Hvað er réttlátt í kjölfar Hæstaréttardóms?

Mikið uppnám er í fjármálfyrirtækjum landsins eftir dóm Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar lána í íslenskum krónum og hefur verið lítið um svefn hjá starfsmönnum þeirra, síðan dómurinn var kveðinn upp.  Svefnvana vita þeir ekki ennþá hvernig eigi að bregðast við og ef að líkum lætur, gerist heldur ekki neitt næstu daga a.m.k.

Talsmaður Lýsingar hefur látið hafa það eftir sér, að það sé annarra að taka ákvörðun um framhaldið og á þar væntanlega við stjórnvöld, en vandséð er hvað þau eigi að gera í stöðunni.  Ekki getur verið möguleiki að setja afturvirk lög um þetta frekar en annað, enda getur varla verið í verkahring ríkisstjórnar eða Alþingis að skipta sér af þessu máli.  Með því að reyna að skera lánafyritækin niður úr snörunni myndi ríkisstjórnin grafa sér svo djúpa gröf, að hún kæmist aldrei upp úr henni aftur, enda myndu látakendur bílalánanna moka yfir þá gröf, ef ekki strax, þá a.m.k. í þingkosningum, sem hugsanlega verða strax í haust.

Líklegustu viðbrögð lánafyrirtækjanna eru að skella verðbótum á lánin og láta svo stefna sér aftur, ef lánþegar sætta sig ekki við slíka niðurstöðu.  Í ýtarlegri fréttaskýringu um málið í Mogganum í dag segir m.a:  "Er hæpið að lánþegar hefðu á sínum tíma fengið lán á slíkum kostakjörum. Ekki er fjarri lagi að álykta að lánasamningarnir hefðu með réttum forsendum frá upphafi kveðið á um lögmæta verðtryggingu, tengingu við vísitölu neysluverðs, og eftir atvikum hærri vexti."

Allir vita, að enginn hefði fengið lán til bílakaupa, eða annars, án verðtryggingar eða óverðtryggt lán án hárra vaxta, en núna eftir dóm Hæstaréttar snúast viðbrögðin ekki um sanngirni eða réttlæti, heldur lítur fólk á niðurstöðu réttarins sem svo, að nú skuldi það bara óverðtryggðan höfuðstól með afar lágum vöxtum og því sé niðurstaðan rétt mátulega hefnd gegn óbilgjörnum, ósanngjörnum og harkalegum innheimtufyrirtækjum.

Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og réttlátt og því er nánast öruggt, að ekki sé búið að segja síðustu orðin vegna gengistryggðu lánanna.


mbl.is Lausir endar þrátt fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Hugleiðingar manna um þetta mál eru alveg með ólíkindum, þar hafa jafnt látið álit sitt í ljós prófessorar við háskóla, m.a. við háskólann á Bifröst, og ráðherrar (fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands).  Samningur milli lánveitanda og lántakanda hljóðar upp á að verðgildi lánsins skuli miðast við gengi á myntkörfu, önnur ákvæði eru ekki í samningi um verðtryggingu, það er því ekki fótur fyrir hugleiðingum þeirra um að hægt sé að breyta ólöglegu ákvæði um verðtryggingu í eitthvað annað viðmið einhliða. Það var ekkert ákvæði í lánasamningum um að vísitölutrygging tæki við ef myntkörfu viðmið haldi ekki. 

Eins er með hugleiðingar um að hækka vexti til að breyta lánunum í óverðtryggð hávaxtalán.  Það er ekkert í samningunum sem gefur tilefni til þess, yfirleitt held ég að tekið sé fram X% álag á LIBOR vexti, og það er ekkert í íslenskum lögum sem bannar það, þannig að það hlýtur að standa óbreytt. Verðtryggingarákæði samningsins er það eina sem dómstólar dæma ólöglegt, því er eðlilegast að áætla að samningarnir standi óbreyttir að öðru leiti

Kjartan Sigurgeirsson, 18.6.2010 kl. 10:04

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kjartan, auðvitað segir þessi niðurstaða Hæstaréttar einmitt að gegnistryggingin sé ólögleg, en hann segir í raun heldur ekkert annað, enda voru engar aðrar kröfur hafðar uppi fyrir réttinum.

Lögspekingar hafa hins vegar verið að vitna í alls kyns lagatexta, sem segja að breyta megi skilmálum, séu þeir óréttlátir eða viðskiptavini í óhag.  Á því byggja sumir þá túlkun, að breyta megi ákvæðum bréfanna, t.d. í verðtryggingu í stað gengistryggingar, en minna hefur verið talað um vaxtaþáttinn.

Á þessum mismunandi túlkunum hefur maður dregið þá ályktun, að þessum málum sé langt í frá lokið.  Málaferli og stefnur muni halda áfram á báða bóga, en spurning hvað gerist með sjálf lánafyrirtækin, standi þessi dómur algerlega þannig að lánin verði nú óverðtryggð, með þessum lágu vöxtum.

