Valdabarátta innan ASÍ og árás á lífeyrisþega

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er greinilega í kosningaham og vill verða forseti ASÍ og velta þar með Gylfa Arnbjörnssyni úr embættinu.  Vilhjálmur réðst með miklu offorsi á Gylfa í ræðu sinni á ársfundi ASÍ og fann honum flest til foráttu og þá helst að hafa ekki viljað láta elli- og örorkulífeyrisþega lífeyrissjóðanna niðurgreiða húsnæðislán.

Það verður að teljast með ólíkindum að Vilhjálmur, sem forystumaður í verkalýðsfélagi, skuli láta sér detta í hug að velta vanda húsnæðislánaskuldara yfir á það fólk, sem lokið hefur starfsævi sinni og farið er að fá útborgaðan þann lífeyri, sem það hafði áunnið sér rétt til um ævina og þá sem örkumlast hafa á yngri árum og því notið örorkulifeyris frá þeim lífeyrissjóði, sem þeir höfðu greitt iðgjöld til meðan þeir voru vinnufærir. 

Ekki skulu Gylfi, eða störf hans innan ASÍ, varin hér sérstaklega, en ekki verður orða bundist yfir svo lágkúrulegum brögðum sem Vilhjálmur notar, til þess að koma sjálfum sér til meiri metorða innan sambandsins.  Fyrir utanaðkomandi er algerlega ótrúlegt að fylgjast með verkalýðsleiðtoga leggjast svona lágt í áróðri sínum og framapoti.

Vonandi sjá fulltrúar á ársfundi ASÍ og aðrir félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar í gegn um þessa lágkúru og árás á kjör elli- og örorkulífeyrisþega almennu lífeyrissjóðanna, því ekki myndi þessi árás á lífskjör þessa hóps ná til þeirra sem fá greiðslur frá opinberu lífeyrissjóðunum, því þeir njóta ríkisábyrgðar og því myndu kjör frá þeim ekkert skerðast.

Vilhjálmur er því að mæla með hreinum skemmdarverkum á lífeyrissjóðum launþega á almennum vinnumarkaði og varla hefur hann verið kosinn til formennsku í sínu félagi til að stunda slíkt.


mbl.is Hvatti Gylfa til að íhuga stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Vilhjálmur Birgisson er ekki að sverma fyrir stól forseta ASÍ og hefur aldrei gert. Hann er einungis að sinna sínu starfi sem formaður verkalýðsfélags. Betur væri ef aðrir formenn gerðu það líka!

Gunnar Heiðarsson, 21.10.2010 kl. 17:17

2 identicon

Þú mátt ekki gleyma því Axel að flestir þeir sem fá þessa niðurfellingu ef af yrði munu að öllum líkindum fara þremur árum síðar á eftirlaun en fólk í dag.  þjóðin er að eldast en að auki vantar mikið fé inní sjóðina til greiðslu lífeyris.  Fólkið sem þarf þessa niðurfellingu mun því að öllum líkindum borga þetta til baka og ríflega það.

svo má líka deila um réttmæti þess að rukka sjóðsfélaga og almenning um 30% verðbætur, auk vaxta. 

ómar davíðsson (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 17:43

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sé Vilhjálmur ekki að sverma fyrir stól forseta ASÍ er hann a.m.k. að reyna að fremja skemmdarverk á lífeyrissjóðakerfi hans eingin umbjóðenda.

Það breytir engu hvort yngsta kynslóðin fer fyrr eða seinna á eftirlaun heldur en eldri kynslóðirnar því hver einstaklingur fær greitt úr lífeyrissjóði í hlutfalli við inngreiðslur sínar.  Verði eftirlaunaaldur hækkaðu munu menn væntanlega greiða lengur í sjóðina og fá útgreiðslu í samræmi við það.

Ekki réttlætir það rán frá þeim sem nú eru byrjaðir að fá greiddan elli- eða örorkulifeyri og þeim sem hafa greitt í sjóðina fram að þessu.  Ef vilji er til þess að fara út í flata niðurfærslu allra húsnæðislána, verður að gera það á kostnað einhverra annarra en launafólks á almennum vinnumarkaði, því ekki myndi svona aðgerð snerta opinbera starfsmenn hið minnsta.

Axel Jóhann Axelsson, 21.10.2010 kl. 18:22

4 identicon

Ætli Vilhjálmur sé ekki bara að vinna fyrir sína umbjóðendur. Hann hefur líka bent á að niðurfelling skulda á ekki að þurfa að koma niður á lífeyrisþegum. Lífeyrissjóðirnir sjá alveg um það með bruðlinu síðastliðin ár. Þeir gerðu ALDREI ráð fyrir rúmlega 20% verðtryggingu. Þeirra áætlanir ganga út á að lán séu í innheimtu, beri vexti plús mínus 4% verðtryggingu. Píp lífeyrissjóðanna er ekki rétt!

Daníel (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 19:00

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Umbjóðendur Vilhjálms eru aðilar að lífeyrissjóðum og margir eldri félagar í Verkalýðsfélagi Akraness eru nú lífeyrisþegar og gegn hagsmunum þessa fólks er hann að berjast með því að vilja rústa lífeyri núverandi og veðandi lífeyrisþega.  Þesso framganga hans er hrein árás á kjör þessa fólks. 

Axel Jóhann Axelsson, 21.10.2010 kl. 19:05

6 identicon

Nei, Vilhjálmur er ekki að rústa lífeyrir lífeyrisþega. Þeir sem halda um stjórnartaumana eru full færir um það sjálfir, m.a. með ótrúlegum fjárfestingum undanfarin ár. Það ætti kannski frekar að tala um það heldur en vilja Vilhjálms til þess að landinn fari ekki á hvolf. Auk þess lánuðu lífeyrissjóðir ekki þessa peninga, þ.e. verðbólgupeningana. Þetta eru loftbólupeningar.

Ef ég lána út 10 miljónir með föstum vöxtum og geri ráð fyrir verðbólgu um 4,5%. Verðbólgan fer í 25%, stuttu seinna vilja menn leiðrétta verðbólguþáttinn. hvernig stendur þá á því að lánastofnunin (lífeyrissjóðirnir) fara á hausinn? Þeir gerðu aldrei ráð fyrir þessum "auka" peningum í útreikningum sínum. Er það kannski svo að þeir vilja endilega fá þessa auka peninga til þess að fela mistök fjárfestinga sinna undanfarin ár?

Þá er það væntanlega ekki formaður VLFA sem vill ráðast á lífeyrisþega þessa lands, heldur fyrst og fremst þeir sem stjórna og stjórnuðu lífeyrissjóðunum. Vilhjálmur hefur m.a. talað fyrir því að við sjóðsfélagar fáum sæti í stjórn sjóðanna. En hvað segir ASÍ við því? Nei takk!   

Þetta er ótrúlegur málflutningur.

Daníel (IP-tala skráð) 22.10.2010 kl. 00:05

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það hafa allar vörur í landinu hækkað jafn mikið, að meðaltali, og lánin og því þurfa lífeyrisþegarnir að borga sem því nemur meira fyrir sitt lifibrauð og aðrir í þjóðfélaginu.  Að þurfa að sæta lækkun á lífeyrisgreiðslum sínum til að niðurgreiða lán annarra, sem óvarlega fór í lántökum, ofan á skertan kaupmátt vegna verðbólgunnar, er algerlega óverjandi og til skammar fyrir alla, sem leggja það til og reyna að verja slíka tillögu um aðför að lífeyrisþegum almennu lífeyrissjóðanna.

Slíkur málflutningur er ekki bara ótrúlegur, hann lýsir allt í senn mannvonsku, ótúrlega illu innræti og ásælni í annarra manna fjármuni.

Axel Jóhann Axelsson, 22.10.2010 kl. 07:31

8 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ég er í sjálfu sér ekki á móti einhverri niðurfærsluleið.  En slíka leið verður að fara þegar hinn forsendubresturinn, lélegt atvinnuástand og kaupmáttarrýrnun er að baki.

 Það er því líklegast heillavænlegast að lækka greiðslubyrðina tímabundið og einhenda sér í að leiðrétta þann forsendubrest sem er í atvinnumálum og varðandi kaupmáttinn.  Það gæti fært til baka að hluta þann forsendubrest sem uppi er vegna lánanna og þar með gert niðurfærsluna minni en annars hefði orðið. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 22.10.2010 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband