþykkja yfirleitt að fara samningaleiðina. En það að fara samningaleiðina, er ekki það sama og að samþykkja hvað sem er. Ef gagnaðilarnir hafa talið að það þýddi það, að þeir gætu kúgað íslensku samninganefndina til að samþykkja hvaða afarkosti sem er, þá verður Alþingi að snúa þessu máli á upphafsreit.
Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis, þannig að hann hefur ekkert gildi fyrr en sú staðfesting liggur fyrir. Fáist hún ekki, hlýtur málið að fara sjálfkrafa á byrjunarreit aftur.
Þetta yrði dýrari aðgöngumiði að ESB en Íslendingar geta réttlætt að kaupa.