Axel Jóhann Axelsson, 18.6.2010 kl. 10:30

3 Smámynd: Sveinn Ríkarður Jóelsson

Er ekki sennilegast að lánveitandi greiði gengistryggingar til baka inn á höfuðstól lána, rifti samningi einhliða vegna forsendubrests og semji við lánþega um eftirstöðvar á kjörum sem bjóðast í dag? Ekki nema að svona einhliða riftun brjóti önnur lög ég bara veit það ekki sjálfur.

Sveinn Ríkarður Jóelsson, 18.6.2010 kl. 10:34

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sveinn, þetta er allt svo óljóst, að enginn veit í raun hvað gerist og allra síst vita lánafyrirtækin nokkuð í sinn haus.

Axel Jóhann Axelsson, 18.6.2010 kl. 11:10

5 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Þetta er vissulega spennandi tími, sennilega er sanngjörn lausn að reikna lánið upp sem verðtryggt lán, spurningin er bara er grundvöllur og lagalegar heimildir fyrir þvingunaraðgerðum lánveitenda eins og riftun samninga.  Mér finnst dómur Hæstaréttar Nr. 317/2010 þar sem Dómsorð er "Hinn kærði úrskurður er staðfestur"  segja svolítið um eftirleikinn þar sem kemur fram í texta héraðsdóms eftirfarandi:

"Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi.  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar." 

Sú spurning sem brennur hvað heitast á skuldurum í dag er sennilega hvort eigi að halda áfram rányrkjunni, á að gera fleiri lántakendur gjaldþrota á meðan beðið er eftir dómum, ef til vill fyrst um hvaða verðtrygging eigi að gilda eða hvort verðtrygging eigi yfir höfuð að vera á þessum lánum, síðan með tilliti til niðurstöðu um hvaða vexti eigi að reikna af lánunum.  Það hlýtur að vera krafa að greiðslur næstu mánaða, eða þangað til niðurstaða verður fengin verði reiknuð eins og um óverðtryggð lán sé að ræða.  Það er búið að halda lántakendum í spennitreyju í 2 ár, nú ættu lánastofnanir að taka á sig óvissuna í svolítinn tíma. 

Kjartan Sigurgeirsson, 18.6.2010 kl. 12:09

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kjartan, lánafyrirtækin ætla ekki að senda út greiðsluseðla fyrir næstu mánaðarmót, enda í stökustu vandræðum með framhaldið og vita ekki ennþá hvernig þau ætla að bregðast við þessu.  Auðvitað vissu allir, sem tóku þessi lán, að þeir væru að skrifa undir verðtryggðan höfuðstól, þó enginn ætti von á því að gengið hryndi eins mikið og raun varð og engum datt í hug á þessum tíma að gengistryggingin væri ólögleg.  Allir lögfræðingar landsins virðast hafa brugðist gjörsamlega í málinu, þeir sem starfa hjá lánastofnunum og sömdu skilmálana, lögmenn Fjármálaeftirlitsins, sem annað hvort heimiluðu þessi lán, eða gerðu a.m.k. ekki athugasemdir við þau, lögmenn sýslumannsembætta, sem samþykkt hafa vörslusviptingu og jafnvel úrskurðað fólk gjaldþrota á grundvelli vanskila á þessum lánum.

Þannig að ef ekki kemur verðtrygging í stað gengistryggingarinnar munu væntanlega margir þurfa að þola málshöfðun vegna afglapa í starfi og verða jafnvel krafðir skaðabóta vegna tjóns, sem fólk hefur orðið fyrir vegna þessa. 

Allir vita, að lán hefðu aldrei verið veitt með þessum vaxtakjörum, nema vegna verðtryggingarinnar og þess vegna hlýtur sú spurning að vakna, hvort þau gildi, verði niðurstaðan sú að höfuðstóll lánanna skuli talinn vera óverðtryggt lán.

Sanngirni og ekki sanngirni í þessu máli er í sjálfu sér ekki spurning, heldur hvernig á að meðhöndla lánin eftir dóminn, en sanngirni og réttlæti er ekki alltaf í fyrirrúmi í lífinu.

Standi þetta þannig að þeir sem tóku glannalegustu lán sem fyrirfundust á markaðinum, standi uppi með hagstæðustu lán, sem sögur fara af á vesturlöndum, þá mega þeir fara að naga sig í handarbökin, sem forðuðust þessi lán eins og heitan eldinn og völdu að taka verðtryggð lán í íslenskum krónum.  Þeir munu þá tapa á "forsjálni" sinni en glannarnir græða vel.  Þá er þessi niðurstaða á við góðan lottóvinning.

Axel Jóhann Axelsson, 18.6.2010 kl. 13:20

7 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Hvað með sýslumennina, lásu þeir ekki lánasamningana áður en þeir skráðu þá í veðbækur?

Kjartan Sigurgeirsson, 18.6.2010 kl. 14:28

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Greinilega ekki, eða töldu þá algerlega löglega.

Axel Jóhann Axelsson, 18.6.2010 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband