Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
26.6.2009 | 14:02
Afþreying fjármálamógúla
Í hádegisfréttum RUV kom fram að ekkert sæti eftir í félaginu Íslensk afþreying hf., nema skuldir, og það engar smáskuldir, eða fimm milljarðar króna. Þessar fimm milljarða króna skuldir sitja eftir í félaginu eftir að allar eignir þess hafa verið seldar.
Ekki hafa fengist upplýsingar um hvert söluverðið var til Rauðsólar ehf., sem breyttist í Sýn ehf. né söluverð annarra fyrirtækja sem seld voru til Garðarshólma og hvorki verð né hver kaupandi var að EGF hf. Jón Ásgeir Jóhannesson, fjármálafursti og besti vinur barnanna, átti allt kompaníið og keypti af sjálfum sér fjölmiðlahlutann, sem nú er rekinn undir nafni Sýnar ehf. Fróðlegt væri að vita hverjir standa að þeim félögum sem keyptu allt annað út úr rekstri Íslenskrar afþreyingar hf.
Að skilja svo skuldirnar eftir í félagi með nafninu Íslensk afþreying hf., er náttúrlega hrein snilld og nafnið afar táknrænt fyrir gjörðir þessara fjármálamógúla.
Þeirra helsta afþreying er að hirða eignir og skilja skuldir eftir handa öðrum að borga.
Þeir hljóta að skemmta sér konuglega við þennan leik.
Íslensk afþreying gjaldþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.6.2009 | 09:48
Veik króna - veikari stjórn
Forgangsmál núverandi ríkisvinnuflokks, undir stjórn Jóhönnu, ríkisverkstjóra og Steingríms, fjármálajarðfræðings, átti að vera að styrkja gengi krónunnar, lækka stýrivexti, koma atvinnulífinu í gang á ný og mynda tjaldborg (afsakið, skjaldborg) um heimilin í landinu.
Nú er þetta eitthvað breytt, því nú er það eina sem getur bjargað þjóðinni og atvinnulífinu, að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave skuldir Landsbankans, því verði það ekki gert munu allir vinir yfirgefa okkur og þar á meðal "vores nordiske venner". Þegar búið verður að samþykkja skuldaklafann vegna Icesave, mun á ný hefjast söngurinn um að eina bjargráð þjóðarinnar verði að ganga í ESB, því annars munu Íslendingar verða algerlega vinalausir og jafnvel tapa "vores nordiske venner".
Nú er alveg hætt að tala um að styrkja krónuna, eða eins og verkstjórinn lætur hafa eftir sér: "Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir viðbúið að íslenskt efnahagslíf þurfi að búa við veika krónu og háa stýrivexti. Aðgerðir stjórnvalda á sumarmánuðum muni miða við að skapa aðstæður fyrir frekari lækkun stýrivaxta"
Fréttamönnum dettur ekki í hug að spyrja um öll fyrri fyrirheit og forgang. Ekki dettur þeim heldur í hug að krefjast skýringar á því, hvernig umsókn um aðild að ESB eigi að styrkja krónuna, enda er verkstjórinn látinn komast upp með þessa fullyrðingu; Mín skoðun er samt sú að við munum um einhvern tíma, kannski of langan, búa við of veika krónu og svarið við því er bara eitt, að sækja um aðild að Evrópusambandinu, segir Jóhanna."
Ef ekki væri vitað um ESB áhuga flestra fréttamanna, gæti sá grunur vaknað að þeir nenntu ekki að spyrja frekar út í þetta.
Líklega vegna þess að þeir vita að svarið er alltaf eins og algerlega innantómt.
Hærri skattar og veik króna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.6.2009 | 17:04
Bestu vinir Íslendinga
Sænska ríkisstjórnin hefur af alkunnri elskusemi sinni og sem hluti af hinum norrænu bestu vinum Íslands, samþykkt að lána Íslendingum sinn hluta af sameiginlegu 2,5 milljarða láni norðurlandanna.
Lán þetta tengist áætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um framkvæmd endurreisnar efnahags Íslands. Aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu í dag undir "stöðugleikasáttmála" AGS, sem vinnuflokkur Jóhönnu, ríkisverkstjóra og Steingríms Jong Sig., fjármálajarðfræðings, á að starfa eftir næstu tvö ár, ef hann lifir Icesave málið af.
Fréttin af þessu rausnarlega vinarbragði norðurlandaþjóðanna endar að vísu á þessu: "Þá kemur fram, að norræna lánið verði greitt út í fjórum jöfnum greiðslum eftir að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi staðfest fyrstu fjórar endurskoðunirnar á íslensku áætluninni."
Eitthvað mun nú dragast að "vores nordiske venner" þurfi að draga upp tékkheftið, því AGS er ekki einu sinni búinn að staðfesta aðra endurskoðun sína á íslensku áætluninni, en það átti að gerast í febrúar síðast liðnum og hefur því nú þegar dregist um fjóra mánuði, vegna þess að vinnuflokkur Jóhönnu hefur ekki staðið við neitt af því, sem að honum hefur snúið.
Með sama áframhaldi verður jafnvel "stöðugleikasáttmáli" AGS runninn út, þegar okkar norrænu vinir þurfa að fara að telja saman aurana í sína fyrstu greiðslu af fjórum.
Svíar samþykkja lán til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2009 | 14:48
Til hamingju AGS
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn náði að festa öll sín markmið í stöðugleikasáttmála við aðila vinnumarkaðarins og verður aðkoma ríkisvinnuflokksins sú, að framkvæma stefnu AGS, en það hefur vinnuflokkurinn verið í talsverðum vandræðum með undanfarið.
Stöðugleikasáttmálinn er um ýmislegt sem: "Stefnt skal að..", "Fyrihugað er..." "Leitast verði við að..." o.s.frv. Fjármálaeftirlitið hafði gefið bönkunum lokafrest til 17. júlí til að ganga frá efnahagsreikningum sínum og er sú dagsetning sett inn í sáttmálann, eins og um hana hafi verið samið í Karphúsinu.
Stýrivextir verða vonandi lækkaðir sem fyrst, samkvæmt sáttmálanum. Gjaldeyrishöftin verði afnumin sem fyrst og hætt verði að loka fyrir erlenda fjárfestingu þann 1. nóvember. Ýmis fleiri skilyrði AGS fyrir lánaafgreiðslu sinni er þarna að finna og vonandi verða þau uppfyllt "fljótlega".
Skemmtilegasta málsgreinin í sáttmálanum er þessi: "Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda sbr. þjóðhagsáætlun, s.s. framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, s.s. gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009."
Það þarf sem sagt að semja um það sérstaklega, að ríkisstjórnin flækist ekki fyrir atvinnuuppbyggingu eftir 1. nóvember 2009. Allir hljóta að fagna því, að samningar tókust um þetta.
Með þessum sáttmála hefur AGS tryggt stefnu sína til a.m.k. tveggja ára.
Miðað við andstöðu Vinstri grænna við AGS fram að þessu, verður þessi árangur að teljast ásættanlegur fyrir AGS.
Til hamingju með sáttmálann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2009 | 13:37
Góðæri glæpamanna
Það er alþekkt staðreynd, að í kreppum fjölgar afbrotum allskonar, sérstaklega innbrotum, ránum og öðrum fjármálabrotum. Merki slíkrar aukningar hefur þegar orðið vart hér á landi á síðustu mánuðum og án nokkurs vafa á afbrotum af öllum gerðum eftir að fjölga á næstu árum.
Núna væru rétt viðbrögð, að flýta nýjum fangelsisbyggingum og auka framlög til lögreglu og saksóknara. Frekar en í öðrum málum, en náttúrlega gripið til þveröfugra aðgerða, þ.e. að skerða framlög til lögreglunnar, ríkissaksóknara og fangelsismála. Bygging fangelsa væri kærkomið verkefni fyrir sveltan byggingariðnað og myndi skapa nokkur störf í þeirri grein.
Ástandið sem nú er í efnahagslífi þjóðarinnar er tilkomið vegna glæpsamlegra athafna tiltölulega fárra manna, sem beittu svo flóknu ferli til að fela slóð sína, að langan tíma og mikinn mannafla mun þurfa til að upplýsa þá gjörninga alla.
Vitandi um þennan niðurskurð, hljóta íslenskir krimmar að hugsa sér gott til glóðarinnar.
Það er aumt hlutskipti, að hafa hvorki efni á að rannsaka glæpina, hvað þá að fangelsa þá, sem sekir eru.
Alvarleg staða í fangelsum á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2009 | 11:14
Siðlaus ríkisstjórn
Ríkisstjórn vinstri flokkanna hefur alltaf haldið því á lofti, að í þeim þrengingum sem nú dynja yfir, verði sérstklega gætt að því, að skerða ekki kjör öryrkja og aldraðra. Þetta lítur alltaf jafn vel út og frasinn um að hlífa velferðarkerfinu.
Eitt fyrsta verk Jóhönnu, ríkisverkstjóra, og Steingríms Jong Sig., fjármálajarðfræðings, er að skerða kjör aldraðra og öryrkja, sem þeim tókst að bæta hægt og bítandi í tíð Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.
Öryrkjabandalagið kallar þetta siðlausar ráðstafanir.
Er við öðru að búast?
Siðlaus bótaskerðing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2009 | 09:10
Skattasamningar
Eins og venjulega í þeirri opnu og gagnsæju stjórnsýslu, sem nú er viðhöfð í þjóðfélaginu, fær pöpullinn ekkert að vita um hvað er verið að semja í Karphúsinu, frekar en annað, sem sýslað er við á opinberum vettvangi. Fólki verður bara stillt upp við vegg og sagt að þetta sé það sem til boða standi og ekki annað að gera, en að samþykkja það.
Það eina, sem virðist vera hægt að átta sig á, er að stjórnin hafi verið pínd til að falla frá einhverjum smávægilegum hluta, þeirrar skattpíningar sem framundan er. Til að friða opinbera starfsmenn og fá þá til að vera með í sumargjöfinni til landsmanna, var einfaldlega slegið á frest, að gera uppskátt um skattpíninguna á árunum 2011 - 2013.
Eins og þetta virðist líta út, er ríkisstjórninni að takast að fá aðila vinnumarkaðarins til að samþykkja gífurlega skattpíningu almennings á næstu árum, í stað sparnaðar í ríkisrekstrinum.
Hafi ekki tekist að fá ríkisstjórnina til að hætta við niðurskurð verklegra framkvæmda og spara í staðinn í rekstrinum, væri þetta algerlega óviðunandi niðurstaða. Takmarka á opinberar framkvæmdir á þenslutímum, en auka þær verulega í niðursveiflum.
Nú er tími fyrir miklar opinberar framkvæmdir, en blóðugan niðurskurð í rekstri.
Ekki meira en 45% skattar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2009 | 18:00
Eftir uppskriftinni
Í þessu bloggi var því spáð að Hannes Smárason myndi áfrýja til Hæstaréttar úrskurði Héraðsdóms um að húsleitir efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra á heimilum hans og víðar, væru löglegar. Það sem er athyglisvert er, að lögmaður hans sendir mikla varnarræðu með áfrýjuninni, sem halda mætti að ætti betur heima sem hluti af vörn fyrir rétti, þegar ákæra verður lögð fram.
Í niðurlagi bréfs lögmanns Hannesar segir að allt bendi til þess að rannsóknin hafi farið af stað án þess að nægilegra gagna hafi verið aflað. Ætli húsrannsóknirnar hafi ekki einmitt verið hugsaðar til að afla nægilegra, eða a.m.k. fleiri, gagna? Ekki hafa þær verið hugsaðar sem kurteisisheimsóknir, eða kaffispjall, eða bara af því að löggurnar hafi langað til að sjá húsakynnin.
Hannes segir í sinni yfirlýsingu, að hann muni ekki fjalla meira um málið á opinberum vettvangi fyrr en því verði lokið og væntir þess að aðrir aðilar málsins geri það ekki heldur. Ekki er nú alveg ljóst hverjir þessir "aðrir aðilar málsins" eru, en ef hann á við að fjölmiðlar og almenningur eigi ekki að ræða málið neitt, þá mun honum alls ekki verða að þeirri ósk sinni.
Þetta mál fer algerlega af stað eftir uppskrift Baugsmálsins fyrsta. Svo mun einnig verða um öll önnur mál, sem á eftir munu koma.
Að lokum mun verða til heil uppskriftabók um varnir fjárglæframanna fyrir dómstólum.
Hannes segist ekki hafa brotið lög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.6.2009 | 16:42
Ríkisstarfsmenn vilja skattahækkanir
Stöðugleikasáttmálinn fyrirhugaði er í óvissu vegna þeirrar afstöðu ríkisstarfsmanna að þeir krefjast stórhækkaðra skatta á atvinnulífið og almenning, til þess að alls ekki verði fækkað um eitt einasta starf hjá hinu opinbera.
Árni Stefán Jónsson, staðgengill Ögmundar ráðherra hjá BSRB, lætur mbl.is hafa eftir sér: "Við viljum fara tekjuleiðina," sagði Árni og átti við að hann kysi að auka tekjur ríkisins með hærri sköttum frekar en að skera niður í velferðarkerfinu."
Auðvitað er þessi skattahækkanakrafa sett í þann fallega búning, að betra sé að hækka skatta, frekar en að skera niður í velferðarkerfinu. Bara orðið sjálft, velferðarkerfi, er svo heilagt, að engum dirfist að láta sér detta í hug að þar megi spara eina einustu krónu, hvað þá að segja það upphátt. Þess vegna er hægt að réttlæta allt sukk og svínarí hjá hinu opinbera með því að segja alltaf að ekki megi "skera niður í velferðarkerfinu".
Að sjálfsögðu meinar Árni alls ekki það sem hann segir með þessu, heldur meinar hann að ekki megi setja starf eins einasta ríkisstarfsmanns "í hættu" með sparnaði í ríkiskerfinu almennt. Það er líka þess vegna sem aðal ráð ríkisstjórnarinnar til sparnaðar er að skera niður framkvæmdir, frekar en rekstur. Þannig er störfum á almennum vinnumarkaði fórnað fyrir opinber störf, enda koma kjósendur vinstri flokkanna helst úr röðum opinberra starfsmanna.
Þetta er allt spurning um atkvæði, en ekki þjóðarhag.
Deilt um leiðir í Karphúsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2009 | 15:08
Bætur hverra tapast?
Fyrir nokkrum árum voru háværar kröfur á lofti um að tryggingafélögin lækkuðu iðgjöld sín, þar sem gífurlegar upphæðir hefðu safnast saman í bótasjóðum félaganna og því var talið að góður grundvöllur væri fyrir lækkunum. Þetta tóku tryggingafélögin ekki í mál, því samkvæmt þeirra rökum voru bótasjóðirnir vandlega útreiknuð ógreidd tjón og því alls ekki grundvöllur til nokkurrar lækkunar iðgjalda. Svo halda iðgjöldin auðvitað áfram að hækka og hækka.
Nokkuð hefur verið hljótt um bótasjóðina um tíma, en t.d. á þessu bloggi hefur stundum verið velt vöngum yfir því, hvað útrásarvíkingar væru að vilja með því að leggja undir sig tryggingafélögin, eins og reyndar flest annað. Þá var m.a. sett fram sú spurnig, hvort það gæti verið vegna ásælni í bótasjóðina og nú væri búið að "fjárfesta" með þeim í óskyldum verkefnum.
Nú er smátt og smátt að koma í ljós hvað um þá varð. Þeir eru búnir að "fjárfesta" út um allan heim í alls kyns óarðbærum verkefnum og nú síðast er Sjóvá að tapa 3,2 milljörðum úr bótasjóði sínum á lúxusíbúðum í Macau. Önnur frétt er her á mbl.is, þar sem fram kemur að íslensk útrásarfyrirtæki með heimilisfang hjá Sjóvá, standa í málaferlum í Milwaake vegna annarrar lúxusbyggingar, sem virðist vera jafn glötuð fjárfesting og sú í Macau.
Forstjóri Sjóvár segir að þetta tap muni ekki á nokkurn hátt koma niður á viðskiptavinum félagsins, eða tjónþolum, sem er afar undarlegt, þar sem bótasjóðirnir áttu ekki að vera til neins annars en til tjónauppgjöra. Annað hvort voru rökin fyrir tjónasjóðunum hreinn tilbúningur, eða forstjórinn verður að svíkja talsvert marga tjónþola, til að eiga fyrir þessu tapi.
Sennilega þarf fljótlega að hækka tryggingariðgjöld. Það mun auðvitað verða ótengt þessu máli.
Sjóvá tapar 3,2 milljörðum í Hong Kong | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)