Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Annir Jóhönnu, ríkisverkstjóra

Jóhanna, ríkisverkstjóri, hefur svo mikið að gera, að hún má ekkert vera að því að sinna Alþingi þessa dagana og er ekki nema gott um það að segja, að hún skuli hafa eitthvað að gera í vinnunni.

Það sama verður ekki sagt um Alþingi, en þar er verkstjórnin ekki burðug, enda kemur ríkisvinnuflokkur Jóhönnu engum málum frá sér, eins og sett var inn á þetta blogg fyrr í dag.

Vonandi verður hægt að ganga frá stöðugleikasáttmála fljótlega.

Ekki væri verra, ef einnig væri hægt að ganga frá, þó ekki væri nema einhverjum öðrum brýnum málum. 


mbl.is Stöðugleikaumræðu að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annríki á Alþingi - eða hitt þó heldur

Þingfundur er hafinn á Alþingi og ekki verður annað séð, en afar rólegt sé í þjóðfélginu og allt í miklum blóma í efnahagslífinu.  Á dagskrá þingsins eru engin önnur mál en "störf þingsins" og sex fyrirspurnir frá Birki Jóni Jónssyni, þingmanni Framsóknarflokksins.   Dagskráin er svohljóðandi:

 7. þingfundur 27.05.2009 hófst kl. 13:31
Fyrirspurnir
1. Störf þingsins.
2. Niðurgreiðsla á rafmagni til húshitunar til iðnaðarráðherra 25. mál, fyrirspurn BJJ.
3. Atvinnuleysistryggingasjóður til félags- og tryggingamálaráðherra 27. mál, fyrirspurn BJJ.
4. Séreignarlífeyrissparnaður til fjármálaráðherra 28. mál, fyrirspurn BJJ.
5. Framtíðarskipan Hólaskóla til menntamálaráðherra 9. mál, fyrirspurn EKG.
6. Nýsköpunarsjóður námsmanna til menntamálaráðherra 23. mál, fyrirspurn BJJ.
7.

Sumarnám í háskólum landsins til menntamálaráðherra 24. mál, fyrirspurn BJJ

Dæmi hver fyrir sig, hvort svona dagskrá sé boðleg þingi og þjóð á óvissutímum.

 


Viðkvæmt og erfitt mál

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, sem á árinu 1996 sagði frá kynferðislegri áreitni séra Ólafs Skúlasonar, biskups, í sinn garð á meðan hann var sóknarprestur í Bústaðakirkju, hefur farið fram á afsökunarbeiðni kirkjunnar vegna málsins.  Kirkjuráð hefur boðað hana á sinn fund þann 19. júní n.k. og mun væntanlega taka afstöðu til málsins í framhaldi af því.

Þetta mál er afar erfitt viðureignar og verkur upp þá spurningu, hvort kirkjan, sem stofnun og fyrrverandi vinnuveitandi Ólafs, geti í raun beðist afsökunar á gerðum þessa fyrrum starfsmanns síns.  Getur t.d. forstjóri í stórfyrirtæki beðist afsökunar á persónulegum misgjörðum fyrirrennara síns, hvort sem ásakanir á hendur honum hafi komið fram að fyrirrennaranum lífs eða liðnum?  Getur barn beðist afsökunar á gerðum látinna foreldra sinna?  Fengist betri sálarró með því að fórnarlambið fyrirgæfi látnum misgjörðarmanni sínum?

Sigrún Pálína óskar eftir uppreisn æru, vegna þess að henni finns kirkjan ekki hafa brugðist rétt við ásökunum sínum á hendur Ólafi.  Það hefði kirkjan væntanlega ekki getað gert öðruvísi en með því að svifta Ólafi biskupsembættinu.  Þar var kirkjan kannski í erfiðri stöðu, þar sem ekki var hægt að sanna ásakanirnar með áþreifanlegum hætti, en ef til vill hefði hún átt að láta fórnarlömbin njóta vafans.

Engin ástæða er til að efast um frásögn Sigrúnar Pálínu og í raun er hennar æra ekki skert í huga manna, heldur er hún virt og dáð fyrir framgöngu sína.  Hún fær hins vegar ekki frið í sálina og lítur á sig sem útlaga frá landinu á meðan kirkjan biðst ekki afsökunar á misgjörð kirkjunnar manns í sinn garð.

Vonandi getur kirkjan komið á móts við kröfur hennar og er henni óskað velfarnaðar í þessu máli, sem og lífinu framvegis.


mbl.is Sigrúnu boðið á fundinn 19. júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fastgengisstefna óraunhæf

Síðan peningastefnunefndin og norski förusveinninn settust að völdum í Seðlabankanum þann 27/02 s.l. hefur gengi krónunnar lækkað um rúm 20%, eða úr tæpum 187 stigum í rúm 230 stig.  Seðlabankanum hefur sem sagt ekki tekist betur en þetta að verja gengið síðustu þrjá mánuði, þrátt fyrir að ríkisvinnuflokkur Jóhönnu, ríkisverkstjóra, hafi sagt að styrking krónunnar væri eitt helsta markmið stjórnarinnar.

Nú koma menn fram með þær hugmyndir að setja gengið fast í 160 - 170 stigum, án þess að fram komi hvernig í ósköpunum þeir ætli að fara að því.   Það verður varla gert nema með því að Seðlabankinn ausi gjaldeyri inn á markaðinn, en þetta var reynt í tvo daga eftir bankahrunið síðast liðið haust, en olli svo miklu útflæði gjaldeyris að gefist var upp á því strax aftur.

Að ætla að festa gengið og viðhalda gjaldeyrishöftum á sama tíma er ávísun á lokað hagkerfi til langs tíma, með sífellt strangari kröfum um verslun með gjaldeyri, sem myndi að lokum leiða til álíka ástands og var hér á landi eftir miðja síðustu öld, þegar skömmtunarseðlar voru gefnir út fyrir öllum helstu nauðsynjavörum.

Ísland þarf að komast inn í framtíðina, en ekki fortíðina.


mbl.is Ekki raunhæft að festa gengið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáráðlegt bann

Hæstiréttur Kaliforníu staðfesti úrslit atkvæðagreiðslu frá því síðast liðið haust, um bann við hjónavígslum samkynhneigðra, án þess þó að ógilda vígslu 18 þúsund para, sem höfðu látið gefa sig saman á meðan það var lögleyft.

Þetta er vægast sagt fáráðlegur úrskurður, ekki síst vegna þess að nú eru hjónavígslur samkynhneygðra væntanlega bæði löglegar og ólöglegar í sama ríkinu.

Ást milli tveggja einstaklinga á að vera nægur grundvöllur fyrir hjónavígslu án tillits til kyns viðkomandi, litarháttar, trúarbragða eða annars, því sem betur fer eru ekki allir skapaðir eins.

 


mbl.is Bann við hjónavígslu samkynhneigðra staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG umskiptingar

Þingmaður Framsóknarflokksins sagði á þingi í dag, að engu væri líkara en þingmenn VG séu umskiptingar.  Þetta er að mörgu leyti hárrétt greining, en munurinn á þingmönnum VG og umskiptingnum í þjóðsögunni er sá, að barnið var þægt og gott áður en skiptin fóru fram, eins og sjá má hér

Þingmenn VG létu öllum illum látum á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu, æptu og hrinu, en eftir að þeir komust í ríkisstjórn, heyrist ekki frá þeim hósti eða stuna, allavega ekki um þjóðþrifamálin.

Samlíkingin við umskiptinginn er því alls ekki svo vitlaus.


mbl.is Umskiptingar á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirvarar vegan EES og ESB

Þjónustutilskipun ESB, sem Íslendingar eru skyldugir til að innleiða vegna EES samningsins, hefur nú verið staðfest af ríkisstjórninni, eftir að hótanir höfðu borist um að landinu yrði stefnt fyrir EES dómstólinn, vegna tregðu við innleiðinguna.

Í fréttinni kemur fram að:  "Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra taldi afar brýnt að setja skýran fyrirvara í tengslum við samþykkt þjónustutilskipunarinnar, fyrirvara sem snýr sérstaklega að heilbrigðisþjónustunni og almannaþjónustu almennt."

Sú spurning vaknar, hvort ESB sætti sig við að einstakar þjóðir setji slíka fyrirvara og hvort þeir myndu standast fyrir dómstóli ESB, ef á það myndi reyna.  Í athugasemdum með tillögu Össurar, grínara, um aðildarumsókn að ESB eru settir nokkrir fyrirvarar, t.d. þessir, sem snerta sömu atriði:

*      Að tryggja lýðræðislegan rétt til að stýra almannaþjónustu á félagslegum forsendum. 
*      Að standa vörð um réttindi launafólks og vinnurétt.

Ef Íslensk stjórnvöld eru sannfærð um að þessum málum sé stýrt á ólýðræðislegan hátt í ESB, af hverju sækja þau þá svona stíft að komast í þessa ólýðræðislegu samkundu.

Mikil umbrot eiga sér nú stað innan ESB og réttast að bíða í nokkur ár, með að ákveða hvort sækja skal um aðild, enda hefur Íslands ekkert inn í sambandið að gera núna.


mbl.is Þjónustutilskipun ESB samþykkt með fyrirvörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Duglaus ríkisvinnuflokkur án verkstjóra

Samkvæmt fréttinni um breytingar á verkefnum ráðuneyta, vaknar sú spurning hvað forsætisráðherra ætlar að gera í framtíðinni.  Öll helstu verkefni ráðuneytisins, sem hafa verið stjórn efnahagsmála, verða flutt annað og vandséð fyrir utanaðkomandi að sjá annað, en forsætisráðherra verði eingöngu fundarstjóri á ríkisstjórnarfundum framvegis.

Þessi ráðuneytaskák, sem á að tefla í sumar, þarfnast lagabreytinga og þau frumvörp virðast vera tilbúin, en ekkert heyrist um frumvörp varðandi þau mál, sem mest brenna á þjóðinni, þ.e. aðgerðir í banka- og atvinnumálum, mál er varða vanda heimilanna, að ekki sé talað um ríkisfjármálin, sem er stæsta vandamálið, sem við er að eiga.

Á meðan ekkert er að gerast hjá ríkisvinnuflokknum, sést hér fyrir neðan hvernig verkstjórninni er háttað hjá stjórn og Alþingi, en engu er líkara en allt sé í blóma í þjóðfélaginu og engin vandamál, sem þurfi að glíma við.  Dagskrá Alþingis í dag lítur svona út:

 

Dagskrá þingsins

 6. þingfundur 26.05.2009 kl. 13:30
1. Störf þingsins.
2. Fjármálafyrirtæki 33. mál, lagafrumvarp viðskiptaráðherra. 1. umræða. afbr. fyrir frumskjali.
3. Erfðabreyttar lífverur (upplýsingar til almennings, EES-reglur) 2. mál, lagafrumvarp umhverfisráðherra. 1. umræða.
4. Stjórn fiskveiða (frístundaveiðar) 34. mál, lagafrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 1. umræða. afbr. fyrir frumskjali.
5. Eiturefni og hættuleg efni (flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir, EES-reglur) 3. mál, lagafrumvarp umhverfisráðherra. 1. umræða.
6. Meðhöndlun úrgangs (flutningur úrgangs milli landa, EES-reglur) 4. mál, lagafrumvarp umhverfisráðherra. 1. umræða.
7. Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum 35. mál, lagafrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 1. umræða. afbr. fyrir frumskjali.

Af sex þingmálum, eru þrjú frá EES um erfðabreyttar lífverur, eiturefni og meðhöndlun úrgangs.  Frá sjávar- og landbúnaðarráðherra eru mál um frístundaveiðar og framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.  Frá viðskiptaráðherra er frumvarp til leiðréttingar á lagaklúðri frá vorþingi.

Ríkisverkstjórinn og vinnuflokkur hennar tekur lífinu greinilega með mikilli ró þessa dagana.


mbl.is Ráðuneyti skipta um nöfn og hlutverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB áróður frá ESB

Þessa dagana hellist yfir áróður úr herbúðum ESB um hve Íslendingar séu velkomnir í bandalagið og séu í raun bráðnauðsynlegir félagar til að hafa áhrif á og jafnvel stjórna sjávarútvegsmálum stórríkisins fyrirhugaða.

Stækkunarstjóri, sjávarútvegsstjóri, framkvæmdastjóri, forseti o.fl., o.fl. af framámönnum ESB lýsa þvi yfir hver í kapp við annan að sambandið bíði í ofvæni eftir aðildarumsókn Íslendinga og að allt yrði fyrir þá gert innan ESB, enda yrði Ísland útvörður sambandsins í norðri og síðan gætu Íslendingar vonandi haft vit fyrir Norðmönnum í framhaldi inngöngu sinnar.

Á næstu vikum má gera ráð fyrir að áróður ESB manna fyrir inngöngu Íslands þyngjast verulega, enda nægir peningar í sjóðum ESB til að reka áróður hérlendis til að fegra sambandið fyrir landanum.

Ekki mun heldur standa á Mogganum, Fréttablaðinu, Stöð 2, Ríkisútvarpinu og fleiri fjölmiðlum, að birta áróðurinn athugasemdalaust, enda dyggir aðdáendur fyrirhugaðs stórríkis ESB.

Nú er staglast á því að fiskveiðistefnunni verði breytt, nánast eingöngu vegna hagsmuna Íslands og því sé nauðsynlegt að nýta þekkingu Íslendinga í því skyni.

Trúi því hver sem vill.


mbl.is Sammála um að breyta fiskveiðireglunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga með ríkisábyrgð

Verðbólga milli mánaða varð miklu meiri en spádeildir höfðu gert ráð fyrir og stafar það aðallega af mikilli hækkun eldneytisverðs og annarar innfluttrar vöru.

Frá því að byltingin var gerð í seðlabankanum og norski förusveinninn og peningastefnunefndin voru sett til valda þann 27/02 s.l., hefur orðið meira en 20% gengisfelling, þrátt fyrir að meginmarkmiðið hafi verið að halda genginu stöðugu. 

Lánið frá AGS átti að vera til þess að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn og þar með gengið, en seðlabankinn hefur verið algerlega óvirkur á gjaldeyrismarkaði síðan byltingin varð og nú segir Jóhanna, ríkisverkstjóri, að engu hefði breytt þó annar hluti lánsins hefði skilað sér í marsbyrjun, eins og upphaflega var ráðgert.  Auðvitað hefði það engu skipt, fyrst seðlabankinn gerir ekkert hvort sem er til stuðnings genginu.

Það eina sem knýr verðbólgu nú, er hækkun innflutnings vegna stöðugs falls á genginu. 

Veðbólgan nú er því með fullri ríkisábyrgð.


mbl.is Verðbólgan mælist 11,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband