Verðtrygging á morgun í stað gengistrygginar?

Andrés Magnússon, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, segir í viðtali við mbl.is að eftir dóm Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar lána, ríki mikil óvissa um framhaldið, enda hafi rétturinn ekki tekið á efnisatriði málsins, heldur einungis formsatriði, þ.e. einungis þessa ákveðnu tegund verðtryggingar.

Einnig segir Andrés að stjórnvöld verði að grípa inn í og "höggva á hnútinn" í samstarfi við lánastofnanirnar og leggja línu um framhaldið.  Ekki verður séð hvernig stjórnvöld eiga að leggja einhverjar línur um þetta, því ekki geta þau sett lög sem virka aftur í tímann og eitthvað sem ráðherra myndi segja eða gera í málinu, hefði varla meiri þýðingu en það sem hvaða Jón Jónsson sem væri, myndi segja og gera.

Andrés telur engan tíma vera til að bíða nýs dómsmáls, en segir samt:  "Það eru engir aðrir en stjórnvöld í samvinnu við fjármálastofnanir sem geta komist að einhverri niðurstöðu um það hvaða viðmið eigi að viðhafa. Væru menn ekki sáttir við það mætti sjá fyrir sér að slíkt mál endi líka fyrir dómi.“

Kannski að þetta verði lausnin, sem fjármálafyrirtækin detti niður á og tilkynni á morgun að öll lán, sem áður voru gengistryggð, verði uppreiknuð frá útgáfudegi með neysluverðsvísitölu og vöxtum í samræmi við það og þeir, sem ekki sætti sig við það, verði bara að fara í mál og kæra aftur.

Víst er að lánastofnanirnar munu ekki reikna lánin upp, miðað við óverðtryggðan höfuðstól og þá lágu vexti, sem á lánunum voru miðað við gengistrygginguna.  Þau munu beita öllum ráðum til þess að ná sínu til baka, sem þau gera auðvitað ekki með óbreyttum vaxtakjörum á óverðtryggð lán.

Dómar Hæstaréttar frá í gær voru ekki endir á neinu ferli.

Þeir voru upphaf að mörgum, löngum og ströngum málaferlum. 


mbl.is Sleppa ekki frá skuldunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

það er bannað að setja verðtryggingu á þessi lán skv gildandi lögum

Steinar Immanúel Sörensson, 17.6.2010 kl. 17:51

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Steinar, útskýrðu betur við hvaða lög þú átt við.

Axel Jóhann Axelsson, 17.6.2010 kl. 18:16

3 identicon

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli NBI gegn Þráni ehf, þar vitnar dómarinn í Lýsingardóminn frá 12.febrúar og bætir við að ólöglegt sé að verðtryggja lánasamninginn.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2010.Með bréfi dags. 23. febrúar 2010 krafðist NBI hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík, þess að bú Þráins ehf., kt. 500392-2239, Laugavegi 36, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. febrúar sl., í máli nr. E-7206/2009, er fjallað um gildi slíkrar gengisviðmiðunar í lánssamningum. 

Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi (Lýsingardómurinn).  Telur hann m.ö.o. að EKKI SÉ HEIMILT að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að EKKI SÉ HEIMILT AÐ REIKNA ANNARS KONAR VERÐTRYGGINGU Í STAÐ GENGISMIÐVIÐUNAR

ÞENNAN DÓM STAÐFESTI HÆSTIRÉTTUR OG TEKUR ÞAR MEÐ AF ALLAN VAFA UM AÐ EKKI SÉ LÖGLEGT AÐ VERÐTRYGGJA Í STAÐ GENGISTRYGGINGAR.

 

Valdimar (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 19:03

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Valdimar, þetta er reyndar stórmerkilegt orðalag, en menn eru ekki á eitt sáttir um meininguna, vegna þess að bankinn gerði enga varakröfu um verðtryggingu í stað gengistryggingar. 

Vegna þess hve dómarar eru snjallir að orða hlutina þannig að hægt sé að halda áfram að rífast um hlutina, verður vafalaust farið í mál til að fá verðtryggingu viðurkennda í stað gengistryggingar.

Andrés Magnússon, formaður SVÞ, ýjar að þeirri leið, í viðtali við mbl.is, að lánastofnanirnar uppreikni lánin með verðtryggingu og láti síðan skuldurunum eftir að kæra aftur til þess að fá úrskurð dómstólanna um þá leið.

Því hef ég verið að halda því fram, að þessi ágreiningur sé hreint ekki úr sögunni, þvert á móti sé ferlið allt rétt að byrja.

Axel Jóhann Axelsson, 17.6.2010 kl. 19:19

5 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Á hvaða forsendum ætti að vera hægt að setja inn verðtryggingu? Eru einhver ákvæði um slíkt til í lögum eða til vara í umræddum lánasamningum? Hvernig er hægt að setja lög um slíkt eftir á? Verðtrygging er óheimil nema til 5 ára eða lengur. Hvað með lán sem voru til skemmri tíma?

Arnar Sigurðsson, 17.6.2010 kl. 19:24

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Auðvitað eru heimildir í lögum til að verðtryggja fjárskuldbindingar og um það mun þrasið standa á næstunni, hvort tenging við neysluverðsvísitölu komi í stað gengistrygggingar, enda munu lánafyrirtækin halda því fram, að sameiginlegur skilningur beggja aðila hafi verið, að lánin skyldu vera verðtryggð, enda vextir lágir í samræmi við það.

Mjög mikið af bílalánunum voru til 7-8 ára, þannig að það myndi ekki standa í veginum.  Með skemmri lánin finna þeir einhverja aðra leið til að hækka vextina.

Axel Jóhann Axelsson, 17.6.2010 kl. 19:38

7 Smámynd: A.L.F

Ég hef allan tímann greitt af mínum bíl sama hvað lánið hefur hækkað og afborgunin. EN ef lánið mitt breyttist í verðtryggt lán reiknað aftur í tímann Hætti ég að borga af bílnum, kveiki í honum og svo má SP eltast við mig þar til ég drepst ég á hvort sem er ekkert sem þeir geta gengið í nema þennan bíl. ;)

A.L.F, 17.6.2010 kl. 19:44

8 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

t.d. 1994 nr. 121 21. september

3.gr

en ég vitna einnig í þann dóm sem Valdimar nefnir

Steinar Immanúel Sörensson, 17.6.2010 kl. 19:48

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Steinar, ekki sé ég í fljótu bragði hvers vegna þú vitnar í þessa lagagrein, en hún virðist aðallega eiga við um yfirdráttarlán og önnur lán með breytilegum höfuðstól.  Jafnvel virðist d.liðurinn í greininni gefa lánastofnun heimild til að breyta skilmálum, með einfaldri tilkynningu til skuldara eða með auglýsingu.

Eins og áður hefur komið fram, eru ekki allir á einu máli um túlkun á þessum dómi, sem Valdimar nefndi, svo það verður hægt að deila áfram um þetta allt saman.

Axel Jóhann Axelsson, 17.6.2010 kl. 20:53

10 identicon

Áður en menn fagna dómi hæstaréttar þarf að liggja fyrir hvert framhaldið verður.

Tökum dæmi:

5 milljón króna lán tekið 2007 til 30 ára, gengistryggt með japönskum yenum.

Vextir: Libor + 2% vaxtaálag = samtals 2.5% vextir

Stendur nú, nákvæmlega 3 árum síðar í 12 milljónum, mánaðarleg afborgun = ca 62.000 (var 2007 um 24.000)

Hvað verður nú um þetta lán verði því breytt í íslenskt lán á íslenskum vöxtum og jafnvel með íslenskri verðtryggingu?

Tökum dæmi þar sem lánið verður niðurreiknað í 5 milljónir, að vextir verði hinir hagstæðustu sem í boði voru á þeim tíma sem lánið var tekið (4.5%) og að verðbætur verði uppreiknaðar frá því að lánið var veitt (miðað við 6,5% meðalverðbólgu yfir tímabilið), þá er staðan sú að höfuðstóll lánsins uppreiknaður er í kringum 6 milljónir og mánaðarleg afborgun í dag yrði um 39.000 kr.

En þar með er ekki öll sagan sögð

1. Yenið er í sögulegu hámarki, krónan í sögulegu lágmarki. Allar breytingar á gengi krónu/yens næstu árin mundu aöl hafa áhrif til lækkunar láns í erlendri mynt.

2. Haldist verðbólga stöðug í kringum 4.5%  sem verður að teljast líklegt, verður höfuðstóllinn kominn í 12 milljónir eftir 16 ár sem er einmitt sama upphæð og lánið stendur í dag miðað við versta mögulega gjaldmiðlagengi. Þá á enn eftir að greiða af láninu í 13 ár og áfram mun verðbólgan hafa áhrif. Sé lánið til enn lengri tíma, t.d. 40 ára erum við að tala um jafnvel verri útkomu.

3. Vilji lántakandi greiða inn á lán í erlendri mynt er enginn kostnaður við það. Í flestum tilvikum þarf að greiða fjármálastofnunum 1% þóknun fyrir að greiða inn á lán í íslenskum krónum.

Nú, svo væri auðvitað hægt að skoða óverðtryggð lán, þar værum við í besta falli að tala um 7% vexti (að því gefnu að ekki verði farið í einhverjar massífar álveraframkvæmdir og aðrar stórframkvæmdir með tilheyrandi ruðningsáhrifum og vaxtahækkunum), þá yrði afborgun af ofangreindu láni um 52.000 á mánuði sem er nú ekki fjarri mánaðarlegri afborgun á sama láni í erlendri mynt þrátt fyrir óhagstætt gengi.

Ofangreindir útreikningar eru varlega áætlaðar, ekki gerðar af stjarneðlisfræðingi, en gefa nokkuð raunsanna mynd af þeim vandamálum sem lántakar geta lent í verði þeir "neyddir" til að breyta gjaldeyrislánum sínum í íslensk lán á hörmulegum vöxtum.

Einhverjir hafa kastað því fram að ósanngjarnt væri að þeir sem einungis tóku íslensk lán lendi í því að borga brúsann fyrir þá sem voru svo "Heppnir" að taka erlend lán. Slíkar yfirlýsingar eru ótímabærar á meðan ekki hefur verið skýrt hvert framhald mála verður. Það er allt eins mögulegt að lántakendur erlendra lána séu á leið úr öskunni í eldinn.

Ragnar (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 03:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband