Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Stjórnin að vakna

Hér hefur oft verið bloggað um þann niðurskurð ríkisfjármála, sem bæði er nauðsynlegt að ráðast í og er einnig samningsbundið við AGS að jafnvægi verði náð í síðasta lagi árið 2013.  Því var alltaf spáð, að stjórnin myndi ekki fást til að ræða þetta fyrr en eftir kosningar og reglulegar bloggfærslur alveg frá 11/02 (sem má sjá hér ) hafa litla athygli vakið.  Líklega hefur almenningur alls ekki viljað horfast í augu við þessar staðreyndir fyrr en núna, en ríkisstjórnin hefur auðvitað vitað þetta frá haustdögum 2008, en viljandi haldið þessum upplýsingum leyndum, eftir mætti.

Loksins núna, 25. maí 2009, segir Jóhanna, ríkisverkstjóri:  „Erfitt verður að ná fram verulegri lækkun stýrivaxta, sem er lykilatriði fyrir heimilin og fyrirtækin, nema einnig verði á sama tíma verði gripið til róttækra og sársaukafullra aðgerða í ríkisrekstrinum, með niðurskurði útgjalda og skattabreytingum. 170 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs verður að eyða fram til ársins 2013."

Í stjórnarsáttmálanum var ekki eitt einasta orð, um hvernig þessum halla skyldi mætt og enn er notast við það almenna orðalag, að þetta verði sársaukafullar aðgerðir, án þess að útskýra það nokkuð nánar.  Ekkert samkomulag mun vera milli ríkisstjórnarflokkanna um niðurskurðinn og því var gripið til þess ráðs að leggja fram tillögu um ESB aðild, til þess að dreifa athyglinni frá þessu grafalvarlega máli.

Ef ekki er hægt að lækka stýrivexti meira, vegna getuleysis stjórnarinnar í efnahagsmálum, mun heimilum og fyrirtækjum halda áfram að blæða og ný búsáhaldabylting mun skella á fyrr en varir.

Nú er tími kominn til, að ríkisstjórnin fari að koma sér saman um aðgerðir, eða koma sér frá.

 


mbl.is Róttækar og erfiðar ákvarðanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið verk óunnið áður en sótt verður um

Tillaga, um að hefja skuli aðildarviðræður við Evrópusambandið, var lögð fram á Alþingi í dag af Össuri, grínara, og vegna eðli og alvarleika þessa máls, er rétt að birta tillöguna og athugasemdir við hana hér:

 

Þskj. 38  —  38. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

(Lögð fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Tillaga um aðildarumsókn að Evrópusambandinu er lögð fram til þess að íslenska þjóðin fái tækifæri til að hafna eða samþykkja samning um aðild að sambandinu þegar hann liggur fyrir.
    Umsókn að ESB jafngildir þannig ekki aðild enda er það íslensku þjóðarinnar að komast að endanlegri niðurstöðu hvað hana varðar. Jafnframt verði lagt fram frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál sem ríkisstjórn eða Alþingi ákveða að leggja fyrir þjóðina.
    Víðtækt samráð verður haft við hagsmunaaðila um samningsmarkmið fyrir viðræðurnar á ýmsum sviðum, svo sem sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamála, á sviði almannaþjónustu, umhverfis- og jafnréttismála og gjaldmiðilsmála, og leitast við að ná sem breiðastri samstöðu um umræðugrundvöll viðræðnanna. Skoðað verður hvort unnt sé að ná fram samstarfi í gjaldmiðilsmálum samhliða viðræðum um hugsanlega aðild til að styðja við gengi krónunnar. Áhersla er lögð á opið og gagnsætt ferli og reglubundna upplýsingagjöf til almennings og hagsmunaaðila.
    Fagleg viðræðunefnd við ESB verður skipuð af ríkisstjórn Íslands. Henni til fulltingis verður breiður samráðshópur fulltrúa hagsmunaaðila sem nefndin leitar ráðgjafar hjá, og upplýsir jafnóðum um framvindu viðræðna. Ísland sem Evrópuþjóð vill leggja sitt af mörkum við uppbyggingu lýðræðislegrar Evrópu sem grundvallast á félagslegu réttlæti, jafnrétti og virðingu fyrir manngildi og umhverfi. Hlutverk Evrópu er að vera hornsteinn mannréttinda í heiminum og ýta undir stöðugleika, sjálfbæra þróun, réttlæti og velmegun um allan heim.
    Málsaðilar áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið.
    Meðal grundvallarhagsmuna Íslands eru:
    *      Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra.
    *      Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og hlutdeild í deilistofnum og eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi í alþjóðasamningum og hægt er.
    *      Að tryggja öflugan íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis og matvælaöryggis.
    *      Að tryggja lýðræðislegan rétt til að stýra almannaþjónustu á félagslegum forsendum.
    *      Að standa vörð um réttindi launafólks og vinnurétt.
    *      Að ná fram hagstæðu og vaxtarhvetjandi samkeppnis- og starfsumhverfi fyrir atvinnulíf á Íslandi um leið og sérstöðu vegna sérstakra aðstæðna er gætt.
    Stefnt er að því að Alþingi setji á fót sérstaka Evrópunefnd Alþingis með fulltrúum allra stjórnmálaflokka er fari með samskipti við viðræðunefnd vegna ESB.

Nokkrar setningar í athugasemdunum eru feitletraðar hér til að sýna að jafnvel grínarinn Össur og ríkisvinnuflokkurinn gera sér grein fyrir því að gífurleg vinna er framundan við að móta samningsmarkmið Íslands í fyrirhuguðum viðræðum.

Samningsmarkmiðin verða ekki tilbúin fyrr en eftir marga mánuði og því hlýtur það að vera brandari (lélegur) að leggja til að sótt verði um aðild og síðan verði farið að leggja niður fyrir sér um hvað á að semja.  Það hljóta allir að sjá, að slíkt væri alveg arfavitlaus vinnubrögð og stækkunarstjóri ESB hlyti að hlæja sig máttlausan við móttöku umsóknarinnar.  Hvað yrði sagt, ef umsóknin yrði send og síðan kæmust menn ekki að samkomulagi um samningsmarkmiðin?

Ef þannig færi, myndu fleiri hlæja en stækkunarstjórinn.


mbl.is ESB-tillaga lögð fram á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búsáhaldabylting í Borgarahreyfingunni?

Borgarahreyfingin var stofnuð upp úr búsáhaldabyltingunni í vetur og bauð fram lista í Alþingiskosningum í framhaldi af því og uppskar fjóra þingmenn.  Nú, aðeins mánuði eftir kosningar, virðist vera í uppsiglingu búsáhaldabylting innan hreyfingarinnar, eins og sjá má hér

Í frétt RUV kemur fram að:  "Ræða sem Guðmundur Andri Skúlason hélt hleypti hins vegar illu blóði í fundarmenn. Hann kom víða við og sakaði stjórn flokksins um að taka ákvarðanir á bak við luktar dyr. Gagnsæið sem hefði verði aðalmerki flokksins væri ekki lengur til staðar."

Ljótt, ef satt er.  Borgarahreyfingin var stofnuð til að berjast gegn klíkum í öðrum flokkum og með því loforði, að allt yrði opið og gegnsætt hjá hreyfingunni, ólíkt því sem gerðist hjá öðrum.  Nú er svo komið að farið er að berjast um völd og peninga innan hreyfingarinnar og lofar það ekki góðu um framtíðina. 

Þetta eru einnig hlutar úr frétt RUV: 

 "Einn fundarmanna sem fréttastofan ræddi við segir að fundurinn hafi verið svakalegur." 

"Viðmælendur fréttastofu segja að fundurinn í gær sé dæmi um vaxtaverki innan flokksins. Rokið hafi verið til, stofnaður flokkur og boðið fram til kosninga. Þingmenn hreyfingarinnar voru í morgun ekki tilbúnir til að veita viðtöl en von er á yfirlýsingu frá þeim seinna í dag."

Vonandi verða vaxtaverkirnir fljótir að jafna sig svo fundir framtíðarinnar verði ekki jafn svakalegir.

 


mbl.is Átakafundur hjá Borgarahreyfingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru verjendur á lausu?

Allir helstu lögfræðingar landsins hafa verið fastir í verjendastörfum fyrir Baugsliðið undanfarin ár og ekki útlit fyrir annað en nóg verði að gera á þeim vígstöðvum mörg ár enn. 

Ólafur Ólafsson, ofsóttur sakleysingi, segir m.a. í yfirlýsingu sinni:   "Ég er þess fullviss að vönduð rannsókn muni leiða í ljós algert sakleysi mitt af þeim ávirðingum sem á mig hafa verið bornar í fjölmiðlum.“

Það er nokkuð klókt, að nota orðalagið "vönduð rannsókn" í þessu samhengi, því ef hann verður ákærður fyrir eitthvað, þá er alltaf hægt að halda því fram að rannsóknin hafi verið óvönduð.  Því var stöðugt haldið fram í Baugsmáli hinu fyrra, að rannsóknin væri óvönduð og gerð af illum hvötum og þar að auki að undirlagi illra innrættra stjórnvalda.  Sá áróður gekk vel í almenning á þeim tíma, en óvíst að það takist jafn vel aftur.

Einnig gefur Ólafur í skyn að sérstakur saksóknari sé að rannsaka "ávirðingar sem á mig hafa verið bornar í fjölmiðlum".  Þessi fullyrðing er auðvitað til að árétta, að rannsóknin sé óvönduð og að undirlagi illra afla í þjóðfélaginu, en ekki að frumkvæði saksóknarans vegna upplýsinga sem koma frá Fjármálaeftirlitinu.

Lögfræðingar Ólafs hljóta að vera farnir að undirbúa vandaða vörn í málinu.

 


mbl.is Rannsókn leiði í ljós sakleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert að óttast fyrr en í haust?

Heimsfaraldur Influensu A hlaut að berast hingað til lands fyrr eða síðar.  Flensan er ólík öðrum slíkum að því leyti að hún á uppruna að rekja til vesturlanda, en ekki Asíulanda, eins og oftast er.  Frá Asíu hafa borist flensur á hverju ári og þaðan hefur verið óttast að fuglaflensan myndi jafnvel ná sér á strik og breiðast þaðan og valda óáran og jafnvel fjöldadauða um allan heim.

Mexíkóflensan virðist ekki vera eins skæð og óttast var í fyrstu, en nú hefur hún borist til Asíu og þá er ekki að vita hvað gerist með haustinu.  Hugsanlega gæti hún komist í tæri við fuglaflensuna og út frá því orðið stökkbreyting hennar og hún orðið eins skæð og Svarti dauði var hér áður fyrr, eða Spænska veikin á fyrri hluta síðustu aldar.

Núna er ekki ástæða til annars, en að sýna almenna skynsemi varðandi hreinlæti og umgengni við þá, sem hugsanlega smitast á næstunni.

Vonandi verður komið bóluefni gegn þessum vágesti fyrir haustið.

Gerist það ekki, er hægt að eiga á öllu von, án þess að ástæða sé til að örvænta, því læknavísindin eru betur í stakk búin til að glíma við svona plágur, en þau voru á síðustu öld.


mbl.is Svínaflensa á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt Davíð að kenna

Baugsliðið hefur í mörg ár haldið því fram að Davíð Oddsson hafi verið sinn versti óvinur og alltaf barist á móti útrásardraumum og annarri almennri græðgisvæðingu, innanlands og utan.  Þetta var allt saman satt og rétt, en með skipulagðri og dýrri ímyndarherferð tókst Baugsmönnum að vinna almenningsálitið á sitt band og Davíð var úthrópaður, sem óvinur þjóðarinnar  númer eitt.

Davíð var óvinur fleiri stórglæpamanna, því eins og hann sagði sjálfur frá í Kastljósi, þá var það hann sem benti lögreglunni á, að sitthvað dularfullt væri á seyði innan Kaupþings, t.d. mál sjeiksins frá Katar,  eða eins og segir í fréttinni:

"Upphaf málsins má rekja til bréfs sem Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, sendi til lögreglu en líkt og Davíð upplýsti í Kastljósþætti þann 24. febrúar sl. að fréttir hefðu borist af því að lögreglu hefði borist nafnlaust bréf sem varð til þess að sjeik í Katar og hundruð milljarða tilfærslur á peningum komu upp á yfirborðið. Davíð sagði, að upplýsingarnar hefðu að vísu borist sér nafnlausar en bréfið hefði hann skrifað lögreglunni 2. desember. Þetta hefði valdið breytingum í skilanefndum Kaupþings og víðar."

Það hefur tekið hálft ár, að koma rannsókninni nógu vel af stað, til þess að réttlæta húsleitir, yfirheyrslur og að setja nokkra menn í stöðu grunaðra.  Fjölmiðlafárið og sefjun almennings í Bausmáli hinu fyrra, varð til þess að allt fór á annan endann í þjóðfélaginu og herferð Baugsmanna tókst fullkomlega.

Davíð var stimplaður sem óvinurinn.

Nú er sífellt betur að koma á daginn, að Davið var óvinur spillingar og glæpa, en ekki óvinur þjóðarinnar.

 


mbl.is Unnið úr leitinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran og Pólland

Smáflokkafylkingin berst fyrir inngöngu Íslands í ESB og reynir að telja þjóðinni trú um að með umsókninni einni saman, muni kreppan hverfa eins og dögg fyrir sólu.  Ekki nóg með að "traust" og stöðugleiki munu nánast koma sjálfkrafa, þá munum við fá Evruna, nánast samdægurs og þar með lága vexti og lágt matarverð, án þess að geta þess nokkurntíma, að Íslendingar geta sjálfir lækkað vexti og fellt niður tolla af erlendum matvörum.

Pólland gekk í ESB árið 2004 og þar er ekki reiknað með að þeir geti tekið upp Evruna fyrr en árið 2012, og þar telur fjármálaráðherrann að það muni hjálpa til við að verja pólskt efnahagslíf.  Því er yfirlýsing Lech Kaczynski, forseta póllands, í pólska þinginu afar athyglisverð, en þar sagði hann m.a:  „Upptaka evru er svo sannarlega ekki lækning við lasburða efnahag vegna efnahagskreppunnar í heiminum.  Þvert á móti, á tímum heimskreppu og samdráttar í efnahagslífinu þá er slíkt skref afar áhættusamt fyrir Pólland."

Skyldi Smáflokkafylkingunni aldrei hafa dottið í hug að krónan hafi bjargað íslenskum útflutningsatvinnugreinum og ferðaiðnaðinum í þeirri kreppu, sem nú gengur yfir hér á landi.

Atvinnuleysi í þessum greinum er nánast ekkert núna og litið til þessara greina, sem helstu von þjóðarinnar um þessar mundir.

Væru þessar atvinnugreinar einhver vonarpeningur, ef gjaldmiðillinn hefði verið Evra, þegar hrunið varð?


mbl.is Forseti Póllands varar við upptöku evrunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðhjöðnun og stýrivextir

Þann 1. apríl s.l. stóð vísitala neysluverðs í 336,5 stigum og vísitalan fyrir júní er 336,0 stig.  Á þessum þrem mánuðum hefur hún sem sagt lækkað um 0,5 stig.  Á sama tíma hefur byggingavísitala lækkað úr 490,7 stigum í 474,9 stig.  Þetta þýðir það að nú er að verða verðhjöðnun í landinu, sem telst vera enn verri en hófleg verðbólga.

Algert afskiptaleysi, ef ekki stjórnleysi, seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hefur valdið því að gengið hefur fallið um meira en 20% síðan skipt var um yfirstjórn í bankanum.  Ef þessi gengisfelling hefði ekki komið til og þar með hækkun innfluttra vara, væri verðhjöðnunin orðin miklu meiri, en hún þó er.

Meðan þetta er að gerast, horfa snillingarnir alltaf á það hvað verðbólgan hafi verið mikil tólf mánuði aftur í tímann og miða vaxtaákvarðanir við það.  Þegar stýrivextir voru hækkaðir, var það alltaf útskýrt með því að þeir væru til að slá á lánsfjáreftirspurn í framtíðinni, en ekki væri verið að meta hvað hefði gerst í fortíðinni.

Vaxtalækkanir seðlabankans eiga líka að taka mið af áætlunum um framtíðina og því er alger krafa að við næstu stýrivaxtaákvörðun verði farið að líta til framtíðarinnar og þess útlits sem atvinnulífið og heimilin munu þá standa frammi fyrir.

Ef það verður gert, munu stýrivextir verða lækkaðir niður í 2%.

Með 2% stýrivöxtum verðu Ísland eftir sem áður með einna hæstu stýrivexti í heimi.


mbl.is Tveir vildu lækka vexti meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mála(ó)gleði

Jóhanna, ríkisverkstjóri, gat þess í stefnuræðu sinni, að vegna gífurlegs krafts og dugnaðar síns og ríkisvinnuflokksins, yrðu a.m.k. 38 lagafrumvörp, þingsályktunartillögur og önnur þingmál, flutt á nýsettu sumarþingi.  Þessa málaskrá eru allir hvattir til að lesa, en hana má sjá  hér

Í þessari málaskrá eru a.m.k. tíu mál, sem koma beint frá EES og skylda er að staðfesta sem lög frá Alþingi.  Af þeim málum, sem þá eru eftir er aðeins eitt, sem snertir hvert heimili í landinu á beinan hátt, en það er skýrt svona í málefnaskránni:   "Frumvarp til breytinga á ýmsum skattalögum o.fl. vegna tekjuöflunar ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir á grundvelli áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum verði nauðsynlegt að auka tekjur á þessu ári."

Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, var reyndar búinn að segja að skattar yrðu ekki hækkaðir á þessu ári, þar sem fjárlög hefðu þegar verið samþykkt fyrir árið 2009.  Að vísu sagði hann þetta fyrir kosningar, svo það var auðvitað ekki að marka.

Marg oft hefur verið farið fram á að almenningur verði upplýstur um, hvernig á að ná niður fjárlagahallanum fyrir árið 2013, en fram að kosningum var því máli alltaf eytt, eins og hverju öðru aukaatriði, þó aðeins sé nú farið að minnast á þetta, eftir kosningarnar.  Í málaskrána er nú sett klausa, sem hlýtur að vera sú mikilvægasta, fyrir utan skattahækkanirnar, en það er liður nr. 5. frá Fjármálaráðuneytinu:  "Skýrsla um áætlun í ríkisfjármálum 2009 til 2013. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er ákveðið að áætlun þessi verði lögð fram til kynningar. Í henni er gerð grein fyrir þeim aðgerðum í ríkisfjármálum sem taldar eru nauðsynlegar til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næstu árum og standa við forsendur aðstoðaráætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins."

Þessa skýrslu á sem sagt að leggja fram til kynningar.  Fréttamenn hafa ekki uppgötvað ennþá, að þetta sé stæsta mál, sem þjóðin stendur frammi fyrir.  Ekki þykir heldur fréttnæmt, hvers vegna AGS hefur ekki ennþá greitt annan hluta lánsloforðsins og telur að ekki sé hægt að lækka stýrivexti meira á næstu mánuðum.

Vonandi vaknar sá skilningur, þegar skýrslan verður kynnt.


mbl.is Áforma að flytja 38 mál á vorþinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugsmál - gömul og ný

Nú er loksins farið að sjást fyrir endann á þeim Baugsmálum, sem hófust á árinu 2003, en nú er komið að málflutningi í skattahluta þess.  Her lögmanna hefur tekist að þvæla þessi mál og tefja fyrir dómstólum í rúm fimm ár og snúa út úr og afbaka allar ásakanir ákæruvaldsins, með þeim árangri að sýknað var í flestum ákæruliðum.  Aðeins voru Baugsmenn dæmdir sekir í þrem ákæruliðum af þeim fjörutíu, sem lagt var upp með.

Ekki var nóg með að helstu lögfræðistofur landsins, með tugi lögfræðinga, kæmu að vörn málsins, heldur var annar her ímyndarfræðinga ráðinn til þess að vinna almenningsálitið á band sakborninga og tókst það svo vel, að almenningur trúði því, að um árásir pólitískra óvildarmanna væri að ræða á hendur blásaklausum velgjörðarmönnum alþýðunnar.  Er það einhver fræknasti sigur í áróðursstríði sem um er að ræða í Íslenskri sögu.  Nú vill hins vegar enginn kannast við að hafa fylkt sér í lið með Baugsliðinu.

Þessi gömlu Baugsmál, sem þó hafa tekið þetta langan tíma, eru sennilega bara smámál, miðað við það sem koma hlýtur út úr rannsóknum sérstaks saksóknara og Evu Joly á Baugsmálum hinum síðari.  Miðað við tímann, sem gamla málið tók í dómskerfinu, munu líða afar mörg ár þangað til niðurstaða fæst úr Baugsmálum hinum síðari. 

Þegar nýju málin fara í gang, mun Jóhannesi í Bónus og ímyndarhermönnunum verða beitt aftur, til að fegra ásjónuna gagnvart almenningi.

Munurinn er sá, að þá mun enginn trúa þeim.


mbl.is Baugsmálinu ekki vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband