Valdabarátta innan ASÍ og árás á lífeyrisþega

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er greinilega í kosningaham og vill verða forseti ASÍ og velta þar með Gylfa Arnbjörnssyni úr embættinu.  Vilhjálmur réðst með miklu offorsi á Gylfa í ræðu sinni á ársfundi ASÍ og fann honum flest til foráttu og þá helst að hafa ekki viljað láta elli- og örorkulífeyrisþega lífeyrissjóðanna niðurgreiða húsnæðislán.

Það verður að teljast með ólíkindum að Vilhjálmur, sem forystumaður í verkalýðsfélagi, skuli láta sér detta í hug að velta vanda húsnæðislánaskuldara yfir á það fólk, sem lokið hefur starfsævi sinni og farið er að fá útborgaðan þann lífeyri, sem það hafði áunnið sér rétt til um ævina og þá sem örkumlast hafa á yngri árum og því notið örorkulifeyris frá þeim lífeyrissjóði, sem þeir höfðu greitt iðgjöld til meðan þeir voru vinnufærir. 

Ekki skulu Gylfi, eða störf hans innan ASÍ, varin hér sérstaklega, en ekki verður orða bundist yfir svo lágkúrulegum brögðum sem Vilhjálmur notar, til þess að koma sjálfum sér til meiri metorða innan sambandsins.  Fyrir utanaðkomandi er algerlega ótrúlegt að fylgjast með verkalýðsleiðtoga leggjast svona lágt í áróðri sínum og framapoti.

Vonandi sjá fulltrúar á ársfundi ASÍ og aðrir félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar í gegn um þessa lágkúru og árás á kjör elli- og örorkulífeyrisþega almennu lífeyrissjóðanna, því ekki myndi þessi árás á lífskjör þessa hóps ná til þeirra sem fá greiðslur frá opinberu lífeyrissjóðunum, því þeir njóta ríkisábyrgðar og því myndu kjör frá þeim ekkert skerðast.

Vilhjálmur er því að mæla með hreinum skemmdarverkum á lífeyrissjóðum launþega á almennum vinnumarkaði og varla hefur hann verið kosinn til formennsku í sínu félagi til að stunda slíkt.


mbl.is Hvatti Gylfa til að íhuga stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnusköpun eða ríkisstjórnina frá

Bæði Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. hafa marg lýst því yfir að kreppunni sé lokið og mikill hagvöxtur sé framundan og það án þess að nokkurt einasta átak verði gert í atvinnumálunum.  Skýringar á því hvernig töfraformúla ríkisstjórnarinna eigi að virka án átaks í atvinnusköpun hefur ekki verið útskýrt, enda skilur enginn hvernig hún á að ganga upp.

Enginn hagfræðingur er sammála ráðherrunum og hvorki hafa verkalýðshreyfingin eða samtök atvinnurekenda trú á henni heldur.  Á þingi ASÍ sagði Ólafu Darri, hagfræðingur ASÍ, að nú hilli undir að botni verstu efnahagskreppu lýðveldistímans verði náð og miðað við óbreytt ástand myndi hagvöxtur verða afar hægur á næstu árum.  Hann hvatti til að framkvæmdum við álver í Helguvík yrði komið af stað strax, enda gætu þær framkvæmdir tvöfaldað hagvaxtaspá ASÍ fyrir árið 2011.

Í fréttinni af ræðu Ólafs kemur þetta fram í fréttinni, m.a:  "Ólafur Darri sagði engan vafa leika á að það myndi skipta mjög miklu máli ef vinna við álverið í Helguvík færi í fullan gang. Reiknað væri með að um 1300 manns fengju vinnu meðan á framkvæmdum stæði."  Þessi eina framkvæmd gæti þannig útvegað 11% þeirra sem nú eru á atvinnuleysisskránni atvinnu á framkvæmdatímanum.

ASÍ spáir því að atvinnuleysi verði 6% á árinu 2013, þannig að þá verði um 10.000 manns á atvinnuleysisskrá og þá mun einnig fjöldi fólks verða dottið út úr kerfinu vegna þess að það hafi verið atvinnulaust í þrjú ár, eða meira og þar með verður neyð þess enn meiri en nú er.

Að lokum skal þessi skoðun Ólafs Darra undirstrikuð:  "Hann sagði ljóst að það væri ekki hægt að „svelta sig út úr vandanum“ eins og hann komst að orði. Við yrðu að auka tekjur okkar með aukinni atvinnusköpun."

Engar líkur eru á því að ríkisstjórnin geri sér ekki grein fyrir þessum staðreyndum.  Hún er því að vinna viljandi og skipulega að því að framlengja kreppuna og eymd þjóðarinnar, með öllum þeim eitruðu meðulum sem hún hefur yfir að ráða.

 


mbl.is Erum að ná botninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti ASÍ rassskellir VG

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði í ræðu sinni á ársfundi ASÍ ríkisstjórnina hafa svikið öll sín loforð, sem hún gaf og undirritaði í stöðugleikasáttmálanum í júní 2008.  Átaldi Gylfi ríkisstjórnina fyrir þann óheiðarleika sem hún hefur sýnt aðilum vinnumarkaðarins, t.d. með því að koma ekki hreint fram og segja sáttmálanum upp formlega, en svíkja hann hinsvegar grímulaust allan tímann frá undirritun.

Gylfi tók vinstri græna hreinlega á hné sér og rassskellti þá vegna skemmdarverka þeirra varðandi atvinnumál þjóðarinnar, en samkvæmt fréttinni sagði hann m.a, eftir að hafa farið yfir óheiðarleika stjórnarinnar í garð launþega:  "Það á við um loforð stjórnvalda um náið samráð í veigamiklum málum sem varða hagsmuni launafólks, en alvarlegast og sárast hefur þó verið ótrúlegt framtaksleysi stjórnvalda í atvinnumálum og nauðsynlegar atvinnu- og tekjuskapandi framkvæmdir. Það er mikið áhyggjuefni að svo virðist sem málaflokkurinn atvinnumál hafi verið tekinn í gíslingu fámenns hóps og ríkisstjórnin í raun misst forræði á málinu."

Þetta eru engar smáásakanir af hálfu forseta  ASí í garð "fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórnarinnar", eins og hún kallar sig og segist jafnvel vera "norræn velferðarstjórn".  Stjórn sem ekki skilur að atvinnumálin séu undirstaða velferðar, getur aldrei orðið velferðarstjórn.

Slík stjórn getur eingöngu orðið ríkisstjórn kreppu og örbirgðar til langrar framtíðar.  Þannig er ríkisstjórnin sem Íslendingar sitja uppi með núna.


mbl.is Tóku atvinnumálin í gíslingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Már afhjúpar blekkingar ríkisstjórnarinnar

Í stefnuræðu sinni á Alþingi gerði Jóhanna Sigurðardóttir mikið úr þeim árangri sem hún sagði að stjórnin hefði náð í efnahagsmálunum og gerði mikið úr því að hagvöxtur hefði orðið á öðrum ársfjórðungi og fyrirséð að hann yrði mikill á næstu misserum.  Undir þetta tók Steingrímur J. og gerði ekki minna úr en Jóhanna og sagði allar hagtölur vísa uppávið og framtíðin væri skínandi björt í fjármálum heimilanna og þjóðarbúskaparins í heild.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hélt ræðu á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York og þar kvað við allt annan tón, samkvæmt viðhangandi frétt, en þar segir:  "Engar hagtölur benda til þess að hagvöxtur hafi farið á stað á síðari helming ársins. Þetta kom fram í ræðu Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York. Már sagði að vísbendingar væru þó um að viðsnúningur hagkerfisins væri hafin en hinsvegar er hann hvorki kröftugur né mikill." 

Steingrímur J. lagði einnig fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2011, sem gerir ráð fyrir 3% hagvexti, sem aðallega byggist á því að ráðist verði í framkvæmdir við álver í Helguvík, sem Steingrímur berst svo gegn af öllum sínum kröftum með dyggum stuðningi ofstækiskonunnar í Umhverfisráðuneytinu og öðrum vinstri grænum.

Már sagði einnig að endurskipulagning skulda heimilanna væri grundvöllur kröftugs hagvaxtar og fjárfestingar.  Hvað skyldi ríkisstjórnin hafa afrekað í þeim efnum, ótilneydd, fram að þessu?


mbl.is Engar beinharðar vísbendingar um hagvöxt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófsteinn á persónukjör

Fyrirhuguð kosning til stjórnlagaþings verður prófsteinn á það hvernig persónukjör, þar sem landið allt verður eitt kjördæmi, mun reynast, en háværar raddir hafa verið uppi um breytingar á kosningafyrirkomulagi til sveitarstjórna og Alþingis í þá átt að merkt verði við einstaka frambjóðendur en ekki lista og jafnvel frambjóðendur af fleiri en einum lista.

Kosningin til stjórnlagaþingsins verður hins vegar talsvert þung í vöfum fyrir marga, því kynna þarf sér hundrað blaðsíðna bækling um frambjóðendurna og velja sér að hámarki tuttugu og fimm til að kjósa.  Kjörseðillinn verður auður, að öðru leyti en því að á honum verða tuttugu og fimm rammar til að skrifa inni í fyrirfram gefin númer frambjóðendanna og verður að raða þeim í rétta röð, því atkvæði í fyrsta sæti er meira virði fyrir frambjóðendur heldur en atkvæði í aftari sæti.

Þetta fyrirkomulag verður ákaflega erfitt fyrir sjóndapra og aldraða, sem erfitt eiga með að sjá og sérstaklega skrifa allar þessar tölur á kjörseðlana og einnig gæti þetta reynst mörgum öðrum erfitt, sem erfitt hafa átt með að kjósa í venjulegum kosningum, þrátt fyrir að hafa gert það oftar en einu sinni.

En hvað um það, þetta verður prófsteinn á persónukjörin og takist þessi kosning ekki eins vel og til er ætlast, mun varla nokkur maður heimta persónukjör í öðrum kosningum.


mbl.is Bæklingurinn stærri en reiknað var með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband