Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Stjórnlaust Alþingi

Ömurlegt er að fylgjast með störfum Alþingis þessa dagana, þar sem öll helstu þingmálin sem snerta heimilin í landinu og atvinnulífið, komast ekki til umræðu vegna óstjórnar á þinginu og þrjósku um forgangsröðun mála.

Þingfundir standa fram á nótt, en stjórnarþingmenn sjá ekki sóma sinn í að ræða sín eigin þingmál og nenna ekki einu sinni að hanga í vinnunni, þó ekki væri til annars en að sýnast (eins og þeir gera oftast).  Meira að segja flutningsmenn frumvarps um breytingar á stjórnarskrá láta ekki svo lítið að sitja þingfundi til þess að vera til andsvara við spurningum sem upp koma varðandi frumvarpið.  Í nótt var ekki einn einasti af flutningsmönnunum á þingfundi og reyndar ekki nema þrír stjórnarliðar, þótt Jón Bjarnason hefði upplýst að Atli, samfolkksmaður hans úr VG, svæfi í hliðarherbergi í þinghúsinu.

Þvílík niðurlæging fyrir þingið og enn meiri er hún gagnvart þjóðinn og stjórnarskránni, að stjórnarliðar á þingi ætli að þvinga breytingar á stjórnarskránni gegnum þingið, án þess að nenna að ræða þær breytingar sem þeir vilja gera.

Þingfundir hljóta að vera hugsaðir til þess að menn skiptist þar á skoðunum og reyni að hafa áhrif á afgreiðslu mála. 

 Þingið á ekki að vera stimpilpúði.

 


mbl.is Langir vinnudagar á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi mér áður brá

Nú eru greinilega nýjir tímar hjá vinstri mönnum varðandi skoðanir á málþófi.  Hér var fyrir nokkrum vikum spáð að mikið yrði gert úr málþófi Sjálfstæðismanna, þegar drægi að þinglokum.  Þetta var allt fyrirséð, þar sem löngu var ljóst að ríkisverkstjórinn og vinnuflokkur hennar myndu ekki koma frá sér nauðsynlegum þingmálum fyrr en undir þinglok.

Þegar nálgast þinglok, hefst að venju darraðardansinn um samninga um hvaða mál verði afgreidd áður en þingið fer í sumarleyfi.  Venju samkvæmt beitir þingminnihlutinn málþófi til þess að koma í veg fyrir afgreiðslu ákveðinna mála og ekki hafa vinstri menn alltaf talað illa um málþóf, eins og  þessi grein frá 07/01 2008 á heimasíðu ungliðahreyfingar VG ber með sér.

 Eftir mikla réttlætingu á málþófi vinstri manna, endar pistillinn á þessum orðum:

"Umræðan í dagblöðum og ríkisfjölmiðlum var sorgleg og bar því miður vott bæði um ítök meirihlutans í fjölmiðlum og lélega blaðamennsku. Þar var sjónum beint frá mikilvægi þess að skoðanir minnihutans eigi sem greiðastan aðgang að eyrum meirihlutans. Þess í stað var einblínt á málþóf. En málþóf - sem er afar sjaldgæft - er jafnframt mikilvægt aðhaldstæki minnihlutaflokka í þingstörfum víða um heim. Lýðræði snýst sem sé ekki eingöngu um að framkvæma vilja meirihlutans, heldur líka um að koma í veg fyrir að minnhlutinn sé kúgaður."

Nú bregður svo við að allt verður vitlaust þegar núverandi minnihluti í þinginu beitir þessum aðferðum til þess að láta ekki kúga sig.  Meira að segja á nú að efna til útifundar, væntanlega með varðeldi og pottaglamri, til þess að kúga minnihluta þingsins til að samþykkja þau mál, sem eru honum þvert um geð.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.


mbl.is Umræða um stjórnarskipunarlög hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreyttir stjórnarþingmenn

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Smáflokkafylkingarinnar, var orðin þreytt og syfjuð upp úr miðnætti s.l. nótt og missti því stjórn á skapi sínu á þingfundi, þar sem langar, góðar og málefnalegar umræður höfðu farið fram um aukna endurgreiðslu innlends kostnaðar við kvikmyndagerð.  Hún var reyndar eini þingmaður stjórnarmeirihlutans sem viðstödd var umræðuna, fyrir utan þingforseta, þar sem félagar hennar voru allir sofnaðir í hliðarsölum vegna þess að þeir höfðu ekki úthald til að ræða þetta frumvarp frekar en aðrar bráðnauðsynlegar aðgerðir til bjargar heimilunum í landinu.

Í dag og undanfarna daga hefur þingið eytt miklum tíma í að ræða frumvarp um "Visthönnun vöru sem notar orku", sem allir sjá að myndi bjarga miklu í efnahagsþrenginunum, ef það fengist samþykkt með hraði.  Til efs er nú reyndar, að allir hafi á tæru um hvað þetta mál snýst, en það skiptir auðvitað engu því málið er brýnt.

Það er með ólíkindum hvernig ríkisverkstjórinn og vinnuflokkur hennar lítilsvirðir þjóðina og þingið með því að raða alls kyns málum, sem vel mega bíða betri tíma, á dagskrá þingsins, að því er virðist í þeim eina tilgangi að láta fólk halda að nauðsynlegt sé að þingið starfi fram að páskum við afgreiðslu bráðnauðsynlegra mála.

Ríkisstjórn, sem traðkar á þingi og þjóð, er ekki á vetur setjandi.


mbl.is „Hættið þessu helvítis væli"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagur og pólitík

Dr. Martin Marcussen, dósent við Kaupmannahafnarháskóla, segir að til lengri tíma dugi efnahagsleg rök ekki þeim sem tala fyrir aðild að ESB.  Pólitísk rök skipti ekki síður máli.

Íslenskir ESB sinnar benda endalaust á að aðild að ESB sé okkar eina björgunarvon í efnahagskreppunni sem yfir dynur um þessar mundir og þá ekki síður í ESB löndunum en öðrum.  Á sama tíma og ESB löndin eiga í mestu erfiðleikum með að bjarga sjálfum sér, halda íslenskir ESB elskendur að einhver björgun okkur til handa komi þaðan. 

Þegar ekki tókst að sannfæra þjóðina með venjulegum áróðri fyrir ESB inngöngu, var öllum áróðrinum beint gegn krónunni og sagt að hún væri dauð.  Góður maður sagði að eftir að Ísland gekk Noregskonungi á hönd árið 1262, hefði ríkt mikill stöðugleiki í landinu fram undir 1940.  Stöðugleikinn fólst í því að ekkert gerðist í landinu til framfara og nánast alger stöðnun ríkti allan þennan tíma.  Nú vill Smáflokkafylkingin ganga Brussel á vald og fá yfir landið svipaðan stöðugleika og ríkti á fyrrgreinda tímabilinu.

Ísland reis úr öskustónni og varð eitt ríkasta land veraldar (miðað við höfðatölu) og þjóðin með ein bestu lífskjör í heiminum með sína krónu sem gjaldmiðil. 

Fróðlegt verður að sjá hvort verður lífsseigara, krónan eða evran.


mbl.is Efnahagsleg rök duga ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

200 milljóna einkamál

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segist ekkert vilja tjá sig um persónulegar fjárreiður sínar þar sem þær séu einkamál.  Þetta á við um 200 milljóna króna lán hans frá VÍS og 76 milljóna jena (u.þ.b. 93 milljónir króna á núverandi gengi) lán frá SPRON til byggingar sveitaseturs í Borgarfirði.  Setrið er nú fokhelt og hefur byggingu verið hætt í bili.

Sami Sigurður sagði það brot á bankaleynd, að Mogginn skyldi birta upplýsingar um það að hann og fleiri eigendur Kaupþings hefðu fengið 500 milljarða króna lán frá Kaupþingi stuttu fyrir hrun bankans.

Það má vera að það sé einkamál Sigurðar í hvað hann eyðir aurunum sínum, en það er ekki hans einkamál hvernig hann og aðrir peningafurstar fóru með fjármál þjóðarinnar og heimilanna í landinu sem flest munar um minna en milljarð í heimilisbókhaldinu.

Dýr myndi Hafliði allur má segja af þessu tilefni, ef fokheldur sumarbústaður kostar 300 milljónir.

 


mbl.is 200 milljóna veð í sveitasetri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þaulseta

Atli Gíslason, einn af vinnumönnum ríkisverkstjórans, segir stjórnarþingmenn tilbúna að sitja fram að kosningum til þess að hægt verði að afgreiða brýn mál úr þinginu.  Nú eru liðnir tveir mánuðir frá því að stjórnarskipti urðu og nýji ríkisverkstjórinn og vinnuflokkur hennar lofaði að koma alls kyns umbótamálum hratt og vel í framkvæmd.  Ekkert gerðist fyrsta mánuðinn, annað en að fá samþykkt hefndarlögin gegn Davíð Oddssyni og enn þann dag í dag er verið að leggja fram frumvörp, sem samþykkja þarf fyrir kosningar.

Stjórnarþingmenn þyrftu að fara að taka hendurnar úr vösunum og klára áríðandi mál og hætta að hóta þjóðinni því að þeir muni halda ruglinu áfram fram að kosningum.  Það eina góða við það er reyndar að því lengur sem þeir sýna ráðaleysið, því minna fylgi munu þeir fá í kosningunum.

Best sést vandræðagangurinn á því að frumvarpið um stjórnlagaþingið og stjórnarskrárbreytingarnar hefur tekið miklum breytingum frá því að það var lagt fram, aðallega vegna ábendinga Sjálfstæðismanna.  Mikið má nú þakka fyrir að sá frumvarpsbastarður var ekki keyrður í gegnum þingið í upphaflegri mynd sinni.  Forseti Alþingis á að sjá sóma sinn í að forgangsraða málum þingsins nú þegar og þá þarf ekki langan tíma til að afgreiða forgangsmálin.

Þjóðarinnar og þingsins vegna verður þessum skrípaleik að fara að linna.


mbl.is Geta setið fram að kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprotafyrirtæki

Undanfarið hefur farið fram mikil umræða um að styðja þyrfti vel við bakið á sprotafyrirtækjum, enda gætu þau orðið vísir að atvinnusköpun framtíðarinnar.

Margir virðast hafa misskilið hvað séu sprotafyrirtæki og talið að átt sé við ákveðna plöntusprota og hafa því hafið stórkostlega ræktun á gróðursprotum sem gefa af sér lauf sem talsverð eftirspurn er eftir hér á landi sem annarsstaðar.  Þetta virðast vera öflugustu sprotafyrirtæki landsins um þessar mundir og samkvæmt afköstum lögreglunnar er svona framleiðsla í þriðja til fjórða hverju húsi.

Væntanlega er þessi ræktun tilkomin vegna gjaldeyrisvöntunar til innflutnings, en ekki hugsuð til gjaldeyrissköpunar.  Sparnaður á gjaldeyri er allra góðra gjalda verður á þessum erfiðu tímum.

Framangreint eru nú bara hugleiðingar í tilefni dagsins.

 


mbl.is Enn ein kannabisverksmiðjan stöðvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyndarhula vegna AGS

Flestir muna ennþá eftir Steingrími J. rauðum af vonsku leggjandi hendur á mann og annan í Alþingi í haust, þegar rætt var um efnahagsmálin og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þeim.  Þá var krafan sú, að öll mál væru uppi á borðum og almenningi skyldi haldið upplýstum um öll mál.

Nú, eftir að sá sami Steingrímur J., að vísu fölari en hann var oftast í stjórnarandstöðunni, er orðinn fjármálaráðherra er upplýsingum um gögn sem send hafa verið til AGS er haldið leyndum fyrir Fjárlaganefnd Alþingis og almenningur fær alls ekkert að vita.  Samt segir ráðherrann að engin leyndarmál felist í gögnunum.  Eftir hverju er þá verið að bíða með að birta þau?  Almenningur bíður í ofvæni eftir því að fá að vita við hverju er að búast á næstu mánuðum, því óvissan um framtíðarhag fjölskyldnanna er það versta sem plagar landann nú um stundir.

Þegar á allt er litið er ekki hægt að líkja ríkisvinnuflokknum við neitt annað en umskiptingana úr þjóðsögunum.

 


mbl.is Fá ekki öll gögn fyrr en um miðjan mánuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband